Fimmtudagur 29.11.2012 - 21:10 - 2 ummæli

Hvað næst? Mannréttindi?

 

Fyrir nokkrum vikum sendu Samtök um líkamsvirðingu erindi til Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um mikilvægi þess að holdafar verði nefnt meðal þeirra atriða sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá Íslendinga. Í dag var fjallað um málið á vef Morgunblaðsins og fyrsta athugasemdin við fréttina var: HVAÐ KEMUR EIGINLEGA NÆST???

Mismunun vegna holdafars er raunverulegt vandamál sem fjöldi rannsókna hefur staðfest að á sér stað á margvíslegum sviðum lífsins. Hún hefur jafn neikvæð áhrif á líðan, tekjumöguleika og lífsgæði og önnur mismunun. Hún er jafn mikið í andstöðu við mannréttindi og jafnræði og önnur mismunun. Samt er talið fáránlegt að vilja banna hana. Hvað undirstrikar betur nauðsyn þess að það verði tilgreint sérstaklega í stjórnarskrá landsins að þessi mismunun sé óheimil?

Mismunun þýðir einfaldlega að þú færð ekki sömu tækifæri og aðrir. Samantekt tæplega þrjátíu rannsókna á fitufordómum í atvinnulífi sýndi að mismunun vegna holdafars átti sér stað á öllum starfsstigum – við ráðningu, möguleika á stöðuhækkun, launagreiðslur og brottrekstur. Feitt fólk fær lægri laun fyrir sömu vinnu, er síður ráðið í valdastöður og hlýtur sjaldnar stöðuhækkun en þeir sem eru grannir. Sérstaklega á þetta við um feitar konur, sem þéna talsvert minna en grennri kynsystur þeirra. Holdarfar hefur minni áhrif á laun karla en feitir karlar lenda þó frekar í lægri stöðum en grennri kynbræður þeirra. Íslenskar rannsóknir hafa einnig staðfest að mismunun vegna holdafars á sér stað í atvinnulífinu hér á landi og til dæmis hefur komið í ljós að feitar konur misstu frekar vinnuna eftir hrun.

Tilvist mismununar á grundvelli holdafars er staðreynd í okkar þjóðfélagi. Að standa gegn því að holdafari verði bætt við þau atriði sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá er að standa gegn sjálfsögðu réttlæti og segja að mannréttindi séu bara fyrir suma.

Þetta kemur því ekkert við hvaða skoðun við höfum á offitu sem heilbrigðismáli. Við viðurkennum mannréttindi annarra hópa óháð heilsufari þeirra og heilsuhegðun. Eiga mannréttindi homma sem reykja að vera minni en þeirra sem reykja ekki? Eiga konur sem hjóla með hjálma að búa við meiri mannréttindi en þær sem gera það ekki? Mannréttindi eru algild og koma heilsufarsástandi ekkert við.

Nú reynir á. Hér höfum við tækifæri til þess að veita stórum hópi í þjóðfélaginu, sem staðfest hefur verið að býr við kerfisbundna mismunun, stjórnarskrárvarinn rétt fyrir lögum. Að gera það ekki er að leggja blessun sína yfir mismununina og samþykkja að hún haldi áfram. Er það þannig sem við viljum vígja nýja stjórnarskrá okkar?

Hvað næst? spyr maðurinn. Vonandi mannréttindi. Alla leið.

 

 

 

Flokkar: Fitufordómar · Fjölbreytileiki · Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (2)

 • Hvað kemur næst? Næst kemur erindi til Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um mikilvægi þess að líkamshæð verði nefnd meðal þeirra atriða sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá Íslendinga.

  Ég er á hærri launum en flestir karlar og fjölmargar rannsóknir staðfesta að það er að hluta til af því líkami minn er hærri í loftinu en líkami lágvaxinna. .

  Hinir lágvöxnu búa við kerfisbundna mismunun í launum, eru síður ráðnir í valdastöður, hljóta sjaldnar stöðuhækkun og missa frekar vinnuna í erfiðu árferði.

  Tilvist mismununar á grundvelli líkamshæðar er staðreynd í okkar þjóðfélagi. Að standa gegn því að líkamshæð verði bætt við þau atriði sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá er að standa gegn sjálfsögðu réttlæti og segja að mannréttindi séu bara fyrir suma.

  Hvað kemur næst? Vonandi full mannréttindi fyrir lágvaxna. Þeir eiga rétt á sömu líkamsvirðingu og aðrir. Alla leið.

 • Þar næst kemur röðin að hinum ófríðu.

  Fjölmargar rannsóknir sanna að þeir sem eru almennt taldir fríðir njóta margvíslegra foréttinda fram yfir þá sem eru almennt taldir ófríðir.

  Rannsóknirnar sýna ótvírætt að hinir ófríðu fá ekki sömu tækifæri og hinir fríðu. Þessi mismunum varðar aldeilis fleira en kaup og kjör. Hún er vallgróin í samfélaginu og teygir anga sína um öll þess svið, beint og óbeint, leynt og ljóst.

  Þeim mun brýnna er að uppræta hana. Full mannréttindi. Alla leið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com