Miðvikudagur 15.06.2016 - 15:20 - Rita ummæli

Fjölskyldustefna fyrir gott og fjölskylduvænt samfélag

Nýverið lagði ég fram á Alþingi tillögu um fjölskyldustefnu til næstu fimm ára með áherslu á börn og barnafjölskyldur. Að baki liggur vönduð vinna með skýrum markmiðum og tillögum um aðgerðir til að efla velferð barna og skapa betra og fjölskylduvænna samfélag.

Verkefnisstjórn um mótun fjölskyldustefnu var falið að móta stefnuna með það að markmiði að tryggja félagslegan jöfnuð með áherslu á að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað.

Í stefnunni endurspeglast grunngildi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er horft til þess að þannig megi auka velferð barnafjölskyldna og leitast við að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar á sviði fjölskyldu og mannréttinda. Áhersla er lögð á forvarnir ásamt tillögum um aðgerðir sem tryggja eiga efnahagslegt öryggi og auka stuðning við umönnun og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Öruggt húsnæði er ein af grunnforsendum þess að búa börnum gott atlæti. Fjögur lagafrumvörp mín um húsnæðismál með þetta að markmiði urðu að lögum frá Alþingi nýlega og má því segja að framkvæmd fjölskyldustefnunnar sé að nokkru leyti hafin.

Sporna þarf við öllum hugsanlegum birtingarformum ofbeldis í samfélaginu enda varðar það miklu um möguleika barna til að þroskast og njóta öryggis. Þetta kemur skýrt fram í fjölskyldustefnunni og styður vonandi enn frekar við víðtækt landssamráð um aðgerðir gegn ofbeldi sem hófst á liðnu undir forystu þriggja ráðuneyta.

Samverustundir foreldra og barna hafa forvarnargildi og stuðla að vellíðan fjölskyldunnar. Samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs er því mikilvægt verkefni þar sem jafnframt þarf að leggja áherslu á að auka þátttöku karla í umönnunar- og uppeldishlutverkinu. Í þessu skyni er mikilvægt að hrinda í framkvæmd tillögum nefndar um framtíðarskipan fæðingarorlofs. Fyrsta skrefið verður hækkun hámarksfjárhæðar fæðingarorlofs í 500.000 kr. á mánuði.

Það er von mín að tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu sem nú liggur fyrir Alþingi muni leiða okkur áfram í átt að enn betra og barnvænlegra samfélagi.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júní 2016)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur