Þriðjudagur 11.10.2011 - 13:48 - 7 ummæli

Af hverju eru átraskanir samfélagsvandi?

Í þau fáu skipti sem baráttan gegn átröskunum hefur farið hátt hér á landi hefur mátt skynja mikla reiði og baráttuanda í fólki. Allir virðast sammála því að „eitthvað verði að gera“ til þess að stemma stigu við þessum vanda og hneykslast á því að heilu kynslóðirnar eigi bara að verða þessum illvígu geðröskunum að bráð án þess að nokkuð verði að gert. Mér hefur hins vegar alltaf þótt það einkar athyglisverð meinloka að geta viðurkennt að átraskanir séu samfélagsvandi en vera samt sem áður EKKI tilbúin að mótmæla þeirri endalausu upphafningu megrunar og mjónudýrkunar sem kemur fram í fjölmiðlum. Hvað þarf til þess að þið tengið saman punktana, gott fólk?

Hér er gott dæmi um hvernig ljós fjölmiðlanna er nýtt til þess að gera öfgafulla megrun að sjálfsögðu, ef ekki aðdáunarverðu, athæfi. Þetta er bara eitt dæmi af þúsundum og Smartland er óðum að skipa sér í fremstu röð meðal þeirra sem helst halda megrunarmenningunni á lofti hér á landi. Það ætti engin vegsemd að felast í því. Í þessari umfjöllun, sem er sett fram undir yfirskriftinni „heilsa“ (!!), greinir grannvaxin kona frá því að innbyrða ekki nema 1200 hiteiningar á dag bróðurpart vikunnar. Er kyn þótt keraldið leki? Ekki aðeins er verið að hvetja til megrunar og halda því að fólki að það sé sjálfsagt að þvinga líkama sinn til þyngdartaps með öfgafullum hætti, heldur er því haldið fram í ofanálag að þetta sé hluti af heilsusamlegu líferni.

Það sem verið er að gera hérna er að normalísera, glamúrvæða og upphefja þyngdarþráhyggju og megrunarhegðun sem mun í besta falli ekki skila neinu þegar til lengri tíma er litið (já, kynnið ykkur bara rannsóknir um árangur megrunar krakkar mínir) og í versta falli verða hluti af því sem hvetur einhverja ólánssama sál til þess að feta fyrstu sporin inn í heim átröskunar.

Undanfarin sex ár hef ég starfað við forvarnir og meðferð átraskana og rætt við ótal ungar stúlkur um þrýstinginn sem þær finna fyrir um að vera grannar. Hann er raunverulegur og breytir eldklárum og skemmtilegum stelpum í skuggana af sjálfum sér. Þær lýsa því hvernig þær lágu yfir nákvæmlega svona umfjöllunum, eins og birtast reglulega á Smartlandi, í upphafi sjúkdómsins, hvernig þær fengu þar staðfestingu á því að þær væru að gera rétt og það væri sjálfsagt að vera með þyngdina á heilanum og beita sig hörðu til að grennast. Í byrjun klöppuðu þar að auki allir fyrir þeim. Það var ekki ein einasta manneskja sem lýsti áhyggjum af því að þær væru í megrun. Æðislegt, sögðu allir, rosalega lítur þú vel út! Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar hegðunarmynstur átröskunarinnar var orðið kyrfilega fast í sessi, sem áhyggjuljós fóru að kvikna. Hmm. Nú er komið nóg. Nú ættirðu að fá þér að borða. En þá er það of seint.

Það er ekkert annað en sturlað hvernig við sem samfélag hvetjum átröskunarsjúklinga áfram inn í sín veikindi. Hver einasti átröskunarsjúklingur á sögu um það hvernig honum var hrósað og hampað fyrir að stíga fyrstu skrefin inn í þann skelfingarheim sem á endanum gleypir hann.  Ætli ungmenni sem verða vímuefnum að bráð hafi sömu sögu að segja? Ætli hafi líka verið klappað fyrir þeim þegar þau byrjuðu að drekka og dópa? Vá, hvað þú ert töff! Flott hjá þér! Bara passa sig að ganga ekki of langt!

Ef við viljum stemma stigu við átröskunarvandanum í þessu landi þá þurfum við að fara að bregðast harðar við þeim skilaboðum sem ýta undir þennan vanda. Við getum fengið samfélag sem einkennist af megrunaráróðri og útlitsdýrkun eða við getum fengið samfélag sem er laust við átraskanir. En við getum ekki fengið bæði.

Flokkar: Átraskanir · Megrun · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (7)

 • Sigurlaug Hauksdóttir

  Vil líka benda á þessa „frétt“ á Smartlandi: http://mbl.is/smartland/utlit/2011/10/10/sjokkerandi_myndir_af_christinu_aguilera/

  Sjokkerandi myndir? Sagt að Cristina liti „vægast sagt illa út“. Af hverju? Jú… Christina hefur greinilega fitnað.

 • Mikið er ég ofboðslega sammála þér. Ég varð mjög frústreruð og pirruð þegar ég las þessar greinar á Smartlandinu. Ég skil ekki fyrir mitt litla líf þetta átak og þennan hálfvitalega VIP matseðil sem stelpurnar voru t.d. á.

  Get hreinlega bilast bara!

 • Eygló Ida

  Heyr heyr !! Ég verð svo reið þegar ég les svona „fréttir“ af fólki sem er í öfgafullri megrun og er hyllt sem hetjur fyrir vikið ! Mér finnst sorglegt að í samfélagi sem á að heita upplýst skuli fólk ennþá falla fyrir innantómum (og oft og tíðum líka hættulegum) gylliboðum til að þvinga líkamann í einhverja þyngd sem honum er ekki „ætlað“ að vera í. Það virðist önnur hver manneskja vera upptekin af þyngd og útliti ef marka má auglýsingar í öllum miðlum og kaffistofuspjall á vinnustöðum.. svo sorgleg þróun !

 • Mér blöskrað einmitt þegar ég rak augun í þennan 1200 hitaeiningamatseðil stelpnanna sem taka þátt í átakinu. Finnst ógurlega sorglegt að Hreyfing og Smartland hafi tekið höndum saman og startað þessu „átaki“. Í einfeldni minni átti ég von á einhverju raunsærra og betra.

  Ekki það að ég hef ansi oft orðið orðlaus yfir fréttum á Smartlandi, ef fréttir skildi kalla þeas!
  Svo mitt í þessu öllu eru aðilar undrandi á því að fólk sé upptekið af þyngdinni og útlitinu, og verði sinn versti óvinur!

  Það sagði mér margt þegar ég las viðtal við ungu snótina Britney Spears þar sem hún sagði að þegar fjölmiðlar voru sem hvað öflugastir í að koma með myndir af henni og fréttir um holdafar og óhóflega þyngdaraukningu var hún heil 62 kíló!!

 • Rakel Rán

  Flestir eru tilbúnir til að taka bakföll af sjokki út af átröskunum í samfélaginu en svo afskaplega fáir vilja hætta að ýta undir þær.

 • Er enginn annar sem sér þessa hrópandi mótsögn í þessari frétt…. http://mbl.is/smartland/heilsa/2011/10/13/jessica_alba_logsaekir_megrunarfyrirtaeki/

 • Ég hef líka verið að fylgjast með þessu og er mjög hissa með Hreyfingu. Ég tók mín fyrstu skref þar á námskeiði og var einmitt svo ánægð með hvað ekki var verið að ýta undir öfgar heldur frekar bættan lífstíl. Hins vegar hefur Marta María alltaf verið föst í svona megrunarslúðurstali, á hvaða fréttamiðli sem hún birtist..en alltaf er hún ráðin og hvers vegna? jú einmitt vegna þess að við vitleysingjarnir lesum þetta…mér hefur oft langað til að kvarta undan þessu en aldrei látið af því..en nú skal það breytast:)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com