Fimmtudagur 23.06.2011 - 22:02 - 3 ummæli

Samfélagsbreytingar

Eins og kom fram í síðasta pistli þá þurfum við að gera breytingar í samfélaginu okkar ef við viljum draga úr tíðni átraskana.  Fyrir nokkrum áratugum síðan voru átraskanir nánast óþekktar. Þær voru afar sjaldgæf tilfelli sem dæmigerður geðlæknir gat átt von á að hitta fyrir í mesta lagi einu sinni eða tvisvar á öllum sínum starfsferli. Það er einkar áhugavert að lesa frásagnir meðferðaraðila frá síðustu áratugum 20. aldar af því þegar átröskunartilfellin fóru allt í einu að streyma inn til meðferðar. Fólk var í öngum sínum: Hvað hafði eiginlega gerst?

Þessi holskefla, sem hefur haldist nokkuð óslitin síðan, varð kveikjan að öflugu rannsóknarstarfi á átröskunum og tilurð þeirra. Þá fóru rannsakendur fyrst að átta sig almennilega á öllum þeim breytingum sem orðið höfðu á viðhorfum til holdafars og kröfum þar að lútandi á 20. öld – sérstaklega hvað varðar konur. Á síðustu öld varð til dæmis bylting á sviði fjölmiðlunar sem skapaði nýja og áður óþekkta möguleika á að móta og hafa áhrif á skoðanir fjöldans. Rannsóknir á því hvernig skilaboð fjölmiðla um útlit og holdafar kvenna hafa þróast í áranna rás hafa náð að varpa einstaklega skýru ljósi á vaxandi óánægju kvenna með útlit sitt og líkamsvöxt. Hér eru nokkrar þeirra:

Í klassískri rannsókn frá árinu 1980 voru hæð, þyngd og ummál forsíðustúlkna bandaríska tímaritsins Playboy og keppenda í fegurðarsamkeppni um titilinn Ungfrú Ameríka metin yfir tímabilið 1959 til 1978.  Niðurstöðurnar sýndu að þyngdarstuðull forsíðustúlknanna hafði lækkað töluvert yfir þetta tímabil og sömu sögu var að segja af þátttakendum í fegurðarkeppnum.  Líkamsþyngd þeirra hafði lækkað að meðaltali um 0,13 kíló á ári hverju og þyngd sigurvegara keppninnar hafði lækkað enn meira, eða að jafnaði um 0,17 kíló ár hvert.  Allt frá árinu 1970 höfðu sigurvegarar keppninnar að meðltali verið grennri en aðrir þátttakendur.  Athugun á þróun líkamsþyngdar meðal bandarískra kvenna sýndi hins vegar að stúlkur á aldrinum 17-24 ára höfðu þyngst árlega um að meðaltali 0,14 kíló frá ’59 til ’78.  Sem sagt: Á sama tíma og fegurðarímynd kvenna varð grennri urðu venjulegar stúlkur á svipuðum aldri sífellt þyngri.

Þessi rannsókn var endurtekin rúmum áratug síðar og kom í ljós að misræmið milli þyngdar þátttakenda í fegurðarsamkeppnum og þyngdar hinnar almennu konu hafði aukist enn frekar á þessu tímabili.  Jafnframt kom í ljós að tæplega 70% forsíðustúlkna Playboy og 60% þátttakenda í fegurðarsamkeppni voru að minnsta kosti 15% undir kjörþyngd, sem þýðir að meirihluti þessara fyrirmynda uppfylltu þyngdarviðmið fyrir sjálfsvelti (anorexia nervosa).

Aðrar rannsóknir hafa fengið sömu niðurstöður hvað varðar tískufyrirsætur og sjónvarps- og kvikmyndastjörnur.  Í rannsókn frá 2004 var t.d. farið yfir fjögur mest seldu kvennatímaritin í Bandaríkjunum yfir tímabilið frá 1959 til 1999 og kom ljós að líkamsstærð forsíðufyrirsætanna hafði minnkað mikið á níunda og tíunda áratugnum.  En eitt í viðbót: Það reyndist ekki mögulegt að bera saman líkamsstærðir fyrirsætanna fyrir þann tíma því líkami þeirra var yfirleitt ekki sýndur á forsíðunni, heldur aðeins andlitið og efri búkur.  Því hefur áhersla á grannan vöxt ekki aðeins aukist hin síðari ár, heldur hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á líkama kvenna sem hluta af útliti þeirra.  Fallegt andlit er ekki lengur nægjanleg forsenda fegurðar heldur er grannur líkami nauðsynlegur til þess að geta talist aðlaðandi.

Auknar kröfur um grannan vöxt má ekki síst sjá á aukinni umfjöllun um megrun í fjölmiðlum á undanförnum áratugum.  Rannsóknir sýna að greinum um megrun fjölgaði mikið í vinsælum kvennatímaritum á seinni hluta 20. aldar og hefur sú aukning haldist nema að við megrunarumfjöllunina hefur bæst aukin áhersla á líkamsrækt.  Rannsóknir hafa einnig staðfest að mun fleiri megrunartengdar greinar og auglýsingar birtast í vinsælum kvennatímatritum en í karlatímaritum.  Í rannsókn sem birtist á níunda áratugnum fundu rannsakendur til dæmis nærri hundrað auglýsingar og tímaritsgreinar um aðferðir til þess að breyta vaxtarlagi sínu í vinsælum kvennablöðum en aðeins átta í karlablöðum. Þetta hefur aðeins breyst síðan – en ekki á þann veg að dregið hafi úr útlitsdýrkunarskilaboðum til kvenna – heldur þannig að skilaboð til karla hafa aukist svo um munar.

Það er kominn tími til að bregðast við. Ef við viljum ekki búa í samfélagi sem er kaffært í megrunarskilaboðum og útlitsþráhyggju þá þurfum við að taka afstöðu gegn þessum áherslum. Eitt er kristaltært: Ekkert mun breytast fyrr en við breytum því.

Flokkar: Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (3)

  • Þú og fleiri mega endilega bregðast við og reyna að breyta einhverju. 🙂
    Ég hins vegar eiginlega bara gefst upp fyrir samfélagi sem setur útlitsdýrkandann Egil Einarsson(„Gillzenegger“) á forsíðu símakrár landsins. :/

  • Já, þetta er alveg hárrétt. Var t.d. að lesa Vikuna um daginn þar sem a.m.k. önnur hver auglýsing sýndi óbeint hvernig konur (og reyndar karlmenn líka) „eiga“ að líta út. Það voru þá aðallega snyrtivöru-, megrunarkúra- og líkamsræktarstöðvaauglýsingar með hálfberum konum eða körlum. Þykir ekkert undarlegt að það þurfi konu á bikiní til að auglýsa augnskugga? Þar að aukir voru nokkrar síður með uppskriftum, svona „borðaðu þig granna/n“ dæmi. Án þess að meina að Vikan sé óskemmtilegt tímarit þá var þetta klárlega leiðinlegasta blað sem ég hef lesið lengi.

  • Takk fyrir frábæra pistla um þarft málefni (sem virðist hálfgert tabú í hinum vestræna granna neysluheimi)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com