Yfirdráttarlán heimila við fjármálafyrirtæki hafa lækkað stöðugt frá árinu 2012, þrátt fyrir á sama tíma hafi einkaneysla aukist, skv. Viðskiptablaðinu. Þetta var sannarlega gleðifrétt.
Heimilin skulduðu 79,3 milljarða króna í yfirdráttarlán og greiðslukortaskuldir í janúar síðastliðnum og höfðu þau lækkað um rúmlega 25% frá því fyrir fimm árum síðan á föstu verðlagi. Í lok síðasta árs nam árstíðabundin einkaneysla u.þ.b. 303,5 milljörðum króna, en frá lok árs 2012 hafði hún vaxið um 16,1% og var á svipuðum stað og um mitt ár 2007. Yfirdráttarlánin höfðu hins vegar ekki verið lægri síðan sumarið 2009.
Æ fleiri virðast þannig leggja áherslu á að eiga fyrir einkaneyslunni. Að spara fyrir þvottavélinni og sumarfríinu í stað þess að setja allan pakkann á greiðslukort eða yfirdráttarlán. Ég vona sannarlega að það sama muni gilda um fasteignina, að heimilin leggi áfram áherslu á að borga niður skuldir vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, – og nýti til þess séreignasparnaðarleiðina og fyrstu fasteign.
Aðeins þannig getum við varist betur framtíðaráföllum og dregið samhliða úr líkum á að þau verði.
Munum að lán er ekki lukka.
Rita ummæli