Þriðjudagur 06.09.2016 - 12:39 - 1 ummæli

Hvað viltu borga þér í vexti?

Merkileg breyting er að verða á íslenskum húsnæðislánamarkaði þar sem sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna til fasteignakaupa hafa aukist verulega. Þannig eru æ fleiri nánast að taka beint lán hjá sjálfum sér, í stað þess að fjármálafyrirtæki eða Íbúðalánasjóður fái lánað hjá lífeyrissjóðunum og við greiðum milliliðunum viðbótarálag á vexti lífeyrissjóðanna okkar.  Aukin útlán lífeyrissjóðanna til fasteignakaupa hafa líka þann kost að peningamagn í umferð eykst ekki, heldur færast þeir frá öðrum fjárfestingarkostum sem bjóðast lífeyrissjóðum, – ólíkt því þegar fjármálafyrirtæki lána.

Í dag er Lífeyrissjóður Verslunarmanna, gamli lífeyrissjóður minn, að lána óverðtryggt á 6,25% vöxtum sem bundnir eru til þriggja ára. Fastir vextir á verðtryggðum lánum sjóðsins eru 3,60%. Lágmarksávöxtunarviðmið hans og annarra sjóða er svo 3,5% raunávöxtun.

Í samanburði við hin Norðurlöndin eru þetta þó háir vextir.

Hér má sjá húsnæðislánareikni SEB, gamla bankans míns í Svíþjóð, sem ég hvet fólk til að prófa. (Athugið að þar er nú krafa um 15% lágmarksútborgun, að borga verði afborganir af lánunum ásamt vöxtum, auk þess sem greiðslumatið miðast við töluvert hærri vexti til að athuga greiðslugetu greiðandans. Í húsnæðissamvinnufélögum (bostadsrätt) er einnig greitt mánaðargjald sem getur verið 500-700 SEK/m2/ár, en stundum mun hærra eða mun lægra.)

Talið er að raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna á árinu 2015 hafi verið yfir 8% að jafnaði sem er vel yfir því 3,5% viðmiði sem þeir búa við.  Ávöxtunin hér er með besta móti í samanburði við ávöxtun lífeyrissjóða í öðrum ríkjum innan OECD. Meðalávöxtun sjóða innan þessara ríkja var rúm 2% á árinu 2015 eða mun nær þeim húsnæðislánavöxtum sem nú eru í boði til dæmis í Svíþjóð.  Vegið meðaltal ávöxtunar þeirra var enn lægra eða 0,4%.  Í skýrslu nefndar um afnám verðtryggingar af neytendalánum var t.d. bent á nauðsyn þess að taka lagaumhverfi lífeyrissjóða til endurskoðunar með það að markmiði að lækka lágmarksávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna eða tengja það markaðsvöxtum hverju sinni.

Ekki hefur náðst samstaða um þetta og ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna er óbreytt.

Við getum haft áhrif á þetta, bæði í gegnum okkur sem eru kjörnir fulltrúar og í gegnum lífeyrissjóðina okkar. En fyrst þurfum við að svara spurningunni hvort við viljum lægri vexti og þar af leiðandi minni ávöxtun á lífeyrinn okkar eða hvort við viljum háa húsnæðislánavexti og hærri lífeyri?

Fá meira núna eða seinna.

Hvað vilt þú borga þér í vexti?

Flokkar: Fjármálakerfið · Húsnæðismál

«
»

Ummæli (1)

  • Frjálsi er nú reyndar að lána á vöxtunum 6,75% bundið til þriggja ára en ekki 6,25% eins og þú segir í greininni.

    Svo segir þú:
    „Aukin útlán lífeyrissjóðanna til fasteignakaupa hafa líka þann kost að peningamagn í umferð eykst ekki, heldur færast þeir frá öðrum fjárfestingarkostum sem bjóðast lífeyrissjóðum“

    Ég væri til i að sjá sterkari heimild fyrir þessari fullyrðingu en þessa grein frá Frosta sem er uppfull af kreddum og hálfsannleik og sem er orðuð með þeim hætti að enginn hagfræðingur með virðingu skilur í raun hvað hann á við.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur