Fyrsti umsóknarfresturinn vegna Leiguheimilanna í nýju almennu íbúðakerfi rann út þann 15. október. Nýja kerfið fer vel á stað því fjórtán aðilar sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til byggingar eða kaupa á 571 íbúð sem ætlað er að slá á húsnæðisvanda tekjulægri einstaklinga og millitekjuhópa.
Íbúðalánasjóður mun kanna hvar þörfin fyrir hagkvæmt leiguhúsnæði er mest og úthluta svo á næstu vikum allt að 1,5 milljörðum króna til verkefnisins. Fyrstu Leiguheimilin ættu þá að geta farið í byggingu strax að lokinni úthlutun og er áætlað að fyrstu íbúarnir geti flutt inn strax næsta ári.
Leiguheimili er nýr valkostur sem byggir á norrænum fyrirmyndum og var komið á með frumvarpi mínu um almennar íbúðir. Leiguheimilin fela í sér að félagasamtök, sveitarfélög og lögaðilar sem uppfylla ákveðin skilyrði fá stuðning hins opinbera til að standa að uppbyggingu leiguhúsnæðis. Þar munu íbúar öðlast rétt til öruggrar langtímaleigu, en greiðslur verða að meðaltali 20-30% lægri en markaðsleiga er í dag.
Í sumum tilfellum geti húsnæðiskostnaður leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta, jafnvel orðið allt að helmingi lægri en nú er. Til að geta sótt um Leiguheimili þurfa tekjur heimilisfólks að vera undir skilgreindum tekju-og eignamörkum sem eru yfir meðaltekjum nokkurra hópa, s.s. ungs fólks, eldri borgara og fleiri hópa.
Aukið framboð af húsnæði mun svo koma öllum heimilum til góða til að draga úr þrýstingi á húsnæðismarkaði og fjölga valkostum.
Hvernig ætli Leiguheimilin muni svo líta út?
Hér má sjá nokkrar erlendar fyrirmyndir.
Sem og eina uppáhalds innlenda fyrirmynd, – gömlu Verkamannabústaðirnir við Hringbraut 🙂
Rita ummæli