Miðvikudagur 01.06.2016 - 07:43 - Rita ummæli

Ofbeldi gegn fötluðum börnum

Ofbeldi er brot gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi einstaklingum.  Ofbeldi er alltaf alvarlegt en við vitum líka að sumir hópar eru líklegri en aðrir til að sæta ofbeldi og eiga jafnframt erfiðara með að sækja sér hjálp.  Í rannsóknum í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) kom fram að fötluð börn eru 3,7 sinnum líklegri til að verða fyrir hvers konar ofbeldi en ófötluð börn, 3,6 sinnum líklegri til að verða fyrir líkamlegu ofbeldi en ófötluð börn og 2,9 sinnum líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en ófötluð börn.  Börn með þroskaskerðingu virtust í mestri hættu, og voru tæplega fimm sinnum líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en ófötluð börn.

Fordómar, þöggun og mismunun auk skorts á þekkingu á aðstæðum fatlaðs fólk eru taldir vera þættir sem skýra af hverju ofbeldi er jafn mikil ógn í lífi fatlaðs fólks og þessar tölur bera með sér.  Barátta fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra hefur skipt miklu máli til að opna á umræðuna.

Skref hafa verið tekin sem þoka okkur áfram.

Má þar nefna meðal annars sérstakt framlag ráðuneytisins til Stígamóta til að ráða sérfræðing til að veita fötluðu fólki ráðgjöf og stuðning vegna kynferðisofbeldis, samstarf Réttindavaktar ráðuneytisins og réttindagæslumanna við lögregluna um bætt verklag og aukið samstarf við rannsókn ofbeldismála gegn fötluðu fólki, útgáfu fræðsluefnis um kynheilbrigði fyrir fatlað fólk með þroskaskerðingu og samstarfsnefnd um orlofsmál fatlaðs fólks sem leitt hefur af sér skýrari verklagsreglur fyrir þjónustuveitendur.

En mun meira þarf til, og þar er þekking okkar besta vopn.

Fyrr á þessu ári tók ég ákvörðun að veita Barnaverndarstofu styrk í því skyni að efna til ráðstefnu og námskeiðahalds fyrir fagfólk, bæði til að auka þekkingu og til að veita leiðbeiningar um vinnubrögð þegar á reynir.  Munu bandarísku sérfræðingarnir Chris Newlin og Scott Modell miðla af þekkingu sinni til fjölbreytts hóps fagfólks sem vill efla og bæta þekkingu sína í þágu fatlaðra barna.

Vonandi verður það til góðs.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur