Miðvikudagur 02.08.2017 - 09:04 - 3 ummæli

Öll börn fái gjaldfrjáls ritföng

Sífellt fleiri sveitarfélög taka ákvörðun um að bjóða upp á raunverulega gjaldfrjálsa grunnskólamenntun, nú síðast Garðabær og Akranes, með því að sjá sjálf um ritföng nemenda.  Nýjustu fréttir herma að fjölmörg þeirra ætli að nýta sér sameiginleg örútboð Ríkiskaupa við kaup á gögnunum. Þar á meðal Blönduós, Garður, Hafnarfjörður, Hornafjörður og Mosfellsbær.  Ákvörðunin kom í framhaldi af góðri reynslu Reykjanesbæjar af örútboði.

Ein helsta athugasemd við frumvarp okkar sem eru talsmenn barna innan stjórnarandstöðunnar um að gera ritföng gjaldfrjáls í öllum grunnskólum var kostnaðaraukinn fyrir sveitarfélögin.  Andstæðingar málsins fullyrtu að þetta yrði of dýrt. Meðalkostnaður væri á bilinu 7-8 þúsund krónur á barn og áætlaður heildarkostnaður foreldra og forráðamanna vegna ritfanga grunnskólabarna væri því á bilinu 300-500 milljónir króna á landsvísu.

Við töldum hins vegar að ef sveitarfélögin myndu sjá sjálf um innkaupin væri hægt að ná umtalsvert hagstæðari innkaupum en hjá einstökum fjölskyldum.  Því til viðbótar hefðu sveitarfélögin ákvörðunarvald um hver kostnaðurinn ætti að vera þar sem skólar á þeirra vegum ákveða hvaða ritföng börnin þurfa að nota.  Þetta hefur sýnt sig í hversu mismunandi kostnaðurinn hefur verið á milli sveitarfélaga og jafnvel skóla innan sama sveitarfélags.

Við bentum einnig á mjög góða reynslu af örútboðum. Sem dæmi má nefna að sameiginlegt örútboð á ljósritunarpappír skilaði 55% afslætti af listaverði bjóðanda.

Velferðarvaktin, Barnaheill, fjöldi foreldra og forráðamanna og þingmenn hafa bent ítrekað á að gjaldfrjáls ritföng í grunnskólum séu í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Þannig er unnið gegn mismunun barna og styður við að börn njóti jafnræðis til náms.

Næsta skref hlýtur því að vera að Alþingi samþykki breytingu á grunnskólalögum og afnemi heimild sveitarfélaga til gjaldtöku vegna ritfanga og annarra gagna.

Flokkar: Menntun

«
»

Ummæli (3)

  • Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

    Á fundi borgarstjórnar 16. maí sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu að öllum börnum í grunnskólum Reykjavíkur yrðu veitt nauðsynleg námsgögn gjaldfrjálst nú í haust. Það var ekki samþykkt af meirihlutanum en vísað til gerð fjárhagsáætlunar 2018 svo það verður kannski að veruleika haustið 2018

  • Eygló Harðardóttir

    Sæl Guðfinna, þetta er mjög góð tillaga hjá Framsókn og flugvallarvinum. Vonandi verður hún að raunveruleika, ef ekki strax í haust þá næsta haust.

  • Það er vissulega ánægjulegt hve mörg sveitarfélög virðast núna ætla að bjóða börnum upp á gjaldfrjáls námsgögn. Þar á meðal eru flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, nema það stærsta: Reykjavíkurborg. Því vaknar sú spurning hvort heimilt sé að mismuna börnum eftir búsetu?

    Ætti ég kannski að taka saman reikningana fyrir námsgögnum minna barna og senda afrit af þeim með innheimtubréfi til menntasviðs borgarinnar til að láta reyna á það hvort borgaryfirvöld virði grundvallarmannréttindi?

    Eða eru mannréttindi kannski bara fyrir minnihlutahópa?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur