Miðvikudagur 30.12.2015 - 11:43 - 1 ummæli

Guðjón Samúelsson og íbúðir

Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska byggingalist og Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins 1920 til 1950.  Nokkur umræða hefur skapast um hugmyndir hans um viðbyggingu við Alþingi og sýnist sitt hverjum.  Hins vegar tel ég að við getum nýtt verk Guðjóns sem uppsprettu hugmynda mun víðar en þar.

Guðjón Samúelsson hannaði nefnilega nokkur af vinsælustu íbúðarhúsum höfuðborgarinnar þar með talið verkamannabústaðina sem afmarkast af fjórum götum; Hringbraut, Hofsvallagötu, Ásvallagötu og Bræðraborgarstíg, Bankahúsin svokölluð við Framnesveg og Hamragarða við Hávallagötu.

Ég er sérstaklega hrifin af verkamannabústöðunum við Hringbraut enda saga þeirra einkar merkileg þegar litið er til hagkvæmra byggingalausna á samfélagslegum forsendum.  Árið 1930 hóf Byggingarfélag alþýðu undirbúning að byggingu þeirra á lóðinni með samkeppni.  Niðurstaðan varð þó að nýta ekki samkeppnistillögurnar heldur fela Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins að hanna húsin.  Með honum starfaði Einar Erlendsson, fulltrúi á skrifstofu Húsameistara ríkisins.

Framhlid_Verkamannabustadir

Húsin voru reist á árunum 1931-1935, en fyrstu íbúðirnar voru teknar í notkun í maí árið 1932. Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru samfelld tveggja hæða húsaröð sem mynda hring umhverfis reitinn með 110 55 m2 íbúðum og sameiginlegum húsagarði í miðju. Hringbraut_GS_innra_skipulag

Sambyggingin skiptist upp í sjálfstæð stigahús með fjórum íbúðum.  Forgarðar í sólarátt eru götumegin meðfram Hringbraut, en annars eru húsin byggð þétt við gangstétt. 

Hringbraut_GS

Í lok umfjöllunar bókarinnar Hæg breytileg átt (2015) um þátt félagslegra íbúða í húsagerðarsögu 20. aldar er nefnt að áratugum seinna er enn bent á verkamannabústaðina við Hringbraut sem „…frábærlega vel heppnað dæmi um borgarbyggð sem er manneskjuleg og vistvæn í nútímaskilningi, augljóslega mótuð að íslensku veðurfari og byggingarháttum.“ af erlendum sérfræðingum í borgarskipulagi og arkitektúr.

Fyrirmynd verkamannabústaðanna við Hringbraut er grein sem Guðjón Samúelsson skrifaði nokkrum árum áður með útfærslum á hagkvæmum og betri húsnæðislausnum.  Í henni má finna aðra tillögu frá Guðjóni sem minnir á Bankahúsin svonefndu við Framnesveg, sem hann teiknaði stuttu síðar og Landsbankinn kostaði í því skyni að opna augu fólks fyrir kostum bygginga af þessari gerð.  Þar fléttast misstórar húsagerðir saman í eina lengju, og annað hvert hús með burst fram á götu.  Húsin eru undir sterkum enskum áhrifum, þannig að hver íbúð hafi sérinngang og eigin garð sem nota mætti til bæði matjurtaræktar og skrúðgarðyrkju. Um er að ræða 12 íbúða sambyggingu, raðhús á þremur hæðum.

Óhætt er að segja að Guðjón hafi með hönnun húsanna aðlagað alþjóðlegar strauma að þjóðlegum einkennum í byggingarlist, burstabæinn sjálfan.

Bankahusin_Framnesvegi

Annað hús sem snertir mitt samvinnu- og framsóknarhjarta er Hamragarðar við Hávallagötu sem Guðjón teiknaði og var byggt af SÍS sem skólastjórabústaður fyrir Jónas frá Hriflu.

Hamragardar_Havallagata

Heimildir:

Aron Freyr Leifsson (2012), Íbúð verkamannsins á teikniborði arkitektsins – áhrif funksjónalisma á hönnun verkamannabústaðanna við Hringbraut, lokaritgerð við hönnunar- og arkitektúrdeild, Listaháskóli Íslands.

Bankahúsin Framnesvegi 20 til 26 B, Reykjavík, friðuð (2010), Minjastofnun.is 11. nóv. 2010.

Hæg Breytileg Átt (2015)

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (1)

  • Guðjón Samúelsson var gríðarlega hæfur arkitekt og teiknaði mörg falleg hús í anda hinnar mörg þúsund ára þróuðu byggingarlistar. En hann teiknaði einnig hús í anda arkitektabyltingarinnar, fúnkís, og er sá eini á Íslandi sem hefur tekist að hanna fúnkíshús án teljandi sjónmengunar, sbr Háskóla Íslands og Þjóðleikshúsið.
    Hins vegar ber á það að líta að engir fengu jafnmörg bitastæð verkefni úthlutað og Guðjón Samúelsson, enda var hann húsameistari ríkisins..

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur