Þriðjudagur 12.1.2010 - 11:55 - 45 ummæli

Að standa í lappirnar

Sannir Íslendingar sem Standa í Lappirnar skiptast nú nokkurnveginn í tvær fylkingar.

Sumir eru byrjaðir á reit eitt frá því Icesave uppgötvaðist daginn eftir hrun og eru sannfærðir um að við eigum ekkert að borga. Neyðarlögin og dómstólaleitin og samningarnir og lánafyrirgreiðslan – allt þetta er hjóm eitt, því að við áttum aldrei að borga neitt. Skuldir Landsbankans við útlendinga voru bara skuldir einkafyrirtækis í eigu óreiðumanna, og koma okkur ekki við (um skuldir sama Landsbanka við Íslendinga gegnir hinsvegar allt öðru máli).

Fjallkonan á götuvígin!

Sérstakur undirhópur þessarar fylkingar telur rétt að nota tækifærið og lyfta Fjallkonunni upp á götuvígin að berjast gegn heimskapítalismanum með rauðan fána. Ef við borgum ekki fylkja aðrar snauðar þjóðir sér um okkur – eftir snarpa og hetjulega orustu renna upp ragnarök kapítalismans um heimsbyggðina, og síðan fellur allt í ljúfa löð á Íslandi og nágrenni, við róum til fiskjar og ræktum rófur. Undursamlegar töflur finnast í grasi, munu ósánir akrar vaxa – Baldur mun koma. Vonandi samt ekki Guðlaugsson.

Vegna þess að við þurfum alls ekki að borga – þá auðvitað er engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún snýst jú um val milli tveggja samninga um að borga, og það ætlum við núna ekki að gera, og þessvegna er réttast að afnema hvortveggju lögin um ríkisábyrgðina, frá í ágúst og frá í desember. Fyrir fólkið.

Hvað gerist svo ef Fjallkonan verður skyndilega alein uppi á götuvíginu  – og heimskapítalisminn vinnur slaginn? Tja – þá höfum við gert okkar fyrir mannkynssöguna og getum yljað okkur í ellinni þegar íslenska skuldaverkfallið bætist í úrvalsrit byltingarmanna allra alda, við hliðina á Spartakusi og kommúnörðunum í París.

Semja við sjálfan sig

Aðrir sem Standa í Lappirnar hafa hinsvegar komist að þeirri niðurstöðu að nú þurfi að skipa nýja samninganefnd. Þar þurfi helst að vera þeir sjálfir, en líka alþjóðlegir sérfræðingar í samningatækni. Aðeins einn smávægilegur galli er á þessari hugmynd – nefnilega sá að til að semja þarf yfirleitt fleiri en einn samningsaðila. En þá benda Sannir Íslendingar á gott fordæmi: Samninginn góða sem alþingi samdi um við sjálft sig í ágúst. Það hafi verið fínn samningur. Hollendingar og Bretar hafi að vísu verið þeir þjösnar að vilja ekki fallast á hann – en það var einmitt vegna þess að íslenska ríkisstjórnin gleymdi að Standa í Lappirnar.

Þessir Sönnu Íslendingar vilja heldur ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, af því hún kynni að minnka samlyndi og auka deilur meðal landsmanna um þetta mál, og koma þar með í veg fyrir góðan vinnufrið í samninganefndinni.

Pattstaða dauðans

Í alvöru er komin upp pattstaða dauðans í málinu, bæði millilanda og innanlands. Hvorki bresk né hollensk stjórnvöld hafa nokkurn áhuga á að taka upp samningana. Kosningar eru framundan í báðum ríkjum, og í hvorugu þeirra er líklegt að Icesave verði meðal kosningamála. Skársti kosturinn fyrir Breta og Hollendinga er líklega að bíða og gera ekki neitt þangað til Íslendingar hafa áttað sig.

Hugsanlegt er að hægt væri skapa þrýsting á Breta og Hollendinga með aðstoð Norðurlanda-  og Evrópusambandsríkja. Þá er líkast til eina leiðin sú að bjóða sættir um einhverskonar gerðardóm þar sem viðurkenndur alþjóðlegur milligöngumaður hefur forystu. Til þess að þetta gengi yrði þó væntanlega að vera skýrt að Íslendingar féllust án undanbragða á niðurstöðu gerðardómsins, stjórnarflokkar, Liljur, stjórnarandstaða, forseti og svo framvegis. Bara af þeirri ástæðu er þetta ekki sennilegur kostur.

Og þá var eftir einn

Og þá er bara eftir ein leið: Að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, samþykkja þar einfaldlega þann samning sem ekki hefur þegar verið hafnað, og byrja að vinna okkur út úr vandanum og standa í lappirnar í staðinn fyrir að rífast einsog hundar og kettir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.1.2010 - 12:52 - 25 ummæli

Ha?

Nú líst allt í einu öllum skynugum forystumanneskjum ekkert á að þjóðin fái að úrskurða um Icesave – og telja flestar miklu betra að þær sjálfar eða vinir þeirra verði sett í nýja samninganefnd.

Það yrði í annað skiptið af tveimur mögulegum sem mál gufaði upp eftir að forseti skýtur því til þjóðarinnar. Beina lýðræðið sem um var talað breytist þá með málskoti forseta í betri samningsstöðu fyrir andstæðinga laganna?

En kannski er ástæðan sú hjá sumum nýtilkomnum efasemdarmönnum um þjóðaratkvæðagreiðslur að þeir bjuggust aldrei við að forsetinn mundi láta að vilja þeirra? Og svo hafa sett í þá skrekk þær niðurstöður Gallup-könnunar að góður meirihluti – 53 prósent móti 41 – vill núna samþykkja lögin frá því fyrir nýárið. Það stóð aldrei til.

Og kannski er þetta að veltast þannig að ríkisstjórnin fái nú undirtökin – með ógnunum og hótunum – um að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna … ?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.1.2010 - 11:29 - 22 ummæli

Skýrt val

Vinkona mín Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur farið öfugt frammúr í morgun. Ég lái henni það sosum ekki.

Valið í þjóðaratkvæðagreiðslunni er ekki um ríkisstjórn eða forseta. Vissulega skipta úrslitin miklu fyrir ríkisstjórnina – en forsetinn situr áfram hvað sem hver segir í atkvæðagreiðslunni, og getur vitnað til þess verði hann spurður að engin efnisleg afstaða til Icesave-laganna hafi falist í ákvörðun hans eða yfirlýsingu.

Það er ákaflega mikilvægt að halda skýrri sýn á það hvað væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla snýst um og rugla ekki með það einsog hent hefur Þórunni.

Kosningin snýst um ákvörðun alþingis frá 29. desember. Hún snýst um það að taka ábyrgð og vinna áfram að endurreisn í samfélaginu – með því að ljúka Icesave-málinu – eða hefja á ný erfiða milliríkjadeilu með gríðarlegum fórnarkostnaði án nokkurrar vonar um betri árangur en í júní og ágúst.

Það er svo rétt hjá Þórunni að í leiðinni eru menn sennilega að kjósa um það hvort gömlu hrunaflokkarnir eiga að komast til valda á ný.

Höfum þetta endilega á hreinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.1.2010 - 21:32 - 13 ummæli

Meirihluti og þjóðaratkvæðagreiðsla

Hann entist ekki daginn, fögnuður Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar yfir ákvörðun forsetans um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Í Kastljósi í kvöld voru þeir báðir á því að best væri að sleppa atkvæðagreiðslunni – ef stjórnarflokkarnir gerðu svo vel að fallast á gömlu lögin (þegar Sigmundur Davíð var á móti og Bjarni sat hjá).

Vel kann að vera að þetta sé einhver „opnun“ af þeirra hálfu, af því þeim ógni framtíðarsýnin eftir málskotið og af því forystumenn atvinnurekenda hafi loksins náð eyrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Það þurfa að meta þau Jóhanna og Steingrímur.

Sérkennilegt hlýtur það hinsvegar að hafa verið fyrir forseta Íslands að hlusta á þá félaga afneita þjóðaratkvæðagreiðslu – eftir að hafa rökstutt ákvörðun sína í morgun með sérstakri túlkun á vilja „meirihluta alþingismanna“ um sömu atkvæðagreiðslu.

En það er svo sem ekki nema í flútti við einmitt þessa túlkun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, sem hefði líklegast fengið falleinkunn hjá Ólafi Ragnari Grímssyni stjórnmálafræðiprófessor.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.1.2010 - 11:45 - 9 ummæli

Samþykkjum

Næsti kafli í málinu endalausa er þjóðaratkvæðagreiðsla – hvort sem menn eru sammála forsetanum eða ekki – og þá er að ganga til þess verks.

Sjálfur tel ég að forsetinn hefði átt að samþykkja lögin, og byggi þá skoðun á orðum hans sjálfs – í síðasta áramótaávarpi, í yfirlýsingunni frá fjölmiðlalagamálinu 2004 og röksemdum í forsetakosningunum 1996. En þeirri umræðu er lokið að sinni.

Pollýanna vinkona mín bendir á að hvað sem öðru líður sé gott að þjóðin ákveði þetta sjálf, ábyrgðin sé þá einmitt þar sem hún á að vera og enginn geti í framtíðinni sakast við annan en sjálfan sig. Þegar ég spyr hana um hugsanlega þróun í efnahagsmálum og pólitík næstu mánuði ypptir hún öxlum: Það reddast.

Nú er að vísu hugsanlegt að ekkert verði af þjóðaratkvæðagreiðslu. Annarsvegar getur alþingi breytt lögunum eða afnumið þau, einsog 2004. Þá skrifaði forsetinn undir ný lög án atkvæðagreiðslu og þar með varð til hefðarfordæmi um 26. greinina. Ég tel það ekki hyggilegt fyrir meirihluta alþingis (hvaða meirihluta? spyr Pollýanna og glottir) – nú á þjóðin einfaldlega heimtingu á því að segja sitt um málið, og vant að sjá hvað ynnist með breytingum.

Hinsvegar geta Hollendingar og Bretar rift samningnum einsog þeir hafa haft rétt til í tvo mánuði – og þá væri ekkert að greiða um atkvæði. Þá afnemur þingið hvortveggju lögin og málið allt kemst aftur á reit númer 1. En þessa hugsun vill ekki einusinni Pollýanna hugsa til enda.

Við Polla erum svo sammála um að ef af verður eru úrslitin í atkvæðagreiðslunni engan veginn ráðin – en það er mikilvægt að stuðningsmenn endurreisnar hætti sem fyrst að gráta Björn bónda og nái vopnum sínum.

Stysti hugsanlegi tími til kosninga er líklega hálfur annar mánuður (45 dagar í kosningar eftir þingrof, samkvæmt stjórnarskrá) og lengsti líklega tveir mánuðir (lengsti frestur samkvæmt frumvarpi forsætisráðherra um þjóðaratkvæði). Það þýðir atkvæðagreiðslu í mars. Sem meðal annars merkir að komin verður út skýrsla rannsóknarnefndar alþingis – algerlega nauðsynlegt plagg í umræðuna fyrir þessa atkvæðagreiðslu.

Ljúkum Icesave-endaleysunni. Samþykkjum lögin.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.1.2010 - 12:13 - 34 ummæli

Standard og Poor’s gegn Sigmundi Davíð

Merkileg frétt sem ekki hefur vakið næga athygli síðustu daga er sú að ríkisstjórnin er farin að borga fyrirtækinu Standard og Poor’s fyrir að breyta hjá sér lánshæfismatinu. Þetta gerðist í fyrsta sinn á gamlársdag þegar fyrirtækið gaf út það mat að horfurnar fyrir Ísland væru ekki lengur neikvæðar heldur stöðugar. Við var borið samþykkt Icesave-málsins á þingi, sem hér hefði styrkt uppbyggingu atvinnulífs og fjármálakerfis.

Fréttin um að þeir hjá S og P gefi út lánshæfimatstilkynningar eftir pöntun er að vísu úr hugarheimi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar – en merkileg engu að síður. Sigmundur Davíð virðist vera þeirrar náttúru að þykja „sérkennileg“ hver þau tíðindi sem ekki eru í stíl við drungann sem hann hefur gert að inntaki stjórnmálastefnu sinnar. Slík tíðindi utan úr heimi hljóti að vera kokkuð upp hjá vondu fólki innnanlands.

Látum í bili eiga sig grunsemdir Sigmundar Davíðs í garð þeirra Jóhönnu, Steingríms og Gylfa – en að telja að fyrirtæki á borð við Standard og Poor’s gefi út álit samkvæmt reikningi er grundvallarmisskilningur á eðli slíkra fyritækja. Starfsemi þeirra byggist einmitt á því að hagsmunir þess sem matið undirgengst komi hvergi við sögu – því að þá tekur enginn framar mark á matsfyrirtækinu.

Þetta er reyndar ekki alveg nýtt um erlend fjármálafyrirtæki, að þau vinni gegn stefnu Framsóknarflokksins í efnahagsmálum. Er skemmst að minnast fjallkonuræðnanna sem þáverandi Framsóknarforkólfar fluttu um aðvaranir sérfræðingana frá Danske bank hér um árið.

Með ummælunum um Standard og Poor’s held ég samt að Sigmundur Davíð hljóti að hafa sett nýtt Íslandsmet í svartagallsvænisýki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.12.2009 - 23:26 - 15 ummæli

Skrýtið

Þá er Icesave loksins búið við Austurvöll, og kominn tími til. Siðasta upphlaupið, þegar bresk lögfræðistofa tók að sér verkstjórn á alþingi Íslendinga, var algerlega viðeigandi ömurleg.

Í atkvæðagreiðslunum í kvöld bar hvað mest á lýðræðisást þeirra sem hér sátu við völd í sextán ár án þess að sýna nokkurntíma vilja til annars en að berja í gegnum þingið allt sem Davíð og Halldóri datt í hug. Núna allt í einu átti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu – um mál sem þeir höfðu tapað á þinginu.

Gegn slíkri atkvæðagreiðslu um mál einsog Icesave mæla auðvitað ýmis sterk rök, formleg og tæknileg og málefnaleg. Samt var ég veikur fyrir þessu, að gera út um málið í almennri kosningu. Þá hefði meirihluti þjóðarinnar tekið á sig ábyrgð á niðurstöðunni, hver sem hún hefði orðið, sem einmitt hér var vel við hæfi.

Skrýtið: Hinir miklu áhugamenn um þjóðaratkvæði  í desember höfðu engan áhuga á þjóðaratkvæðagreiðslu þegar sama mál var afgreitt á þinginu í haust! Ekki einusinni þeir sem þá greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, Framsókn og þáverandi Borgarar, og ekki þeir sem þá sátu hjá, nefnilega Sjálfstæðisflokkurinn. Engin tillaga var flutt um þjóðaratkvæðagreiðslu í lok ágúst – þrátt fyrir allan þennan ágreining!

Veit ég vel að þá voru inni bjartsýnisfyrirvararnir miklu, sem þegar var ljóst að ekki stæðust. Þeir marglofuðu fyrirvarar voru samt ekki nógu góðir fyrir stjórnarandstöðuna þá til að taka ábyrgð á málinu – en þó nógu góðir til að láta þjóðina eiga sig?

En auðvitað þýðir ekki að biðja þessa menn um að vera sjálfum sér samkvæmir …

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.12.2009 - 23:59 - 11 ummæli

Látnir auglýsa

Ætli ég sé einn um að þykja það óþægilegt þegar látnir menn gylla fyrir mér varning og þjónustu í auglýsingatímunum? Nú er flugeldasalan á fullu, og þá er endurflutt auglýsing sem Flosi Ólafsson las inn á fyrir löngu – nú eða kannski bara í fyrra – og maður hrekkur við: Hann Flosi, sem er alveg nýdáinn! Afhverju er hann látinn tala við mig um rakettur á gamlárskvöld? Á hann ekki bara skilið að fá að hvíla svolitla stund í friði? Nema heiðra hann fyrir það sem hann gerði best, sem varla voru þessar flugeldaauglýsingar fyrir salti í grautinn.

Svipuð tilfinning kom alltaf yfir mig við auglýsingar sem voru fluttar í mörg ár eftir að Helgi Skúlason dó – þegar sú blæbrigðaríka rödd hvatti mann einsog að handan til ýmissa hversdagslegra viðskipta.

Kannski er þetta vegna þess að báðir þessir leikarar töluðu til mín lifandi hvor með sínum hætti – og rödd tengslalauss manns mundu þá ekki fylgja nein ónot hvað sem hann væri nýdauður.

Nú má alveg halda því fram að leikur eða innálestur í auglýsingum sé hluti af æviverki leikara, og eigi þá að halda áfram að vera til einsog kvikmynd eða upptekið leikrit – enn eru til dæmis flutt útvarpsleikrit með öllum leikurum dánum, sem einmitt eru með þeim allra bestu, þar á meðal í flutningi Helga Skúlasonar og Flosa Ólafssonar. Og enginn hefur neitt á móti því að aðstandendur njóti verka hins fráfallna.

Samt er munur á auglýsingu og listaverki – og varðar markmið flutningsins, sem í tilviki auglýsingarinnar er oftast að hvetja almenning til að verja fé sínu auglýsandanum í hag. Þetta gerir vissulega gagn á markaði og getur vissulega verið gott fyrir neytendur. En viðskiptaeðli auglýsingarinnar – líka þeirra sem hjálpa björgunarsveitum við fjáröflun – er líklega það sem veldur ónotunum við Flosa og Helga í auglýsingum eftir andlát sitt. Röddin sem talar í auglýsingu er ekki bara góð rödd, þægileg, hvetjandi, glaðleg, hnyttileg, laðandi … heldur skapar hún persónuleg tengsl neytandans við hið auglýsta – er einskonar milligöngumaður áhorfanda eða hlustanda við heim auglýsingarinnar. Það er sargandi stílbrot þegar slíkur meðmælandi er óriftanlega dauður.

Kannski liggur ástæðan fyrir ónotunum ekki svona djúpt og er bara sú kennd að auglýsandinn sé að nota effektinn af athyglinni sem rödd látins manns hlýtur að vekja – reyna að græða peninga á nánum.

Vel má líka vera að mín ónot útaf þessu séu leifar annarra tíma, þegar línurnar voru skýrari – finnst manni núna? – milli raunveraldarinnar og sýndarheims auglýsinganna, og leikari í auglýsingu var bara að leika í auglýsingu en ekki að virkja velgengni á sviðinu eða skjánum til fjárhagslegs árangurs, einsog fyrir skömmu hefði verið sagt. Núna er einmitt algengast að hver rísandi stjarna nýti frægðina undireins til að efla fjárhaginn með auglýsingaleik eða -gerð, og sumar þeirra hafa reyndar verið með annan fótinn á auglýsingastofunum löngum stundum.

Svona skýrar línur eða skil hafa verið að hverfa síðustu ár og áratugi, milli listaverks og auglýsingar, einsog reyndar skilin milli auglýsinga og frétta og skemmtunar og auglýsinga og frétta og slúðurs og auglýsinga og umræðu og áróðurs.

Sumir segja sjálfsagt að sá samruni allur sé bara veröld ný og góð sem ekkert er við að gera – en á hinn bóginn var einmitt þetta líka sagt um allt það nýja og góða frá 2007. Okkur á ekki að vera sama.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.12.2009 - 11:53 - 5 ummæli

Háir vextir?

Lögfræðistofan Mishcon de Reya hefur komist að þeirri niðurstöðu að vextirnir á Icesave-láninu séu of háir – eða það segir allavega í fréttum Moggans og RÚV. „Flokksgæðingar“ – sem er örugglega eitthvert Samfylkingarlið – þykjast að vísu hafa fundið út að lögfræðingarnir – eða réttara sagt lögfræðingurinn, sem heitir Michael Collins, færi engin rök fyrir þessum úrskurði og byggi hann ekki á neinskonar rannsókn. Og hin enska lögfræðistofan, Ashurst, minnist ekkert á þetta, kannski af því lögfræðingarnir þar eru ekki eins miklir hagfræðingar og Michael Collins hjá Mishcon de Reya. En svo er ekkert að marka hana, segir Sigmundur Davíð, af því þeir hjá Ashurst gáfu víst Svavari ráð þegar hann var að svindla yfir okkur þessum svakalegu samningum (það gerðu þeir að vísu líka hjá M. de R. en örugglega allt öðruvísi ráð).

Á hinn bóginn fannst mér þetta líka þegar Icesave-samningarnir komu fyrst, að vextirnir væru háir, og hef sýnilega haft svipaðar heimildir og Mikjáll Collins de la Mishcon de Reya. Þeir eru að vísu fastir, sem þýðir að þeir breytast ekki hvað sem aðrir vextir hreyfast. Það merkir að ef þeir eru eins fjallháir og við teljum, ég og Collins, þá ætti að vera tiltölulega einfalt að fá lán með betri kjörum þegar aðeins fer að rofa til og lánstraust Íslendinga eflist á ný. Það lán getum við þá notað til að borga upp Icesave-lánið, einsog við höfum rétt til hvenær sem vera skal.

Ef við skyldum nú ekki fá svona lán – ja, kynni þá ein af ástæðunum að vera sú að vextirnir séu kannski ekki eins háir og okkur Collins finnst?

Samkvæmt ofantöldum fréttum virðist ekkert nýtt að öðru leyti í álitsgerðum lögfræðistofanna ensku. Nema það sé nýtt fyrir einhverjum að þar er annað talið illmögulegt en að samþykkja samninginn. Stofan Mishcon de Reya býðst að vísu til að taka að sér málsókn af Íslands hálfu – án þess þó að nefna hugsanlega þóknun. Þann kost höfum við núna rætt í tæpa sjö mánuði samfellt, en jafnvel Sigmundur Davíð er hættur við. Og nú er mál sannarlega að linni.

Hvað kostuðu annars þessar álitsgerðir sem Sjálfstæðis- og FramsóknarHreyfingin pöntuðu  frá ensku lögfræðistofunum Ashurst og Mishcon de Reya?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.12.2009 - 14:50 - 12 ummæli

Pollýanna mætt í Kaupmannahöfn

Loftslags-skömm – Climate Shame – var hrópað fyrir utan Bella Center í nótt, sem að minnsta kosti kvartrímar við Climate Change og er andstæðan við hið langþráða Climate Justice. Og í dag hafa öll helstu umhverfis- og loftslagssamtök lýst megnum vonbrigðum sínum með niðurstöðuna af ráðstefnunni í No-Hopenhagen eða Brokenhagen. Það hafa þjóðarleiðtogar líka gert, auðvitað eyríkjanna smáu sem eru í bráðri hættu og annarra fátækustu þróunarríkja, en líka leiðtogar ýmissa iðnríkja, einna fyrstur Sarkozy Frakklandsforseti.

Það er létt verk að tæta niður textann frá Bellasentri. Við megum engan tíma missa, sagði hver ræðumaðurinn af öðrum á hálfsmánaðar-ráðstefnu 17 árum eftir upphafsfundinn í Ríó, 12 árum eftir að Kyotobókunin var undirrituð. Vísindin eru óyggjandi um loftslagsvána og fremstu sérfræðingar telja að næstu 5 til 10 ár ráði úrslitum, það þurfi ákvarðanir strax – tæknilausnir skortir ekki ef fé fengist til að vinna og framleiða – öllum sem vilja opna augu og eyru er ljóst að loftslagsváin er ekki lengur framtíðarspá heldur samtíðarstaðreynd, skelfileg í sjálfu sér og ennþá hræðilegri vegna þess að hún einsog skerpir og erfiðar allan annan vanda mannkyns og náttúru: bilið milli ríkra og fátækra, kynjamisrétti, styrjaldir, flóttamannastrauma, „venjulega“ mengun, hungur, sjúkdómsfaraldra …

Og út kemur plagg sem endar í verulegri hlýnun, uppundir 3 gráðum yfir meðaltalinu fyrir iðnbyltingu, ekki þeim 2 sem flestir voru komnir niður á, langt yfir 1,5 gráðum sem fólkið á láglendu eyríkjunum telur skilja milli lífs og dauða. Plagg sem skuldbindur engan að þjóðarétti og ríkin geta einsog valið að vera með í, og felur ekki einusinni í sér skýr fyrirheit um dagsetningu lokasamnings. Flopp. „Nedsmeltning,“ segir Politiken.

Þarna fyrir utan Bellusentur langaði mig mest að standa áfram um nóttina með krökkunum að hrópa Climate Shame framan í dönsku lögguna. En var þreyttur og daufur í dálkinn og fór heim til vina minna Gests og Kristínar að sofa frammá dag.

Pollýanna skoðar stöðuna

— Það er óþarfi að vera svona svartsýnn, sagði svo Pollýanna í morgun, — og getur jafnvel verið skaðlegt. Pollýanna vinkona mín telur nefnilega að þrátt fyrir allt hafi náðst talsverður árangur í Kaupannahöfn. Sérstaklega miðað við gang ráðstefnunnar þar sem allt virtist ætla upp í loft alveg fram á síðustu stund. Þegar ég saka hana um að vera einsog pólitíkus sem tapaði kosningunum en segist hafa staðið sig ágætlega miðað við skoðanakannanirnar – þá segir Polla að nokkuð kunni að vera til í því, en á hinn bóginn hafi Hopenhagen-ráðstefnan verið hæpuð uppúr öllu valdi, og gerð að einni allsherjar heimsslita-ögurstund. Það sé sem betur fer ekki raunveruleikinn. Þegar litið sé á stöðuna síðustu mánuði og misseri megi vera ljóst að það var ævintýralegt að hugsa sér mikið meiri árangur. Bandaríkin voru ekki með í Kyoto, og þróunarrríkin höfðu þar engar skuldbindingar, segir félagi Pollí – nú hafi hinsvegar verið gert samkomulag þar sem bæði Bandaríkin og þróunarríkin með Kína í fararbroddi skuldbindi sig til að vera með í samdrætti og öðrum aðgerðum til að vinna gegn vánni eða milda afleiðingar hennar. Það er mikilvægt, segir Pollýanna – og alls ekkert viðbúið þótt auðvitað hafi umhverfissamtök og loftslagsmeðvitaður almenningur á Vesturlöndum gert sé vonir um meira.

— Það skiptir sérstöku máli fyrir framhaldið að allir þjóðarleiðtogarnir tóku þátt í fundinum í Höfn, segir fröken Jákvæð líka. — Með komu sinni og ræðum gáfu þeir málinu það vægi sem það verðskuldar, og tókust á hendur bein eða óbein loforð og fyrirheit sem ekki gleymast. Eftir Kaupmannahöfn aukast líka kröfur á stjórnmálamenn og atvinnulíf alstaðar um jarðarkringluna um árangur bæði heima og á alþjóðavettvangi. Kannski er svo bara gott að væntingarnar verði ekki svona svakalegar fyrir næstu ráðstefnu, „COP-16“ í Mexíkó.

— Hér verður, secundo, að líta til þess, dixit Pollia maioris amica, sem er ágætlega verseruð í mannkynssögu og var latínunörd í MR – að með niðurstöðunni í Kaupmannahöfn hafa helstu persónur á aðalsviði 21. aldar heitið nýjum skuldbindandi samningi – Bandaríkin, Kína og fátæku ríkin, Brasilía, Indland, Evrópusambandsríkin 27 plús 1 (og er hér að skemmta neimönnnum Heimssýnar).

Ekki vopnahlé

— Tertio, segir hin ljúfa Pollýanna: — Vegna samningsrammans á ekki að vera hætta á því að nú fari af stað svipað ferli og stundum rétt áður en samningar nást um vopnahlé í styrjöld, þegar herirnir reyna í örvæntingu og með miklum blóðsúthellingum að bæta stöðuna áður en pennarnir fara á loft. Þvert á móti. Menn vita um viðmiðunina, losunarstöðuna 1990 eða 2005, og vita líka að ef þeir fara langt frammúr henni lenda þeir í að draga þeim mun meira saman eftir að samningar nást. Þetta á að tryggja að ekki fari allt úr böndunum næstu misseri þrátt fyrir úrslitin í Bellu – ásamt þeim fyrirheitum einstakra ríkja sem gerð var grein fyrir í Höfn, oft með þeim formála að ríkið ætlaði sér ákveðinn lágmarksárangur hvað sem hér gerðist.

— Ultimo – og mín er komin í ham: Samningurinn er vissulega arfa-slakur á yfirborðinu, en hver væri staðan ef leiðtogarnir hefðu ekki náð saman? – Þá væri sjálf aðferðin í hættu. Sú kenning hefði þá fengið á fæturna að þetta þýddi ekkert, SÞ gæti þetta ekki, og vonlaust að hafa alla með í ákvörðunum um svona mál. Það var fyrir stuttu afstaða ríkisstjórnanna í Washington og Canberra áður en Obama og Rudd hófust þar til valda – Bush og Howard töldu að málið yrði að leysa með stórveldaaðferðum, ef þetta væri á annaðborð eitthvert úrlausnarefni og ekki bara plat frá vinstrimönnum og hippum.

— Með niðurstöðunni í Höfn er tryggt að ferlið heldur áfram og tími sóast ekki við að gera einhverjar aðferðatilraunir eða byrja upp á nýtt, segir hin eina sanna, Pollýanna. Hún stóð einmitt við hliðina á mér að hlusta á Al Gore, og er síðan soldið skotin í þeim gamla: — Gore benti á Montréal-samninginn um ósonlagið. Hann var talinn ómögulegur og hálfgerð svik í upphafi – en samningurinn sjálfur til varð samt til þess að bæði pólitíkusar og bisnessmenn fóru að taka vandann alvarlega, skrúfurnar í samkomulaginu voru hertar næstu árin, og núna erum við komin vel á veg með að fylla í ósongötin.

— Og hvað þá, elsku Polla bolla, spyr ég.  – Eigum við þá bara að bíða róleg eftir COP-16 í Mehhíko og COP-17 í Höfðaborg og COP-18 á Kolasubbustöðum í Langtburtistan?

Í garðinum heima

— Nei, svarar Bjartsýn, og vitnar í Voltaire: Garðurinn heima! Nú verður hver að gera gagn í eigin landi, með því að veita forystumönnum sínum aðhald í samningamálunum en þó ennþá heldur með því að vinna að metnaðarfullum samdrætti, í landinu, í sveitarfélaginu, í fyrirtækinu og á heimilinu. Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag án kolefnalosunar, og eigum að passa okkur að það samfélag sé fyrir alla, segir Polla, sem er nýlega gengin bæði í Samfylkinguna og Græna netið. – Markmið jafnaðarstefnu og loftslagsverndar fara oftar en ekki saman, þylur hún svosem að lokum og hvessir augun á prófkjörsfréttir á netinu, — sjáðu til dæmis almenningssamgöngurnar, og Fagra Ísland, og sprotastefnuna! Þetta skal hafast, og í tæka tíð, — og hvað sem þeim líður, Obama og Merkel og Jiabiao og Lumumba í Súdan, þá er það ekki síst komið undir mér og þér!

Svo fáum við okkur en pølse med brød á Ráðhústorginu og drekkum kalda sjokolademælk úr flösku. Þorum ekki strax í grænan Túborg. Það gæti komist í Kastljós.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur