Oft tölum við um að húsnæðisskortur sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri. Í lok árs 2014 birti McKinsey Global Institute skýrslu um húsnæðisvandann á heimsvísu. Í skýrslunni kemur fram að 330 milljónir heimila í heiminum hafi ekki aðgang að hagkvæmu húsnæði og þeim muni fjölga um 100 milljónir fram til 2025.
Ein af lykiltillögum þeirra til að bregðast við vandanum og lækka kostnað við húsnæði er aukið lóðaframboð.
Ég hef áður skrifað um mikilvægi þess að auka lóðaframboð, ekki hvað síst hér á höfuðborgarsvæðinu og bent á bæði innlendar og erlendar fyrirmyndir. Í Almere Poort hverfinu í Hollandi lögðu sveitarstjórnarmenn áherslu á að tryggja nægt framboð af lóðum þar sem fólk gæti sjálft byggt sitt eigið heimili eða notið aðstoðar iðnaðarmanna og arkitekta. Lóðirnar voru seldar á mismunandi verði eftir tekjum fólks. Tekjulægra fólk gat keypt lóðir fyrir 2,6 m.kr. og valið svo úr nokkrum tegundum af forsmíðuðum húsum. Jafnframt voru í boði lóðir fyrir tekjuhærra fólk og fyrir fjölbýlishús.
Litlar sem engar kröfur voru gerðar til húsanna umfram lágmarkskröfur um gæði húsa, þéttleikinn var ýmist mikill eða lítill og sveitarfélagið fór ekki í lokafrágang á vegum og grænum svæðum fyrr en búið er að byggja öll hús í einstökum hluta.
Sama var gert á Íslandi í Smáíbúðahverfinu og í Grafarvoginum.
Árangurinn af því að auka frelsi fólks til húsbygginga má sjá í Noregi þar sem mikil hefð er fyrir að fólk byggi sjálft. Ekkert Norðurlandanna er með jafn hátt hlutfall af séreignum og ein-og tvíbýlum á húsnæðismarkaðnum og Noregur.
Tökum dæmi. Í Hafnarfirði er á vef sveitarfélagsins auglýst til sölu 682 m2 lóð fyrir einbýlishús sem kostar 11,9 m.kr. Aðeins tvær lóðir eru þar til sölu. Ef þessum lóðum væri skipt í þrennt þá væri hver lóð um 227 m2 og myndu kosta tæpar 4 m.kr. Húsin gætu verið 50-100 m2 að grunnfleti og hýst 2-4 herbergja íbúðir. Ef við miðum við 120 þús.kr. á m2 á kanadískum eða íslenskum einingahúsum fyrir timburverkið (útveggi, milliveggi, þak, klæðningu, einangrun, glugga og hurðir ásamt festingum) þá væri verðið komið á byggingarstað 6- 12 m.kr. Ef við áætluðum að annað efni og vinna við húsið væri um 130 þús. kr. á m2 þá kostnaður við 50m2 einbýlishús ásamt lóð 19 m.kr. og 100 m2 einbýlishús ásamt lóð 34 m.kr.
Í staðinn fyrir að tvær fjölskyldur væru komnar með heimili, þá gætu sex fjölskyldur verið búnar að koma sér vel fyrir í sínum eigin húsum.
Þegar er umtalsverður áhugi á þessari nálgun sem endurspeglaðist vel á fundi sem haldinn var um smáhús á Íslandi og í nýstofnuðu Hagsmunasamtökum um áhugafólks um smáheimili.
Því óska ég enn á ný eftir byggingafulltrúum og sveitastjórnarmönnum sem eru tilbúnir að brjótast út úr kassanum og hjálpa fólki til að eignast eigið heimili.
Áfram svo Eygló! Gott hjá þér. Almenningur vill réttlæti, vill ekki þurfa að vera húsnæðisþræll alla sína æfi.
Bendi enn aftur á að vandamálið við dýrt húsnaæði er margþætt og þar er alls ekki eingöngu við lóðaverð að sakast. Verktakar eru að selja nýjar íbúðir með um og yfir 100% álagningu, það er fákeppni og jafnvel einokun í sölu á nærri öllum byggingavörum svo sem steypu, sementi, járni, þakjárni, timbri og steinull og það er þarna sem meginvandinn liggur. Bendi líka á að í Vík í Mýrdal lét svetarfélagið reisa nokkur raðhús með 91 fermetra íbúðum. Verð hverrar íbúðar var eingungis 16 milljónir sem gerir tæplega 176 þúsund á hvern fermetra. Hvernig væri nú að stjórnvöld kveiktu á perunni. Já og takk fyrir kjarkinn að samþykkja ekki fjármálaáætlun Sjálfstæðisflokksins. Það var vel gert.
Vinstri menn í Reykjavík beina allri uppbyggingu á dýrustu svæðin.
Þannig sinna þeir verktökum en gefa skít í unga og efnaminni.
Það eru þeir sem bera ábyrgð á þessu ástandi.
Þar liggur vandinn, Eygló.
Þegar við hjónin vorum að byrja að koma okkur þaki yfir höfuðið á áttunda áratugnum þá var algengt að lóðum væri uthlutað til einstaklinga. Klíkuskapur var að vísu mikill í lóðaúthlutunum en að fá lóð og byggja sjálfur var lykilatriði fyrir ungt fólk til að eignast húsnæði. En það má ekki bara ryðja út lóðum innviðir verða að fylgja og þar skipta m. a. öflugar almenningssamgöngur miklu máli. Ef hverju heimili fylgja jafnmargir bílar eins og gengur og gerist í dag þá verður umferðin þreföld í dæminu sem þú nefnir hér að framan af sama blettinum.
Við glímum við margþætt vandamál.
Byggingareglugerð, lóðauppboð, fjármagnskostnað og kröfur fólks.
Fólk slær ekki af kröfunum, reglugerðin stækkar íbúðir, fólk hagræðir ekki skv fjármagnskostnaði, lóðir kosta eins og íbúðir áður auk gríðarlegrar álagningar á efni og vinnu enda allir í bisness til að græða og þá er best að græða mikið á lítilli vinnu heldur en lítið af mikilli.
Lóðarverð hefur tífaldast , á ekki færri árum en 10. 2,5 milljónir eru orðnar að 25 milljónum, en eflaust hægt að finan eihverjar ódýrari lóðir inn á milli.
Sveitarfélögin nota lóðir til að fegra bókhaldið hjá sér og setja „væntan söluhagnað“ af lóðum inn í bókhaldið hjá sér sem fasta fjármuni. Ástæðarn er svosem einföld því þá minnkar skuldahlutfallið hjá sveitarfélaginu, og það lendir ekki á „neyðarvakt“ ríkisins.
Að ofangreindu get ég ekki séð fyrir mér þann svetiastjórnarmann eða konu reyna að lækka lóðarverð og koma á sama tíma sveitarfélaginu sínu í vandræði. Eina leiðin er að ríkið setji lög , þar sem lóðarverð og sala megi ekki vera hluti af eiginfjármunum sveitarfélaga og þeim sé skylt að halda sig innan einhverja marka þegar lóðir eru seldar í úthverfum (annað myndi þó gilda um með vinsælar lóðir sem margir ásækjast í , sem eflaust mega seljast hæstbjóðanda) .
Svo mættir þú alveg setja mig aftur á vinalistann þinn á fésinu aftur, takk.
Það er hárrétt hjá þér Eygló, að það vantar sárlega lóðir og að aukið framboð þeirra myndi skila sér í lækkun fasteignaverðs.
Það er einnig rétt að það vantar lóðir fyrir lítil einbýli, gjarnan með afturhvarfi til framtíðar eins og þú nefnir, í þéttri/lágri byggð.
En það sem mest liggur á að gera, öllum almenningi til heilla, er að gera róttækar breytingar á byggingarreglugerðinni.
Að höfða til byggingafulltrúa landsins um að brjótast út úr kassanum er hins vegar ekki lausnin. Þeir eru ekki Þrándur í Götu. Það er vitað mál að nánast allir byggingafulltrúar landsins voru andvígir nýju byggingareglugerðinni, en þeir máttu sín lítils gagnvart ofríki og forheimskan æðri stjórnsýslunnar. Lög og reglugerðir eru ekki samin af byggingafulltrúum og heldur ekki sveitastjórnarmönnum.
Enn á ný mæli ég með því að nýju reglugerðinni verði fargað, en sú gamla frá 1998 tekin aftur í gagnið, með smá lagfæringum er varðar bætt aðgengi fatlaðra … þar sem það á við.