Sannir Íslendingar sem Standa í Lappirnar skiptast nú nokkurnveginn í tvær fylkingar.
Sumir eru byrjaðir á reit eitt frá því Icesave uppgötvaðist daginn eftir hrun og eru sannfærðir um að við eigum ekkert að borga. Neyðarlögin og dómstólaleitin og samningarnir og lánafyrirgreiðslan – allt þetta er hjóm eitt, því að við áttum aldrei að borga neitt. Skuldir Landsbankans við útlendinga voru bara skuldir einkafyrirtækis í eigu óreiðumanna, og koma okkur ekki við (um skuldir sama Landsbanka við Íslendinga gegnir hinsvegar allt öðru máli).
Fjallkonan á götuvígin!
Sérstakur undirhópur þessarar fylkingar telur rétt að nota tækifærið og lyfta Fjallkonunni upp á götuvígin að berjast gegn heimskapítalismanum með rauðan fána. Ef við borgum ekki fylkja aðrar snauðar þjóðir sér um okkur – eftir snarpa og hetjulega orustu renna upp ragnarök kapítalismans um heimsbyggðina, og síðan fellur allt í ljúfa löð á Íslandi og nágrenni, við róum til fiskjar og ræktum rófur. Undursamlegar töflur finnast í grasi, munu ósánir akrar vaxa – Baldur mun koma. Vonandi samt ekki Guðlaugsson.
Vegna þess að við þurfum alls ekki að borga – þá auðvitað er engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún snýst jú um val milli tveggja samninga um að borga, og það ætlum við núna ekki að gera, og þessvegna er réttast að afnema hvortveggju lögin um ríkisábyrgðina, frá í ágúst og frá í desember. Fyrir fólkið.
Hvað gerist svo ef Fjallkonan verður skyndilega alein uppi á götuvíginu – og heimskapítalisminn vinnur slaginn? Tja – þá höfum við gert okkar fyrir mannkynssöguna og getum yljað okkur í ellinni þegar íslenska skuldaverkfallið bætist í úrvalsrit byltingarmanna allra alda, við hliðina á Spartakusi og kommúnörðunum í París.
Semja við sjálfan sig
Aðrir sem Standa í Lappirnar hafa hinsvegar komist að þeirri niðurstöðu að nú þurfi að skipa nýja samninganefnd. Þar þurfi helst að vera þeir sjálfir, en líka alþjóðlegir sérfræðingar í samningatækni. Aðeins einn smávægilegur galli er á þessari hugmynd – nefnilega sá að til að semja þarf yfirleitt fleiri en einn samningsaðila. En þá benda Sannir Íslendingar á gott fordæmi: Samninginn góða sem alþingi samdi um við sjálft sig í ágúst. Það hafi verið fínn samningur. Hollendingar og Bretar hafi að vísu verið þeir þjösnar að vilja ekki fallast á hann – en það var einmitt vegna þess að íslenska ríkisstjórnin gleymdi að Standa í Lappirnar.
Þessir Sönnu Íslendingar vilja heldur ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, af því hún kynni að minnka samlyndi og auka deilur meðal landsmanna um þetta mál, og koma þar með í veg fyrir góðan vinnufrið í samninganefndinni.
Pattstaða dauðans
Í alvöru er komin upp pattstaða dauðans í málinu, bæði millilanda og innanlands. Hvorki bresk né hollensk stjórnvöld hafa nokkurn áhuga á að taka upp samningana. Kosningar eru framundan í báðum ríkjum, og í hvorugu þeirra er líklegt að Icesave verði meðal kosningamála. Skársti kosturinn fyrir Breta og Hollendinga er líklega að bíða og gera ekki neitt þangað til Íslendingar hafa áttað sig.
Hugsanlegt er að hægt væri skapa þrýsting á Breta og Hollendinga með aðstoð Norðurlanda- og Evrópusambandsríkja. Þá er líkast til eina leiðin sú að bjóða sættir um einhverskonar gerðardóm þar sem viðurkenndur alþjóðlegur milligöngumaður hefur forystu. Til þess að þetta gengi yrði þó væntanlega að vera skýrt að Íslendingar féllust án undanbragða á niðurstöðu gerðardómsins, stjórnarflokkar, Liljur, stjórnarandstaða, forseti og svo framvegis. Bara af þeirri ástæðu er þetta ekki sennilegur kostur.
Og þá var eftir einn
Og þá er bara eftir ein leið: Að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, samþykkja þar einfaldlega þann samning sem ekki hefur þegar verið hafnað, og byrja að vinna okkur út úr vandanum og standa í lappirnar í staðinn fyrir að rífast einsog hundar og kettir.