Föstudagur 06.05.2016 - 12:40 - Rita ummæli

Staða ungs fólks 2004 og 2014

Nýlega var þeirri spurningu varpað fram í breska blaðinu Guardian hvort ungt fólk hefði dregist aftur undir fyrirsögninni „Young people bear the brunt of Generation Y‘s economic woes“.  Töluverð umræða skapaðist um stöðu ungs fólks hér á landi í framhaldinu.

Óskaði ég því eftir upplýsingum úr lífskjararannsókn EU-SILC hjá Hagstofu Íslands þar sem staða ungs fólks á aldrinum 25-29 ára var borin saman við heildarhópinn á árunum 2004 til 2014 til að kynna fyrir ríkisstjórn.  Spurt var um búsetu, nám, tekjur, eignir, skuldir, atvinnuþátttöku og atvinnuleysi.  Einnig var spurt um mat hópsins á skort á efnislegum gæðum, erfiðleika við að ná endum saman og byrði húsnæðiskostnaðar.

Í niðurstöðunum er staðfest að ráðstöfunar- og atvinnutekjur ungs fólks eru lægri árið 2014 en 2004 miðað við miðgildi þeirra á föstu verðlagi m.v. verðlag 2014.  Þessu er öfugt farið með heildarhópinn, tekjur hans voru hærri árið 2014 en 2004. Inn í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir námslánum. Margt fleira hefur breyst.  Ungt fólk er líklegra til að búa hjá foreldrum sínum árið 2014 en 2004 og hærra hlutfall þeirra er í námi núna, eða rúmlega 31% samanborið við rúm 26% árið 2004.  Færri áttu eigið húsnæði með áhvílandi láni og fleiri eru á almenna leigumarkaðnum.  Eignir höfðu aukist lítillega, og skuldir lækkað og gilti það bæði um unga fólkið og heildarhópinn árið 2014 í samanburði við 2004.

Þegar spurt er um byrði húsnæðiskostnaðar, skort á efnislegum gæðum og erfiðleika við að ná endum saman hefur staðan hins vegar batnað hjá ungu fólki. Lægra hlutfall þeirra segir  húsnæðiskostnað íþyngjandi og er munurinn meiri milli 2004 og 2014 hjá fólki 25-29 ára hvort sem þeir búa sjálfstætt eða hjá foreldrum, en hjá heildarhópnum.  Þegar teknir voru saman 25-29 ára í foreldrahúsum sem fannst mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt að láta enda ná saman var hlutfallið 51,7% árið 2004 en var komið niður í 40,8% árið 2014. Á sama tíma stóð samtala hlutfalls heildarhópsins hjá þeim sem fannst erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt að ná endum saman nokkurn veginn í stað eða 47,4% árið 2004 og 47,5% árið 2014.  Þegar spurt var um skort á efnislegum gæðum voru 5,7% ungs fólks í þeirri stöðu árið 2014 en 11,7% árið 2004.

Þannig má greina umtalsverðar breytingar á lífsháttum ungs fólks á þessu tíu ára tímabili.  Þessi þróun endurspeglar á margan hátt þá umfjöllun sem finna mátti í greinum Guardian um hina sk. Y-kynslóð á alþjóðavísu og má líka sjá í öðrum breytingum sem athygli hafa vakið á borð við áhuga á minna húsnæði, sjálfbærri lífsstíl, minni kosningaþátttöku sem og að giftast seinna og eignast börn seinna.

Ungt_folk_greining_25-29_ara_2004-2014

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur