Hver hefur ekki séð auglýsingar í fjölmiðlum frá lögreglunni um týnd ungmenni? Fátt er alvarlegra eða erfiðara en þegar barn týnist. Alvarleikinn endurspeglast ekki hvað síst í að þrjú ungmenni í hópi þeirra sem struku létust árið 2014. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að barn strýkur, en þær algengustu eru heimilisaðstæður, vímuefnaneysla eða erfiðleikar í skóla.
Árið 2015 tók ég ákvörðun um að styðja við nýtt verklag við leit að týndum börnum sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir innleiddi fljótlega eftir að hún tók við sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur 2016, um 10 milljónir hvort ár. Nú er verkefnið orðinn fastur hluti af fjárhagsramma lögregluembættisins, enda sannarlega búið að sanna sig.
Ekki hvað síst í þeirri staðreynd að ekkert ungmenni hefur látist sem leitað hefur verið að með þessum hætti.
Einn starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur sinnt verkefninu í fullu starfi og vinnur náið með öðrum þjónustukerfum til að styðja sem best við barnið og fjölskyldu þess. Nú er svo komið að viðbragðstími lögreglu er orðinn um 20 mínútur að meðaltali frá því að Barnavernd sendir leitarbeiðni þar til málið hefur verið skráð, lýsing á barni kölluð út og það skráð eftirlýst í kerfum lögreglu.
Leitað var eftir rúmlega 80 börnum á hvoru ári fyrir sig, eða alls 163. Þar af voru 60 börn sem leitað var að í fyrsta skipti á hvoru ári, aðeins fleiri stúlkur en strákar. Það sem af er ári 2017 hafa borist 53% fleiri leitarbeiðnir en bárust að meðaltali síðustu tvö árin á undan. Flest börnin eru á aldrinum 14 til 17 ára, en tvö yngstu börnin voru 11 ára. Leitarbeiðnir berast allan sólarhringinn, en flestar berast upp úr miðnætti. Börnin voru týnd allt frá einni klukkustund upp í 13 daga, en meðaltalið er um 31 klst.
Í opnu bréfi félagasamtakanna Olnbogabarna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom fram að ekki aðeins hafi verkefnið skilað umtalsverðum árangri heldur hafi það breytt viðhorfum innan lögreglunnar hvað varðar börn og ungmenni með áhættuhegðun. Foreldrar/forsjáraðilar og ungmennin sjálf væru farin að bera aukið traust til lögreglunnar. Þar hefur ekki hvað síst skipt miklu máli að það sé litið alvarlegri augum innan lögreglunnar að verið sé að hýsa börn og ungmenni undir lögaldri í leyfisleysi.
Það er ánægjulegt að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi náð að tryggja verkefninu fjármagn innan embættisins og fastan sess í verkferlum lögreglunnar.
Þannig getum við vonandi tryggt áfram að þegar börnin okkar týnast þá finnist þau sem allra fyrst og fái þá aðstoð sem þau þurfa innan stuðningskerfis barnaverndar, félagsþjónustu og skóla.
Rita ummæli