Föstudagur 24.1.2020 - 13:06 - Rita ummæli

Að vera kristinn er allskonar

Hvað er að vera kristinn?

Hvernig veit ég að ég er það? Góð spurning en líka dálítið hættuleg. Er bara til ein tegund af þannig fólki og er einhver betur kristinn en annar?

Að vera kristinn er að lifa í samhljómi við Jesús, að vilja það, velja það. Hver ætlar að gefa þeirri vegferð einkun, hver gæti þóst vita hvernig næsti maður lifir og upplifir…?

Enginn er betri en annar og göngu eins ætti ekki að setja í nokkurn samanburð við göngu annars. Þar er hættan og þar verða vandræðin,

Þeir mælikvarðar sem við notum hvað þetta varðar eru gagnslausir og oft skaðlegir. Ef fólk gæti borið trúna utan á sér…

Vissulega má segja að breytnin segi til um það hvernig okkur miðar en það nær ekki langt. Við bregðumst öll margvislega og aftur og aftur jafnvel þó hjarta okkur og vilji standi til annars,

Davíð konungur var maður eftir hjarta Guðs og almáttugur hvað hann var misheppnaður. Á köflum var breytni hans ferleg en Guð sá hjarta hans og Davíð sá Guð mitt í ruglinu,

Þrátt fyrir það tókst honum oft ekki vel upp,

Markið er sett hátt, eiginlega alltof hátt ef við ætlum að vera dómhörð og kröfuhörð. Leiðsögn Guðs, lögmálið, boðorðin og svo margt sem við finnum í fagnaðarerindinu gerir kröfur. Ég fyrir mina parta fagna þar, veit þó að ég mun ekki rísa undir þeim öllum, að minnsta kosti ekki öllum í einu….

Að vera kristinn er að vera á göngu með Guði, punktur,

Á þeirri göngu er allskonar gott og miður gott en það segir ekki söguna. Sagan góða er vilji hjartans til þess að finna Guð og gera góðu gildin að sínum.

Hið góða fagra og fullkomna, ekkert meira, ekkert minna,

Heimurinn er fullur af kristnu fólki sem er ekki að “standa” sig, fólki sem gefur sig út fyrir það að elska Guð og Hans góðu tilsögn um lífsstíl og viðhorf,

Biblían, sem sumir segja leiðinlegustu bók allra tíma, kannski helst þeir sem hana hafa ekki lesið, hún undirbýr okkur fyrir það sem koma skal og það var nákvæmt og er,

Okkur mun mistakast, ekkert meira en fyrir tímann með Guði en viðmiðið er nýtt,

Og það er betra,

Fagnaðarerindið er margslungið og ég læri sífellt eitthvað nýtt um sjálfan mig og prinsippin, grunninn í boðskapnum,

Ég get ekki færst nær Guði með verkum, get ekki komist í úrvalshóp með því að standa mig af því að ég er þegar í úrvalshópnum. Guð skapaði mig eins og ég er og elskar mig eins og ég er, ekki vegna þess hvernig mér gengur heldur þrátt fyrir það,

Það mun fullreynt að ekki er hægt að lifa trú fyrir eigin vélarafli. Trúin verður til í hjartanu og er í raun löngun, endalaus vaxandi löngun til þess að verða það sem við erum sköpuð til,

Gott fólk með góðan vilja og góðar ákvarðanir,

En blessað eðlið er spillt, því miður og það reynir hver maður á sjálfum sér..

“Að vilja veitist mér auðvelt en mig skortir alla getu til góðs. 19 Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.”

Róm 7

Hver þekkir þetta ekki? Að standa sjálfan sig að því að hafa breytt rangt, hugsa eitthvað alveg ferlegt……..þvert á það sem okkur langar að gera eða vera,

Að vera kristinn er að muna eftir Guði. Ekki endilega á þann hátt að við náum markinu alltaf, miklu fremur þegar okkur mistekst, þá og einmitt þá munum við eftir þvi að Guð er með okkur, Guð hefur betra plan og betra líf,

Og löngunin vex og okkar vilji víkur smátt og smátt, oftar og oftar, fyrir góðum vilja Guðs fyrir okkur,

Að vera kristinn er allsskonar en það er óralangt frá því að vera auðvelt, það er ekki fullkomið líf en það er lifandi líf, það er hugsandi líf og það er líf sem bíður okkur nýja valkosti við hvert fótmál,

Þess vegna elska ég mitt kristna líf, mitt allskonar kristna líf, mitt oft misheppnaða kristna líf, mitt lífsbætandi og yndislega kristna líf,

Meira í dag en í gær

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 14.1.2020 - 19:38 - Rita ummæli

Leiðréttingarborðinn, áttavitinn. umferðarlögregluþjóninn….Jesús

Jesús frelsar og fyrirgefur og leysir….Hann gefur lækningu

Er hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki trúa skilji svona tal? Er þessi Jesús maður sem hefur umboð og getu til þess að gera þetta? Og hvernig gerist svona lagað…..

Ef það er einhver huggun harmi gegn hjá þeim sem finnst þetta botnlaust rugl þá er það þannig að við sem trúum eigum líka í margháttuðu basli með að skilja þetta og meðtaka,

Að einhver, eða eitthvað, sem hvorki sést né finnst fyrir okkar veraldlegu augum hafi þau áhrif að mennskar verur lifi fyrirgefningu synda, frelsi og lausn, gleði og frið,

Þessi boðskapur á alltaf erindið en aldrei verður auðvelt að “selja” fólki dílinn,

Af þvi þetta er ótrúlegt,

Hvernig getur þetta gerst?

Mig langar að eiga þau orð um þetta sem sannfæra en held þau séu varla til en þetta er fullkomlega raunverulegt. Þegar við ákveðum að ganga með Guði þá verða þessi undur. Þegar við eignumst samfélag við Jesús þá mun það kenna okkur að elska okkur eins og Hann gerir,

Nákvæmlega eins og við erum,

Við erum andlegar verur á andlegu ferðalagi þó það sjáist að mörg okkar eru mest upptekin af hinu veraldlega ferðalagi. Vinnan, bíllinn og húsið og það allt sem er mikilvægt en þyrfti kannski ekki að koma fyrst. Fyrst og fremst þarf að rækta andlega garðinn, þá mun hitt allt blómstra,

Þegar ég missi minn trúarlega damp þá líður ekki á löngu áður en áhyggjur og málefni hins veraldlega ná tökum á hugsun minni og þar með líðan. Friðurinn sem ég á hjá Guði er einstakur og með honum áhyggjuleysi og fullvissa um að allt sé í stakasta lagi,

Að fylgja Guði gerist ekki af sjálfu sér, alveg sama hversu lengi ég hef fylgt Honum. Ef ég tengi mig ekki þá verður enginn tenging og skiptir þá engu þó ég hafi lifað eins og móðir Theresa í gær. Náðin er ný í dag og það sem tilheyrði gærdeginum tilheyrir honum að eilífu,

Þannig er það sjaldnast hjá mönnum,

Guð er leiðréttingarborði, Hann er áttaviti, umferðarlögregluþjónn, Hann ýtir við okkur þegar við erum ekki á góðri leið, þegar við erum hægt og rólega að síga úr á hlið í hnakknum, þá hlið sem mun á endanum verða til þess að við dettum af baki,

Við höfum þann hæfileka flest að geta gleymt og mögulega fyrirgefið en við kunnum líka ofurvel að gleyma engu og fyrirgefa helst ekki, en fyrir mig varð grundvallarbreyting í þessu þegar ég fann Guð,

Það gerðist strax og það er enn að gerast. Ég finn hvernig góður Guð, þegar ég hef Hann við stjórn fyllir hjartað af góðum hlutum og ég sé möguleika og birtu við kjör sem áður fylltu mig allskonar handónýtum tilfinningum og hugsun sem leiddi til hegðunar sem var ekki til nokkurs gagns,

Þetta er ekki keyrt áfram af handafli, og reyndar engu þvi afli sem við þekkjum eða skiljum,

Borðið hreinsast, allt verður nýtt með nýrri byrjun,

Vesenið er að þetta samband, sambandið við Guð þarf að iðka og rækta til þess að þetta geri sig. Guð þarf ekki á þeirri rækt að halda heldur við sjálf,

Ég trúi því að þeir sem heyra svona eða lesa hafi úr tvennskonar viðbrögðum að velja. Annað hvort er þetta þvílík dómsdagsþvæla að engu tali tekur eða þetta er forvitnilegt,

Ekkert þar á milli, eða fátt,

Því miður fæðumst við ekki með þann eindregna vilja að eiga líf með Guði, það er eitthvað sem lærist, ef það þá lærist og ég trúi þvi að lífið muni fyrr eða síðar bjóða okkur upp á þann valkost að íhuga það hvort þessi Guð er til,

Stundum í gegnum depurð, áföll og sorg, en lífið með Guði er líka, og mest, ljós, birta og gleði og friður og lausn frá þvi sem meiðir okkur og aðra.

Og það skal alltaf vera líf þegar við eignumst fyrirgefningu þarna lengst inni í okkur, þar sem hennar er mest þörf og fátt ef nokkuð nær þangað jafn örugglega og sannfærandi og Guð,

Við komum eins og börn, barnatrúin okkar var og er hin hreina trú þar sem við heyrum góðan boðskap og trúum honum án þess að spyrja frekar, og það virkar!

Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Að trúa á Guð er snúið, sér í lagi ef við setjum Hann í mannsmynd og gónum til himins í von um að sjá Guð,

Guð er ekki þar. Hann er innra með, í hjartanu,

Og vinnur sitt verk þar og þar er þörfin mest og þar reynist það okkur hvað erfiðast að leysa málin sjálf og ein,

Þess vegna þarf ég Guð,

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 8.1.2020 - 23:47 - Rita ummæli

Bókstafstrú

Ég er spurður hvort ég sé bókstafstrúarmaður
Í þeirri neikvæðu merkingu sem það orð hefur fengið í nútímans rás. Ég kýs að hártoga þetta allt í mínu svari enda spurningin ekki já eða nei spurning,
Auðvitað er biblían grundvöllurinn. Kristnir hafa ekki í önnur plögg að leita. Trúin á Jesú krist er ekki eins og stofnun einkahlutafélags þar sem menn með einföldum hætti breyta samþykktum,
Það er þó þannig að biblian datt ekki fullsköpuð af himnum ofan, það voru dauðlegir menn sem ákváðu hvað þar skyldi vera. Sú saga öll, sú þróun er mjög áhugaverð fyrir guðfræði dellukarl eins og mig….

Ég trúi á biblíuna vegna þess að þar er Orðið sem hefur breytt heiminum meira en nokkuð annað. Þar er vissulega ýmislegt sem ég skil ekki og annað sem ég er merkilega ósammála og ég geng út frá því að þannig muni það alltaf vera,

Þetta orð er lifandi umfram annað sem ég hef lesið. Það sem er satt í dag efasemdir á morgun. En grunnurinn er skotheldur og ekki efi í mínu hjarta að þarna er mitt líf, min von og framtíð auk nútíðar,
Menn hafa gert það að lífsstil að vera ósammála um allskonar og stofnað allt að því óteljandi kirkjudeildir. Af því má draga þá ályktun að þessi bók sé ekki venjuleg bók, heldur bók sem mætir hverjum og einum misjafnlega þó allir játi í grunninn sama hlutinn,
Jesús kristur er sannleikurinn og lífið,
Ég trúi því fyrir mína parta að hver maður hefði afspyrnugott af því að lesa þess bók. Kristnir ættu vissulega að gera það og þeir sem þekkja hana einungis af afspurn, annað hvort þeirra sem elska hana eða þola hana ekki, ættu líka að prófa sjálf…
Vegna þess að þessi bók er einstök og hana lesa tveir menn sjaldan alveg sömu augum,
Er ég bókstafstrúar…
Veit það ekki en veit að mér tekst aldrei að lifa til fulls það sem Jesús kennir, þó mig langi mjög að lifa, nánast hvern staf, en það get ég með engu móti og fyrir því gerir Jesús ráð á hverri blaðsíðu,
Ég les bókina, líka það sem mér finnst torf, líka það sem ég get ekki tengt mig við, líka það sem mér reynist næsta vonlaust að lifa og af hverju geri ég það?
Vegna þess að ég veit, ekki bara af eigin reynslu, heldur reynslu kynslóðanna, sögunnar, að þar liggur leyndardómur. Ég bara veit ekki allt þó mér líði reyndar stundum þannig fyrir misskilning,
Mikið er það samt lamandi hugsun að við séum komin með þetta, munum ekki geta bætt við eða dregið frá…
Sumu er auðveldara að trúa en öðru, auðveldara að fylgja og hvergi held ég því fram að ég sé algerlega laus undan því að handvelja hverju er hagstætt að trúa og hverju eitthvað aðeins minna, 
Jesús boðar okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir ofsóknarmönnum. Stórglæsilegur boðskapur en hvernig hefur okkur sem gengið? Kennir líka að það sé vont að stela, að girnast, að myrða og allskonar sem okkur gengur líka misvel með en er undurfagurt í grunninn og ferlega erfitt að framkvæmd,
Ég reyni að þiggja fyrirgefninguna sem ég á þegar mér mistakist og þola mér að skilja hvorki né samþykkja Guðs orð í einu og öllu. Ber samt alla virðingu fyrir þessari bók og les hana og bið Jesús um opna augu mín þar sem þess þarf, og þau geta opnast og hjálpa mér að ganga betur fram í dag en í gær,
Hvernig sem það svo gerist,
Jesús kennir okkur ekki að vera dómhörð og Hann kom ekki til þess að dæma þó Guðs orð geti fundið okkur dæmd. Þar er Jesús ekki að dæma heldur við sjálf að eignast ný viðmið byggð á góðum gildum og hvar er sá sem ekki getur tekið gildin sem Jesús boðar að einhverju leyti eða öllu til gagns í sínu lífi?
Kannski er svarið við spurningunni það að mig langar til þess að vera bókstafstrúar, í jákvæðasta skilningi, en tekst það sjaldnast,
 36 „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“

37 Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. 38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. 39 Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. 40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
Matteus 22
Þetta er nú bókstafurinn börnin min og á þessu hvílir trúin. Svo eru allskonar hitt og þetta og þegar við lesum þessa mögnuðu bók þá mættum við muna eftir þessu fyrst og fremst,
Vegna þess að Jesús var og er bókstaflega besti kærleikssölumaður allra tíma

Flokkar: Bloggar

Laugardagur 16.11.2019 - 10:38 - Rita ummæli

Réttlætið og náðin

Réttlætið og náðin

Þessa dagana fréttum við af því að viðskiptamenn hafi verið að viðskiptast röngu megin við lögin. Það eru engar gleðifréttir og auðvitað bregðast allir við. Hver með sínum hætti,

Flestir þeir sem tjá sig við svona tímamót gera það vopnaðir reiði og réttlætiskennd og hvers vegna ekki?

Ég skil það en langar ekki vera hluti af þeim viðbrögðum sem eru þó svo mennsk,

Ég ætla ekki að leggja út af þeirri hugsun að dæma ekki fyrr en sekt er sönnuð eða dæma ekki yfirleitt.

Frekar þessu;

Öllum verður okkur á og þegar það gerist þá viljum við mildileg viðbrögð. Við viljum halda okkar sjónarmiðum þannig að á þau sé hlustað og við viljum mæta einhverskonar skilningi,

Ekki endilega samþykki,

Þó kurteisi og virðingu fyrir tilfinningum okkar og okkar nánustu. Þannig finnst okkur eðlilegt að okkur sé mætt. Hitt verður ekki umflúið að réttur sé yfir okkur settur, þar liggja réttindi okkar og skyldur,

En við viljum vera undir náðinni,

Það er fyrir okkur sjálf. En fyrir hina, fyrir aðra, þá viljum við réttlæti og ekkert múður. Engar skýringar skúrkanna og þá dæmum við hart og gerum það strax,

System breyta ekki heiminum. Ekkert kerfi kennir okkur að vera umburðalynd og auðmjúk til annarra eins og við viljum að aðrir séu við okkur. Þar rennur hverjum og einum það blóð til skyldunnar sem við viljum að sé í hjarta okkar,

Komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Verum hófstillt þegar bræður okkar og systur liggja lágt, verum þá góð útgáfa af manneskjum sem kennir til með þeim sem finnur sig á erfiðum stað,

Það er nóg af reiði í þessum heimi. Við kunnum hana og ef við erum lánsöm þá höfum við verið “réttu megin” þar. Erum reiða fólkið, réttláta reiða fólkið, dæmandi,

Það breytir heiminum þegar við launum illt með góðu, þegar við gerum sömu kröfu til okkar sjálfra og annarra. Sá er vill leggja eitthvað af mörkum í þeirri vegferð að byggja betri heim getur byrjað strax í dag. 

Á sjálfum sér,

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 7.10.2019 - 21:09 - Rita ummæli

Skóli (án aðgreiningar)

Merkilegar og mikilvægar stofnanir skólarnir okkar,

Við erum stolt af þeim, leggjum þeim til mikið fé og gott starfsfólk. Samt er eins og eitthvað sé að,

Drengir koma ótrúlega illa undan grunnskólakerfinu og sífellt verr og stöðuglega liggur leiðin niður hallann sem liggur til stóráfalls. Furðu sætir hversu lítið það er rætt. Staðan verður grafalvarleg innan ekki margra áratuga ef við bregðumst ekki við,

Þá að efninu…

Mér verður hugsað um hugmyndina, skóli án aðgreiningar. Skil pælinguna, hún er rósrauð og fögur þar sem allir eru eins og allir geta deilt kjörum við nám án tillits til annars en þess að við bara viljum það,

Ég er ekki fagmaður og bið þá sem þetta lesa að virða mér það til vorkunnar en ég sé hvergi fegurð í þessu formi heldur framleiðslu á vandamálum sem komast má hjá,

Í íþróttum hafa menn reynt að það er gagnslítið að láta börn með mjög mismikla getu stunda keppni í sama liði. Vissulega falleg hugmynd við excelskjal eða yfir kaffibolla en raunveruleikinn er grár,

Börnin eru þar á þeim stað að geta upplifað takmarkanir sínar á nýjan og óvægin hátt óháð þvi hversu mikið þjálfarinn reynir að fá hópinn til þess að taka ekki eftir þeim. Hópurinn mun með einum eða öðrum hætti sjá til þess, að jafnaði ómeðvitað,

Fái börn hins vegar að spreyta sig innan um jafningja finna þau fljótt til sín og þaðan vex þeim fiskur um hrygg,

Skólinn setur tvo jaðarhópa inn í skólastofu, skilst mér.  Þá sem eiga, af allskonar ástæðum í vandræðum með nám og svo bestu eða afburða nemendur innan um og saman með þeim sem fylla meðaltalið,

Afleiðingin, allskonar og fyrirséð vandræði,

Sem við reynum að leysa með teymivinnu með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn. Til að ná takmarki sem mér finnst hvorki byggjast á raunveruleika eða nauðsyn,

„Viltu endurvekja tossabekkina??“

Þessa spurningu fæ ég og eðlilega. Það er ekki markmið en erum við ekki með þá í dag?

…bara inni í skólastofunni með þeim sem betur eru fallin til þess náms sem bóknámsþjóðin vill að öll börn ljúki á sama hraða…..

Hættum að framleiða vandamál og kvíða í skólanum. Setjum nám barnanna okkar í farveg sem þau ráða við og þar sem þeim líður vel. Þar mun þeim fleygja fram en síður þar sem vandi þeirra blasir við, engum til gagns eða skemmtunar,

Við hljótum að eiga rönnur ráð, innan skólans, til þess að kenna börnum að við erum öll eins og öll falleg eins og við erum án þess að þrýsta þeim inn í box sem þau geta ekki passað í,

Að kenna börnum að þau séu „viðfangsefni“ teymis eða sérfræðinga, mest vegna þess að þau geta ekki haldið uppi meðaltalshraða eða upplifa leiða vegna þess að þau þurfa meiri hraða, er fyrir mig alls ekki góð vegferð,

Og meira,

Dæmt til að valda vandræðum, jafnvel kvíða eða varanlegum skaða.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 30.3.2018 - 10:02 - 3 ummæli

Davíð Þór og fagnaðarerindið

Að vera prestur

2. gr.

Samkvæmt köllun, vígsluheiti og vígslubréfi skal sérhver prestur hennar:

  • boða Guðs orð í anda evangelisk lúterskrar kirkju
  • hafa sakramentin um hönd
  • veita sálgæslu og hlýða skriftum og veita leiðsögn í andlegum efnum og trúarlífi
  • vera málsvari fátækra, boðberi réttlætis og kærleika Guðs
  • fræða unga sem eldri í sannindum fagnaðarerindisins
  • ferma, gifta, vitja sjúkra og nauðstaddra, jarðsyngja látna, styðja syrgjendur til huggunar
  • leggja sitt af mörkum í lífi og starfi þjóðkirkjunnar
  • leitast við að breiða út Guðs ríki í samfélaginu, og með því að styðja kristniboð og hjálparstarf.

Fagurt er það en nokkuð í ráðist og vart við því að búast að alltaf takist vel til. Okkur bersyndugum verður af og til á í messunni og þá er gott að eiga fyrirgefningu Föðurins og kærleikserindið sem Jesús boðaði,

Kærleika og virðingu fyrir fólki, jafnvel, og ekki kannski síst, fólki sem við skiljum ekki eða líkar ekki vel við. Það krefst ekki mikils að eiga kærleika til viðhlægjenda og skoðanabræðra en hitt er raunverulegur mælikvarði hvernig við komum fram við  „hina“,

Hver hefur sinn stíl og formið ekki aðalatriði heldur skilyrðislausi kærleikurinn og umburðalyndi fagnaðarerindisins. Ég finn ekki forsendur til þess að gefa af þeirri kröfu afslátt,

Davíð Þór Jónsson er skemmtilegur fýr og flest leikur í höndum hans. Enginn frýr honum vits auk þess sem innan í honum lifir sterk og skapandi listamannstaug,

Hann er prestur,

Aðsópsmikill og laus við athyglisfælni. Skoðanasterkur og viðrar þær hiklítið í ræðu og riti og stíllinn feikn flottur, Gott og blessað,

Prestar munu ekki fullkomnari en aðrir en til þeirra er litið enda menntaðir til kærleika og góðra siða og ég stend ávallt í þeirri meiningu að þeir séu sekir um að trúa því sem þeir fá greitt fyrir að boða,

Davíð á nú í allmikilli opinberri deilu um eitthvað sem þessi grein fjallar ekki um….

Þar predikar sérann neikvæðan og niðrandi texta til fólks sem hann skilur ekki og er ósammála. Að eiga líf með fólki sem við erum ósammála heitir að lifa saman í almennilegu samfélagi,

Þar sem mannkærleikur, virðing og umburðalyndi eru meginstef eins og Jesús boðaði og boðar enn,

Nú þykjast margir sjá þjóðkirkjuna í vanda og álykta þannig að við giska venjulegir nútimamenn munum vera að gefast upp á Guði,

Ég trúi hinu frekar að við menn komum óorði á Guð þegar kirkjunnar fólk á öllum tímum fer fram með þeim hætti sem minnir harla lítið á Frelsarann sem Guð nýja testamentisins sannarlega er,

Þegar prestar eignast hroka og fyllast af sjálfum sér ætti engan að undra að kraftur fagnaðarerindisins verði ekki bara daufur heldur fjarlægur,

Jesús kunni ekki að fara i manngreinarálit en var óþreytandi að lifa fagnaðarerindið til fulls. Það var ekki auðvelt og það er ekki auðvelt en þar er verkefnið og þeir sem vilja lifa í betri heimi eiga einn möguleika öðrum betri til þess að hafa þar afgerandi úrslit,

Og það er að byrja á sjálfum sér,

Guð gefi að mér takist það

Amen 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Laugardagur 23.12.2017 - 18:56 - 4 ummæli

Jólin eru ekki það sama án Jesús

Jólin eru ekki það sama án Jesús

Þá væru þau eins og hver önnur verslunarmannahelgi þar sem menn og konur fjölga frídögum og gera sjálfum sér og kaupmönnum glaða daga,

Kyrrð og fegurð jóla eru ekki gerð af manna höndum. Kærleikurinn sem flæðir út og yfir allt á jólum er ekki af þessum heimi. Þetta svo mikið góða sem stundum er rosa langt inni í hjarta okkur hreinlega þrýstist fram og verður allsráðandi,

Við verðum spariútgáfa af okkur sjálfum,

Upplifum vini og fjölskyldu á yndislegan hátt og elskum að gefa frekar en þiggja. Stundin þegar við leggjumst til svefns á jólanótt er einstök og það sem þá hreyfir við hjartanu  er frelsari okkar Jesús Kristur að fylla okkur af kærleika sem er ofar mannlegum skilningi,

Mér er ekki ókunnugt um það að margir, of margir, hafa Jesú ekki endilega með í hátíðahöldunum. Tala ekki um Hann, biðja ekki til Jesú, muna Hann ekki og þekkja næstum bara af afspurn,

Jólin eru fæðingarhátíð Jésu og sú staðreynd gerir jólin að jólum,

Að hátið þar sem við tökum amstur hversdagsins út fyrir sviga og geymum eða gleymum og göngum til móts við kærleika sem ekki tilheyrir þessu venjulega daglega. Jólin eru dagar þar sem við tökum til handargagns það allra besta sem við höfum að bjóða,

Og njótum þess og það verður á einhvern hátt auðvelt og sjálfsagt. Kannski vegna þess að þannig eru allir á jólum. Jólin draga það besta fram í hverjum og einum,

Þannig líður hver dagur með Jésus. Frelsaranum sem ekki bara reynir að draga það besta fram í okkur heldur vill það, gerir og getur ef við teygjum okkur til Hans,

Ekki þannig að við séum í sítengdum jólagír veraldlegum heldur að við munum eftir Jesús og verjum tíma með Honum,

Helgi jólanna dregur alla menn nær Guði, suma meðvitað, aðra alls ekki en samt finnum við öll það sama. Finnum hvernig hjartað fyllist af einhverju ofboðslega góðu. Þetta góða er sá kærleikur sem býr innra með okkur öllum. Kærleikurinn sem Jesús ætlar okkur að lifa alla daga ársins,

Þannig er Guð, Þannig er Jesús sem fæddist á jólum,

Guð gefi að við mættum öll, alltaf, lifa í þeim kærleika sem fæðingarhátíð frelsarans snýst um,

Betri gjöf getum við hvorki gefið né eignast

 

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 2.10.2017 - 23:51 - Rita ummæli

Ekkistjórnmál og auðmýkt

Svo það sé nú sagt…..

Erum við hætt að stunda stjórnmál?

Orðin meira og minna áhugalaus um hugmyndir og útfærslur og í leiðinni tapað hæfileikanum til þess að bera virðingu fyrir fólki sem við ýmist erum ósammála eða skiljum ekki,

Nú er hipp og kúl að vera reiður, enginn vill reyndar taka þann rétt af fólki, en að hafa reiði meðferðis þegar við ræðum stjórnmál kemur sjaldan að gagni,

Kannast við það,

Að ætla öðrum að vilja ekki gera góða hluti er afhjúpandi. Ég þekki engan sem vill ekki bara gera gott og öðlast þakklæti,

Mörgum finnst pólitíkin ekki merkilegur bransi, þar talar fólk víst ekki saman og hver hönd uppi á móti annarri. Áhugavert, við erum nefnilega stundum þannig hvert við annað og stjórnmálamenn erum við, ég og þú,

Giska venjulegt fólk með vonir og væntingar og góðan vilja. Þau eru foreldrar, afar og ömmur, eiginkonur og eiginmenn, bræður og systur sem ganga til vinnu sinnar vopnuð þeim ásetningi að vinna góðum málum farveg,

Mótstaða og rökræða er viðbúin og nauðsynleg, varla kvartar nokkur yfir því. En við misstum taktinn, við og þau,

Þeir þykja mestir sem yfirbjóða í umræðunni um vonda fólkið hinu megin við ímyndaða víglínuna sem færist til eftir pólitískum hentugleika, þó ekki nær staðnum þar sem auðmýktin er,

Allt leyfilegt á vegferð þeirra sem velja að bera hvorki virðingu fyrir né reyna að skilja það sem ekki virðist auðskilið,

Nefnilega að skilja fólk sem hefur aðra skoðun eða lífssýn en maður sjálfur,

Við megum vera ólík og við hljótum að vera það,

Þar er styrkurinn og þar getum við lært hvert af öðru ef okkur auðnast að gleyma því ekki að skoðanir annarra eru í engu verðminni en þær sem við eigum. Ef við eigumst samkomulag þar og lærum í leiðinni að stundum fá þeir að ráða sem ekki eru eins og við þá er til mikils unnið,

Ég er ekki betri í þessu en aðrir, öðru nær, þess vegna læt ég þennan pistil eftir mér,

Ef ég vill í raun og sann breyta heiminum þegar ég tjái mig þá er ein leið betri en sumar aðrar til þess,

Að byrja á mér sjálfum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 28.5.2017 - 14:35 - Rita ummæli

Að standa á gati

Ég stend iðulega á gati,

Stend líka í þeirri meiningu að ég sé rökhyggjumaður sem vill kryfja, til mergjar ef kostur er, og sannfærast þaðan,

Hver sagði að fyrir þann mann yrði auðvelt að trúa á Guð?

Biblían er biblía þeirra sem trúa og þar er ýmislegt sem ég skil trauðla og annað erfitt að meðtaka eða samþykkja. Ferðin þó mögnuð og það sem ég ekki skil í dag gjarnan gapandi augljós sannleikur morgundagsins. Lifandi orð…

Ég skil ekki hvernig þetta eða annað hefur átt sér stað, hvers vegna fólk hrökklast úr kirkju eða frá trú stundum með hjartasár og reiði innanbrjósts. Af hverju menn hafa brugðist með biblíuna í hendinni,

Veit þó og skil að ekki er talað um að tilbiðja kirkju eða menn. Mitt líf breyttist þegar ég gerði Jesú að ljósi lífs míns,

Tilgangurinn að eignast hið góða, fagra og fullkomna. Fullkomið mun það ekki verða en við keppumst eftir því, hvað annað….

Krafturinn kemur frá hjartanu sem veit þótt rökhugurinn kunni að efast. Engin rök geta tekið burt þá yndislegu upplifun, þau undur sem fylgja því að hafa Jesú að leiðarljósi,

Það krefst ekki trúar að finna kaffikönnu sem raunverulegan hlut en það krefst trúar að vona á eitthvað sem ekki verður séð eða snert,

Ég þarf ekki að skilja allt heldur muna hver áhrif trúin hefur, oft þvert á minn mannlegan skilning eða rök

Næstum óskiljanlegt en dásamlegt og stendur öllum til boða,

Ég bið þess að Guð gefi þér sem þetta lest opinberun og vilja til þess að leita Guðs sem býr innra með þér nú og alla daga

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 12.5.2017 - 11:58 - 2 ummæli

Ég má til

Við erum að tala um Jesú þúsundum ára eftir dauða hans og upprisu

Vegna þess að Guð er raunverulegur í dag eins og þá. Ekki af því bara heldur vegna þess að ofurvenjulegt fólk segir sögur af því hvernig lífið með Guði breytir,

Aðstæður aðrar en á dögum frumkirkjunnar. Við höfum meiri upplýsingar, meiri þekkingu, þótt við vitum ekki endilega meira. Lífsgæðin, hér í gæsalöppum, velmegunin önnur og heilmargt færst til betri vegar,

Kjör nútímamannsins, mælt á veraldlegan mælikvarða, í engu til samanburðar þeim sem lifðu þá gömlu daga. Samt höfum við nákvæmlega sömu þörf fyrir Guð og þau höfðu þar,

Guð breytist ekki,

Mennirnir ekki heldur, hið innra. Þörfin til þess að eignast bestu útgáfuna af okkur er alltaf lifandi,

Maðurinn leitar og ýmis fræði, speki, kemst í móð, allskyns þetta og hitt og allt aðlagað að nýuppfærðum þörfum okkar,

Svo dugar það ekki og við leitum annað eða það sem verra er, hættum að leita, og finnum okkur sjálf einhvernveginn meira týnd en nokkru sinni,

Biblían, fagnaðarerindið, er alltaf eins. Sögurnar þeirra sem ganga með Guði munu hvorki þagna né breytast. Þær eru ekki sagðar í veraldlegu ágóðaskyni og enginn neyddur til frásagna,

Þau, við, þú og ég, einfaldlega megum til og ég þekki varla betri hugsun en þá að þú sem lest eignist þau tækifæri sem líf mitt með Guði hefur fært mér,

Þar hefur hver og einn persónulegt aðgangsorð sem aldrei rennur út en veitir aðgang að náð Guðs sem leysir og læknar og gefur kraft og vilja svo við megum lifna til þess lífs sem kristin trú hefur boðað og mun boða,

Menn hafa predikað lengi og þetta Orð hefði hvorki predikara né fylgjendur nema fyrir það að fólk á öllum tímum þekkir áhrif þess að velja að trúa á Guð,

Þess vegna má ég til

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur