Miðvikudagur 08.03.2017 - 08:05 - 1 ummæli

Kvíðin og illa sofin börn

Á síðustu árum hefur kvíði barna og ungmenna aukist mikið, ekki hvað síst hjá stúlkum.  Sérfræðingar hafa fylgst áhyggjufullir með þessari þróun og bent á ýmsar skýringar.  Þeir nefna aukna notkun samfélagsmiðla, prófkvíða, áhyggjur af inntöku í menntaskóla, fjárhag foreldra og frelsisskerðingu barna sem mögulega skýringu.

Minni svefn hefur einnig verið nefndur, en um 30-40% nemenda sofa um sjö klukkustundir eða minna á sólarhring.  Nefnd eru dæmi um börn sem sofa með símann við hlið sér og hrökkva upp við hverja nýja tilkynningu frá uppáhaldsmiðlinum.

Rannsóknir hafa sýnt að kvíði sem er ekki meðhöndlaður geti þróast yfir í þunglyndi, og haft alvarlegar afleiðingar með auknum líkum á ýmiss konar áhættuhegðun, brottfalli úr skóla og erfiðleikum í að fóta sig á vinnumarkaði.

Í stjórnarsáttmálanum er talað um að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum.  Einnig að auka þurfi stuðning við börn foreldra með geðvanda og að sálfræðiþjónusta verði felld undir tryggingakerfið í áföngum.

Allt þetta er mikilvægt og verður spennandi að sjá hvernig ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda endurspeglar þessar áherslur.  Hins vegar tel ég einkar brýnt að við leggjum ekki aðeins áherslu á að bregðast við vandanum þegar hann er orðinn til, heldur skoðum hverjar orsakirnar eru og fyrirbyggjum kvíðann.

Eftir hrun sáum við að börnunum okkar leið betur, – ekki verr, heldur betur. Helsta skýringin var talin vera að foreldrar höfðu meiri tíma til að sinna þeim.  Við höfðum líka séð hversu mikilvægur tíminn með fjölskyldunni er þegar kemur að annarri neikvæðri hegðun eins og neysla áfengis og tóbaks. Litlir hlutir, eins og að leggja símum og tölvum á kvöldin. Setja upp sameiginlega hleðslustöð fyrir utan svefnherbergin.  Tryggja að börnin okkar sofi nóg.  Eyða meiri tíma með börnunum okkar.

Allt þetta skiptir máli, – samhliða bættri geðheilbrigðisþjónustu og mun vonandi snúa við þessari ógnvænlegu þróun.

 

Flokkar: Menntun

«
»

Ummæli (1)

  • Pétur Henry Petersen

    Agaleysi Íslendinga strike again?! – það er litið hornauga að setja börnum og ungmennum það sem augljóslega eru jafnvel lífsnauðsynleg mörk.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur