Þriðjudagur 17.05.2016 - 11:40 - 2 ummæli

Kæru sveitarfélög, – lóðir óskast.

Að byggja sjálfur sitt eigið hús er draumur sem hefur orðið æ fjarlægari fyrir marga eftir því sem aðgengi að lóðum hefur minnkað og kröfur til húsnæðis hafa aukist.

Ekki bara hér á landi heldur víða annars staðar.

Þessu vildi hollenski stjórnmálamaðurinn Adri Duivesteijn breyta. Kjarninn í hans hugmyndafræði var að íbúarnir sjálfir ættu að fá aftur valdið til sín og fjárfestar og verktakar hefðu alltof lengi setið einir að framleiðslu á íbúðarhúsnæði. Árangurinn má sjá í Almere Poort í Hollandi þar sem 250 hekturum af landi í eigu sveitarfélagsins var breytt í lóðir fyrir fólk til að byggja sjálft.

Lóðirnar voru seldar á mismunandi verði eftir tekjum fólks. Tekjulægra fólk gat keypt lóð fyrir 2,6 m.kr. og valið svo úr nokkrum tegundum af forsmíðuðum húsum.  Jafnframt voru í boði lóðir fyrir fólk með hærri tekjur sem og lóðir fyrir fjölbýlishús.

Markmiðið er að á endanum rísi í Almere Poort 3500 hús sem fólk hefur byggt sjálft eða með aðstoð iðnaðarmanna og arkitekta. Litlar sem engar kröfur eru gerðar til húsanna, þéttleikinn er ýmist mikill eða lítill og sveitarfélagið fer ekki í lokafrágang á vegum og grænum svæðum fyrr en búið er að byggja öll hús í hverjum einstökum hluta. Í grunninn er þetta ekki flókið, – og við þekkjum til sambærilegra dæma í íslenskra húsasögu á borð við Smáíbúðahverfið og Grafarvoginn.  Sama aðferðarfræði var notuð í Almere Poort.  Sveitarfélagið skipulagði einfaldlega land sem það átti með fjölbreyttum valkostum, litlar lóðir og stórar, litlar íbúðir og stórar íbúðir, einbýlishús og fjölbýlishús, íbúðar- og atvinnuhúsnæði eða jafnvel blöndu af hvoru tveggja.

Og bauð það til sölu.

Engar niðurgreiðslur, engar sérstakar kvaðir um húsagerð eða flóknar reglur.  Bara hundruðir lóða til sölu hjá sveitarfélaginu þar sem væntanlegur íbúi mætir í sérstakar ‘Landverslanir’, velur lóð, greiðir fyrir og fer svo og byggir sitt hús, sjálfur eða í samstarfi við góðan arkitekt og iðnaðarmenn.

Hér má sjá vefsíðu sveitarfélagsins Almere – Ik bouw mijn huis in Almere – með leiðbeiningum um hvernig hægt er að byggja draumahúsið sitt.

Gæti þetta verið næsta skref í húsnæðismálum okkar?

Það eru ákveðin teikn á lofti um að svo gæti orðið.  Hugsanlega.  Sveitarfélagið Garðabær auglýsti fyrir stuttu eftir hugmyndum um skipulag hverfis fyrir ungt fólk og Hafnarfjörður hefur verið að endurskoða skipulagsmál sín. Tvöhundruð manns mættu á fund um byggingu smáhúsa á Íslandi og umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar tekið stórt skref til að liðka fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis og boðað frekari breytingar.

Í anda Adri Duivesteijn. Þar sem fólk tekur líf sitt í eigin hendur.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (2)

 • Gréta Jónsdóttir

  Góð grein
  En þarna er aðallega talað um ungt fólk og húsnæði fyrir það.
  Hvað með okkur sem erum orðin miðaldra, öryrkjar eða eldri borgarar og erum að missa heimili okkar eða höfum misst heimilin og getum ekki fengið leiguhúsnæði?

 • Það var sá tími að menn reiddu reiðhjólin með nokkrum spýtum á byggingastað eftir vinnu, og unnu fram eftir kvöldi við að koma þaki yfir höfuðið. Fjölskyldan tók svo þátt í framkvæmdunum um helgar, og oftast var það auðsótt að óska eftir aðstoð stórfjölskyldu og vina þegar mikið lá við.

  En svo komust verkalýðsfélögin að því að þarna var vinna sem nauðsynlega þurfti að eyrnamerkja félögunum. Og því var lögum og reglugerðum breytt, og fagmanna krafist í öll verk. Og svo var þeim breytt aftur, og aftur og aftur, þar til ekki nokkur maður getur unnið að viti að eigin húsi.

  Og svo komst kerfisfólkið í málið, og í krafti hins heilaga ESB og reglugerða þaðan, þá var enn hert á öllu, þar til kostnaðurinn varð slíkur að það getur enginn staðið í þessu rugli, nema verktakar sem hafa gott aðgengi að lánsfé banka, og í krafti þess, og ávöxtunarkrafna bankanna var verðið sprengt upp úr öllu valdi. Og til að gera vont mál verra, þá er rekin skipulögð lóðaskortsstefna, svokölluð „þétting byggðar“ sem virðist vera í þágu þeirra sem eiga fokdýrar lóðir miðsvæðis. Það er sennilega tilviljun ein, að eigendur þessara lóða eru gjarnan eignafélög bankanna og annarra fjársterka aðila.

  Og síðan eru það byggingafulltrúarnir, sem í sumum sveitarfélögum eru ríki í ríkinu, og virðast stjórnast af fyrirlitningu á þeim borgurum sem til þeirra neyðast að leita.

  Ef ofangreint er ekki nóg til þess að koma í veg fyrir að fólk komist í skjól, þá er málið gulltryggt með aðkomu skattyfirvalda, sem refsa fólki fyrir eigin vinnu, og rukkar skatt á eigin vinnu. Þetta heitir að dauðrota.

  Allt þetta þýðir náttúrulega, að venjulegt fólk, gjarnan þetta unga, getur ekki komið þaki yfir höfuðið. Algerlega vonlaust mál.

  Ofangreint er árangur af starfi þingmanna síðustu tvo til þrjá áratugina.
  Ef þinn vilji stendur raunverulega til þess að breyta þessum málum í þágu almennings, þá þurfa þingmenn að taka til hendinni. En ef þetta er enn ein tilraunin til þess að skrifa pistil í von um ódýr atkvæði í komandi kosningum án þess að ætla að breyta nokkrum sköpuðum hlut, þá máttu alveg vera úti.

  Foreldrar mínir byggðu sjálfir sitt hús. Það gerðu foreldrar þeirra einnig. Þetta eru traust og góð hús, og í þessum húsum hafa kynslóðir alist upp, án þess að bíða af því skaða að fólki voru ekki settar óþarfa skorður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur