Fimmtudagur 02.08.2012 - 14:42 - Rita ummæli

Fegurð og fjölbreytileiki

Þessi mynd er farin að rúlla um netið. Þetta er samanburður á herferð Dove snyrtivörufyrirtækisins, sem byggðist á því að sýna fegurðina í fjölbreytilegum vexti raunverulegra kvenna, og nýjustu herferð Victoria’s Secret nærfatarisans. Eins og andstæður þessara herferða væru ekki nógu augljósar þá dregur yfirskrift þeirrar síðarnefndu skýrt og greinilega fram að hér er ekki markmiðið að hvetja konur til að elska sinn eigin líkama  („love your body“), heldur að dýrka og dá þann líkama sem fyrirsæturnar sýna („love MY body“).

Ég veit að Dove er ekki heilagt fyrirtæki. Það tilheyrir Unilever risaveldinu sem selur m.a. SlimFast megrunarvörur. En ég er samt þakklát fyrir þessar auglýsingar. Þær hjálpa til við að opna augu okkar og skilja að það er ekkert að okkur. Ekki neitt. Við höfum bara verið heilaþvegnar af miskunnarlausum markaðsöflum sem telja okkur trú um að líkamar okkar séu ómögulegir. Hvernig gera þau það? Nú með því að halda á lofti einsleitri hugmynd um fegurð sem fæstar konur komast nálægt því að líkjast. Auglýsingar Dove hjálpa til við að stinga títuprjóni í þá loftbólu og fyrir það er ég þakklát. Þessar auglýsingar ná til milljóna kvenna og munu hafa margfalt meiri áhrif á líkamsmynd kvenna heimsins en aktivistar eins og ég geta nokkurn tíma gert. Fyrir það er ég þakklát.

Prófið að gera smá tilraun á ykkur. Skoðið fyrst efri myndina og svo þá neðri. Takið eftir því hversu sjúklega einsleitir þessir líkamar eru (þeir gætu jafnvel verið sami líkaminn með mismunandi hausum – annað eins hefur nú gerst í þessum sjúka bransa) og hversu fjarri þeir eru líkömum flestra kvenna. Hvað sjáið þið margar svona konur í sundi? En takið líka eftir áferðinni á þessum líkömum samanborið við líkama kvennanna á neðri myndinni. Hversu mikið ætli líkamarnir á efri myndinni – eins vel og þeir ættu nú að passa í hið þrönga piparkökumót fullkominnar fegurðar – hafi verið fótósjoppaðir eftir að myndatöku lauk? Svipurinn á konunum segir líka sitt. Á hvorri mynd virðast konurnar hamingjusamari? Sjálfsöruggari? Sáttari? Undirgefnari?

En síðast en ekki síst skuluð þið taka eftir því hvernig ykkur líður við að skoða þessar myndir. Prófið að skoða fyrst bara efri myndina. Og svo bara þá neðri. Er munur á því hvernig ykkur líður með ykkar eigin líkama? Hugsið ykkur ef allar auglýsingar, sem beint er til kvenna, hefðu að geyma glaðar og sáttar konur í allskonar stærðum. Hvernig ætli líkamsmynd okkar væri þá?

Flokkar: Fjölbreytileiki · Staðalmyndir · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com