Miðvikudagur 06.06.2012 - 17:40 - 5 ummæli

Er fitspiration nýjasta thinspiration?

Þeir sem hafa farið inn á síður eins og Pinterest kannast líklega við innblástursmyndir fyrir líkamsrækt, líka þeirri hér til hægri. Þessar myndir hef ég reyndar líka séð á Facebook og hafa verið kallaðar „fitspiration“. Það er margt sem truflar mig við þessar myndir. Myndirnar einkennast flestar af því að á þeim birtast líkamar, jafnvel án höfuðs, sem eru mjög vöðvastæltir, skornir, fitusnauðir og photoshoppaðir. Einnig fylgja þeim setningar sem einkennast af því að líkamsrækt eigi að dýrka til þess að öðlast ákveðið útlit og að þeir sem eru vöðvastæltir og grannir séu á einhvern hátt æðri þeim sem ekki eru það. Ég tek fram að þetta á ekki við um allar slíkar myndir, sumar einblína ekki eins mikið á útlit og líkamsvöxt. En því miður virðast flestar myndirnar gera það.

Það er lítið pláss fyrir pælingar um heilbrigði á þessum myndum þegar markmiðið er augljóslega umfram allt að ná ákveðnu útliti. Ég er ekki viss um að þessar myndir séu í raun sérlega hvetjandi til að stunda heilbrigt líferni, heldur eru þær áminning um þann fegurðarstaðal sem við „ættum“ öll að vilja ná. Fitspiration myndir minna mig óhugnanlega mikið á svokallaðar „thinspiration“ myndir sem notaðar eru til að hvetja til átröskunar, þar sem birtar eru myndir af mjög grönnum konum. Myndirnar eiga það sameiginlegt að birta útlitsímynd sem erfitt er að ná og fólk þarf oft jafnvel að setja heilsuna til hliðar til að öðlast slíkan vöxt. Hugsanlega hafa margar af þeim konum sem birtast á fitspiration myndum  þurft að tileinka sér óheilbrigt samband við mat og hreyfingu til að ná þessu útliti. Skilaboðin virðast vera að það skipti ekki máli hvernig þessu útliti er náð, svo lengi sem maður nær því. Umbunin felst í útlitinu og þeim félagslegu forréttindum sem fylgja slíku útliti.

Fegurðarviðmið hafa verið af ýmsum toga á ólíkum tímum mannkynssögunnar. Það er ekki svo langt síðan hið svokallaða „heróínlúkk“ var í tísku – að vera fölur og fár og gríðarlega grannur. Í dag er grannt en stælt útlit uppi á teningnum en það getur verið jafn óraunhæft fyrir hina venjulegu manneskju að öðlast og þær aðferðir sem fólk notar til þess geta verið álíka óheilbrigðar. Hluti fólks sem telur sig vera að lifa heilbrigðu lífi gerir það á óheilbrigðum forsendum og er í raun að skemma líkama sinn fremur en að styrkja hann og efla. Það að útlitsdýrkun skuli vera jafn ríkjandi innan heilsuræktargeirans og raun ber vitni er auðvitað bara fóður fyrir slíka óheilbrigða aðkomu að heilsurækt og réttlætir öfgar við að ná fram hinu „rétta“ útliti. Við verðum að muna að við þurfum á líkamsfitu að halda og að ofþjálfun er ekki holl fyrir neinn. Ofþjálfun virðist hins vegar vera félagslega samþykkt og er oft sett fram sem innblástur á þennan hátt.

Ég hef einnig tekið eftir að sum hvatningarorð gera lítið úr einni líkamsgerð til að upphefja aðra. Þá er aðallega gert lítið úr annað hvort feitu fólki eða mjög grönnu fólki og vöðvastælt fólk sett upp á einhvern stall sem er yfir aðra hafinn. Til dæmis: „Skinny girls look good in clothes, fit girls look good naked“ eða „strong is the new skinny“. Á þessum myndum er auðvitað alltaf, beint eða óbeint, verið að segja fólki að hætta að vera feitt. Vöðvastæltir líkamar eiga auðvitað rétt á sér en það á líka við um granna og feita líkama. Mér virðist sem verið sé að reyna að sporna gegn hugmyndum um að fallegast sé að vera horaður, en er þetta eitthvað skárra? Eru þessar myndir ekki alveg jafn vel til þess fallnar að hvetja fólk til líkamsþráhyggju og ýta undir lélega líkamsmynd?

Það skapar alltaf vandamál þegar verið er að hefja eina líkamsgerð upp yfir aðra vegna þess að líkamar eru fjölbreytilegir. Með þessari elítustefnu er verið að segja fjölda fólks, sem ekki passar inn í það form sem þykir fallegast hverju sinni, að það sé ekki nógu gott. Það er ekkert heilbrigt eða gott við þau skilaboð, þau ala á mannfyrirlitningu og hroka. Það er sömuleiðis varhugarvert þegar verið er að halda því að fólki að allir geti öðlast draumalíkamann ef þeir eru bara tilbúnir að ganga nógu langt til þess. Einhvers staðar las ég að fitspiration væri í raun bara thinspiration í íþróttabúningi. Ég held að það sé nokkuð til í því.

Flokkar: Líkamsmynd · Staðalmyndir · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (5)

  • Malcolm X

    Fituspiration more to my taste.

    Dose dam vegs taste like wallpaper.

  • Ég er að langmestu leyti ánægður með það sjónarhorn sem þið haldið á lofti. Langar þó að koma því á framfæri að í mínum huga er „strong is the new skinny“ slagorðið nytsamlegt umfram margt annað. Þar er getubundnum eiginleikum (þ.e. líkamlegum styrk) hampað umfram útlitslega (að vera horaður eða skinny). Það verður enginn sterkur nema borða nóg, styrkur er (tiltölulega) óháður holdarfari (amk er alls ekki forsenda fyrir styrk að vera grannur, eiginlega þvert á móti), sá sem er sterkur getur gert meira og bjargað sér betur í lífinu en sá sem er aumur (að öðru jöfnu). Þess vegna held ég að slagorðið „strong is the new skinny“ megi einmitt nota til að a) vinna gegn átröskunum, b) minnka áherslu á eitthvað eitt optimal holdafar, c) draga athygli að getu frekar en útliti og d) styrkja sjálfsmynd þeirra sem þykkari eru (því þeir eru oft sterkari en hinir horaðri). En svo má auðvitað afskræma það eins og annað með því að láta myndir af stæltum horrenglum fylgja með slagorðinu en það eitt gerir það ekki vont.

    Meðfylgjandi hlekkur á myndasafn, af góðgerðarviðburðinum STERK! sem við í CrossFit Sport héldum í síðustu viku, lýsir vel minni sýn á þetta. Venjulegt fólk, sem þjálfar líkamann til að geta gert meira, og fær viðurkenningu fyrir framfarir sínar í styrk, úthaldi, liðleika, samhæfingu o.s.frv., en ekki fyrir það hvernig það lítur út.

    http://www.facebook.com/media/set/?set=a.10150719075167269.464391.98669167268&type=3

  • Helga Bryndís

    Vel sagt!

  • Erna Magnúsdóttir

    Alveg sammála þessu með SINS eða „strong is the new skinny“ það vísar beint í að holdafarspælingin sé pæling gærdagsins, í dag spáum við í hvað við getum GERT með líkamanum.

    Annars fannst mér líka þessi heferð frá Reebok frá því í mars passa inn í þessar pælingar. Herferðin var dregin til baka en á plakötunum voru m.a. slagorðin „cheat on your girlfriend, not your workout“

    http://www.dailymail.co.uk/femail/article-2118314/Reebok-forced-pull-controversial-Cheat-On-Your-Girlfriend-Not-Your-Workout-ad-campaign-public-backlash.html

  • Mér finnst fólk ekki alveg vera að átta sig á skilaboðunum sem í raun felast í þessari nýju áherslu. Á myndum greinarinnar má berlega sjá hversu bjagað viðhorf er í gangi varðandi heilbrigði. Þar er ekki verið að fókusa bara á getubundna eiginleika, heldur á útlitslega. Það á að vera skorinn. Það á að vera tanaður. Það á að vera grannvaxta. Það á að vinna að þessu „every second of every day“. Það þarf enginn að segja mér annað en þetta hafi bjöguð áhrif á fólk, og þá sérstaklega ómótaðar yngri kynslóðir. Fyrir mér er þetta bara enn eitt útlitspælingaræðið, en það virðist sem við mannfólkið gjörsamlega þrífumst á því að velta okkur upp úr líkamsútliti og gleypa við hinum og þessum bólum þar um kring.

    Fyrir mér er lausnin gegn ofurgranna fyrirmyndarvextinum ekki fundin með nýrri útlitsöfgapælingu. Sér í lagi er þetta engin lausn við þróun átraskana eins og kom fram hér að ofan, þar sem einmitt svona útlitsáherslur triggera óheilbrigt samband slíkra einstaklinga við mat og hreyfingu.
    Lausnin væri frekar fólgin í að stöðva þessa ofurupptekni almúgans af útliti og vexti. Að láta sig ekki glepjast af því sem hinn risastóri megrunar- og útlitsiðnaður ber fram á silfurfati tileinkað heilbrigði og réttu útliti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com