Sunnudagur 19.06.2016 - 17:51 - Rita ummæli

Til hamingju með daginn!

Í dag eru 101 ár frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt með staðfestingu stjórnarskrárbreytingar þann 19. júní 1915.  Þótt mörg skref hafi verið tekin síðan þá í jafnréttisátt þá eigum við enn mikið verk að vinna.

Þegar Alþingi kom saman í fyrsta sinn eftir að stjórnarskrárbreytingin um kosningarétt kvenna hafði öðlast gildi las Ingibjörg H. Bjarnason upp ávarp reykvískra kvenna til Alþingis.  Orðrétt sagði hún: „Vér vitum og skiljum, að kosningaréttur til Alþingis og kjörgengi er lykillinn að löggjafarvaldi landsins, sem á að fjalla um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna.  Vér trúum því, að fósturjörðin, stóra heimilið vor allra, þarfnist starfskrafta allra sinna barna, jafnt kvenna sem karla, eins og einkaheimilin þarfnast starfskrafta alls heimilisfólksins, og vér trúum því, að vér eigum skyldum að gegna og störf að rækja í löggjöf lands og þjóðar, eins og á einkaheimilum.“

Undir þetta getum við öll tekið.

Heimilin, einkaheimilin, landið allt þarfnast starfskrafta allra heimilismanna.  Enn þá í dag erum við minnt rækilega á að við þurfum að vinna að því að eyða kynbundnum staðalímyndum, að því að jafna ábyrgð á fjölskyldunni á milli karla og kvenna og að vinnumarkaðurinn verður að laga sig betur að þörfum fjölskyldunnar í þessu skyni.  Við sjáum að staðalímyndir ráða enn miklu um framtíðarvettvang drengja og stúlkna í atvinnulífinu.

Síðast en ekki síst má nefna kynbundin launamun og skarðan hlut kvenna í ráðandi stöðum í samfélaginu.

Í dag var úthlutað í fyrsta skipti úr Jafnréttissjóði Íslands.  Sjóðurinn var stofnaður með ákvörðun Alþingis á liðnu ári þegar 100 ár voru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.  Sjóðurinn hefur 100 milljónir króna á ári af fjárlögum á árunum 2016 til 2020.  Í ár bárust 115 umsóknir og var það niðurstaða stjórnar sjóðsins að styrkja 42 verkefni að þessu sinni.

Verkefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg.

Má þar til dæmis nefna verkefni þar sem könnuð verður tíðni áfalla í æsku hjá íslenskum konum og tengsl við heilsufar, hvernig megi stuðla að auknum áhuga karla á yngri barna kennslu, greining á undirbúningi og skipan í störf dómara á Íslandi, stuttmynd um sexting, hrelliklám og stafræn borgararéttindi, námskeið til að stuðla að sjálfstyrkingu, valdeflingu og aukinni þekkingu á mannréttindum og margþættri mismunun fyrir fatlað fólk, rannsókn um áskoranir og hindranir í jafnréttisstarfi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, rannsókn á reynslu kvenna af áfengis- og vímuefnameðferð út frá sjónarhorni þjónustuþega og verkefni um hvernig stuðla megi að verðskulduðum atvinnutækifærum fyrir kvenkyns innflytjendur og fleiri.

Óska ég öllum styrkþegum innilega til hamingju með þessu flottu verkefni og okkur öllum til hamingju með daginn okkar, 19. júní.

Daginn þar sem við tökum enn eitt skrefið í áttina að því að nýta til jafns starfskrafta okkar allra, karla og kvenna í þágu lands og þjóðar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur