Þriðjudagur 27.3.2012 - 12:59 - Rita ummæli

Framsóknarlambið og hindrunarhlaupið

“...People can’t do something themselves, they wanna tell you you can’t do it...” ~ Pursuit of Happyness

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.3.2012 - 09:51 - 6 ummæli

Íslensk börn og kynhegðun

Íslendingar byrja snemma að stunda kynlíf. Í könnun frá 2006 um heilbrigði skólabarna í heiminum kom í ljós að 29% íslenskra drengja á aldrinum 15-16 ára höfðu stundað kynmök. Hlutfallið var töluvert hærra meðal stúlkna, eða 36% og var einungis hærra hjá dönskum (40%) og grænlenskum (66%) stúlkum. Fjöldi bólfélaga er einnig hæstur hér á landi samanborið við önnur norræn ríki. Á sama tíma er notkun smokka með því lægsta á Vesturlöndum og notkun hormónagetnaðarvarna hefur dregist saman, að undanskilinni sölu á neyðargetnaðarvörn.

Helstu ástæður þess að börnin okkar byrja snemma að sofa hjá er vegna þrýstings frá vinahópnum, skortur á samskiptum og áfengisneysla.

Þessar staðreyndir eru ekki nýjar af nálinni þótt umræðan undanfarna daga um að stúlkur allt niður í ellefu ára gamlar séu að stunda kynlíf gefi annað til kynna. Við getum haldið áfram að hunsa þessar staðreyndir. Það hefur gengið ágætlega hingað til og árangurinn eftir því.

Tæp 40% stúlkna og fjórðungur drengja á aldrinum 16-19 ára höfðu séð eftir því að stunda kynlíf. Tíðni klamydíu og kynfæravartna er með því hæsta sem þekkist og barneignir í aldurshópnum 15-19 ára eru mun fleiri en í öðrum norrænum ríkjum. Árið 2008 var fjöldi barna á hverjar 1.000 konur 15-19 ára 14,6 á Íslandi, 9,3 í Noregi, 8,6 í Finnlandi og 6,0 í Danmörku og Svíþjóð.

Við verðum að axla ábyrgð sem samfélag á því að börnin okkar stunda kynlíf alltof snemma, á óheilbrigðan og óábyrgan máta og grípa til aðgerða. Við gerum það með því að auka fræðslu um kynlíf og mikilvægi þess að vera eldri og tilfinningalega tilbúinn þegar byrjað er að stunda kynlíf. Með því að fjölga unglingamóttökum og að framhaldsskólar séu með heilsugæslu. Það gerum við með því að auka aðgengi að ódýrari hormónagetnaðarvörnum og smokkum og forvarnir gegn áfengisneyslu.

Hættum að hunsa staðreyndir, – börnin okkar eiga einfaldlega betra skilið.

(Greinin birtist fyrst í FBL þann 20. mars 2012)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.3.2012 - 11:13 - 4 ummæli

Veðsetning framtíðartekna?

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hyggst kynna nýja fjármögnunarleið fyrir breska vegakerfið á næstunni.  Hugmyndin er að opinberir fjárfestinga- og lífeyrissjóðir geti keypt (‘lease’) ákveðna vegi með ákveðnum skilyrðum, ríkið fái fullt af pening og í staðinn fá viðkomandi sjóðir hlutdeild í bifreiðagjöldum (EN: ‘vehicle excise duty’) framtíðarinnar ef þeir uppfylla skilyrðin.  Ef þeir vilja byggja nýjar akgreinar eða nýja vegi þá gætu sjóðirnir lagt á veggjöld á vegfarendur.

Grikkir fóru þessa leið fyrir hrun, – og voru jafnvel enn þá sniðugri þar sem þeir veðsettu m.a. loft gegn framtíðartekjum ríkisins af loftferðargjöldum og nefndu skuldabréfin eftir gríska vindguðinum Aeoles.  Flott verðbréfafyrirtæki á borð við Goldman Sachs voru þeim til ráðgjafar, allt fram undir það síðasta.  Allar þessar skuldbindingar voru ekki í ríkisreikningnum og töldust því ekki með í skuldum ríkisins þrátt fyrir að ríkið væri að ábyrgjast þær og ráðstafa þar með framtíðartekjum.

Ítalía tók víst einnig þátt í þessu. Nokkur íslensk sveitarfélög tóku svona snúninga í gegnum fasteignafélög sín. Íslenska ríkið hefur verið einkar duglegt að taka á sig ýmsar skuldbindingar án þess að þess sjái stað í bókhaldinu.  Því var sérstök umræða um þær skuldbindingar á Alþingi í síðustu viku.

Áhugi hefur verið á að útvíkka þetta enn frekar m.a.  með vegaframkvæmdum, jarðgangagerð og byggingu nýs sjúkrahúss.

Við sjáum hvert þetta leiddi ýmis sveitarfélög hér á landi og Grikkland og Ítalíu.

Það getur verið mjög freistandi að fara þessa leið,  – en er það réttlætanlegt að veðsetja svona framtíðartekjur  og gera svo jafnframt ekki grein fyrir þeim í reikningum ríkisins?

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.3.2012 - 13:53 - 15 ummæli

Pólitískur forseti

Ýmsir hafa stigið fram og kvartað undan pólitísku framboði Ólafs Ragnars Grímssonar.  Þessa pólitík telja þeir sig sjá í yfirlýsingu forsetans þar sem hann vísar til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipun landsins og stöðu forsetans í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands.

Ég skil ekki alveg þessa umræðu.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur alltaf verið pólitískur forseti. Strax og Ólafur Ragnar gaf kost á sér í embætti forsetans lét hann vita að hann teldi synjunarrétt forsetans vera virkan.  Á sextán ára tímabili hefur hann beitt synjunarréttinum þrisvar í stórpólitískum málum.  Ég veit einnig að hann beitti sér mjög við stjórnarmyndun minnihluta stjórnar Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar.

Ég hef því aldrei efast um að hann geri sér ágætlega grein fyrir þeim pólitísku völdum sem forseti Íslands fer með samkvæmt núverandi stjórnarskrá.  Ég tel einnig að drög Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá munu stórefla vald forsetans ef þau verða að lögum.

Fyrirrennarar hans hafa einnig gert sér grein fyrir valdi sínu.  Vigdís Finnbogadóttir velti alvarlega fyrir sér að vísa EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. út frá fullveldissjónarmiðum. Kristján Eldjárn var tilbúinn með utanþingsstjórn áramótin 1979/80 þegar hann hafði beðið í hálft ár eftir að mynduð yrði starfhæf ríkisstjórn vegna umróts á vettvangi þjóðarmála og flokkakerfis. Ásgeir Ásgeirsson lét nokkuð til sín taka og Sveinn Björnsson sem ríkisstjóri skipaði einu utanþingsstjórn lýðveldisins.

Með tilliti til reynslunnar af forseta okkar er því einkennilegt að fólk sé enn þá að reyna að skikka hann til.  Að fá hann til að átta sig á að eiginlega sé ekkert að marka það mikla vald sem stjórnarskráin þó gefur forsetanum.

Það mun ekki gerast.

Nær væri að fólk liti til Ólafs Ragnars sem fyrirmynd.  Það þarf að hætta að stjórnast af hefðum og venjum þegar kemur að forsetaembættinu frekar en stjórnarskránni og hvetja hæft og áhugasamt fólk til að gefa kost á sér í eitt valdamesta embætti landsins.

Þannig fengi þjóðin eitthvað val og án raunverulegs vals virkar lýðræðið ekki.

Og varla getur einn helsti talsmaður virks lýðræðis, Ólafur Ragnar Grímsson, haft mikið á móti því.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.3.2012 - 10:02 - Rita ummæli

Um tillögur stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð mun á næstu dögum funda með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um drög að nýrri stjórnarskrá. Í ljósi þess vil ég tjá mig um drögin og vona að fundurinn muni svara ýmsum þeim spurningum sem ég hef haft varðandi málið.

Ég vil byrja á að taka fram að ég er  sátt við tillögur stjórnlagaráðsins varðandi m.a. auðlindaákvæðið, ákvæði um að ráðherra skuli ekki sitja á Alþingi, skýr ákvæði um bann við afturvirkni laga, tillögu um kirkjuskipan og ákvæði um sveitarfélög.  Utanríkiskaflinn er áhugaverður og ég geri engar efnislegar athugasemdir við hann. Mannréttindakaflinn er mjög ítarlegur, að mínu mati of ítarlegur, og velta má fyrir sér hvernig við ætlum okkur að ná að tryggja öll þessi réttindi.  Nógu erfitt hefur verið að fylgja eftir núverandi mannréttindakafla og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist.

Hér eru þó þau helstu atriði sem ég hef velt fyrir mér:

Beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur.  Í tillögum stjórnlagaráðsins er lagt til að forsetinn haldi sínum rétti til að synja lögum staðfestingar og vísa þannig málum í þjóðaratkvæðagreiðslu (60.gr.).  Einnig er lagt til að 10% kjósenda (65.gr.) geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt sem og að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi og 10% kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga.  Alþingi geti þá lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps, og verði frumvarp kjósenda ekki dregið til baka þá verði kosið um það í þjóðaratkvæði (66.gr.)  Takmarkanir eru settar á hvaða mál þjóðin getur óskað eftir að fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (67.gr.) en sams konar takmarkanir eru ekki lagðar til á vald forsetans.  Ég hefði viljað fella út rétt forsetans til að synja lögum staðfestingar og láta þjóðina hafa beina aðkomu að þessu sbr. ákvæði í 65. gr. og 66. gr. Því skil ég ekki rökin fyrir því að halda inni handahófskenndum rétti forsetans til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar sjálf þjóðin er komin með beina aðkomu. 

Þingsköp Alþingis.  Mjög nákvæmlega er farið í þingsköp Alþingis í frumvarpi stjórnlagaráðs.  Þar eru ákvæði um aukið vægi atkvæða til að forseta Alþingis nái kjöri (52.gr.), að frumvörp og mál skulu lögð fram til kynningar á þinginu áður en þau koma til efnislegrar meðferðar (57.-58.gr.).  Mun nákvæmari ákvæði eru komin inn um nefndir þingsins s.s. um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fjárlaganefnd.  Einnig eru komin ákvæði um undirstofnanir Alþingis (74.gr. og 75. gr.).  Spyrja má hvort aðrar stofnanir sem við kunnum að stofan síðar og heyra undir Alþingi verði áhrifaminni, eða takmarkar þetta vald Alþingis til að setja á stofn fleiri stofnanir sem heyra undir Alþingi sbr. frumvarp  mitt um Þjóðhagsstofu Alþingis eða Vigdísar Hauksdóttur um Lagaskrifstofu Alþingis?  Mér skilst að rökstuðningurinn fyrir þessu sé fyrst og fremst að hér eigi að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdavaldinu.  Mitt mat er að Alþingi eigi einfaldlega að setja sér sjálft reglur varðandi þingsköp.  Mun árangursríkari leið til að tryggja sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu hefði verið að setja ákvæði um að minnihluti Alþingis gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu (sbr.  dönsku stjórnarskrána) samhliða ákvæði um að ráðherrar sætu ekki á Alþingi.

Forseti Íslands.  Vald forsetans og hlutverk er útvíkkað mjög í tillögu stjórnlagaráðs. Forseti skal leggja fram tillögu um forsætisráðherra sem Alþingi kýs svo um (90.gr.).  Hann skal jafnframt samþykkja skipun ráðherra á dómurum og ríkissaksóknara. Hann skipar einnig formann nefndar sem leggur fram tillögur um önnur æðstu embætti ríkisins (96.gr.).  Engar sambærilegar takmarkanir eru settar á synjunarrétt forsetans líkt og á kjósendur (67.gr.).  Var hugsun stjórnlagaráðsins að styrkja þannig enn frekar vald forsetans?  Fara frekar út í forsetaræði en þingræði? Ég ítreka einnig athugasemdir mínar við synjunarrétt forsetans á lögum þrátt fyrir ákvæði um beina aðkomu þess sem veitir umboðið, þjóðarinnar sjálfrar.

Stjórnarskrárbreytingar.  Í 113. gr. er lagt til að stjórnarskrárbreytingar fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún sé bindandi.  Jafnframt að ef 5/6 hlutar Alþingis samþykki stjórnarskrárbreytinguna þá geti hún strax tekið gildi.  Ég fagna því að fyrirkomulagið sé einfaldað en er alfarið á móti því að Alþingi geti einhliða gert breytingar á stjórnarskrá án þess að bera það upp við þjóðina.  Þjóðin á alltaf að hafa aðkomu að breytingum að stjórnarskrá.  Aukinn meirihluti á Alþingi er engin trygging gegn varahugaverðum breytingum á stjórnarskránni né öðrum lögum líkt og reynslan ætti að kenna okkur.

Kosningar til Alþingis.  Í 39. gr. laganna er fjallað um Alþingiskosningar.  Ákvæðið er mjög nákvæmt. Því velti ég fyrir mér hvort ekki væri rétt að hafa ákvæðið opnara.  Krafa yrði gerð í stjórnarskrá um ákveðin almenn sjónarmið.  Dæmi um þessi sjónarmið að mínu mati eru að kosningakerfið endurspegli dreifingu í búsetu landsmanna, jafnræði kynjanna, ákveðinn fjöldi þingmanna (jafnvel hámark og lágmark), kjörtímabil,  hverjir hafi kosningarétt og að einhvers konar persónukjör yrði að vera í kosningalögum.  Einnig þyrfti einhvers konar minnihlutavernd gegn ofríki meirihlutans. Nánari reglur um framkvæmd alþingiskosninga og úthlutun þingsæta verði sett í kosningalög.  Breytingar á kosningalögum verði aðeins gerðar með auknum meirihluta t.d. ¾ hluta atkvæða og geti ekki komið til framkvæmda fyrr en sex mánuðum eftir að þau taka gildi.  Sama þyrfti hugsanlega að gilda um aðrar kosningar.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.3.2012 - 22:29 - 4 ummæli

Ekki benda á mig…

Ég heyrði sögu í dag af konu sem fór yfir Hellisheiðina síðustu nótt.  Mikil hálka var og slæm færð.  Vegfarendur voru í erfiðleikum út um allt.  Hún ákvað að hringja í lögregluna og spyrja af hverju heiðinni væri ekki lokað.

Lögreglan sagði það ekki í hennar verkahring.  Vegagerðin ætti að sjá um þetta.

Hún hringdi næst í Vegagerðina og spurði af hverju þeir væru ekki búnir að loka heiðinni.

Svarið var að lögreglan ætti að sjá um þetta.

Hljómar þetta kunnuglega?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.3.2012 - 10:36 - 7 ummæli

Hann eða hún?

„Ægilega er hann sætur,“ sagði elskuleg eldri kona við mig um leið og hún rétti mér bláa snuðið sem dóttir mín hafði misst.  „Takk, en þetta er stúlka,“ datt sjálfkrafa upp úr mér.  „Ó, afsakið,“ hrökk upp úr konunni.

Töluverður þrýstingur er á verðandi foreldra að upplýsa strax um kynið við sónarskoðun.  Þetta er oft fyrsta spurningin þegar tilkynnt er um að nýtt barn sé fætt, – stundum jafnvel á undan spurningunni um hvernig hafi gengið og hvort öllum líði ekki vel.  Kynið stýrir svo m.a.  litnum á slaufunni á pakkanum, húfunni og snuðinu.

Af hverju skiptir það okkur svo miklu máli að kyngreina börnin okkar, jafnvel í samskiptum við ókunnuga?

Ég fór að velta þessari spurningu fyrir mér eftir að hafa fylgst undanfarnar vikur með heitri umræðu í sænskum fjölmiðlum um kyn og notkun á orðum sem segja til um kyn.  Tillaga hefur komið fram um að í stað orðanna hon eða han verði orðið hen notað.

Viðbrögðin við umræðunni létu ekki á sér standa.

Foreldrar sem komu fram og sögðust aldrei tala um börnin sín sem ákveðið kyn eða klæða þau eftir ákveðnum litakóða fengu mjög neikvæð viðbrögð.  Framleiðendur heimildarmyndar um kynin sögðu frá því hvernig þeir urðu fyrir árásum vegna þess að þeir klæddu sig einfaldlega á „rangan“ máta á röngum stað.  Barnabókarhöfundur sem notaði orðið hen vakti gífurleg viðbrögð í sænskum netheimum.

Dæmi um þetta hér á landi gæti verið að í stað orðanna hún og hann yrði notað honn (…við yrðum svo að finna fínar fallbeygingar, ólíkt Svíunum…)

En af hverju skiptir þetta máli? Er það vegna þess að þetta er svo stór hluti af sjálfsmynd okkar?  Sjálfsmynd samfélagsins á því hvernig við eigum að vera, – sem karl eða kona? Vitum við ekki án orða sem greina kynin í sundur hvernig við eigum að haga okkur?

Né hvort kyn við erum?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.2.2012 - 11:03 - Rita ummæli

Ríkisstjórn og hugrekkið?

Í gær spurði ég efnahags- og viðskiptaráðherra hvað ríkisstjórnin hygðist gera varðandi ítrekaðar niðurstöður Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána.  Ég spurði hvort ráðherrann ætlar að afnema reikniregluna í lögum nr. 151/2010 sem felur í sér afturvirkni vaxtaútreikningsins gengistryggðra lána.  Ég spurði hvort ráðherrann ætlar að samræma viðbrögð á milli ráðuneyta, í stað þess að vísa bara ábyrgð frá sér milli ráðuneyta og ólíkra stofnana? Ég spurði hvort ráðherrann ætlar að tryggja gjafsókn vegna fordæmisgefandi mála sbr. frumvarp Álfheiðar Ingadóttur þess efnis,  flýtimeðferð þessara mála fyrir dómstólum sbr. þingmál mín og Sigurðar Kára Kristjánssonar eða beita sér fyrir að lögum verði breytt svo dómsúrskurður þurfi að liggja fyrir við vörslusviptingu?

Því miður var fátt um svör.

Hvernig væri nú að sýna smá kjark, smá hugrekki og fara að beita sér í þessum málum?

Smá manndóm, takk.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2012 - 09:01 - 14 ummæli

Salvör í framboð?

Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs og forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ, var í sviðsljósi fjölmiðlanna í gær.

Hún er ósátt við að vera kölluð aftur til starfa fyrir stjórnlagaráðið og telur skort á samráði í samráðsferlinu. Því skrifaði hún bréf til forsætisnefndar Alþingis og tilkynnti að hún yrði erlendis ákveðna daga. Að vísu voru allir stjórnlagaráðsfulltrúarnir (líka Salvör…) búnir að segjast vera tilbúnir til samráðs.

Jafnvel óskað sérstaklega eftir því við Alþingi að það yrði formlegt.

En Salvör er að fara til útlanda, Skype virkar ekki þar og lítill áhugi á að bjóða upp á annan fundartíma.

Er hún kannski farin að íhuga annan vettvang?

Kannski Bessastaði?

Í því framboði hentar ef til vill ekki að hafa komið of mikið að þessu blessaða stjórnarskrármáli…

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.2.2012 - 14:02 - 14 ummæli

Verðtrygging er ekki lögmál

Þegar verðtryggingu var komið á var um neyðarráðstöfun að ræða sem tryggja átti sparifé, lánsfé og laun. Forsendur þessara aðgerða voru að verðbólga hafði verið langtum meiri hér en hjá öðrum þróuðum ríkjum og vextir voru ekki frjálsir, sem kom í veg fyrir að fjármálastofnanir gætu brugðist við verðbólgunni. Það leiddi nánast til hruns á lánsfjármörkuðum og samhliða óhóflegrar erlendrar skuldasöfnunar. Þessar forsendur eru ekki lengur til staðar. Vaxtafrelsi tryggir að fjármálastofnanir geta brugðist við verðbólgu, ofgnótt er af innlendu lánsfjármagni og verðbólga er ekki mikið meiri hér en í öðrum þróuðum ríkjum í sögulegu samhengi.

Af hverju má þá ekki losa neytendur undan oki verðtryggingarinnar?

Nokkrar af þeim leiðum sem nefndar hafa verið til að afnema hana af samningnum neytenda eru bann við verðtryggingu neytendalána, breyting á vísitölunni og þak á hækkun verðbóta á ársgrundvelli. Þessar tillögur hafa verið gagnrýndar með þeim rökum að afnám í skrefum eða hreint bann muni skerða eignarrétt kröfueigenda og fela í sér hugsanlega afturvirkni.

Frá því almenn verðtrygging var innleidd hafa allar þessar leiðir verið farnar með lagasetningu og taldar standast stjórnarskrána. Árið 1972 ógiltu stjórnvöld verðtryggingu húsnæðislána með því að setja 7,75% hámark á verðtryggingu og vexti nokkurra árganga lána. Árið 1983 var útreikningi vísitölunnar breytt og aftur 1989. Árið 1995 var samsett lánskjaravísitala afnumin og vísitala neysluverðs sett í hennar stað og eldri lán tengd henni. Með breytingunni á vísitölunni væri því bæði hægt að draga úr hækkun lánanna og nýta til leiðréttingar lána. Verðtrygging hefur verið afnumin af launum og því ekkert því til fyrirstöðu að afnema verðtryggingu af neytendalánum.

Krafan um verðtryggingu varðar ekki verðgildi fjármuna heldur ávöxtunarkröfu fjármagnseigenda. Á síðustu fjórum árum hefur almenningur séð skuldir sínar hækka um tugi prósenta vegna verðbóta. Á sama tíma hefur verðmæti eigna og launatekjur staðið í stað eða lækkað.

Krafan um verðtryggingu er orðin krafa okrarans um pund af holdi.

Það er mál að linni.

(Grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur