Fimmtudagur 17.08.2017 - 12:11 - 1 ummæli

Þarftu að taka námslán?

Í haust hefja þúsundir nýnema nám við háskóla landsins.  Eflaust hafa þau flest eytt töluverðum tíma í að íhuga hvaða skóla þau eigi að fara í og hvaða fag þau vilja læra.  Hvað með ákvörðunina um að taka námslán?

Frá aldamótum hefur ársnemum í háskólum fjölgað hratt.  Árið 2001 voru ársnemendur í háskólum 7.200 en voru 14.500 árið 2014.  Útlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) hafa að mestu fylgt nemendaþróun í háskólum.  Lán vegna ýmiss sérnáms hafa einnig farið vaxandi.

Að jafnaði er aðeins um helmingur nemenda sem tekur námslán, eða 47%.  Hæst varð hlutfallið um 55% skólaárið 2008-2009. Á árunum 2008-2009 hafði einnig átakið Nám er vinnandi vegur veruleg áhrif þar sem atvinnulausir voru hvattir til að fara í nám í stað þess að vera á atvinnuleysisbótum í kjölfar kreppunnar.

Á síðustu árum hefur meðallán lánþega hjá LÍN hins vegar hækkað jafnt og þétt.  Helstu ástæður þess eru taldar vera lengri námstími og að nemendur eru að fara í lengra og dýrara nám með háum skólagjöldum bæði innanlands og erlendis.  Þá hefur meðalaldur lánþega farið hækkandi.  Meðallán árið 2015 var 4,2 milljónir kr.  Til samanburðar má benda á að í Bandaríkjunum og Bretlandi, löndum sem við teljum almennt dýrt að mennta sig eru meðalskuldir útskrifaðra nemenda á bilinu 3-4 milljónir króna.

Það er áhyggjuefni hversu mjög meðallánin hafa hækkað.  Þetta þýðir að þeir sem eru að útskrifast eftir að hafa tekið námslán eru mun líklegri til að verða með mun hærri greiðslubyrði vegna námslána en fyrri kynslóðir.

Því vil ég hvetja fólk til að íhuga mjög vel hvort það þurfi að taka námslán, ekki hvað síst í upphafi náms.

Ástæða þess að ég skrifa þetta er að ég vildi óska þess að einhver hefði spurt mig þessarar spurningar á sínum tíma.  Að það hefði ekki þótt sjálfsagt að taka lán, sama hvaða nafni það nefnist.

Að spyrja sig hvort þú getir tekið eitt ár í að vinna og lagt fyrir áður en þú hefur nám eða búið aðeins lengur heima á meðan þú ert í námi, unnið aðra hverja helgi og í fríum i til að borga fyrir skólabækurnar, strætó-kortið og annað sem tilheyrir skólanum, – og útskrifast úr háskóla án nokkurra námsskulda?

Ímyndaðu þér hvers konar forskot það er að hefja starfsævina án þess að skulda 4,2 milljónir króna að meðaltali.

Því spyr ég aftur: Þarftu að taka námslán?

Flokkar: Menntun

«
»

Ummæli (1)

  • Sumir þurfa að taka námslán til að geta borgað meðlagskröfurnar sem eru lagðar einhliða á pabbann en ekki mömmuna = kynjamisrétti.

    Af tvennu illu er nefninlega pínu skárra að skulda LÍN heldur en þeirri ófyrirleitnu stofnun sem kallar sig Innheimtustofnun sveitarfélaga og er í raun ekkert annað en ríkisvædd fjárkúgun einstæðra feðra án nokkurs tillits til raunverulegra útgjalda vegna umgengni þeirra við eigin börn.

    Stjórnmálamenn sem þykjast vera boðberar jafnréttis ættu að beita sér fyrir afnámi þessa 19. aldar fyrirkomulags.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur