Þriðjudagur 3.3.2009 - 18:29 - 21 ummæli

Gott hjá Ástu Möller

Yðar einlægi varaþingmaður fór í dag í ræðustól alþingis og þakkaði Sjálfstæðismanninum Ástu Möller í einlægni og alvöru fyrir það sem hún sagði í sjónvarpsviðtali í gær. Þar viðurkenndi Ásta að hún ætti sína sök á þeirri atburðarás sem leiddi til hrunsins í haust og bað kjósendur sína og almenning allan afsökunar á því að hafa ekki staðið sig nægilega vel sem alþingismaður í aðdraganda hrunsins og þegar kreppan skall á.

Ég meinti þetta. Ásta Möller gerði það í gær sem aðrir hafa fæstir þorað. Geir Haarde hefur enn ekki komist lengra en að segja: Hafi ég gert mistök …, og: Maybe I should have.

Í mínum flokki hafa forystumenn ekki heldur gert nógu góða grein fyrir sínum þætti í þessu öllu saman. Vissulega nær ábyrgð Samfylkingarinnar aðeins til 18 mánaða meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað í 18 ár. En mitt fólk átti að taka mark á viðvörunum, láta vita, grípa miklu fyrr fram í hagstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfur er ég auðvitað varaþingmaður og hef ekki tekið þátt í ákvörðunum framkvæmda- eða löggjafarvaldsins um efnahagsmál. En þegar ég skoða málið frá eigin sjónarhóli er niðurstaðan að ég átti að vera gagnrýnni á mitt fólk, spyrja grimmar, fylgja eftir prýðilegri efnahagsstefnu okkar frá í kosningunum sem var sett niðrí skúffu eftir hjónabandið á Þingvöllum. Hugsa minna um flokkinn, meira um fólkið. Afsakið. — Ég hef hinsvegar engan móral yfir eigin verkum frá í haust og er stoltur yfir að hafa verið með í fundinum  þegar grasrótin greip í taumana í Þjóðleikhúskjallaranum.

Í umræðunni á eftir kom auðvitað upp hefðbundið karp þar sem Sjálfstæðismenn beindu spjótum sínum að Samfylkingunni og öfugt. Við losnum seint við svoleiðis orðaskipti á þinginu. Samt voru þingmennirnir margir að reyna að skoða málið einlægt og heiðarlega – einsog Ásta. Það er skref.

Ég held að við séum mjög stutt komin í þessu ferli, og verðum meðal annars hvert og eitt að horfa í eigin barm. Hinar efnislega ástæður hrunsins má ekki síst rekja til kvótakerfisins, ofurvirkjanaframkvæmda og illa undirbúinnar bankasölu. En meginástæðan eru hugmyndalegar villigötur þar sem Íslendingar – stjórnvöld og bisnessmenn auðvitað, en líka stórir hópar almennings – tóku trú nýfrjálshyggjunnar á græðgi og sérhagsmuni sem hreyfiafl samfélagsins en misstu sjónar á gömlum gildum úr samfélagi bænda og sjómanna hér fyrrum: Þrautseigja, nægjusemi, samtök og samhjálp. Og kapp með forsjá.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.3.2009 - 09:42 - Rita ummæli

Sama vsk. á nútíma og klassík

Nú geta allir komist ókeypis heila viku í orðabækur og önnur gagnasöfn á [snara.is] – ég hvet menn eindregið að prófa, hef góða reynslu sjálfur sem áskrifandi. Þarna er Íslensk orðabók, stóra ensk-íslenska, danska og franska og margar aðrar – en líka Íslendingasögurnar og Matarást Nönnu Rögnvalds. Hentugt og einfalt. Þetta eru vefbækur, góðar að fletta upp í þótt þær komi seint í staðinn fyrir prentgripina til lestrar og íhugunar.

Svo eru til rafbækur, þeim hleður maður niður í sérstök tæki sem ég hef kallað að gamni bókhlöðu – af því æpoddinn heitir stundum tónhlaða á íslensku – en sennilega er rithlaða betra orð um þetta (sjá t.d. www.bookeen.com). Rithlaðan er létt og þægileg fyrir ferðalög og flutninga, sniðug fyrir skólafólk til dæmis sem þarf að hafa með sér textann í skólann og heim, en ekki síður fín upp í sumarbústað eða í gönguferð á Hornströndum.

Ég veit ekki bara svona mikið um þetta vegna þess að á bak við Snöruna eru gamlir samstarfsmenn mínir úr orðabókarstörfum, Laufey og Marinó, sem ég óska til hamingju! heldur af því að við Helgi Hjörvar höfum flutt á þingi tillögu um að þessi rit nýrrar tækni beri sama virðisaukaskatt – 7% – og prentaðar bækur og hljómdiskar, en ekki 24,5% einsog nú. Þetta er auðvitað réttlætismál og fræðilega skynsamlegt (í skattaspeki og viðskiptafræði byrja menn að tala um samkeppni staðkvæmdarvöru þegar svona ber á góma, það er kók og pepsí) en líka menningarmál og framhald á þeirri íslensku hefð að vera snöggur að tileinka sér nýja tækni. Þegar einstaklingstölvurnar komu (= fólkstölvur) var felldur niður á þær söluskattur í nokkur ár til að ýta undir almenna tölvuvæðingu á landinu.

Þetta litla frumvarp hefur fengið talsverð viðbrögð sem sýna mér að vef- og rafbókatæknin er mun útbreiddari en ég hélt meðal landsmanna. Úr einstaka barka heyrist að svona frumvörp séu ekki á réttum stað i miðri kreppu þegar frekar þurfi að auka skatta en að lina. Ég held að þessi breyting drægi ekki úr heildartekjum ríkisins af sköttum á rit og bækur því hún mundi einmitt stuðla að meiri sölu – og minna svindli einsog alltaf er hætta á í jaðartilvikum.

Í sama frumvarpi lögðum við svo til að samanbrotin kort bæru sama virðisaukaskatt og kort með gormum – ! þ.e. að 24,5% vsk. á venjuleg kort lækkaði í 7% einsog kort í bókarformi, til dæmis vinsæl vegakortabók frá MM eða Vegahandbókin góða sem Örn og Örlygur byrjuðu með.

Ég kannast við það sem gamall aðstoðarmaður úr fjármálaráðuneytinu að það verður að fara gætilega og hafa góða yfirsýn í skattamálum því víða spretta jaðartilvikin. Mér sýnast samt fáir neita því að hér séu á ferðinni sjálfsagðir hlutir.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.3.2009 - 19:41 - 6 ummæli

Sumt breytist einhvernveginn aldrei

Skil ekki alveg boðskap Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Annarsvegar kvartar hann yfir því hvað það gangi seint að koma málum gegnum þingið – meðal annars Seðlabankamálinu sem tók rúmar tvær vikur – og hinsvegar telur hann að þingið eigi að miklu meira svigrúm til að fjalla um þingmál stjórnarinnar – en besta dæmið um það er einmitt Seðlabankamálið sem Framsókn skoðaði afar ítarlega í nefnd.

Hann kvartar yfir því að 80 daga-stjórnin skilji ekki að hún er  minnihlutastjórn sem þarf að lúta meirihlutavilja á þingi –- en á hinn bóginn vill hann ekki að stjórnin flytji nein mál á þingi nema þau sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjálfur telur nauðsynleg fyrir landsins gagn og nauðsynjar.

Einsog Framsókn vilji vera í senn í stjórn og stjórnarandstöðu: Já, já og nei. Ekki taka ábyrgð á því að styðja stjórnina. Og ekki bera ábyrgð á því að fella stjórnina. Opin í báða enda.

Einsog sagt var í gamla daga. Kosningaósigrar, bankahrun, forystuskipti –- en sumt breytist aldrei. Eða einsog Frakkarnir segja: Því frekar sem það breytist, þeim mun meira er það alveg eins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.3.2009 - 08:47 - 8 ummæli

Mataræði risaeðlna

Það var mikil hamingja hjá okkur stuðningsfeðgum þegar við fundum á Borgarbókasafninu Risaeðlubókina frá Skjaldborg. Textinn er að vísu nokkuð fræðilegur en það kemur ekki að sök því sonurinn (fjögurra ára en bráðum fimm og svo sex) er ekki langt kominn í lestrarlistinni og föðurnum gefst því nokkurt svigrúm til túlkunar – en myndirnar eru stórkostlegar og þar sjást mörgþúsund risaeðlur við ýmis tækifæri alstaðar á hnettinum, nema á Íslandi sem hefur þann alkunna galla að þar eru mjög fá dýr og engar risaeðlur.

Þarna eru myndir af stórum eðlum með langan háls að borða lauf af trjánum, og myndir af eggjum og ungum, en meiri athygli vekja eðlur á tveimur fótum með mjóar hendur en rosalegan kjaft með beittum tönnum, og sérstaklega þegar þær eru að slást eða elta önnur dýr.

Mikil harmsaga er það svo þegar kemur að endalokum risaeðlnanna. Það þarf að skýra út hvað loftsteinn er og hverjum ósköpum hann getur valdið en í Risaeðlubókinni er einmitt mynd af téðum loftsteini að lenda á jörðinni með eldglæringum og hávaða, og síðan af trjám sem eru dáin og stórri dáinni eðlu og annarri sem er mjög lasin í öllu rykinu. Þetta vekur ýmsar spurningar, einkum þegar flett er á næstu opnu með myndum af dýrunum sem af lifðu: fuglar og stórir kettir, svín og einhverskonar apar sem stuðningsfaðirinn staðhæfir að seinna verði að mönnum. Af hverju dóu ekki þessi dýr líka? Jú, þau voru svo lítil og földu sig niðrí í jörðinni þegar loftsteinninn kom, eða flugu burt á himninum. En hvernig vissu þau að loftsteinninn var að koma? Var ekki ryk líka í himninum? Og þetta tígrisdýr með stóru tennurnar, hvernig komst það ofan í jörðina?

Þegar ekki verður lengur dvalið við þessa tilvistarspurn er aftur flett á uppáhaldsstaðina, sem einkum eru bardagaatriði og meðfylgjandi borðhald. Á einum stað er stór svört eðla að taka litla græna eðlu í kjaftinn og önnur stór eðla með munninn fullan af blóðugu kjöti en hinar litlu eðlurnar forða sér á miklu stökki yfir fenin. Svo er eðla að éta stóran fisk og reyndar nokkrar niðrí sjónum við aðskiljanleg veisluhöld. Mikla athygli vekur mynd af knálegri eðlu með mikil horn og digran hala, í kringum hana hlaupa margar grimmar eðlur smærri og ætla að bíta hana og éta svo, en rétt hjá er hávaxin eðla, afar tannhvöss, og eru áhöld um það hjá okkur feðgum hvaða afstöðu sú hafi til atburða. Ég held því fram að hin síðastnefnda sé vinur ofsóttu eðlunnar og ætli að koma að hrekja stóðið burtu en sá fjögurra ára telur að hún sé að bíða eftir að bardaginn klárist og ætli að éta þá sem eftir verða.

Í miðri þessari umræðu þagnar stuðningssonurinn, horfir nokkra stund á atganginn og segir svo: Já, en af hverju kaupa þær sér ekki bara hamborgara?

Ég ætlaði annars að blogga eitthvað um tíðindin í Samfylkingunni – en stranda einhvernveginn alltaf á þessu með hamborgarana …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.2.2009 - 09:50 - 4 ummæli

Góð hugmynd — frá Sjálfstæðisflokknum!

Nýr Seðlabankastjóri strax í dag. Norðmenn fá Ingimund en við Svein Harald Eygarð, og með honum besta mann Svörtulofta, Arnór Sighvatsson. Og ekki seinna vænna. Seinna kemur svo maður til frambúðar eftir auglýsingu og rannsókn hæfisnefndar. Það er einhvernveginn léttara yfir þegar þetta Seðlabankamál er búið.

Annars var það ágæt hugmynd hjá Birgi Ármannssyni að alþingi þyrfti að staðfesta ráðningu Seðlabankastjóra –- en það var breytingartillaga Sjálfstæðismanna við síðustu umræðu um Seðlabankalögin í gær. Hún hefur þann galla núna að samþykkt hennar hefði tafið ráðningu Sveins og Arnórs um svona tvær-þrjár vikur, sem við máttum ekki við. Þetta er hinsvegar sjálfsagt að athuga seinna.

Áður hefur komið fram tillaga um að alþingi þurfi að staðfesta ráðningu embættismanns. Það er frumvarp Lúðvíks Bergvinssonar um að skipun hæstaréttardómara þurfi að bera undir þingið en þeirri tillögu hafa Sjálfstæðismenn einmitt fundip allt til foráttu. Með þessu væru samt tempruð afskipti framkvæmdavalds af dómsvaldinu, sem hafa meðal annars komið í ljós á undanförnum árum í umdeildum dómaraskipunum dómsmálaráðherra (og einusinni Árna Mathiesens, setts dómsmálaráðherra).

Ég er ekki jafnharður á Seðlabankastjóranum af því hann er klárlega framkvæmdavaldsmaður, en tillagan er samt ágæt. Seðlabankinn á að vera sjálfstæður og með einn bankastjóra, fagmann. Það skiptir miklu hver það er, og staðfesting þingmeirihluta mundi styrkja hann til verka.

Takk fyrir þetta, Birgir og aðrir Sjálfstæðisflokksmenn. Svo er bara að halda áfram að bæta stjórnsýslu og lýðræði. Þið hljótið til dæmis að styðja stjórnlagaþing? Og persónukjör? Leiðinlegt samt að þið skylduð ekki geta verið með í þessum skipulagsbreytingum í Seðlabankanum. Var þetta eitthvað óþægilegt?

Við hin fögnum mikilvægum áfanga. Niðrá Austurvelli voru frá því í október settar fram fjórar kröfur – sem voru rifjaðar upp þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu í gær á þinginu –  kosningar strax, að ríkisstjórnin segði af sér, að það yrði tekið til í Fjármálaeftirlitinu og sömuleiðis í Seðlabankanum. Þær urðu að veruleika hver af annarri, og núna er kominn grundvöllur til að byrja upp á nýtt.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.2.2009 - 18:07 - 7 ummæli

En hvar er Steingrímur?

Davíð er eini maðurinn, Ólafur Ragnar alltaf hress, Svavar í samninganefndina og Jón Baldvin í framboð. En hvers á Steingrímur Hermannsson eiginlega að gjalda?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.2.2009 - 10:09 - Rita ummæli

Framsókn svari strax

 

Ég er talsverður áhugamaður um sannfæringu alþingismanna. Að það sé að koma skýrsla frá Evrópusambandinu er það ekki samt nokkuð einstakt innihald fyrir sannfæringu alþingismanns?

Það var skrýtið að fylgjast með á þinginu í gær. Tveir Framsóknarmenn greiða atkvæði í nefnd, og annar segir já og hinn nei um framgang frumvarps sem er á leið í síðustu umræðu og búið að lagfæra eftir tillögum og dyntum Framsóknarmanna, og frumvarpið fjallar um eitt af meginmálum nýju stjórnarinnar sem Framsókn ver falli, um nýskipan Seðlabankastjórnarinnar til að endurreisa traust á bankanum og hagstjórn í landinu.

Þetta er líka eina krafan frá Austurvelli sem eftir stendur, nauðsynlegt til að það sé hægt að halda áfram að tala við AGS, sem aftur skiptir öllu fyrir framhald efnahagsaðgerða, sem snúast um að ráða bót á atvinnuskorti og skuldum fólks og fyrirtækja.

Hvað er Framsókn að hugsa? var spurt um allt land. Er Höskuldur bara léttruglaður í prófkjöri? (við hinn Frammarann í viðskiptanefnd, Birki Jón Jónsson!) eða eru þeir að leika sér að leggja saman núverandi þingmannatölu þarsíðustu stjórnarflokka, B og D, og fá út meirihluta sem fellir Jóhönnu úr stjórnarráðinu, frestar kosningum en heldur Davíð áfram í Seðlabankanum?

Svar strax í dag, Framsóknarmenn. Annars byrja menn að taka búsáhöldin aftur úr úr skápnum!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.2.2009 - 10:02 - Rita ummæli

Ánægja, afsökun, Ísfahan

Gaman að vera byrjaður aftur að blogga. Hætti eftir kosningar í hittifyrra þegar mér var hent út úr þinginu, svo var ég í vinnu við vefinn hjá Samfylkingunni, skrifaði þar meðal annars „leiðara“ og fannst hálf-kjánalegt að blogga sjálfur við hliðina, og þar á eftir var talsvert að gera við að verða sjálfstætt-starfandi fræði- og stjórnmálamaður á Reykjavíkurakademíunni, og svo kom hrunið og mótmælahreyfingin og búsáhaldabyltingin.

Illar tungur segja auðvitað að þetta nýja Eyjublogg sé bara útaf prófkjöri Samfylkingar. Touché. En bloggið er líka ákveðinn lífstíll sem ég saknaði. Á meðan bætti Linda úr og er orðinn meiriháttar Feisari (kemur fyrir ég spyr hana hvaðan hún fái laun fyrir þau störf). Ég hef einmitt hugsað mér að vera síðasti Íslendingurinn utan Fésbókar. Linda já – ég bið afsökunar þá sem gerðu ágætar athugasemdir við fyrsta pistilinn um persónukjörið. Linda einmitt heimtaði að fá að laga hér til mynd og letur með þeim afleiðingum að allar athugasemdirnar hurfu. Í þeim viðburði er örugglega falin einhver æðri speki, ég bara veit ekki hver.

Nokkrir hafa annars spurt hvaðan sé þessi sérstæða mynd. Hún er tekin á Ímamtorginu í borginni Ísfahan í miðju Íran – næststærsta borgartorg í heimi á eftir Torgi hins himneska friðar, segja heimamenn, frá 16. og 17. öld og ótrúlega glæsilegt, enda ekki leyfðar í grenndinni byggingar sem sést gæti í frá torginu – bara fjallið. Konungshöllin með súlunum til vinstri, því Ísfahan var höfuðstaður Persíu á blómatíma sínum, en ekki sjást hér moskurnar tvær við torgið, önnur stór og mikil og merkileg – hin smá og fínleg fyrir kvennaskara sjasins, Lótfollamoskan, einhver fegursta bygging sem ég hef barið augum. Við vorum þarna með Jóhönnu Kristjóns í mars í fyrra – í þeirri ferð var aðalspenningurinn á hverju kvöldi að vita hvað krónan hefði fallið mikið þann daginn. Og á Ímamtorginu í Ísfahan könnuðust menn við Ísland. Einn sölumaðurinn á basarnum taldi upp norræn lönd þegar hann sá okkur og þegar við kinkuðum kolli við „Iceland, Iceland“ brosti hann sínu breiðasta og tók upp nafnspjald Guðmundar Árnasonar fyrrverandi ráðuneytisstjóra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í menntamálaráðuneytinu. Við reyndumst vera búin að afgreiða teppamálin, sem voru vonbrigði fyrir okkar mann, og við urðum í staðinn fyrir vonbrigðum með að hann skyldi ekki þekkja Þorgerði Katrínu. Svo bara var brosað.

Annað nafn á Ísfahan er Naksj-e-djehan, hálfur heimurinn. Og okkur dvaldist á Ímamstorgi og hugsuðum um allt annað en yfirmenn í íslensku ráðuneyti.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.2.2009 - 00:40 - 13 ummæli

Eyðileggja þeir persónukjörið?

 

Af lýðræðisumbótum sem nýja stjórnin hefur kynnt eftir búsáhaldabyltinguna sýnist mér nokkuð sennilegt að stjórnlagaþingið nái í gegn – en held að persónukjörið verði að engu í höndum núverandi þingmanna.

Það væri verra. Ein af lexíunum sem við drógum af hruninu og frammistöðu stjórnmálamanna í upphafi kreppunnar var að flokksræðið setti almennum alþingismönnum stólinn fyrir dyrnar. Þess vegna á almenningur að hafa meiri áhrif. Tillögurnar um persónukjör eru skref í þá átt – lítið skref, en skref þó – og „stjórnmálastéttin“ hefur ekki leyfi til að klúðra þessu máli. Það má ekki gerast aftur að alþingismenn sitji þegjandi og horfi hver á annan meðan eldarnir loga.

Persónukjörstillögurnar gera ráð fyrir því að kjósandi raði frambjóðendum í forgangsröð um leið og hann kýs tiltekinn lista. Flokkarnir setja þá fram frambjóðendur sína í stafrófsröð, og kjósandinn setur 1 við eitt nafn, 2 við annað og svo framvegis einsog hann nennir. Kjörnir þingmenn verða þá einfaldlega þeir sem fá flest vegin atkvæði. Höfundar tillagnanna, Þorkell Helgason og Gunnar Helgi Kristinsson, gera líka ráð fyrir að flokkar geti haft þetta einsog verið hefur, og bjóði kjósendum þá ekki aðra röðun en þær marklitlu útstrikanir sem nú tíðkast. Þriðja leiðin var svo sú – ég  veit ekki hvort hún verður með í frumvarpinu – að kjósendur hafi persónukjör en framboðin raði þó sjálf mönnum á listann. Það hefur Þorkell með brosi á vör kallað „áróður á kjörstað“ – kjósendur ráða þá vissulega röð frambjóðenda en framboðið lýsir vilja sínum og hvetur „eigin“ kjósendur til að raða eftir flokkslínunni: 1 á efsta mann, 2 á næsta og svo framvegis.

Sumum finnst þetta ómerkilegt, vilja beint lýðræði strax og helst þjóðaratkvæðagreiðslur á netinu, og aðrir vilja geta kosið fólk af öllum listum, nú eða í einmenningskjördæmum. Slíkar breytingar nást ekki fyrir kosningarnar í vor vegna þess að þá þarf að breyta stjórnarskránni. Til þess þarf en tvær þingsamþykktir með kosningum á milli. Um þetta er einmitt stjórnlagaþingið.

En tregða þingmanna stafar þó yfirleitt ekki af því að þeir vilji ganga lengra. Þvert á móti er þar áberandi japl og jaml og fuður – sem fyrst og fremst stafar af því að þeir eiga alltof margir erfitt með að taka persónulega hagsmuni sína út úr myndinni. Sjálfstæðisflokkurinn maldar í móinn og talar um tímaskort. Hættan er sú að aðrir þingmenn noti afstöðu íhaldsins sem afsökun fyrir að falla frá málinu.

En sumar af athugasemdunum við þessa nýju skipan eru auðvitað gildar.

Ein er sú að þetta verði ruglingslegt og það sé hætta á að kjósendur skilji ekki fyrirkomulagið og geri vitleysur. Þetta er rétt – en eru ekki tímar einsog þessir upplagðir til að reyna nýjungar? Pólitískur áhugi er mikill og almenningur er reiðubúinn að notfæra sér réttarbætur einsog þessar. Þar að auki höfum við alltaf verið nokkuð góð í kerfisbreytingum, frá hægri umferð gegnum núllin tvö af krónunni yfir í rafrænar skattskýrslur. Það var ekki síður flókið.

Önnur er sú að frambjóðendur á hverjum lista séu of margir. Í núverandi skipan eru 10–12 þingmenn í hverju kjördæmi, sem þýðir lista uppá 20–24 frambjóðendur. Þetta er ansi mikið að raða. Og hvað með heiðurssætin? – Líka réttmæt athugasemd. En það þarf ekki að raða öllum. Og ættu framboðin kannski að fækka á listunum til að auðvelda kjósendum valið? Sleppa heiðurssætunum? Það er auðvitað áskorun fyrir framboðin að hugsa þetta upp á nýtt. Er það ekki bara fínt? Ekkert er ómögulegt í þessu ef við viljum raunverulega að kjósendur fái þennan rétt.

En prófkjörin? spyrja margir. Þau eru þegar farin af stað, og eiga svo aftur að vera prófkjör í kosningunum? – Alveg rétt. En þá gætu framboðin einmitt notað þá reglu að raða sínu fólki upp eftir úrslitum í prófkjörinu, og hvatt kjósendur sína til að virða þá röð. Prófkjörin væru þá einmitt forkosningar eða skoðanakönnun. Flokkarnir þurfa eftir sem áður að stilla upp í sætin. Og núna þurfum við að þora.

Enn er sú röksemd tínd til að það sé ómögulegt að hafa mörg kerfi í gangi – hugsanlega sumsé tvö eða þrjú með afbrigðunum í persónukjörsframboðunum. – Það er líka nokkuð til í þessu. Á móti kemur að hvert framboð getur valið sér eina af þessum þremur aðferðum, þá sem því hentar best og er í mestu samræmi við hugmyndagrunn flokksins. Ætli íhaldsmenn mundu ekki velja gömlu aðferðina? – anarkistar örugglega óraðaðan lista, og enn öðrum hentaði þá millileikurinn með leiðbeinandi röðun.

Ætli hér sé ekki komin gamla góða samtryggingin? Flokkur sem vill hafa sína röð á frambjóðendum, honum líkar ekki að aðrir flokkar bjóði kjósendum að ráða. Þessvegna sé best að allir sitji í sömu súpunni, og að enginn hreyfi sig út úr gamla sýsteminu.

Sjálfur hafði ég það mest á móti persónukjöri að með því mundi prófkjörsstemmingin framlengjast alveg fram á kjördag. Framboðin gætu leyst upp í átök milli einstakra frambjóðenda á listanum (það er nóg samt!) og á venjulegum degi í kosningabaráttu mundu frambjóðendur fara að rífast hver við annan um það hver fengi að fara á fimmhundruð manna vinnustaðafund á Lansanum  og hver færi að hitta fimm varahlutakalla í Höfðunum. Hver fær að fara síðasta kvöldið í sjónvarpsumræðurnar, og hver verður látinn hella upp á kaffið á kosningamiðstöðinni?

Svo hugsar maður næst að ef framboð lenda í erfiðleikum af þessu tagi – þá eiga þau ekki skilið að fá mörg atkvæði. Persónukjör mundi einmitt krefjast meiri aga af frambjóðendum, og þeir þyrftu að vera alveg vissir um að þeir vildu í raun og veru bjóða sig fram hver með öðrum fyrir sameiginlegan málstað.

Ef eitthvað í líkingu við persónukjörið gerist ekki einmitt fyrir kosningarnar í vor – hvenær þá? Gleymum því svo ekki að í þessum efnum eru minniháttar mistök ekki bönnuð. Það er hægt að laga kosningakerfið seinna – það er nú hvorteðer ekki stokkið fullskapað út úr höfði Seifs. Einhverjir mundu kannski falla sem annars hefðu náð. Og hefur það ekki gerst áður?

Starfið er margt – og nú þarf að taka til höndum út um allt samfélagið. Það er eðlilegt að fá í hnén. En látum þá endilega ekki eyðileggja fyrir okkur persónukjörið. Það skiptir máli að stíga skref fram á við. Og núna þurfum við að þora.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur