Sunnudagur 19.03.2017 - 15:48 - 1 ummæli

Íbúðaskortur og töfralausnir?

Árin 2018 / 2019 verða væntanlega árin sem byggingariðnaðurinn verður farinn að framleiða þann fjölda íbúða sem þarf til að mæta árlegri þörf markaðarins skv. áætlun Samtaka iðnaðarins.  Árin 2018/2019 eru einnig árin sem Bjarg íbúðafélag, nýtt leigufélag í eigu ASÍ og BSRB, áætlar að fyrstu leigjendurnir muni flytja inn í íbúðir þeirra.  Á sama tíma mun Félagsstofnun stúdenta og Háskólinn í Reykjavík taka í notkun fjölda nýrra stúdentaíbúðanna og það sama má væntanlega segja um Byggingafélag námsmanna.

En hvað með þangað til?

Í viðtali við Konráð Guðjónsson, sérfræðing hjá greiningardeild Arionbanka, bendir hann á að það sé engin töfralausn, engin augljós gallalaus lausn á húsnæðisvandanum nema að fjölga íbúðum.  Unga fólkið muni því áfram búa í heimahúsum, í bílskúrum og í iðnaðarhúsnæði þangað til, – og jafnvel þeim valkostum fer fækkandi eftir því sem eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði eykst einnig.

Á fésbókarsíðum Íslendinga er lausna hins vegar leitað.

Á nýlegum spjallþræði hjá Smára McCarthy, þingmanni Pírata, um leigjendamarkaðinn voru helstu tillögurnar þak á leiguverð, nýtt hagnaðarlaust leiguíbúðakerfi, lækkun skatta á langtímaleigu og bann á Airbnb.

Þak á leiguverð:  Þak á leiguverð myndi hjálpa þeim sem eru þegar í leiguíbúðum, en til lengri tíma litið getur þakið leitt til minna framboðs og að fleiri leigusalar myndu horfa til skammtímaleigu til ferðamanna.  Reynsla Dana af leiguþaki sýnir einnig mikilvægi þess að banna jafnframt uppsögn á leigusamningum ef aðeins er hægt að hækka leigu með nýjum leigusamningi.  Hér fjallar t.d the Economist um þak á leiguverð.  Svo má spyrja hversu miklar líkur eru á að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins vilji banna hækkanir á leigu.

Nýtt verkamannabústaðakerfi:  Þetta er þegar orðið til.  Nýja hagnaðarlausa leiguíbúðakerfið byggir á lögum um almennar íbúðir frá síðasta vori og eru 3 milljarðar króna til úthlutunar í ár fyrir 18% stofnframlög ríkisins.  Sveitarfélög eiga að koma með 12% á móti.  Einnig er hægt að sækja um viðbótarframlag fyrir svæði þar sem skortur er á leiguhúsnæði, erfitt að fjármagna húsnæði og fyrir námsmenn og öryrkja.  Í fyrra var úthlutað í fyrsta sinn í kerfinu, m.a. til Bjargs íbúðafélags og Háskólans í Reykjavík vegna byggingar námsmannaíbúða við skólann.  Til að stofna leigufélagið þarf að lágmarki 1 milljón kr. í stofnfé og 15-20 manns í fulltrúaráð og stjórn félagsins.  Vonandi eru sem flestir hópar leigjenda að spyrja sig hvort þeir vilji stofna sitt eigið leigufélag.  Hér eru nánari upplýsingar. 

Lækkun skatta á langtímaleigu:  Hluti af samkomulagi við Alþýðusambandið um húsnæðismál var lækkun skatta á langtímaleigu ef um einstaklinga er að ræða.  Skatturinn er því núna 10%.  Þegar reiknuð er skattlagning og gjöld á skammtímaleigu til ferðamanna og langtímaleigu þá kemur langtímaleiga betur út fyrir leigusalann.  Þrátt fyrir þetta var 169% aukning á útleigu til ferðamanna.  Af hverju er það?

Bann á Airbnb:  Víða um heim í vinsælum ferðamannaborgum hafa menn brugðist við mikilli aukningu á íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna.  Nýlega steig bæjarstjóri Kópavogs fram og lagði til tímabundið bann á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna.  Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar taldi að krefja ætti Airbnb að afhenda yfirvöldum upplýsingar um þá sem eru að leigja út íbúðir en að öðrum kosti banna starfsemi þeirra.  Viðbrögð viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra við ummælum Gríms gáfu ekki til kynna að ráðherrarnir væru áhugasamir um bann á Airbnb.  Kannski getur Airbnb gert það sama fyrir okkur og þeir gerðu í London?

Hvað með aðrar lausnir? Hvað með þá sem vilja eiga eigið húsnæði, – ekki leigja.

Hverjar eru töfralausnirnar fyrir þau heimili?

Flokkar: Húsnæðismál · Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Það er ekkert flókið við að koma upp skikkanlegum leigumarkaði, með viðunandi leigu (miklu lægri en hún er nú á höfuðborgarsvæðinu) og því öryggi fyrir leigjendur að þeir geti búið í íbúðum sínum eins lengi og þeim sýnist:

    Hið opinbera byggir tíu þúsund íbúðir á næstu tíu árum eða svo, aðallega þegar ekki er nein þensla (og svo fleiri eftir því sem þarf). Ríkið getur tekið erlend lán til langs tíma á svo lágum vöxtum að leigan þyrfti ekki að vera nema eðlileg til að standa undir þeim, auk þess sem byggingarkostnaður yrði mun lægri en ella ef þetta væri gert í svo stórum stíl, með skipulegum hætti.

    Það sem þarf er bara pólitískur vilji.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur