Miðvikudagur 26.07.2017 - 09:54 - Rita ummæli

Hvað eru margar íbúðir í byggingu?

Þegar rætt er um húsnæðisvandann hljóta tölur um fjölda íbúða í byggingu að skipta miklu máli. Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið, úthluta lóðum, afgreiða byggingarleyfi og skrá hjá sér byggingarstig framkvæmdanna.  Því hefur ekki verið til á einum stað hversu margar íbúðir eru í byggingu á hverjum tíma.  Stjórnvöld þ.m.t. Seðlabankinn, Hagstofan, fjármálaráðuneytið og stjórnmálamenn hafa því oft átt erfitt með að átta sig á hversu margar íbúðir eru í byggingu.

Allir þessir aðilar hafa því horft til Samtaka iðnaðarins sem hafa staðið sig best í að halda utan um raunverulega framleiðslu íbúða með því að telja einfaldlega íbúðir á byggingarstöðum. Í febrúar síðastliðnum birtu þeir eftirfarandi talningu um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem voru komnar að fokheldu eða lengra komið:
Reykjavík 1228
Kópavogur 655
Garðabær 644
Hafnarfjörður 237
Mosfellsbær 470
Seltjarnarnes 21

Þar af hafði orðið 67% aukning á síðustu 14 mánuðum.  Íbúðalánasjóður hefur sagt að til að fylgja eftir fjölgun íbúa á höfuðborgasvæðinu þurfi að byggja 1400 íbúðir árlega. Þar fyrir utan er íbúðaþörf vegna ferðamanna og uppsafnaðrar þarfar þar sem aðeins voru byggðar árlega um 500-900 íbúðir árlega á árunum eftir hrun.

Á grunni talningar sinnar gáfu Samtök Iðnaðarins út spá um byggingu íbúða fyrir árin 2017-2020:

2017 Lokið verður við 1.598 íbúðir í ár og byrjað á 2.436 íbúðum.
2018 Lokið verður við 1.921 íbúðir og byrjað á 2.823 íbúðum.
2019 Lokið verður við 2.626 íbúðir og byrjað á 2.957 íbúðum.
2020 Lokið verður við 2.631 íbúðir og byrjað á 2.710 íbúðum.

Þannig verður framleiðsla á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á næstu fjórum árum verulega umfram fjölgun íbúa og ætti því að geta mætt einnig þeirri eftirspurn sem skapast hefurvegna fjölgunar ferðamanna og þess að lítið var byggt á árunum 2009-2014.

Því til viðbótar bætast miklar byggingaframkvæmdir í nágrannasveitarfélögunum, sem ég hef ekki séð tölur yfir en tel einkar mikilvægt að stjórnvöld og byggingariðnaðurinn fylgist vel með svo ekki verði sambærileg þróun þar og árunum 2006/2007 þar sem byggt var langt umfram þörf.

 

Flokkar: Húsnæðismál · Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur