Sunnudagur 02.01.2011 - 19:16 - 4 ummæli

Ekki átak heldur bylting!

Eitt algengasta nýársheit Vesturlandabúa hefur löngum verið að sverja upp á líf og dauða að losna við jólakílóin og taka á móti vorinu í nýjum og stæltari kroppi. Þessi staðreynd talar auðvitað sínu máli um árangur megrunar á slóðum þar sem líkamsþyngd hefur ekki minnkað heldur aukist til muna með tímanum. Þau sem ekki þekkja mistök fortíðarinnar eru dæmd til að gera þau aftur.

Megrun virkar ekki. Í flestum tilfellum skilar hún engu til lengri tíma af því fólk þyngist alltaf aftur. Þetta hefur hver rannsóknin á fætur annarri sýnt og þess vegna er ekkert að marka reynslusögur sem ná aðeins nokkra mánuði eða ár aftur í tímann. Stundum endar fólk meira að segja enn þyngra en það var fyrir megrun af því líkaminn vill byrgja sig rækilega upp til að eiga forða fyrir næstu hungursneið. Og stundum verður megrun upphafið að áralangri baráttu við átröskun. Megrun er rúlletta þar sem líkur á farsælli útkomu eru einfaldlega hverfandi.

Með þetta í huga ættum við að velta fyrir okkur hvort ef til vill sé heillavænlegra að strengja öðruvísi áramótaheit. Kannski að einbeita okkur að því að hugsa um heilsu og velferð óháð öllum ytri mælikvörðum og staðalmyndum? Að læra að elska okkur sjálf þrátt fyrir óhjákvæmilegan ófullkomnleika? Að bera höfuðið hátt og krefjast virðingar sama hvernig við lítum út? Að læra að meta fleiri hluti í lífinu en fituprósentu og kílóatölu? Hvernig væri að strengja þess heit að vinna gegn þeirri óhamingju og vansæld sem fylgir megrunarmenningunni í stað þess að styrkja hana með hlýðni og undirgefni?

Um þessar mundir er hafið byltingarátak á samskiptasíðunni Facebook þar sem fólk er hvatt til þess að taka afstöðu gegn niðurrífandi skilaboðum um líkamlega yfirbót sem tröllríða öllu í byrjun árs. Hættum að láta viðskiptaöfl, sem nærast á óhamingju og sjálfsfyrirlitningu, stjórna því hvernig okkur líður. Ef þú tekur afstöðu þá mun manneskjulegra umhverfi taka á móti börnunum þínum þegar þau vaxa úr grasi. Ef ekki þá bíður þeirra sama angist og hefur plagað þig í lífinu.

Gleðilegt nýár!

Flokkar: Líkamsvirðing · Megrun · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (4)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com