Miðvikudagur 15.03.2017 - 15:39 - 4 ummæli

Af hverju skortir íbúðir?

Töluvert er fjallað um húsnæðisvanda hér á landi.  Mér hefur þótt áhugavert að lesa ýmsar innlendar skýringar á ástæðum vandans.  Hins vegar hef ég saknað þess að ekki sé horft meira til hvað erlendir sérfræðingar sem fjallað hafa um húsnæðisvanda á heimsvísu segja um bæði orsakir og lausnir til að tryggja nægt framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði.

Í skýrslu McKinsey um að auka framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði á heimsvísu er bent á fjórar leiðir til að lækka verð og tryggja framboð.  Í fyrsta lagi þarf að vera nægt framboð af lóðum.  Þar benda þeir til dæmis á fjárhagslega hvata til að nýta það land sem er til staðar, nýta land í eigu hins opinbera, þétta byggð og að hluti af skipulögðu byggingarlandi sé heyrnamerktur hagkvæmum íbúðum. Í öðru lagi að auka hagkvæmnina í framleiðslu húsnæðis hvort sem litið er til hönnunar, byggingarefna eða framleiðsluna sjálfa.  Í þriðja lagi er bent á mikilvægi þess að tryggja hagkvæmni í rekstri og viðhaldi húsnæðisins og í fjórða lagi er bent á hvernig megi draga úr kostnaði þeirra sem kaupa og aðstoða þá sem byggja við að fjármagna sig.

Í skýrslu Lyons Housing Review er fjallað um húsnæðiskrísuna í Bretlandi, ástæður hennar greindar og tillögur lagðar fram til úrbóta.  Þar er taldar tvær meginástæður vandans:  Í fyrsta lagi er bent á skort á landi. Sá skortur hafi skekkt markaðinn fyrir lóðir, dregið úr hraða framleiðslu nýrra íbúða og búið til fjárhagslega hvata til að eignast og selja land.  Sveitarfélög hafi ekki haft nægar valdheimildir til að tryggja að íbúðarhúsnæði sé byggt þar sem þau vilja byggja og að sum hafa ekki viljað axla ábyrgðina af því að mæta húsnæðisþörfinni. Í öðru lagi er bent á að áður hafi bæði hið opinbera og einkaaðilar framleitt íbúðarhúsnæði.  Í dag væri treyst á örfá stór byggingafyrirtæki og einstaklingar og verktakar byggja aðeins brot af því sem þeir byggðu áður.  Á sama tíma hefur hið opinbera byggt mun minna, þrátt fyrir að hagnaðarlaus félög hafi gert sitt til að mæta þeirri þörf sem varð til við brotthvarf hins opinbera af markaðnum.

Má ekki alveg heimfæra niðurstöður þessara sérfræðinga yfir á stöðuna hér á landi?

Framboð af lóðum er takmarkaðar en áður.  Verðið er hærra.   Byggingariðnaðurinn fékk mikið högg fyrir hrunið þegar framboð af fjármagni þurrkaðist upp.  Vélar voru seldar úr landi og iðnaðarmenn fluttu erlendis í leit að vinnu.   Þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður hætti ríkið að byggja íbúðir og sveitarfélög hafa lítið byggt af íbúðum. Eftir hrun minnkaði mjög eftirspurn eftir húsnæði vegna skuldsetningar heimila, minni kaupgetu, auknu atvinnuleysi og takmörkuðu framboði af lánsfé.

Eftir hrun settum við svo met ár eftir ár í hversu fáar íbúðir við byggðum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Það skortir ekki framboð á íbúðarhúsnæði heldur eftirspurn eftir því. Á meðan ekki er eftirspurn eftir því sjá húsbyggjendur sér ekki hag í að byggja þar sem þeir vilja ekki tapa á að sitja uppi með það óselt. Skortur á eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði stafar ekki af skorti á vilja fólks til að koma þaki yfir höfuðið heldur af því að ómögulegt er að fjármagna kaupin á þeim okurkjörum sem heimilin standa frammi fyrir á íslenskum fjármálamarkaði. Á meðan enginn getur keypt sér enginn sér hag í að byggja húsnæði sem hann getur ekki selt þar sem engir eru kaupendurnir. Vandamálið liggur því raunverulega í fjármagnskostnaðinum en af einhverjum dularfullum ástæðum virðast flestir stjórnmálamenn forðast það eins og heitan eldinn að taka á því vandamáli og benda gjarnan á eitthvað annað til að drepa umræðunni á dreif eins og að halda því fram að þetta muni leysast með því að byggja meira. Hinsvegar hefur aldrei sést til stjórnmálamanns byggja neitt. Eða þá að halda því fram að hátt vaxtastig sé einhverskonar óbreytanlegt náttúrulögmál en það stenst enga skoðun þar sem vextir eru ekkert annað ákvörðun sem er tekin af lánveitendum en þeir eru núna að mestu leyti í ríkiseigu. Þegar öllu er á botninn hvolft er rót vandans því ekki skortur á neinu nema pólitískum vilja til að taka á hinu raunverulega vandamáli sem eru okurvextirnir.

    Góðar stundir.

  • Eygló Harðardóttir

    Sæll Guðmundur, það er mjög algengt að bent er á vextina. Við viljum öll sjá lægri vexti en hins vegar hafa lægri vextir ekki leyst húsnæðisvandann í Bretlandi, Svíþjóð, Kanada o.s.frv. Annars væri varla McKinsey að tjá sig um húsnæðisvandann á heimsvísu. Ef framboð af húsnæði er ekki nægt, og jafn lítið er byggt ár frá ár og hefur verið gert hér sérstaklega frá hruni þá lendum við í þessum vanda þegar eftirspurnin tekur við sér vegna þess að kaupgetan er að aukast vegna hærri launa, minna atvinnuleysis, lægri skuldsetningar og lægri vaxta á húsnæðislánum ekki hvað síst hjá lífeyrissjóðunum. Á sama tíma er mikill fjöldi ferðamanna að koma til landsins sem þurfa að gista og stórir árgangar að koma inn á húsnæðismarkaðinn. kv. Eygló

  • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

    Sæl Eygló.

    Er það rétt að þið í velferðaráðuneytinu hafi selt Gamma (leigufélagi) eignir ríksins t.a.m. í Strandaseli þegar þú varst ráðherra?
    Ef svo er ekki, að þá hef ég heyrt Mikael Torfason fara með fleipur.
    En ef svo er, afhverju? Hvað var kaupverðið á eignunum og var verðið á þvó róli sem óbreyttur borgari hefði getað keypt?

    Með kveðju,

    Jóhann

  • Eygló Harðardóttir

    Sæll Jóhann. Ráðuneytið fer ekki með sölu á eignum Íbúðalánasjóðs, heldur er sjóðurinn sjálfstæð stofnun skv. lögum. Sjóðurinn hefur lagt mikla áherslu á að selja sínar eignir í opnu og gagnsæu söluferli, þar sem hæðsta verði er tekið. Samkvæmt mínum upplýsingum höfðu eignir sem sjóðurinn seldi í sk. leigufélagspökkum verið í sölu hjá sjóðnum töluverðan tíma, jafnvel mörg ár.

    Frá hendi Alþingis var sjóðnum ekki ætlað að reka leigufélag til langframa, heldur var um tímabundna ráðstöfun að ræða þar sem sjóðurinn ætti ekki að vera í samkeppni við aðra á markaði á grunni ríkisaðstoðar. Höfðu verið gerðar alvarlegar athugasemdir við útleigu sjóðsins af samkeppnisaðila á markaði við ESA. Einnig hafði komið skýrt fram hjá Alþingi að ekki væri vilji til að setja meira fé inn í sjóðinn til að dekka taprekstur, en þegar höfðu verið settir 50 ma.kr. eða sem samsvarar nýjum Landspítala til að styrkja eigið fé sjóðsins.

    Í langflestum þessara eigna voru leigjendur sem hefðu þurft að leita annað ef eignirnar hefðu verið seldar stakar. Eignirnar hefðu ekki verið seldar ef verðin hefðu verið undir þeim væntingum sem voru um verðmæti eignanna enda engar lagaheimildir til þess.

    Með bestu kveðju, Eygló Harðar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur