Laugardagur 22.05.2010 - 10:02 - 7 ummæli

Þéttvaxin börn frekar fyrir aðkasti

bullies

Í síðustu viku var sagt frá rannsókn í New York Times sem sýndi að þéttvaxin börn verða frekar fyrir stríðni og aðkasti af hálfu skólafélaga sinna en önnur börn. Rannsóknin, sem var unnin í Bandaríkjunum og birtist fyrir skemmstu í tímaritinu Pediatrics, sýndi að grunnkólabörn eru 13% líklegri til þess að verða fyrir aðkasti jafnaldra ef þau eru of þung samkvæmt stöðlum en séu þau of feit aukast líkurnar um 60%.  Rannsakendurnir skoðuðu hvort aðrir þættir, eins og kynþáttur, námsárangur eða efnahagsstaða barnanna skiptu máli en svo reyndist ekki vera: Ef börn eru feit er líklegt að þau verði fyrir áreitni, hvort sem þau eru fátæk eða rík, hvít eða svört, gáfnaljós eða tossar.

Þessar niðurstöður ættu að skoðast í ljósi þeirra viðhorfa sem almennt ríkja gagnvart fitu og feitu fólki. Þegar fita er álitin opinber sönnun um veikleika og líkamsvöxtur er talinn undir persónulegri stjórn er auðvelt að líta niður á þann feita. Hann er auðvitað bara aumingi sem getur sjálfum sér um kennt. Ef hann hefði eitthvað bein í nefinu (væri ekki svona latur, gráðugur, veiklundaður eða í mikilli afneitun), þá væri hann ekki feitur. Ekki satt?

Það eru einmitt þessi viðhorf sem liggja til grundvallar fitufordómum. Einmitt þessi viðhorf taka börnin okkar inn í gegnum félagsmótun og verða til þess að þau mismuna félögum sínum eftir líkamsvexti―eða lenda í slíkum hremmingum sjálf.

Flestar rannsóknir á þessu sviði benda til þess að feit börn eigi sér hvergi griðarstað frá andúð og mismunun. Þau verða fyrir neikvæðum athugasemdum, stríðni, fordómum og líkamlegu aðkasti í skólanum, meðal krakkanna í hverfinu og jafnvel heima hjá sér, þar sem foreldrar og systkini koma með aðfinnslur og athugasemdir um holdafar þeirra. Það er ótrúlega sorglegt að kynna sér þessar rannsóknir og hvarvetna blasir við staðfesting á því að fitufordómar séu síðasta leyfilega tegund fordóma í vestrænum samfélögum.

Margir vilja nota þetta sem rök fyrir því að leggjast enn harðar í forvarnir og meðferð gegn offitu. En þessi vandi verður ekki leystur með því að losna við feitu börnin. Í fyrsta lagi mun það ekki takast því fjölbreytileiki líkamsvaxtar er staðreynd og það verður alltaf einhver sem er feitur. Ef ekki er unnið með gildi og viðhorf samfélagsins til holdafars verður sá hópur sem er feitur (hvort sem hann er fjölmennur eða fámennur) áfram fyrir neikvæðum viðbrögðum. Í öðru lagi er siðferðilega rangt að bregðast við vandamáli, sem stafar af skorti á mannvirðingu og umburðarlyndi, með því að losna við eða breyta hópnum sem um ræðir. Það á ekki að bregðast við kynþáttafordómum með því að takmarka innflutning fólks af ólíkum uppruna. Það á ekki að bregðast við fordómum í garð samkynhneigðra með því að fara fram á að samkynhneigt fólk sýni ekki hegðun sem opinberar kynhneigð þeirra, s.s. að leiðast eða kyssast almannafæri.

Neikvæð viðhorf, fordómar og mismunun eru ekki vandamál sem þolendunum ber að leysa, heldur gerendunum. Þeir gera það hins vegar sjaldnast sjálfviljugir heldur eru mannfjandsamleg viðhorf kveðin í kútinn þegar nógu stórir hópar fólks þora að taka afstöðu gegn þeim og tala gegn þeim hvenær sem færi gefst.

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (7)

 • ..hvaða skoðun hefur þú á því að offita er oft (ekki alltaf ) afleiðing að óheilbrigðum lífstíl (óhollu matarræði og hreyfingaleysi) og þar sem börn eiga í hlut þá eru þau í raun „fórnarlömb“ foreldra sinna hvað varðar lífstíl.

  Finnst þér ekki að foreldrar þurfi að bera meiri ábyrgð hvað varðar holdafar barnanna sinna og ef það er að verða fyrir aðkasti vegna offitu þá einfaldlega á að breyta lífstíl fjölskyldunnar.

  Ég er ekki að meina að setja barnið eitt og sér í megrun, heldur gera breytingu á lífstíl fjölskyldunnar í heild sinni og þar af leiðandi vinna sig út úr vandanum ?

  Oft er það nefnilega þannig að offitu er hægt að laga á einfaldan og heilbrigðan hátt og hjá börnum sérstaklega er hægt að „rétta“ úr ástandinu á uppbyggjandi hátt.

  Ég er ekki að segja að þetta sé einfalt og auðvelt fyrir foreldrana að breyta um lífstíl, en algjörlega gerlegt og þess virði fyrir barnið ef það fær heilbrigðara útlit og líðan í kjölfarið.

  Mér finnst a.m.k þegar barn kemur grátandi heim úr skólanum yfir því að því er alltaf strítt fyrir að vera of feitt, þá eigi foreldrar að hlusta á barnið og taka til heima hjá sér í matarræði og lífstíl (ef það er vandamálið) án þess í raun að barnið finni fyrir því að það sé verið að láta það sérstaklega í megrun, eða holdafar barnsins sé vandamál.

  Æj.. vonandi skylst það sem ég er að segja…. Ég fann það bara svo rosalega á mínu heimili hvað það gerði allri fjölskyldunni gott að ég breytti um lífstíl þar sem það leiddi af sér að fjölskyldumeðlimir fóru að borða hollt, hreyfa sig og grennast án þess að vera í megrun 🙂 og í kjölfarið á því fór öllum að líða betur, bæði andlega og líkamlega.

 • Harpa Kristjánsdóttir

  Það mætti nú líka kenna börnum umburðarlyndi og að það séu ekki allir eins. Hvaðan læra börn að það sé ljótt að vera feitur?

 • Sigrún Daníelsd. þarfur pistill hjá þér. Fitufordómar og heilsufasismi ríða röftum í samfélaginu jafn gagnrýnislaust og gróðabullið gerði fyrir hrun.

  Ég lenti í átröskun án þess að vera feit og var grönn langt fram yfir fertugt. Ég vann líkamlega erfiðisvinnu en langaði samt í ræktina. Hafði gaman af púlinu og gott af teygjunum því vinnunni minni fylgdi vöðvabólga. Ég naut mín þarna, ég var sterk, ég tók flestu armbeygjurnar, lyfti þyngstu lóðunum og oftast, hafði líka mesta úthaldið. Fannst gaman af því því ég hafði alltaf verið lélegust í leikfimi í grunnskóla.

  Kortinu mínu fylgdi ókeypis fitumæling. Ég var 39 ára gömul, 164 cm, 57 kíló (og mössuð). Mér var sagt að missa 3 kíló. Á því augnabliki sá ég í gegnum blekkinguna og svaraði: Þetta eru öfgar. Ég er að verða fertug og ég ætla ekki að fara að skrölta í fermingafötunum mínum.

  Sigrún Þöll: Þú segir það hreint út, þú ert heilsufasisti full af fitufordómum. Það er eðli náttúrunnar að foreldri næri börn sín og andstætt eðli nátúrunnar að neita þeim um að borða sig södd af mat.

  Börnin mín eru öll grönn en mikð matfólk . Ég nýt þess og sjá og heyra þau njóta þess að borða. Okkur finnst gott að borða og borðum mikið og það setur enginn út á það af því við erum grönn. En ef við værum feit værum við aumingjar.

  En börnunum mínum var ekki skutlað í skólann, heldur ekki til vina sinna eða frá. Mundu, samt eru þau grönn. Þeim var ekki einu sinni skutlað í íþróttir, enda leiddist þeim svoleiðis. Voru meira í brennó eða fallin spíta. Þau eru samt ekki alkar eða dópistar, Er málið að skutla börnunum og svelta?

 • Danton-María

  Það er einkennilegt að kalla fólk með aðrar skoðanir „heilsufasista fullan af fitufordómum“ af því það er með aðrar skoðanir.

  Ég er alveg sammála Sigrúnu Þöll í þessum efnum. Offita hjá börnum er alvarlegur heilsuvandi sem brýnt er að taka á. Mér finnst augljóst að það þurfi að taka á vandanum með því að fjölskyldan taki upp heilbrigðan lífsstíl – vitanlega án þess að það fari út í öfgar.

  Ég er ekki að tala um að svelta börn og efast um að nokkur hér ætli sér það, enda snýst breyttur lífsstíll ekki um það. Ég bendi á góða grein á doktor.is, Að léttast á heilbrigðan hátt.

 • Mér finnst nú afar einkennilegt að setja offitu barna undir sama hatt og samkynhneigð og kynþátt. Annað er meðfætt og hitt ekki.

  Annars er ég hjartanlega sammála því að þetta er á engan hátt við börnin að sakast. Og mér persónulega finnst þetta viðhorf til þykkra barna vera minnkandi viðhorf sökum þess hversu mörg börn eru í ofþyngd. En það er stór munur á því að vilja færa samfélagið frá anorexíu dýrkun yfir í það að heilsufarslega hættuleg offita sé eitthvað sem er í lagi. En þetta er á engan hátt barnanna heldur foreldrana.

  Er sammála Sigrúnu með breytta lífshætti. Ég á barn sem borðar mjög mikið og vel. En ég stjórna því líka hvað það er sem hann borðar. Það er mitt að velja holla fæðu á diskinn hans. Það er engin hér sem minnist á að svelta börnin sín eins og Guðný talar um, aðeins að kynna þau fyrir heilbrigðari möguleikum.

 • Sigrún Þöll. En er það á ábyrgð fórnarlama stríðni að breyta sér til þess að „fitta betur inn“? Ef barn kemur grátandi heim úr skólanum vegna stríðni, hver svo sem ástæða stríðninnar er, þá er auðvitað rangt að koma því inn hjá barninu að stríðnin gæti verið vegna þess að það sé eitthvað að því. Að það sé feitt (eða með ljótt hár, ljóta skólatösku etc.) og þurfi að breyta sér til að vera ekki strítt.

  Mér finnst það alveg kolrangt.

 • Varðandi börn og næringu þá finnst mér þetta vera þörf áminning um að allt er gott í hófi:
  http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/8620231.stm

  Börn þurfa fitu og sykur alveg eins og grænmeti og ávexti. Og við þurfum að elska þau grönn og feit. Það sem skiptir máli er að þau séu heilbrigð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com