Miðvikudagur 14.09.2016 - 08:06 - Rita ummæli

Almennar íbúðir fyrir fatlað fólk og öryrkja

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt á vorþinginu.  Með lögunum er komið á nýju félagslegu húsnæðiskerfi þar sem ríki og sveitarfélög munu veita allt að 30% stofnframlög til fjölgunar leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda þ.m.t. námsmenn, ungt fólk, aldraðir, fólk í félagslegum og fjárhagslegum vanda og fatlað fólk og öryrkjar. Í tengslum við kjarasamninga var lofað að fjölga almennum íbúðum um 2300 á fjórum árum.

En hvað þýðir þetta? Tökum tvö dæmi.

Brynja – Hússjóður Öryrkjabandalagsins er eitt stærsta leigufélag landsins.  Félagið á ríflega 780 íbúðir og hlutverk þess er að eiga og reka íbúðir fyrir öryrkja.  Tilgangi sínum nær sjóðurinn með því að kaupa og byggja leiguíbúðir.  Meirihluti þeirra er á höfuðborgarsvæðinu, en aðrar víðs vegar um landið.  Á undanförnum árum hefur félagið fjölgað um 20 íbúðir á ári hjá sér, en biðlistar eru langir.

Hússjóður Landsamtakanna Þroskahjálpar hefur byggt íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk í samstarfi við sveitarfélög um árabil en víða er mikil eftirspurn eftir húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem lítið hefur verið byggt á undanförnum árum.

Brynja hússjóður og Þroskahjálp munu geta fjölgað verulega hjá sér leiguíbúðum með því að sækja um 30% stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum fyrir sína skjólstæðinga.  Til viðbótar er gert ráð fyrir 4% aukaframlagi frá ríkinu vegna íbúða fyrir öryrkja.  Gert er ráð fyrir að afgangurinn verði fjármagnaður með lántöku frá lánastofnun að eigin vali.

Þegar eru hafnar viðræður við sveitarfélög um byggingu hundruðir leiguíbúða á vegum þessara félaga, en forsenda fyrir stofnframlagi ríkisins er að sveitarfélög veiti jafnframt stofnframlög sem getur verið til dæmis í formi lóða, niðurfellingar gjalda eða beinna fjárframlaga.  Framlag ríkisins verður í formi beinna styrkja eða vaxtaniðurgreiðslu og hefur Íbúðalánasjóður þegar auglýst eftir fyrstu umsóknunum um stofnframlög ríkisins.

Breytingar á húsnæðisbótakerfinu sem taka gildi um áramótin og samkomulag við sveitarfélög um að öll sveitarfélög muni bjóða sérstakar húsaleigubætur mun styðja enn frekar við leigjendur sem búa við fötlun og skerta starfsgetu.  Þar má nefna að tekið verður tillit til allra heimilismanna þannig að húsnæðisbætur skerðist ekki við að barn verður 18 ára og geta bætt allt að 75% af húsaleigu. Börn einstæðra foreldra munu teljast sem heimilismenn hjá báðum foreldrum sínum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um umgengni. Jafnræði verður einnig tryggt á milli leigjenda þegar kemur að ákvörðun um sérstakar húsaleigubætur.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur