Laugardagur 4.10.2014 - 13:55 - 2 ummæli

Biðlistar og sveitastjórnir

1800 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sjö stærstu sveitarfélögunum samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins.  Á fyrstu sex mánuðum ársins voru aðeins tæp 8% sem fengu úrlausn á sínum vanda.

Í kjördæmavikunni átti ég því góða fundi með félagsmálastjórum í flestum af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Þar ræddum við sameiginlegar áhyggjur okkar af miklum húsnæðisvanda fólks í félagslegum eða fjárhagslegum vanda og skort á húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk og aldraða.

Ég lagði áherslu á að sveitarfélögin huguðu að ákvæði laga um húsnæðismál og laga um félagsþjónustu.  Þar kemur m.a. fram að húsnæðisnefndum er ætlað að gera árlega áætlanir um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu, hafa milligöngu um og frumkvæði að því að aflað verði húsnæðis í því skyni og aðstoði einstaklinga við húsnæðisöflun.  Einnig er húsnæðisnefndum ætlað að aðstoða aldraða og fatlaða við húsnæðisöflun. Helst þyrfti að liggja fyrir nokkurra ára áætlun til að við getum áttað okkur á umfangi verkefnisins og hagað fjárhagsáætlunum í samræmi.

Lagaskyldan til að tryggja félagslegt húsnæði hvílir á sveitarfélögunum.  Hlutverk stjórnvalda er að leiðbeina og styðja við húsnæðisöflunina, en á endanum er ákvörðunin sveitarstjórna.

Ekki byggingaraðila.  Ekki Íbúðalánasjóðs. Ekki ráðherra.

Heldur þeirra sem fara með meirihlutavald í sveitarfélögunum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.9.2014 - 09:21 - 1 ummæli

Karlar og jafnrétti

UN Women hafa vakið athygli á mikilvægi þátttöku karla í öllu starfi á sviði jafnréttismála.    Karlar eru mun líklegri en konur til að gegna áhrifa- og valdastöðum og gegna því lykilhlutverki í að efla stöðu kvenna, bæði í félagslegu og efnahagslegu tilliti. Benda þarf á ávinning beggja kynja af valdeflingu kvenna og auknu kynjajafnrétti.

Í mínum huga er þetta brýnt hagsmunamál beggja kynja sem auka almenn lífsgæði þjóða og styðja við lýðræðisþróun.

Ræða Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra  á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var svo sannarlega í þessum anda.  Þar kynnti hann sérstakt málþing sem við stöndum að ásamt Súrinam þar sem karlmenn munu ræða jafnrétti við aðra karlmenn.  Athyglinni verður þar beint sérstaklega að aðgerðum gegn ofbeldi gegn konum.

Utanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið og forsætisráðuneytið hafa um tíma lagt drög að samstarfsverkefni um aukna valdeflingu kvenna og karla og jafnrétti.  Þar viljum við styðja enn frekar við verkefni Íslands á sviði jafnréttismála á alþjóðavettvangi; valdeflingu kvenna í gegnum menntun og vekjum athygli á mikilvægu hlutverki karla í jafnréttisumræðunni á alþjóðavettvangi og á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.9.2014 - 10:05 - 4 ummæli

Bílastæðahús

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með umræðunni um gámahúsin.  Fátt kom þar á óvart og endurspeglar þörfina á að halda áfram að ræða hvernig við getum hugsað út fyrir kassann og þróað íslenskt þéttbýli með nýjum hugmyndum.  Það er ástæða þess að ég fagnaði tækifærinu að styðja við verkefnið Hæg breytileg átt.  Hugsunin á bakvið verkefnið er að vinna hugmyndir um íslenskt þéttbýli.  Að leita leiða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.

Að ögra viðteknum viðmiðum um hvernig íbúðarhúsnæði á að vera byggt í íslensku borgarsamfélagi.

Á vefsíðu verkefnisins segir: „Áhersla verður lögð á samfélagslega afstöðu, frjálst og óhefðbundið hugmyndaflæði, hugmyndafræðilegan og arkitektónískan styrk, vistvæna og byggingartæknilega framsækni, þétt byggðamynstur, góða nýtingu á byggðum fermetrum, og síðast en ekki síst vinnu með staðaranda og mótun úti – sem innirýma utan um daglegt líf íbúa í nýjum íbúðagerðum fyrir fjölbreytt fjölskyldumynstur.“

Verkefnið Bær heillaði mig sérstaklega.  Grunnhugmyndin þeirra er að byggja á bílastæðum borgarinnar í þeirri trú að minnkandi þörf verði fyrir einkabílinn og að fleiri búi einir.  Notkun einkabílsins muni breytast þar sem hann verði knúinn áfram af rafmagni og að miklu leyti sameign margra (sbr. Zipcar)  Grunneining þeirra var 2,5×5 metrar kassi. Í þeirra huga ætti heimili framtíðarinnar að ná út fyrir íbúðina og byggja meira á sameiginlegum rýmum.  Sameiginleg rými væru til dæmis þvottahús, garður, bílastæði, gróðurhús, gestarými og vinnuaðstaða.  Jafnvel kaffihús eða þjónusturými í næsta nágrenni.

Hópurinn mátaði hugmyndir sínar við bílastæði víðs vegar um borgina þar á meðal á Grettisgötunni.Grettisgata_bilastaedi

Í áætlunum hópsins var gert ráð fyrir 400.000 kr. á fermetra.  En hvernig væri að ögra viðmiðunum enn frekar? Hvað með 300.000 kr. á fermetra?  Eða jafnvel 200.000 kr. á fermetra?

Nuverandi_astand

Grodur_gardar_stadsettir

 

Undirstodukjarnar

Fullbyggt

Sed_inn_i_bilastaedahus

Hvernig gæti samstarf við fyrirtæki á borð við Container City/Abk Architects og Buro Happold eða  Caledonian Modular náð niður kostnaði á bílastæðahúsunum?

Það skiptir ekki máli hvort við köllum þessi hús gámahús, bílastæðahús eða hagkvæm, forsmíðuð einingahús.  Gleymum ekki að gömlu fallegu bárujárnshúsin okkar voru þess tíma forsmíðuð einingarhús, pöntuð eftir norskum katalogum og sett saman á staðnum eftir númerum líkt og púsluspil.

Vandinn er skortur á ódýru og hagkvæmu húsnæði. Í mínum huga hlýtur hluti af lausninni að vera að lækka kostnaðinn við að byggja húsnæði.  Við höfum þegar tekið stór skref í einföldun á byggingarreglugerðinni og nú er ætlunin að lækka verð á byggingarefni með afnámi vörugjalda.

Næstu skref hljóta að vera að nýta hugvit okkar og annarra þjóða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.

PS. Hæg breytileg átt er verkefni á vegum Aurora hönnunarsjóðs, Hönnunarmiðstöðvar, Reykjavíkurborgar, Samtaka Iðnaðarins, Félagsbústaða, Búseta, Félagsstofnunar stúdenta, Upphaf fasteignafélags, Listaháskóla Íslands og Velferðarráðuneytisins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.9.2014 - 10:10 - 19 ummæli

Gámafordómar

Fyrir nokkru deildi ég myndum af gámahúsum á fésbókarsíðu minni.  Það kom mér nokkuð á óvart að í stað þess að skoða myndirnar og tenglana virtist orðið gámur vera nóg til vekja neikvæð viðbrögð.

Sama virðist einkenna fréttir að Landspítalinn hefur í hyggju að nýta gáma sem skrifstofuhúsnæði fyrir starfsfólk sitt.

Því vil ég gjarnan gera enn eina tilraunina til að vinna á fordómum gegn gámum, ekki hvað síst þar sem þar má finna nokkur af mínum draumahúsum þökk sé flottum arkitektum og iðnaðarmönnum sem geta sannarlega hugsað út fyrir kassann 🙂

1. Maison Container Lille.  Þetta 208 fm2 einbýlishús er hannað af Patrick Partouch.  Notaðir voru 8 gámar í húsið og það tók þrjá daga að setja húsið upp á lóðinni. Nánari upplýsingar og ljósmyndir.

Maison_Gamur

Maison_Gamur_inni

2. Redondo Beach gámahús.  Húsið er hannað af DeMaria Design´s og endurnýtir 8 mismunandi stóra gáma.  Með því að nota tilbúnar einingar var hægt að byggja 70% af húsinu annars staðar en á lóðinni. Nánari upplýsingar og ljósmyndir

Redondo_Beach_Shipping_Container_Home

3.  Cover Park í Skotlandi.  Húsið er hannað af Edo Architecture og er ætlað til útleigu fyrir listamenn.  Takið sérstaklega eftir torfþakinu og hversu vel gámarnir falla inn í umhverfið við vatnið. Nánari upplýsingar og ljósmyndir.

CoverPark_torfþak

CovePark_vid_vatnid

CovePark_innan

4. Tvær útfærslur á skrifstofuhúsnæði úr gámum frá Bretlandi.

Riverside_SH

Riverside_London

5. Nýjasta draumahús okkar hjónanna.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.9.2014 - 11:01 - 6 ummæli

Stúdentagarðar – fyrirmynd að félagslegu húsnæði

Nokkur umræða skapaðist í gær við pistilinn Fallegir staurar eða félagslegt húsnæði um hvað hægt er að gera fyrir félagslegt lán frá Íbúðalánasjóði til leigufélags. Félagsstofnun stúdenta hefur notað lán frá ÍLS til að fjármagna byggingu á stúdentagörðum.  Þar starfa miklir kvenskörungar sem kunna að nýta aurana og veita um leið fjölbreyttum hópi námsmanna góða þjónustu.

Oddagarðar, nýjustu stúdentagarðarnir voru teknir í notkun árið 2013. Oddagarðar eru fjögur hús við Sæmundargötu sem eru ætlaðir einstaklingum og barnlausum pörum. Annars vegar er að ræða einstaklingsherbergi með eigin baðherbergi og sameiginlegu eldhúsi, þvottahúsi, setustofu og hjólageymslu.  Húsgögn fylgja herberginu. Hins vegar eru eins og tveggja herbergja paríbúðir.  Almenn geymsla fylgir hverri íbúð, þvottavél og þurrkari er í sameign.

Húsaleiga:

Skógargarðar voru teknir í notkun árin 2009 og 2010 og eru við Skógarveg.  Þar er að finna tveggja og þriggja herbergja íbúðir fyrir fjölskyldufólk.  Ekki er sameiginlegt þvottahús heldur er gert ráð fyrir þvottavél og þurrkara í hverri íbúð. Einnig er í boði nettenging í gegnum Ethernet HÍ.

Því til viðbótar eiga væntanlega einhverjir rétt á húsaleigubótum.

Einfalt, stílhreint og án íburðar. Berum þetta saman við að búa til dæmis í atvinnuhúsnæði eða í bílnum sínum.

Kannski gæti Félagsstofnun stúdenta verið fyrirmynd verkalýðsfélaganna um hvernig er hægt að stofna og reka vel leigufélög án gróðasjónarmiða fyrir sína félagsmenn? Jafnvel líka fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um hvernig byggja á hagkvæmar leiguíbúðir fyrir fjölbreyttan hóp fólks í fjárhagsvanda?

PS. Félagsstofnun stúdenta rekur Stúdentagarða, Bóksölu stúdenta, Hámu og Stúdentakjallarann, Leikskóla stúdenta og Stúdentamiðlun. Félagsgjald er innheimt af öllum námsmönnum sem skráðir eru í HÍ.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.9.2014 - 09:47 - 7 ummæli

Fallegir staurar eða félagslegt húsnæði?

Í könnun Velferðarráðuneytisins á úthlutun félagslegs húsnæðis hjá sjö stærstu sveitarfélögum landsins frá janúar til júní sl. kom fram að aðeins 8% þeirra sem voru á biðlista höfðu fengið úrlausn sinna mála.

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa á árunum 2010, 2011 og 2012 svarað því til í könnun Varasjóðs húsnæðismála, að skortur væri á leiguhúsnæði. Á sama tíma er lítið sem ekkert fjárfest í félagslegu leiguhúsnæði og í dag eru um 1800 manns á biðlista hjá sjö stærstu sveitarfélögunum og þar af um 550 í brýnni þörf bara hjá Reykjavíkurborg.

Engar umsóknir liggja fyrir hjá Íbúðalánasjóði frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um lán vegna kaupa eða byggingar á félagslegu leiguhúsnæði.  Margar góðar hugmyndir eru á lofti, ekki hvað síst hjá Reykjavíkurborg sem hefur kynnt viðamikla húsnæðisáætlun og lagt áherslu á uppbyggingu á svokölluðum Reykjavíkurhúsum.

En meira þarf til.

Það þarf að setja til hliðar fjármagn.

Er það fjármagn ekki til? Ef við höldum okkur áfram við Reykjavíkurborg þá er áætlaður kostnaður við breytingar á Borgartúninu um 230 milljónir króna. Áætlaður kostnaður við breytingar á Hofsvallagötunni er 18 milljónir.  Áætlaður kostnaður við veggmyndir eftir Erró í efra Breiðholti er 38,8 milljónir.

Samtals eru þetta tæpar 290 milljónir króna.  Ef þetta fjármagn hefði verið nýtt til byggingar eða kaupa á félagslegu leiguhúsnæði hefði borgin getað fjárfest í húsnæði fyrir tæpa 2,9 milljarða króna með 90% lánum Íbúðalánasjóðs til 50 ára.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.9.2014 - 12:52 - Rita ummæli

Frumkvæði HR í samgönguviku

Það er samgönguvika. Vikan þar sem við eigum víst öll að vera að ræða samgöngur.  Ég bý í Hafnarfirði og starfa í miðborg Reykjavíkur. Algengustu lausnirnar þegar við stjórnmálamennirnir tölum um samgönguvandann á SV-horninu eru að fleiri hjóli eða noti almenningssamgöngur  eða byggja fleiri vegi, mislæg gatnamót eða brýr.

Á meðan við stjórnmálamennirnir ræðum fram og tilbaka um þessar lausnir, var skemmtilegt að sjá grein í Fréttablaðinu um frumkvæði Háskólans í Reykjavík í samgönguvikunni. Þar fylgjast stúdentafélagsmeðlimir með samgöngumáta samnemenda sinna og umbuna þeim sem skilja bílinn eftir heima eða samnýta ferðir á bílum. Þeir sem koma á hjóli, gangandi, í strætó eða margir saman í bíl fá happdrættismiða. Þeir sem koma tveir saman í bíl fá ekki happdrættismiða en þeir fá að leggja í bílastæði nálægt skólanum. Þeir sem koma einir í bíl fá bílastæðin sem eru lengst í burtu.

HR-skutla?
Því til viðbótar er skólinn að óska eftir því að fá skutlu sem gæti farið á milli BSÍ og skólans og þannig auðveldað umferð að skólanum. Andri Sigurðsson, formaður stúdentafélagsins bendir á að strætóleiðir eru ekki góðar við skólann. „Hingað gengur aðeins ein strætóleið og það á hálftímafresti. Þar að auki passar hún illa við tímatöflur annarra leiða þannig að farþegar þurfa yfirleitt að bíða í að minnsta kosti korter ef þeir þurfa að skipta um vagn. Það er kannski ekki nógu góð hvatning til að fólk taki vagninn.“

Google býður starfsfólki sínu upp á að taka G-skutluna í vinnuna og hvetur fólk til að deila bílum.  Ástæðurnar eru ýmsar. Starfsmenn spara tíma og eldsneyti*. Google telur að G-skutlan dragi úr álagi á starfsmenn, minnkar þörf fyrir bílastæði og hjálpar fyrirtækinu að laða til sín rétta starfsmenn. Fyrir almenning dregur G-skutlan úr útblæstri, sparar notkun á eldsneyti og dregur úr umferð.

Ættum við öll að fara að fyrirmynd stúdentafélags HR? Ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef HÍ, Landspítalinn, stjórnarráðið og aðrir stórir vinnustaðir í miðborg Reykjavíkur myndu bjóða starfsmönnum sínum upp á skutlu eða umbun ef þeir fara fleiri en einn saman í bíl?

Kannski yrði skyndilega engin umferðarteppa á Bústaðarveginum?

*Til samanburðar er áætlaður mánaðarlegur kostnaður vegna ökutækja og almenningssamgangna 74.131 kr. fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.9.2014 - 13:53 - 2 ummæli

Mótum framtíð fæðingarorlofs

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag segir í stjórnarsáttmálanum. Nýlegar tölur um fæðingar á Íslandi sýna að árið 2013 var fyrsta árið frá 2003 þar sem frjósemi íslenskra kvenna var lægri en tveir, eða 1,932 börn á ævi hverrar konu.  Áætlað er að frjósemi þurfi að vera 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.  Konur eru einnig töluvert eldri nú þegar þær eignast sín fyrstu börn.

Í samanburði á milli landa sést að svigrúm kvenna til að samræma starfsframa og fjölskyldulíf skiptir máli þegar kemur að frjósemi.  Rannsóknir hafa þannig sýnt að mæður eru tilbúnari til að eignast fleiri börn ef feður eru virkir þátttakendur í að sinna umönnun barna og heimilisstörfum. Í þeim löndum þar sem konur eru þvingaðar til að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna, er hættan að æ fleiri velji vinnumarkaðinn. Hér á landi má sjá skýr tengsl á milli breytinga á lögum um fæðingarorlof og frjósemi.  Lækkun á greiðslum í fæðingarorlofi eftir hrun virðist hafa dregið úr þátttöku karla í töku fæðingarorlofs, en þátttaka þeirra hefur skipt miklu máli við að jafna hlut kynjanna í umönnun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur. Nú sjáum við að frjósemi kvenna minnkar.

Afleiðingin af lægri fæðingartíðni er að þjóðin eldist hraðar.

Í dag er Ísland með stysta fæðingarorlofið á Norðurlöndunum auk lengsta bilsins frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst. Tryggja þarf samfellu og að bæði mæður og feður geti sinnt börnunum sínum.

Af hverju breytum við ekki einfaldlega lögunum til að ná fram betri samfellu? Ástæðan er að of lítil sátt er um hvernig eigi að standa að breytingum á lögum um fæðingarorlof og styttingu bilsins á milli þess að fæðingarorlofi lýkur og leikskólaganga hefst. Mikilvæg forsenda þess að farið var í breytingar á lögum um fæðingarorlof á sínum tíma var aðkoma aðila vinnumarkaðarins og sátt um leiðir. Sú sátt virðist ekki vera fyrir hendi núna. Aðilar vinnumarkaðarins leggja ýmist áherslu á lækkun tryggingargjaldsins sem takmarkar verulega svigrúm til breytinga eða krefjast annað hvort lengingar fæðingarorlofsins eða hækkun greiðslu fyrst. Óhætt er að fullyrða að aukið framboð á daggæslu frá því að fæðingarorlofi lýkur var lítið til umræðu í síðustu sveitastjórnarkosningum og fá sveitarfélög bjóða upp á ungbarnaleikskóla.

Fjölskylduvænt samfélag kostar en það er líka dýrt að fæðingum fækki og þjóðin eldist hraðar. Það kostar líka að bakslag komi í jafnréttisbaráttuna og foreldrar séu tilneyddir að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna. Því mun ég á næstu dögum óska eftir tilnefningum frá aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í formlegan starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.  Aðeins saman getum við búið íslenskum fjölskyldum besta mögulega umhverfi og mótað framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.9.2014 - 07:13 - Rita ummæli

Gegn misnotkun barna

Norræn ráðstefna verður haldin í dag um kynferðisofbeldi gegn börnum – forvarnir á Norðurlöndunum.

Þar koma saman sérfræðingar af öllum Norðurlöndunum, fólk sem hefur þekkingu, áhuga og sterkan vilja til að vinna gegn þeim hræðilega glæp sem misnotkun barna felur í sér.

Misnotkun barna er víðfeðmt vandamál og geysilega flókið viðfangsefni. Ekkert samfélag er óhult en vandinn er mjög falinn. Lengi vel neituðu margir að horfast í augu við raunveruleikann og staðreyndin um misnotkun barna sem samfélagslegt mein lá í þagnargildi.

Til þess að baráttan gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og alvarlegum afleiðingum hennar verði árangursrík þarf skýra stefnu, mikla vinnu, öflugt og þverfaglegt samstarf og samvinnu þjóða á milli.  Í þessu ljósi var það merkur áfangi þegar Evrópuráðssamningurinn um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun var gerður í Lanzarote 25. október árið 2007. Nú – sex árum eftir að samningurinn var gerður – hafa öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað hann og 32 þeirra hafa lokið innleiðingu hans, þeirra á meðal Ísland sem lauk innleiðingunni haustið 2012.

Samfélagið er orðið miklu meðvitaðra en áður um vandann og hætt að afneita honum líkt og fyrr á árum.  Nú er tekið á málum sem áður voru hunsuð, þögguð niður eða fékkst aldrei nein vitneskja um.

En gera má betur, svo miklu betur.  Forsenda fyrir bættum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum er þekking.  Með því að deila þekkingu og reynslu af því sem gefist hefur vel munum við ná betri árangri, til að tryggja velferð barna okkar.

Ráðstefnan fer fram á ensku.  Hægt verður að fylgjast með henni á vef Velferðarráðuneytisins og hefst útsending 8.30.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.8.2014 - 08:35 - 4 ummæli

Góða fréttir úr atvinnulífinu

Við erum sannarlega á leið upp úr hjólförunum.

Það sjáum við ekki hvað síst í atvinnumálunum.  Á síðasta ári fjölgaði fólki í störfum á vinnumarkaðnum verulega, eða um 6000 samanborðið við árið 2012.  Í ár höfum við séð sömu þróun.  Á fyrsta ársfjórðungi 2014 voru að jafnaði um 3500 fleiri starfandi en á sama fjórðungi 2013.

Skemmtilegt að sjá aftur auglýst í gluggum vinnustaða eftir starfsmönnum. (Ljósmynd tekin 29.8.2014 í Garðabæ)

Skemmtilegt að sjá aftur auglýst í gluggum vinnustaða eftir starfsmönnum. (Ljósmynd tekin 29.8.2014 í Garðabæ)

 

OECD er bjartsýnt fyrir okkar hönd og spáir 4,2% atvinnuleysi á næsta ári, þremur prósentustigum minna en almennt gerist í OECD ríkjunum.  Það er vel skiljanlegt þegar horft er til þess að í maí 2014 voru aðeins Japan, Kórea og Austurríki  með minna atvinnuleysi en við samkvæmt OECD.  Við, Mexíkó og Þýskaland vorum svo saman með 4. minnsta atvinnuleysið af OECD ríkjunum.

Góðar fréttir úr atvinnulífinu gefa svo ástæðu til enn frekari bjartsýni.

———————–

PS. Vinsamlegast athugið að það getur tekið tíma fyrir athugasemdir að birtast.  Jafnframt áskil ég mér rétt til að hafna birtingu athugasemda.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur