Sunnudagur 01.11.2015 - 12:15 - 1 ummæli

Íslenski draumurinn

Þrjátíu nemendur mæta í próf í framhaldsskóla.  Það styttist í útskrift.  Á snögunum við prófstofuna hanga úlpur í röðum eins og klipptar út úr auglýsingum 66°Norður og annarra helstu vörumerkja.  Áætlað verðmæti 1,2 -2,7 milljónir króna. Í hrúgu á borði má sjá nýjustu snjallsímana frá Samsung og Apple. Áætlað verðmæti 2,1-3,0 milljónir króna.

Spenna er í loftinu.  Útskriftarhópurinn er búinn að hittast reglulega til að skipuleggja dimmissjón búninga og útskriftarferðina.  Kaupa þarf ný föt fyrir útskriftina og stúdentshúfuna, auk þess að undirbúa þarf veisluna. Áætlað verðmæti 6,4-7,9 milljónir króna.

Allt hlutir sem þarf að kaupa. Allir hlutir sem þarf að vinna fyrir.

Íslenskir framhaldsskólanemar vinna meira með námi en evrópskir jafnaldrar þeirra.  Um 40% af framhaldsskólanemum hafa unnið meira en 12 tíma á viku með námi, og þegar þau ljúka námi hafa mörg hver unnið samanlegt milli eitt og tvö ársverk á almennum vinnumarkaði.

Álagið er mikið. Kvíði, þunglyndi og streita eru allt einkenni álags. Mat nemendanna sjálfra í könnun 2013 er að andleg heilsa þeirra sé lakari en í fyrri könnunum.

Berum við foreldrarnir ábyrgð á þessu með því að eltast stöðugt við „íslenska drauminn“ um stærra hús, stærri jeppa, fleiri utanlandsferðir, Michael Kors töskuna og nýjustu gerð af iPhone?

Er ekki í lagi að fá lánaða stúdentshúfuna, búa til dimmissjón búningana sjálf, endurnýta sparifötin, sleppa útskriftarferðinni og flagga spjallsíma í stað snjallsíma? Og eiga í staðinn meiri tíma til að vera með vinum og fjölskyldu og sinna náminu?

Að gefa „íslenska draumnum“ einfaldlega langt nef?

—————

Kostnaðarforsendur

Úlpur: 40.000-90.000 kr.

Símar: 50.000-150.000 kr.

Útskrift: Útskriftarferð 100-150þ, húfa 9þ, ný föt 40þ, veisla 50þ, búningur 15þ = 214.000- 264.000 kr.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (1)

  • Kristinn M

    „Að gefa „íslenska draumnum“ einfaldlega langt nef?“

    Jú svo sannarlega og þótt fyrr hefði verið..

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur