Þriðjudagur 07.04.2009 - 21:34 - Rita ummæli

Heimur batnandi fer


Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að íslenskir karlmenn verði allra karla elstir í Evrópu. Íslenskir karlmenn geta nú átt von á því að verða tæplega áttræðir og konurnar 83ja ára. Til samanburðar var meðalævilengd Íslendinga fyrir 150 árum um 40 ár. Lífslíkur hér á landi hafa aukist jafnt og þétt alla 20. öldina og bera skýran vott um batnandi heilsufar, velmegun og velsæld.

Þetta kann að koma þeim á óvart sem lagt hafa hlustir við þann endalausa hræðsluáróður um slæmar lífsvenjur, offitu og yfirvofandi krísuástand í heilbrigðismálum sem dunið hefur á okkur undanfarinn áragtug. Miðað við þá umfjöllun mætti halda að heilsufar hér á landi væri einkar slæmt. En það er öðru nær. Við lifum mun heilbrigðara lífi nú en fyrir nokkrum áratugum síðan. Mun færri reykja nú en áður, mun fleiri hreyfa sig í frístundum, fituneysla hefur dregist saman, neysla grænmetis og ávaxta hefur aukist og við drekkum meira vatn. Meðallegutími á sjúkrahúsum hefur minnkað úr 7 dögum árið 1990 í 5,4 daga árið 2005. Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hefur dregist saman og dauðsföllum af þeirra völdum fækkað stórlega. Tíðni krabbameina hefur að vísu aukist á undanförnum árum, en lífslíkur þeirra sem greinast eru engu að síður betri en áður. Til dæmis lifðu aðeins 19% karla og 32% kvenna, sem greindust með krabbamein á 6. áratugnum, í fimm ár eða lengur. Í dag er þetta hlutfall 59% fyrir karla og 68% fyrir konur.
Þetta er ágætt að hafa í huga þegar hörmungarspámenn hefja sinn trumbuslátt um versnandi heilsufar þjóðarinnar. Staðreyndin er sú að við höfum aldrei haft það betra.
Heimildir:
Könnun á mataræði Íslendinga 2002. Manneldisráð Íslands.
Frétt um skýrslu OECD á vef Hagstofu Íslands 2007.
Heilbrigðismál, 2007, bls. 34.
Hjartavernd, 2000, bls. 19.
Hjartavernd, 2004, bls. 6-11.


Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com