Mánudagur 17.04.2017 - 12:00 - 1 ummæli

Hola verður til

Fyrsta skóflustungan að fyrsta húsinu sem við hjónin byggjum sjálf var tekin í síðustu viku.   Í dag erum við því stoltir eigendur að stórri holu, sem verður fyllt með frostfríu efni á næstu dögum.

Gleðin var mikil enda langur aðdragandi að þessari fyrstu skóflustungu.

Lóðin var keypt fyrir ári síðan.  Ég hringdi í leigusalann minn eftir að kaupin á lóðinni lágu fyrir og sagði honum að við myndum væntanlega flytja út á næstu 6-9 mánuðum.  Við værum að fara byggja, ætluðum að gera það hratt, vandað og hagkvæmt.

Eftir smá þögn sagði leigusalinn minn, reynslubolti í húsasmíða- og fasteignabransanum: „Er ekki best að við sjáum hvernig þetta gengur?  Engin ástæða til að flýta sér neitt að flytja út.“

Og hló svo.

Ég skil hann miklu betur núna sem stoltur eigandi holu.  Skil hann miklu betur eftir að hafa farið í gegnum skipulags- og hönnunarferlið á húsinu, sökklinum, rafmagninu, pípulögnum og að sjálfsögðu gólfhitanum.  Skil hann miklu betur eftir að hafa farið í gegnum samþykktarferli heildaruppdráttar og leitina miklu að góðum hópi af iðnaðarmönnum. Plús eftir að hafa skilað inn 30-40 verkteikningum á hvítum pappír þar sem aðeins má kvitta undir með bláu bleki til byggingarfulltrúa ásamt yfirlýsingu frá byggingarstjóra og iðnmeisturum.

Skil svo miklu betur af hverju byggingarbransinn talar aftur og aftur um skipulags- og hönnunarferlið sem tímafrekasta hluta þess að byggja húsnæði.

Nú er stefnt að því að flytja inn í haust, 1 ári og 9 mánuðum eftir að við kvittuðum undir kaupin á lóðinni.

„Töluvert raunhæfara í þetta sinn,“ sagði leigusali minn þegar ég upplýsti hann um ný áform.

Og hló ekki.

 

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál · Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Daníel Brandur

    Til hamingju með það! Að flytja inn í haust er líklega bjartsýni sömuleiðis, en vissulega spilar inn í hversu mikið þið kaupið af vinnu og hve mikið þið ætlið að gera sjálf. Er svo planið að klæða þakið með torfi? Sást ekki alveg nógu skýrt á myndinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur