Þriðjudagur 02.10.2018 - 16:43 - Rita ummæli

Hvað er íslenskur matur?

Mínar hugmyndir um hvað er íslenskur matur voru mótaðar af því sem eldað var í litlu eldhúsi ömmu minnar í Hlíðunum og ævintýramatarferðum í næsta nágrenni Reykjavíkur með afa og ömmu.

Fiskur er ofarlega í minningunni, yfirleitt soðin ýsa með kartöflum og mörfloti og afgangurinn af fisknum nýttur í plokkfisk eða uppáhaldsmatinn minn sem voru fiskikökur steiktar upp úr raspi og borðaðar með soðnum kartöflum og tómatsósu eða remúlaði.

Fiskikökurnar hennar ömmu, sjá uppskrift neðst í pistli.

Afi og amma söfnuðu eggjum á vorin og ég borðaði þau harðsoðin í morgunmat eða í dýrindis gylltum pönnukökum með heimatilbúinni rababarasultu og ískaldri mjólk.  Þegar leið á sumarið var farið í berjamó þar sem týnd voru krækiber og örfá bláber í sultur og saft.

Þess á milli lék ég mér í grænum hlíðum Mosfellsdalsins og týndi upp í mig hundasúrur á meðan afi og amma stungu upp kartöflugarðinn, settu niður útsæði fyrir gular og rauðar kartöflur og þóttist svo hjálpa til við uppskeruna um haustið en flæktist aðallega fyrir.  Slátur var tekið á haustin og ég man eftir ömmu blóðugri upp að olnboga að hræra rúginn og haframjölið saman við mörinn og blóðið og hversu spennandi það var að fá að sauma saman keppina.

Skyr var keypt óhrært í mjólkurbúðinni og ylvolgt normalbrauð eða rúgbrauð í bakaríinu við hliðina. Og stundum mátti ég kaupa súkkulaðisnúð fyrir afganginn.

Ég held að þetta hafi ekki verið óvanalegt fyrir fjörutíu árum síðan og þó lengra væri farið aftur.

Í meistararitgerð Bergþóru Jónsdóttur Sá hollasti og besti í heimi – Mættum við gefa íslenskum mat og matarhefðum meiri gaum? er fjallað um að hversdagsmaturinn hér áður fyrr hafi verið mun fjölbreyttari en við gerum okkur grein fyrir í dag.  Fiskur hafi þannig verið langalgengasti maturinn á Íslandi frá upphafi byggðar, en kindakjötið verið meiri sparimatur.  Skyrhræringur var borðaður nær daglega og rúgur nýttur í slátur, brauð og grauta.  Ítrekað var reynt að innleiða margvíslega kálrækt en gekk misjafnlega vegna erfiðleika við að nálgast fræ, veðurfars og kunnáttuleysis.

Í ritgerðinni segir Gísli Matthías Auðunsson, sem rekur veitingahúsið Slippinn í Vestmannaeyjum ásamt fjölskyldu sinni og kom á fót veitingastaðnum Mat og drykk í Reykjavík, að við áttum okkur oft ekki á  því hversu mikið af því sem við borðum er séríslenskt.

Ég vona sannarlega að svo sé og að við höldum áfram í íslenskar matarhefðir okkar í bland við áhrifin erlendis frá.

Þó það væri ekki annað en að vera áfram með ráðleggingar um fisk allavega tvisvar í viku í skólamáltíðum á meðan nágrannaþjóðir okkar tala um að eitt skipti sé nóg.

———-

Fiskikökurnar hennar ömmu

450 gr. soðinn hvítur fiskur (ýsa, þorskur o.fl.)

350 gr. soðnar kartöflur, skrældar

1 msk hvítur laukur, saxaður smátt

Salt og svartur pipar

1 egg

Hveiti

85-100 gr. brauðmylsna

Olía til steikingar

Fiskur og kartöflur söxuð saman.  Laukur, hrært egg bætt við fiskstöppuna.  Bætið við hveiti þar til að deigið heldur saman, en ekki of þétt.  Saltað og piprað eftir smekk.  Stundum er smá rjóma bætt út í, en er ekki nauðsynlegt. Mótið kringlótt buff, veltið upp úr brauðmylsnunni og steikið gylltar  í olíunni.  Berið fram með soðnum kartöflum og remúlaði.

Tilbreyting:

Í Mat og drykk Helgu Sigurðardóttur eru fiskikökurnar kölluð buff og steiktar upp úr beikonfitu og steikt egg sett ofan á.  Soðnar kartöflur bornar fram með.

Endilega bæta við kryddi, t.d. smá karrí eða graslauk og steinselju við fiskikökurnar.

Flokkar: Matur

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur