Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með umræðunni um gámahúsin. Fátt kom þar á óvart og endurspeglar þörfina á að halda áfram að ræða hvernig við getum hugsað út fyrir kassann og þróað íslenskt þéttbýli með nýjum hugmyndum. Það er ástæða þess að ég fagnaði tækifærinu að styðja við verkefnið Hæg breytileg átt. Hugsunin á bakvið verkefnið er að vinna hugmyndir um íslenskt þéttbýli. Að leita leiða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.
Að ögra viðteknum viðmiðum um hvernig íbúðarhúsnæði á að vera byggt í íslensku borgarsamfélagi.
Á vefsíðu verkefnisins segir: „Áhersla verður lögð á samfélagslega afstöðu, frjálst og óhefðbundið hugmyndaflæði, hugmyndafræðilegan og arkitektónískan styrk, vistvæna og byggingartæknilega framsækni, þétt byggðamynstur, góða nýtingu á byggðum fermetrum, og síðast en ekki síst vinnu með staðaranda og mótun úti – sem innirýma utan um daglegt líf íbúa í nýjum íbúðagerðum fyrir fjölbreytt fjölskyldumynstur.“
Verkefnið Bær heillaði mig sérstaklega. Grunnhugmyndin þeirra er að byggja á bílastæðum borgarinnar í þeirri trú að minnkandi þörf verði fyrir einkabílinn og að fleiri búi einir. Notkun einkabílsins muni breytast þar sem hann verði knúinn áfram af rafmagni og að miklu leyti sameign margra (sbr. Zipcar) Grunneining þeirra var 2,5×5 metrar kassi. Í þeirra huga ætti heimili framtíðarinnar að ná út fyrir íbúðina og byggja meira á sameiginlegum rýmum. Sameiginleg rými væru til dæmis þvottahús, garður, bílastæði, gróðurhús, gestarými og vinnuaðstaða. Jafnvel kaffihús eða þjónusturými í næsta nágrenni.
Hópurinn mátaði hugmyndir sínar við bílastæði víðs vegar um borgina þar á meðal á Grettisgötunni.
Í áætlunum hópsins var gert ráð fyrir 400.000 kr. á fermetra. En hvernig væri að ögra viðmiðunum enn frekar? Hvað með 300.000 kr. á fermetra? Eða jafnvel 200.000 kr. á fermetra?
Hvernig gæti samstarf við fyrirtæki á borð við Container City/Abk Architects og Buro Happold eða Caledonian Modular náð niður kostnaði á bílastæðahúsunum?
Það skiptir ekki máli hvort við köllum þessi hús gámahús, bílastæðahús eða hagkvæm, forsmíðuð einingahús. Gleymum ekki að gömlu fallegu bárujárnshúsin okkar voru þess tíma forsmíðuð einingarhús, pöntuð eftir norskum katalogum og sett saman á staðnum eftir númerum líkt og púsluspil.
Vandinn er skortur á ódýru og hagkvæmu húsnæði. Í mínum huga hlýtur hluti af lausninni að vera að lækka kostnaðinn við að byggja húsnæði. Við höfum þegar tekið stór skref í einföldun á byggingarreglugerðinni og nú er ætlunin að lækka verð á byggingarefni með afnámi vörugjalda.
Næstu skref hljóta að vera að nýta hugvit okkar og annarra þjóða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.
PS. Hæg breytileg átt er verkefni á vegum Aurora hönnunarsjóðs, Hönnunarmiðstöðvar, Reykjavíkurborgar, Samtaka Iðnaðarins, Félagsbústaða, Búseta, Félagsstofnunar stúdenta, Upphaf fasteignafélags, Listaháskóla Íslands og Velferðarráðuneytisins.