Sunnudagur 05.03.2017 - 13:31 - 1 ummæli

Karlar óskast í háskólanám

Málmsmíði er líka #kvennastarf. Húsasmíði er líka #kvennastarf. Pípulagnir eru líka #kvennastarf. Svona hljóma auglýsingar iðnskólanna. Frábært framtak og vona ég sannarlega að fleiri konur muni verða sveinar í hinum ýmsu iðngreinum þar sem þær eru í miklum minnihluta.

Á sama tíma sakna ég auglýsinganna og átakanna til að fjölga körlum í hinum ýmsu störfum þar sem nánast aðeins eru konur.

Íslenski vinnumarkaðurinn er gífurlega kynjaskiptur og er sú staðreynd talin ein helsta ástæða kynbundins launamuns. Karlar eru í miklum minnihluta í hinum ýmsu kennarastéttum, örfáir karlar starfa sem hjúkrunarfræðingar eða félagsráðgjafar og enn hefur enginn karl útskrifast sem ljósmóðir.

Allt störf sem eru líka #karlastörf. Einfaldlega verða að vera líka #karlastörf.

Kynjahallinn í háskólanámi er sláandi. Árið 2014 voru til dæmis í Háskóla Íslands, fjölmennasta háskóla landsin 8.437 konur og 4.403 karlar skráðir við nám.

Á sama tíma heyrum við ítrekaðar fréttir um yfirvofandi skort á nýliðun í þessum mikilvægu starfsgreinum. Það er verulegt vandamál ef helmingur samfélagsins horfir ekki á viðkomandi grein sem mögulegan starfsvettvang. Þannig hljóta öll áform um að auka hlut karla í þessum greinum að vera ekki aðeins mikilvægur þáttur í jafnréttisbaráttunni heldur einnig nauðsynlegt til að bregðast við þörfum vinnumarkaðarins.

Háskóladagurinn var haldinn í gær þar sem fram fór kynning á öllu háskólanámi á Íslandi. Ég vona sannarlega að þar hafi allir lagt sig fram við að kynna báðum kynjum þá fjölbreyttu og spennandi möguleika sem bjóðast í háskólanámi.

Vonandi þannig að við getum hætt að tagga störf sem #karlastörf eða #kvennastörf.

Flokkar: Menntun

«
»

Ummæli (1)

  • Það er einfalt að laga kynjahlutfall í háskólanámi. Það þarf bara að háskólavæða karlæga menntun eins og mörg iðnaðarstörf eru í dag. Nú þegar er búið að háskólavæða margar kvennastéttir sem áður var sérnám eins og iðnmenntun er í dag. Þegar búið verður að stytta framhaldsskólann í tvö ár þá er t.d. rafvirki sem útskrifast eftir fjögurra ára iðnnám er með ígildi diplóma á háskólastigi. Leiðin í B.S, M.S og Ph.d er þá greið. Iðnnám í dag er gamaldags, úrelt og komin tími á breytingar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur