Fimmtudagur 19.03.2009 - 17:46 - 1 ummæli

Hvað er líkamsvirðing?


Líkamsvirðing er að bera virðingu fyrir líkama sínum og annarra. Þegar við berum virðingu fyrir líkama okkar þá hugsum við vel um hann. Við reynum ekki að breyta honum eða „lagfæra“ hann heldur tökum honum eins og hann er. Við treystum þeim merkjum sem hann sendir okkur og förum eftir þeim. Þegar við erum svöng eða þreytt þá gefum við líkama okkar það sem hann þarfnast. Við reynum ekki að sigrast á honum, pína hann áfram eða refsa honum. Alltof margir hafa gert líkama sinn að óvini sínum. Viðhorf þeirra einkennist af hörku, óraunhæfum kröfum, vonbrigðum og óánægju. Þetta er uppskrift að mikilli óhamingju því við erum föst í líkama okkar til æviloka. Það er eins gott að okkur líði vel þar.

Líkamsvirðing vísar einnig til þess að allir líkamar eiga rétt á sömu virðingu. Þetta orð er herör gegn þeim fordómum og mismunun sem ríkja í tengslum við líkamsvöxt í vestrænum samfélögum. Við berum meiri virðingu fyrir fólki sem er grannvaxið heldur en þeim sem eru feitlagnir. Þetta er staðreynd. Þetta er samt ekki réttlátt, frekar en að bera meiri virðingu fyrir körlum en konum, ungu fólki en gömlu, hvítu en svörtu og svo mætti lengi telja. Allir fordómar eru samfélaginu til minnkunar og fórnarlömbunum til ómælds sársauka.

Líkamsvirðing er mannréttindayfirlýsing. Við eigum öll rétt á því að lifa í sátt við okkur sjálf og líða vel í eigin skinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Daníel Tryggvi

    Þarna er ég þér alveg innilega sammála kæra systir. Ég var lengi vel í baráttu við minn eigin líkama sökum þess að mér fannst hann einmitt ekki vera nóg grannur.

    Nú hef ég þó tekið hann í sátt og viti menn hvað gerðist, ég eignaðist samstundis frábæra kærustu og yndislega fjölskyldu og eins og það hafi ekki verið nóg heldur þá fóru að streyma inn tilboðin að vinna sem módel þar sem að ég þyrfti einungis að sýna hálfnakinn líkama minn ;).

    Þetta fékk ég allt án þess að gera svo mikið sem eina magaæfingu 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com