Þriðjudagur 6.10.2015 - 13:12 - FB ummæli ()

Aðeins um aðgengi og öryggismál Nýja Landspítalans

áskorun

Allt virðist stefna í framkvæmdir á Nýjum Landspítala við Hringbraut, ákvörðun stjórnvalda sem vægast sagt hefur verið mikið gagnrýnd að undanförnu m.a. af Samtökum um Betri spítala á betri stað (SBSBS). Aðeins er beðið um endurskoðun á staðarvalinu áður en sjálfar framkvæmdirnar hefjast á næstu vikum. Að öll nauðsynleg matsgöng á ákvörðuninni liggi skýr fyrir en sem ekki virðist hafa mátt ræða opinberlega og sem boðað málþing um staðarvalið ber vel með sér 13. okt. nk. og marka má af frummælendalistanum. Ég kemst þó ekki hjá því að minnast nú á nokkur gagnstæð sjónarmið sem ekki hafa verið rædd á þeim vettvangi. Ekki um hvernig undirbúningi hefur verið slælega háttað sl. áratug og sem kostað hefur hátt í 10 milljarða króna með hugsanlegum hagsmunatengslum ríkis og borgar við verktaka og fleiri aðila. Ekki þá gríðarlegu fjármuni sem fara í súginn (80-100 milljarða króna) og staðarvalið nú stenst ekki kröfur í náinni framtíð og byggja þarf allt upp á nýtt á betri stað. Ekki heldur að nýbyggingaframkvæmdirnar sem nú eru fyrirhugaðar (80.000 fm2) með bútasaum og miklum kostnaði við endurbyggingu á gamla húsnæðinu (60.000 fm2) kosti meira en að byggja nýjan spítala frá grunni á betri stað (140.000 fm2).

Ekki um þrengslin og gamaldags hönnun tengibygginga við nýjan meðferðarkjarna og gamla Landspítalann, þ.e. aðliggjandi deildir í yfir 40 húsum. Ekki að sumar deildir eins og t.d. kvennadeild, barnadeild og geðdeild gleymdust og að hin mannlegu gildi í auknu rými innan- sem utanhúss fyrir sjúklinga og aðstanendur séu látin víkja fyrir nútímalegri hönnun og gert er ráð fyrir meðal nágrannaþjóðanna. Ekki allt ónæði á núverandi starfsemi sem skapast með framkvæmdunum næstu árin og á sama tíma og aðrar stórframkvæmdir verða einnig í næsta nágrenni í miðbænum. Bygging stærsta hótel landsins í Vatnsmýrinni, Landsbankahallar og Marriotshótels á Hörpureitnum, auk uppbyggingar á Háskólareitnum og íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni allri, auk annarra hótelbygginga í miðbænum. Nei, það sem ég vil gera hér að sérstöku umræðuefni að gefnu tilefni eru AÐGENGISHINDRANIR á þjóðarsjúkrahúsinu okkar fyrir almenna sjúkraflutninga, sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk á stærsta vinnustað landsins. Um alla ofangreinda þætti hef ég hins vegar skrifað um í fyrri pistlum mínum áður og sem lesa má einnig um á fésbókarsíðu SBSBS.

Allir vita hvernig samgöngum er háttað vestur í miðbæ Reykjavíkur á annatímum í dag. Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á samgöngukerfinu, nema ef vera skyldi hjólreiðarstígum og sem yfirstjórn spítalans treystir á þegar þeir vitna í eldri könnun sem segir að meirihluti starfsmann spítalans búi í göngu eða hjólafæri við spítalann!! Búist er auk þess við mikilli fjölgun ferðamanna næstu árin. Ef búast má við fjölda ferðamanna um 2 milljónir á ársgrundvelli og að hver ferðamaður staldri við í viku að meðaltali, samsvarar það auknum íbúafjölda um 30 -40 þúsund og sem líka þarf heilbrigðisþjónustu. Við starfsmenn LSH höfum þegar svo sannarlega séð aukna þjónustuþörf meðal eldriborgaranna á skemmtiferðaskipunum í sumar. Einnig eftir mikilla aukningu umferðaslysa úti á landi og þar sem útlendingar koma við sögu í meira en helming tilfella alvarlegustu slysanna. Erfitt er að sjá hvernig starfseminni verður háttað á Hringbrautinni í framtíðinni þar sem stækkunarmöguleikar eru þegar mjög takmarkaðir vegna þrengsla. Nú þegar nýbúið að úthluta m.a. áður fráteknu svæði fyrir spítalann undir nýtt hótel neðan Hringbrautar og sem mikið hefur verið í fréttum hvernig staðið var að.

Eitt af því sem ekki hefur heldur fengið umfjöllun sl. ár (við Hringbrautaráætlunina) er öryggi sjúkraflutninganna, sérstaklega með þyrluflugi og sem skiptir sennilega Íslendinga meiru máli en flestar aðrar þjóðir, af landinu öllu og miðunum umhverfis. Ég er reyndar ekki flugmenntaður, en hef starfað í yfir 30 ár á Bráðamóttöku LSH. Í raun nokkrum árum áður en þyrlulendingaraðstaðan var hönnuð við gamla góða Borgarspítalann. Öll þessi ár og í misslæmum veðrum hafa þyrlulæknarnir talað um öryggið að hafa plan B til lendingar á túnunum þar í kring. Við venjuleg skilyrði lendir reyndar þyrlan eins og býfluga beint ofan á þyrlupallinn, en við verstu skilyrði og sérstaklega ef vélarbilun verður (annar mótor fer í 2 mótara þyrlu), þarf þyrlan að hafa aðgang að opnu svæði í aðflugs/fráflugsstefnu.Því hærri sem þyrlupallur er fyrirhugaður á byggingum erlendis, því lengra frá getur hinsvegar neyðarsvæðið verið (opið svæði). Þyrluflug er a.ö.l. mjög öruggur flutningsmáti slasaðra af slysstað, en oftast er aðeins er um eina heimkomuáætlun er að ræða, nú í framtíðinni á þyrlupall á þaki 5 hæðar Nýja spítalans í Þingholtunum eða nærliggjandi flugvelli á höfuðborgarsvæðinu? Ófullkomin aðstaða til lendingar á sjúkrahúsi skapar líka mikið óöryggi áhafnar, sjúklinga og nærliggjandi spítaladeilda. 

Ef Reykjavíkurflugvöllur fer (neyðarbrautin svokallaða sem er næst spítalalóðinni svo gott sem farin nú þegar) er væntanlega ekkert plan B til, nema ef vera skyldi á Hringbrautinni sjálf. „Neyðarbrautin“ er þannig ekki bara hugarburður minn eins og sumir halda, heldur svæði sem flugmaðurinn vill vita af sem neyðarúrræði til lendingar í stöðugu þyrluflugi til spítalans og sem á eftir að fjölga mikið. Ég hef engar úttektir  fengið á þessum öryggisatriðum þrátt fyrir 5 ára umræðu og sem margir kollegar mínir furða sig á, eins og reyndar svo mörgu tengt þessu máli öllu saman. Hef reyndar ekki heldur heyrt mikið frá íbúasamtökum í grenndinni og þaðan af síður frá borgaryfirvöldum sem heldur spítalanum nú sem næst í gíslingu og sem vill auk þess allar flugbrautir burt sem fyrst, til að byggja meira í miðbænum. 

Allt sem Samtökin Betri spítali á betri stað fer fram á nú er að Alþingi taki áskorun um óháða endurskoðun á staðarvali Nýja Landspítalans við Hringbraut áður en það verður of seint og þá hugsanlega í framhaldinu ákvörðun um langtímafjármögnun betri og nútímalegri spítala á opnu og rúmgóðu svæði. Framkvæmd sem tekur mikið skemmri tíma og kostar auk þess minna en fyrirhugaðar áætlanir á Hringbraut nú. Þar sem aðgengi yrði tryggt fyrir alla hlutaðeigandi sem og ásættanlegur aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks í framtíðinni.

image

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.10.2015 - 23:05 - FB ummæli ()

Garnaflóran okkar, arsen og öll „eiturefnin“

audism

 

Snefilmagn af miseitruðu arsen (arsenic) sem telst til frumefna okkar í náttúrunni og sem getur verið krabbameinsvaldandi í of miklu magni, er nú mikið til umræðu í hrísgrjónum og matvælum unnið úr þeim, t.d rísmjöli sem og hinar vinsælu hrískökur. Sænsk heilbrigðisyfirvöld vara við of mikilli neyslu þess í hrísgrjónavörum meðal ungbarna sérstaklega og þar sem oft er ekki vitað hvað ólíkar hrísvörur geta innihaldið nákvæmlega mikið af arsen, m.a. eftir því hvaðan varan er upprunin og nákvæmar mælingar liggja ekki fyrir. Mælt er því með fjölbreyttari neyslu slíkra matvara og ekki í miklu mæli eða oft í viku. Einu gildir hver hrísgrjónavaran er svo framarlega að hún sé unnin úr hrísmjöli (morgunkornin vinsælu þar á meðal). Engu að síður eru hrísgrjón ein helsta fæðutegund mannsins, ekki síst í austurlöndum og sú matvara sem oftast veldur hungursneyð ef vantar í heilu heimshlutunum. Þannig  er þessi umræða nú að sumu leiti lúxusumræða okkar á vesturlöndum og okkur væri kannski nær að hugsa meira um alla þá heilrænu þætti sem skipta heilsu okkar miklu meira máli til lengri tíma litið og sem snýr almennt að óhollustu í hverskonar tilbúnum mat og varasömum viðbótar efnum sem í þeim er, en sem stundum flokkast sem viðurkennd rotvarnarefni eða efni sem bæta áferð, bragð, lykt og lit. Eins t.d. sýklalyfjum í kjöti og grænmeti og sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum sem með þessum matvörum berst og sem talið er að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) meðal mestu ógnar mannkyns, ekki síst vegna ofnotkunar sýklalyfja í akuryrkju og landbúnaði.

Öll óheilnæmt efni og slæmt mataræði geta líka haft mikil áhrif á þarmaflóruna okkar beint eðs óbeint og þar með á allskonar lífræna efnaferla og genatjáningu frumanna okkar sem augu vísindaheimsins beinast nú að í miklu mæli. M.a. í þróun ólíkra algengra nútímasjúkdóma, allt frá sálrænum erfiðleikum til tauga- og geðsjúkdóma, alvarlegra efnaskiptasjúkdóma s.s. offitu og sykursýki sem og krabbameina. Um marga þessa þætti hef ég skrifað áður og sem mér hefur fundist nauðsynlegt að koma til skila samkvæmt mínum skilningi og þekkingu sem heimilislæknir hverju sinni. Nú líka í dag sem kom fram í áhugaverðum endursýndum þætti hjá RÚV, Ráðgátan um einhverfu (Autism enigma) og sem fjallaði um hugsanlegar osakir, áhugaverðar kenningar um hratt vaxandi tíðni einhverfu meðal barna. M.a. vegna viðbótarefnis í tilbúnum matvælum, propionic sýru (E280) og sem snældusýklar (Clostridium difficile) sem finnast í görn framleiða einnig í töluverðu mæli. Slæmur gerill sem finnast í litlu mæli í görnum okkar flestra en sem getur fjölgað mikið við neyslu mikilla sýklalyfja, sérstaklega í endurteknum kúrum og sem drepur þá góðu gerlana sem annars heldur aftur af snældusýklum. Í raun eitruð sýra sem getur haft áhrif á hegðun okkar og jafnvel genatjáningu í þróun einhverfusjúkdómsins í of miklu magni á fyrstu æviárunum.

Stórkostlega aukin vitneskja hefur skapast á skilning mannsins á samspili líkamsfrumanna og örvera (The human microbiome), í okkur og á. Okkar nánasta nærumhverfi, innri flóru og sem tengist heilsunni, ekkert síður en næringin sem við borðum. Gen í örverum eru enda allt að hundrað sinnum fleiri en frumur líkamans og sem sýnt hefur getað deilt ólíkum upplýsingum í samspili með okkar eigin erfðaefni og hjálpað eða hamið stjórn lífrænna efnaferla. Myndun t.d. próteina og ensíma í hinum ólíku líffærum og líffærakerfum til að fyrirbyggja sjúkdóma og ótímabæra hrörnun. Einmitt þarna er reiknað  með að stærstu sóknarfæri læknavísindanna liggja á næstu áratugum, ásamt áherslu á meiri neyslu góðra lífrænna fæðubótarefna og sem ég hef kallað ljósefnin okkar, okkur til varnar. Efni sem meðal annars finnast í tómötunum okkar og gullinrótinni frægu. Allt efni sem rétt er að kynna sér mikið betur til að fá heildstæðari mynd af heilsuvörnum okkar á breiðari grundvelli en verið hefur.

http://ruv.is/frett/arsen-oskadlegt-ef-faedan-er-fjolbreytt

http://ruv.is/sarpurinn/ruv/radgatan-um-einhverfu/20151004

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/02/27/eiga-rotvarnarefnin-thatt-i-offituvandanum/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/03/28/thau-tala-naid-hvort-vid-annad-en-hvad-gerum-vid-sjalf/

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/1/11/arasirnar-okkur-sjalf-bak-vid-tjoldin/

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2013/11/25/ljosefnin-og-brunavarnir-okkar-sjalfra/

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.9.2015 - 16:48 - FB ummæli ()

Kúnstin að draga í réttu dilkana

imageFyrir helgina átti ég leið framhjá Grábrók í Norðurárdal á leið minni norður á Strandir og ákvað þá að stoppa við og teygja aðeins úr mér enda gott veður. Norðan Stórubrókar blasti við mér í lok gönguferðarinnar forn fjárrétt. Rétt sem er friðlýst eins og allt Grábrókarsvæðið. Sannkölluð náttúruperla fyrir okkur og börn framtíðarinnar að njóta og þar sem nútímasamfélagið hefur lyft Grettistaki með lagningu trétrappa um alla öskjuna til að auðvelda að henni aðgang og verja hana gegn óþarfa ágangi.

Gamla-Brekkurétt eins og réttin heitir, er fagurt mannvirki þótt lítil sé. Mikilfengleikinn er hvað hún fellur vel inn í umhverfið og í hraunið. Þarft mannvirki á sínum tíma til að greina óreiðuna eftir smölun á haustin. Þegar bændurnir drógu sjálfir fé sitt í dilka og komust að samkomulagi hvert var fé hvers.

Flestir undu þeir vel við sitt að lokum. Í dag eru flestar ákvarðanir miklu flóknari í samfélaginu og ekki eins sjálfsagðar, ekki síst hjá því opinbera þar sem glundroðinn ríður oft fjöllum. Flokkslínur eru enda loðnar og ákvarðanir litast stundum af hentisemi eða gömlum þverpólitískum loforðum eldri stjórnmálamanna og sem eru fyrir löngu orðnar úrheldar. Oft eins og kaup kaups á eldri gæluverkefnum þótt um stærstu ríkisframkvæmdirnar sé að ræða. Bæjarfélög eins og sjálf höfuðborgin setur síðan jafnvel ríkinu afarkosti til að gæta sinna persónulega hagsmuna, svo sem gegn verndun fornminja og í uppbyggingu nauðsynlegustu þjónustustofnana eins og nýjum þjóðarspítala.

Þetta mál með spítalann okkar kom upp í hugann á henni Grábrók og þegar ég horfði á Gömlu-Brekkuréttina og hugsaði til forfeðranna. Nú nær tveggja áratuga brýn þörf á nýju og nútímalegu þjóðarsjúkrahúsi í stað þess gamla sem þjónaði okkur svo vel á síðustu öld. Þar sem loks á að hefjast handa með hugmyndum um bútasaum við gamla spítalann í stað þess að byggja nýtt og betra sjúkrahús á betri stað sem þjónað getur okkur mikið betur og kostað mikið minna þegar upp er staðið og reiknað hefur verið út. Ekki þó með fyrirhuguðum smáskammtalækningum fjárveitingavaldsins eins og gert er ráð fyrir, heldur nauðsynlegum föstum fjárlögum.

Eins varð mér hugsað til þess að þjóðin sjálf hafi dregið illa í rétta dilka í síðustu kosningum varðandi alþingismennina okkar sem nú sitja á Alþingi og sem margir vilja hlutkastast með heilbrigðiskerfið okkar af hentisemi og jafnvel einkavæða. Vilja þannig spara í nauðsynlegum ríkisrekstri, m.a. í framkvæmdum við nýtt og betra sjúkrahús allra landsmanna, á bullandi hagsældartímum þjóðarinnar. Að minnsta kosti miðað við það sem áður þekktist fyrir rúmri öld síðan og sem þótti þá sjálfsagður hlutur og var efst á forgangslistanum. Nú með framtíðarsjúkrahúsið okkar þar sem greina á sjúklinga líka í rétta dilka, lækna síðan og hjúkra það sem eftir er aldar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.9.2015 - 12:07 - FB ummæli ()

Ekki er kyn þótt kjaraldið leki….

landeyjarhofnÍ tilefni frétta dagsins um endurteknar lokanir í Landeyjarhöfn og umræðu um misheppnaðar ríkisframkvæmdir, er gott að rifja upp 5 ára gamlan pistil á Eyjunni um þann atburð sem valdið hefur mér og mörgum öðrum miklum heilabrotum síðan. Í gamla daga kunnu menn að lýsa því sem fyrir augu bar í þessum efnum og þegar framkvæmdir höfðuðu meira til almennra gáfna og verkvits en stórkostlegrar verkfræðikunnáttu. Þrýstingur pólitíkusa við gæluverkefni sín til margra ára er sjálfsagt mestu um að kenna og að þeir teygi sig jafnvel út í það ómögulega í von um auknar vinsældir.

Fátt toppar vonandi framkvæmdirnar við Landeyjahöfn um árið og nú endalausar sanddælingar úr henni sem fyllist jafnóðum eins og meðfylgjandi mynd ber glöggt með sér. Þannig heldur hún ekki sjó í höfn frekar en keraldið vatni hjá Bakkabræðrum forðum. Gæti verið að svipað sé upp á teningnum með aðrar framkvæmdir hjá því opinbera í dag? Hvað með Vaðlaheiðargöng sem fyllast reyndar stöðugt af öðru vatni en sjó og sem leka átti út en ekki inn, eða þá fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir með bútasaumum við Nýjan Landspítala á aðkrepptri Hringbrautarlóðinni. Dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar og það í stað miklu fullkomnari, nútímalegri og manneskjulegri Betri Landspítala á betri stað og sem kostar mikið minna og síðustu pistlar mínir hafa fjallað um, sem og grein dagsins í Morgunblaðinu frá Samtökunum um „Betri spítala á betri stað“. Einnig mikilvægi manneskjulegra þátta og umhverfis í nútímalegri hönnun framtíðarspítalans okkar og sem kemur svo vel fram í ágætri grein kollega míns í dag á Vísi .

„Einu sinni fóru Bakkabræður suður. Þar keyptu þeir kerald sem þeir slógu í sundur og fluttu norður. Þegar heim kom að Bakka settu þeir það saman og fóru að ausa það upp við lækinn. Það hélt ekki einum einasta dropa og skildu þeir ekkert í því. Loks sagði annar: Ekki er kyn þó kjaraldið leki; botninn er suðrí Borgafirði.“

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll

Sunnudagur 20.9.2015 - 18:22 - FB ummæli ()

Hugsað smátt en framkvæmt stórt á gömlu Landspítalalóðinni

lsh

Gamli Landspítalinn 1930

Ákvörðun um gamla Landspítalann var tekinn um aldarmótin 1900 og honum valin besti staður í útjaðri miðborgarinnar í Þingholtunum. Þjóðarátak þess tíma þegar menn og konur hugsuðu stórt á stærstu ríkisframkvæmdinni sem gagnaðist þjóðinni síðan vel fram eftir öldinni og höfuðborgin lagði til landsvæðið án endurgjalds. Löngu síðar, eða um hálfri öld, reyndar einnig með byggingu Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi vegna skorts á hjúkrunarrýmum á Landspítala og til að vera meira í takt við nútímann í móttöku slasaðra og veikra, m.a. með þyrlusjúkraflugi af landinu öllu og miðunum. Rétt fyrir aldarmótin síðustu, öld eftir ákvörðun um byggingu gamla Landspítalans varð hagkvæmniskrafa um rekstur og sameiningu sjúkrahúsanna tveggja ásamt St. Jósefsspítala, Landakoti, háværari, enda allir spítalarnir þegar komnir undir ríkisforsá. Krafan var aðeins um einn spítala og sem í huga ráðmanna var aldrei neitt annað en gamli Landspítalinn við Hringbraut.

Vegna plássleysis og lélegs húsakosts gat sameiningin á Landspítalalóðinni einni aldrei gengið í gegn, nema að nafninu til. Stjórnmálamenn, ráðamenn við Háskóla Íslands og á Landspítalanum, ásamt borgaryfirvöldum hafa engu að síður legið yfir ákvörðuninni allan tímann. Að finna sameiningunni lausn á Hringbrautarlóðinni, hvað sem það kostaði og sem nú er raunin. Litlu máli hafa skipt rök um hagkvæmari lausnir og sem hentar betur fyrir höfuðborgarsvæðið í heild sinni, íbúum þess og samgöngum, í nútíð og framtíð. Almennum sjúkraflutningum, þyrlufluginu og möguleikum á nýtískulegra og manneskjulegra sjúkrahúsi og umhverfi. Sjúkrahúsi sem fengi pláss til að þróast á rúmu svæði í a.m.k. aðra öld og sem eingöngu þyrfti að tryggja fjármögnun á eins og öðrum arðbærum fjárfestingum, en sem kostar að lokum jafnvel mikið minna en fyrirhugaðar framkvæmdir í dag.

Menn og konur hugsuðu stórt fyrir meira en öld síðan. Þörfin og þjónusta við sjúklinga var mikilvægasta samtímamál þess tíma, eins og það ætti reyndar að vera enn í dag. Í dag hugsa menn hins vegar smátt, með bútasaum og mikið fyrir eigin hagsmuni. Engu máli virðist nú skipta að óhagkvæmasta lausnin í boði  verði fyrir valinu, svo framalega að háborgin Reykjavík fái að standa undir nafni með stærasta vinnustað landsins í miðborginni og að spítalinn geti verið í göngufæri við gamla Háskólann. Reyndar sem fæstir nemar í starfsnámi heilbrigðisvísindum þurfa nokkru sinni að ganga. Skítt sé með aðgengið að spítalanum og umferðaþungann. Og að ef menn og konur vilja vinna á framtíðarsjúkrahúsinu að þá geti það bara flutt þangað eða í Vesturbæinn. Skítt með allt að 100 milljarða króna tapi á staðarvalinu einu saman til lengri tíma og reiknað hefur verið út af Samtökum um Betri spítala á betri stað. Eins að kostnaður við bútasaum og endurbyggingar á Hringbrautarlóð (84 milljarðar króna samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar HÍ fyrir ári síðan og fyrir launahækkanir) kosti meira en fullkomið jafnstórt sjúkrahús á góðum stað eins og aðrar þjóðir eru að byggja um þessar mundir (Sjúkrahúsið í Hilleröd á Norður-Sjálandi 80 milljarðar og tilbúið 2020) .

Listinn á allskonar rökum fyrir betri staðsetningu á Landspítala er langur og sem komið hefur verið inn á í fyrri pistlum mínum og margra fleiri ásamt umræðum á fésbókarsíðu Samtaka um Betri spítala á betri stað. Aðeins hefur samt verið beðið um endurskoðun á ákvörðuninni nú og sem meirihluti heilbrigðisstarfsmanna hafa í raun stutt með óánægju sinni með staðarvalið samkvæmt könnunum. Hvernig væri að treysta nú á Hagfræðistofnun HÍ og fá hana til að gera óháða úttekt varðandi staðarvalið og sem hún gerði 2014 fyrir yfirvöld varðandi staðsetningu á Hringbrautarlóð eingöngu? Hvernig væri að fá Byggingaverkfræðideild Háskólans einnig í liðið til að finna hagkvæmustu lausnina á nær 100 milljarða króna verkefni og sem þarf að endast meira en í nokkra áratugi. En það fer hver að verða síðastur enda framkvæmdir að fara í útboð.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/10/20/akvordunin-um-nyjan-landspitala-arid-1900-eir-viii/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Fimmtudagur 10.9.2015 - 12:07 - FB ummæli ()

Dýrkeyptur einn fugl í hendi á Landspítalalóðinni

a bird in handSennilega eru flestir sammála að við þurfum nú nýjan og góðan þjóðarspítala sem jafnframt verður áfram okkar háskólasjúkrahús, hvar sem hann kynni svo sem að rísa. Ef marka má undirbúning sl. áratugar og umræðu sl. vikna í ræðu og riti meðal stjórnmálamann og stjórnenda Landspítalans, virðist málamiðlunin um bráðabrigðarkost og bútasaum á gömlu og nýju húsnæði á Hringbrautarlóðinni hafa orðið ofan á og þar sem stefnt að hefja framkvæmdir nú sem fyrst. Engu virðist breyta að sýnt hefur verið fram á mikla óhagkvæmni og kostnaðarauka með staðarvalið til lengri tíma litið nema e.t.v. nálægðina við Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni, í samanburði að byggja nýtt á betri stað. Í raun viðurkenna þó flestir innst inni að velja á versta kostinn, gegn þá sinni betri vitund og sem er í hendi fjárveitingavaldsins og Alþingis. Á sama tíma virðist þó nóg fjármagn vera til, til annarra framkvæmda. Menn tala jafnvel meira um nýjan þjóðarleikvang auk hótelbygginga og bankahalla í miðbænum. Þar óttast menn greinilega ekki þenslu- og verðbólguáhrif á þjóðarsálina og sem stjórnmálamennirnir annars vara stöðugt við. Það versta við þetta allt saman er að eftir aðeins nokkra áratugi þarf að hefja allt spítalaferlið upp aftur og finna framtíðarsjúkrahúsi þess tíma hentugri að lokum besta stað.

Bent hefur verið á að byggingahraðinn geti verið mikið meiri ef byggt er strax á opnu svæði sem ein heild og sem heldur þarf ekki að trufla starfsemi sem þegar er í rekstri á Hringbrautarlóðinni, auk aukinna samgönguerfiðleika. Í þessu sambandi er rétt að nefna að Danir eru að hefja framkvæmdir við álíka stórt sjúkrahús á Norður-Sjálandi við Hilleröd og sem á að klárast á 5 árum (2020) eftir eins árs undirbúnings- og hönnunartíma. Mjög nútískulegt og manneskjulegt sjúkrahús sem á að kosta álíka mikið og Hagfræðideild Háskóla Íslands (HHÍ) reiknaði að Nýr Landspítali á Hringbrautarlóð, (Kostur 2) myndi kosta (rúmar 80 milljarðar króna). Hvað ef menn hefðu bara verið opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala en á aðþrengdu Hringbrautarlóðinni, t.d. á Vífilstaðatúninu, í Elliðavogi eða jafnvel Fossvoginum og sem kostar jafnvel mun minna en framkvæmdir að lokum nú á Hringbrautarlóðinni? Og hvað eru önnur sveitafélög í nágrenni Reykjavíkur eiginlega að hugsa er varðar aðgengi að sjúkrahúsi okkar á höfuðborgarsvæðinu öllu?

Miklar umræður hafa farið fram meðal manna á fésbókarsíðu Samtaka um Betri spítala á betri stað. Rúmlega 6000 manns hafa líkað við síðuna og mikill meirihluta t.d. lækna og hjúkrunarfræðinga eru ósátt við núverandi byggingaráform (staðsetninguna). Listinn þar og rök á óhagræðinu og auknum kostnað við að byggja á Hringbrautarlóðinni er óendanlega langur og ekki ráðrúm til að tíunda hér mikið en sem lesa má nánar um á síðunni þeirra. Útreikningar sýna meðal annars allt að 100 milljarða króna tap fyrir þjóðarbúið að lokum. Auk þess mikilvæg rök fyrir of miklu umferðaálagi vestur í miðbæinn og skertan aðgang fyrir sjúkraflutninga. Eins sjúkra- og þyrluflug framtíðarinnar og flugvöllurinn farinn. Á síðustu metrunum nú fyrir nokkrum vikum fyrir framkvæmdirnar, pöntuðu heilbrigðisyfirvöld til réttlætingar nýja kostnaðaráætlun frá KPMG. Hún var í raun kynnt um leið og hönnunin var staðfest með undirritun við hátíðlega athöfn og þar sem loforð voru gefin að framkvæmdirnar færu í útboð á næstu vikum. Eins sem var tilefni til greinaskrifa á óendalegu hagræði að byggja á Hringbrautarlóðinni  og þar sem staðsetningin var meðal annars réttlætt með aðeins 14 mínúta göngu- og hjólatíma helmings starfsmanna, frá heimili til vinnunnar (sennileg þa sem átti að vera fyndið). Aðeins örfáum dögum eftir að skýrslan var kynnt opinberlega og þannig í raun ekki gefinn neinn kostur á gagnrýni eða umfjöllun sem breytt gæti Hringbrautarplaninu.

Vinnubrögðin eru þannig ótrúleg í þessu máli öllu saman frá a-ö. KPMG skýrslan nú og undirritun samninga örfáum dögum síðar er aftast í því stafrófi öllu en þar sem reyndar endurskoðendurnir sjálfir hjá KPMG vöruðu við óáreiðanlega og ónákvæmni vegna skorts á upplýsingum. Hvöttu hins vegar til, eins og stendur í formála skýrslunnar, að menn rýni í gögnin til að skapa heilbrigðari umræðugrundvöll um ákvarðanir. Það hafi verið megin tilgangur skýrslunnar. Engu breytir auðvitað með undirbúningstímann sem tekið hefur um 15 ár og því fjármagni sem varið hefur í glataða hönnun og í fyrri nefndarstörf sem vægast sagt var mjög ábótavant, upp á kostnað um 3 milljarða króna (en sem er samt aðeins um 1% af heildarkostnaði). Ábyrgðin nú liggur hjá Alþingi og sem sjálfur forsætisráðherra hefur lýst undrun sinni á að sé ekki meiri.

Hér verður samt að lokum að gera enn og aftur alvarlegar athugasemdir við allt of lágt mat á endurnýjunarkostnaði á gamla húsnæðinu á Landspítalalóðinni. Athugasemdir sem verður að svara betur og sem gjörbreytt getur glansmyndinni í KPMG skýrslunni og sem HHÍ frá því fyrir ári varaði sterklega við. Að endurnýjunarkostnaður á 50-60 ára gömlu húsnæði sem þarf að berstrípa inn að steinveggum vegna myglu og fúkka, auk endurnýjunar á öllum lögnum, sé aðeins um 110 þúsund krónur á fermetir, í stað um 550 þúsund krónanna ef byggt er nýtt (1/5). Tala sem auðvitað er út í hött og sem sennilega getur orðið hærri en nýbyggingakostnaður á fermetir þegar upp verður staðið. Aldrei heldur auðvitað sem hagstæðasta hönnun vegna samnýtingaráhrifa og t.d. færri gangnabygginga og ef byggt er sem nýtt. Af þessu gefnu og að kostnaður verði að lokum sá sami og þegar byggt er nýtt, verður kostnaður við Hringbraut 20 milljörðum króna dýrari samkvæmt viðmiðum KPMG á nýbyggingakostnaði og heildarkostnaður þá upp á tæpar 70 milljarða króna, en sem HHÍ hafði reiknað árið áður að lágmarki um 87 milljarða (endurnnýjunarkostnaður að lágmarki 250.000 krónur á fermetir). Og síðan tapast þá auðvitað söluverðmæti eignanna á gömlu spítalalóðunum í báðum dæmunum upp á 10-20 milljarða króna og ef spítalanum væri valinn alveg nýr og betri staður. Tölur sem virkilega er þess virði að spá nú betur í áður en lengra verður haldið.

Flestir Íslendingar hljóta að vilja geta verið stoltir af þjóðarsjúkrahúsinu sínu til lengri framtíðar, og sem gamli Landspítalinn var fram eftir síðustu öld. Jafnvel getað litið á hann sem okkar þjóðardjásn á nýrri tækniöld en ekki sem eitthvert skuggahverfi í miðborginni. Stuðningsmenn framkvæmdanna nú benda hins vegar endurtekið á að ekki fáist nóg fjármagn til framkvæmda á nýjum spítala í einum áfanga og sem þeir telja þá þrátt fyrir allt besta kostinn. Að betra og öruggara sé að fá eitthvað nýtt nú á 3-4 árum, þ.á.m. nýjan meðferðarkjarna. Að einn fugl í hendi sé þá betri en tveir i skógi. Vel má vera að það máltæki eigi við hvað lukku okkar varðar í daglega lífinu, en tæplega þjóðardjásnið okkar og framtíðarvonir sem reiknað hefur verið svo rækilega út á alla vegu. Það er a.m.k. mikið hugleysi að skýra ekki út alla og bestu valkostina fyrir þjóðinni og selja henni 3.flokks úrlausn, gegn betri vitund. Eins hvað varðar Reykjavíkurborg sem ekki vill sleppa fuglinum nú úr hendi hvað sem það kostar og hótar ríkisvaldinu viðskiptaþvingunum varðandi sölu á gömlu eignunum og hugsanlegri nýrri lóðaúthlutun en sem þess vegna gæti verið utan borgarmarkanna. Þá sé fuglinn eini í hendi á stærsta vinnustað landsins betri kostur og sem skýrir allt varðandi þeirra afstöðu.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/08/12/hvad-ef-nyjum-landspitala-er-valinn-betri-stadur/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/10/20/akvordunin-um-nyjan-landspitala-arid-1900-eir-viii/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/11/11/forsendubrestur-og-meinloka-21-aldarinnar-nyr-landspitali-i-gamla-midbaenum/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.8.2015 - 15:47 - FB ummæli ()

Reykjavíkurklúðrið og Nýi Landspítalinn við Hringbraut

02-landspitali-1af[1]

Nýr Landspítali við Hringbraut. Áætlaður lokakostnaður amk. 120 milljarðar og sem byggja þarf í áföngum næstu 10 árin

Stefna Reykjavíkurborgar er að þétta miðbæinn eins og hægt er af atvinnustarfsemi og íbúasvæðum og fjölga arðsemi sem mest af túristunum. Reisa m.a. hótel og veitingastaði, helst þannig að túristarnir haldist sem lengst í miðbænum og að vinsældir Reykjavíkurborgar nái að skora hærra í erlendum ferðamannaauglýsingapésum. Í sjálfu sér nokkuð göfugt markmið fyrir kannski áratug, en sem nú er búið að snúast upp í óhefta græðgivæðingu og martröð fyrir flesta Reykvíkinga og aðra landsmenn. Það er eins og að vinstri meirihlutinn í borginni sé orðinn fastur í sjálfsímyndaðri paradísarveröld, ekkert ósvipað og þegar ríkur áhættufjárfestir vildi kaupa stóran hluta hálendisins um árið, fyrir nú kannski bráðum fátæka Kínverja. Stærsta skipulagsslysið virðist hins vegar nú í uppsiglingu. Byggingaáform Nýs Landspítala á gömlu Landspítalalóðinni við Hringbraut sem áætlað er að kosta muni a.m.k. yfir 120 milljarða króna þegar upp verður staðið og þannig stærsta ríkisframkvæmd sögunnar. Óhagræðið af byggingunum miðað við hugsanlega besta staðarval hefur eins verið reiknað upp á aðrar 100 milljarða króna á komandi árum.

image

Jafnvell lundinn virist vera farinn að stappa á gömlu Landsptítalalóðinni eins og fram kom í frétt RÚV í gær

Miðbær Reykjavíkur sem Landspítalalóð verður að teljast til í dag virðist hins vegar vera orðin mest fyrir útlendinga og þar sem aðeins um tíundi hver maður sem gengur um göturnar er Íslendingur. Stendur þar stundum eins og illa villtur lundi og sem sér ekki til sjós eins og fram kom í fréttum í gær. Túristabúðir á hverju horni og ölknæpur sem selja ölið og hamborgarana eins og aldrei verði morgundagurinn. Drykkjustaðir enda á nóttunni, sem sumir kalla hámenningu í stórborginni Reykjavík og sem sérstaklega er markaðssett sem slík erlendis. Gamalli og jafnvel fornri menningu engu að síður hyllt á auglýsingaplakötum og í hátíðarræðum. Víkingaborgin sem tekur nú heimsbyggðina með trompi en er strandhöggi í eigin ríki, gegn menningunni og eigin íbúum í miðbænum.

Það er ekkert menningarlegt lengur fyrri Íslending að ganga í gamla góða miðbænum. Allskonar uppbygging er þó víða á þröngum lóðunum og reisa á fleiri hallir og glæsibyggingar, mest fyrir útlendingana með langtímaskuldbindingum og öðru lánsfé. Önnur og mikilvægari uppbygging fyrir alla landsmenn er þó mikið meira púsluspil. 140.000 fermetrar á Nýja Landspítalanum við Hringbraut í mörgum húsum. Bútasaumur sem borgarstjórn styður með ráðum og dáðum til að sjúklingar og aðstandendur geti líka notið dýrðarinnar í miðborginni, í háborginni Reykjavík.

image

Myndband (smella á mynd). Nýr spítali við Hilleröd í Danmörku þar sem hið mannlega er í fyrirrúmi. 140.000 fermetrar sem teiknaður var á einu ári 2014 og framkvæmdir að hefjast. Á að vera tilbúinn árið 2020 og sem áætlað er að kosti um 80.000 milljarða ÍSK..

Raunverleikinn sem blasir við í náinni framtíð og áfram heldur sem horfir, er auðvitað allt annar en birtist í kynningum stjórnvalda. Það ættu allir að sjá og sem fylgst hafa með þróuninni. Margir stjórnmálamenn í flestum flokkum þjást hins vegar af stjórnmálaólæsi og sem þeir ættu jafnvel að hafa meiri áhyggjur af en byrjendaólæsinu meðal grunnskólabarna í borginni. Í náinni framtíð þarf nefnilega öll þjóðin öflugan nútímalegan Landsspítala á besta stað og þá helst miðsvæðis á stórhöfuðborgarsvæðinu ÖLLU og sem er allt sama atvinnusvæðið. Þar sem verður gott aðgengi á opnu svæði og sem býður upp á að hægt sé að byggja nútímanalegan spítala, m.a. með fæðingar og sængurlegudeild en sem ekki er pláss fyrir í núverandi byggingaáformum á Hringbrautalóð!!! Þar sem byggingahraðinn getur líka orðið mikið meiri, án teljandi ónæðis fyrir miðbæjarumferðina og nágrananna. Nóg koma þeir til með að líða fyrir nýjar Hallirnar á Hörpureitnum. Þar sem aðgengi fyrir sjúkraflutninga verður einnig tryggt m.a. fyrir þyrluflug og sem er alls ekki í dag yfir gamla miðbænum og Þingholtin og þar sem aðstaða fyrir neyðarlendingu verður engin ef síðan flugvöllurinn fer og sem er jú einmitt á óskalista Reykjavíkurborgar í dag. Spítali sem getur að lokum fengið að stækka, þróast og breytast í tímans rás eins og allir alvöru stórspítalar þurfa að gera en aldrei verður pláss fyrir á Hringbrautarlóðinni.

stofnar

Umræðu um Betri spítala á Betri stað má meðal annars kynna sér á féfsbókarsíðu „Samtaka um betri spítala á betri stað“. Að málin séu að minnsta kosti endurskoðuð..

Fáránleikinn blasir þannig víða við í skipulagsmálum borgarinnar, þótt auðvitað víða sé líka gott gert eins og með fjölgun göngu- og hjólastíga í borginni. Allskonar menning þrífst hins vegar líka með miklum blóma í nágrannabyggðunum og svo auðvitað um allt land og sem hvetja ætti ferðamenn að skoða og kynna sér. Ferðamannaiðnaðinn þarf að skipuleggja mikið betur hér á landi ,en ekki ofbjóða miðborg Reykjavíkur meira en orðið er. Við verðum að fara að varðveita gömlu miðborgina eins og hún var og við þekktum hana. Löngu er eins tímabært að skoða betri staðsetningu Nýs Landspítala og sem reiknað hefur út að kosti margfalt minna að byggja en með ófullkomnum bútasaum á þröngu gömlu Landspítalalóðinni og þar sem bara því miður gleymdist að gera ráð fyrir einu stykki kvenna- og fæðingardeild í meðferðarkjarnann. Við höfum í raun ekki efni á öðru, a.m.k. hvað heilbrigðismálin varðar enda geta fjárhæðir á mismun valkosta skitpt hundruð milljarða þegar upp er staðið og reiknað hefur verið út. Forðum því þjóðinni frá frekari martröð og óafturkræfum breytingum á Reykjavíkurborginni góðu og allt stefnir nú í. Og þar sem er reykur er líka eldur var sagt einhversstaðar. Reykjavík má ekki brenna eins og Róm gerði til forna.

http://blog.dv.is/arkitektur/2015/08/23/hvad-ef-menn-hefdu/

https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=ts

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.8.2015 - 13:49 - FB ummæli ()

Að kasta krónunni, en spara síðan aurinn í heilbrigðiþjónustunni?

krónan

Heilbrigðisástand þjóðar hlýtur alltaf að vera afstætt hugtak og þar sem við sjáum t.d. í dag víða hörmulegt ástand erlendis og sem stendur fortíðinni hér heima miklu nær en nútíðinni. Af sögunni má best sjá hvað hefur áunnist á síðustu öldum, og vissulega eru sumar heilsuhagtölur í dag góðar miðað við önnur lönd, eins og fæðingardánartíðni og meðalaldur. En mikill vill oft meira og víða förum við nú offarir, gerum jafnvel meira ógagn en gagn. Grunnheilsugæslan og forvarnir sem áður gegndu þýðingarmesta hlutverkinu er nú að víkja í skuggann og sem hlýtur að vera líka umhugsunarvert.

Kostnaður ríkisins í heilbrigðiskerfinu er vissulega hár. Hlutdeild hvers þáttar þar eru flóknir, en þar svokallaðar hátæknilækningar, dýrar rannsóknir og dýr lyf skipa orðið háan sess. Mörg stjórnmálaöfl telja nú að ásættanlegu hámarki hvað varðar ríkisútgjöldin hafi þegar verið náð, jafnvel þótt töluvert vanti enn upp á að greiðslur til kerfisins alls sem hlutfall af þjóðartekjum jafnist á við það sem best þekkist í löndunum í kringum okkur. Ef að hið opinbera heilbrigðiskerfi sé orðið of dýrt, verðum við sjálf þá ekki að fara að taka á okkur aukna ábyrgð og fjárskuldbindingar, þar á meðal í læknishjálp og lyfjakostnaði? En verða ekki þá einkavæddar úrlausnir og dýrustu lyfin jafnframt aðeins í boði fyrir þá efnamestu?

Sóknarfæri geta hins vegar skapast með því að nýta fjármagnið betur sem þegar fer í heilbrigðiskerfið í dag, m.a. í betri forgangsröðun verkefna og stjórnun. Fjármagn til heilsugæslu og forvarna nemur t.d. aðeins tæpum 4% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar allrar í dag (um 3.5 milljarðar króna), að undanskildum lyfjakostnaði (Guðmundur Löve, Stóra myndin í heilbrigðismálum , SÍBS blaðið febrúar 2015). Þjónusta sem stöðugt er undir niðurskurðarhnífnum og sálfræði- og félagsráðgjafahjálp oftast ekki í boði. Almenningur getur auðvitað í gegnum stjórnmálaöflin og kosningar krafist hærri og sambærilegra greiðsla til heilbrigðiskerfisins (sem hluta af þjóðartekjum) og sem aðrar þjóðir gera sem við berum okkur gjarnan saman við. Eins í ljósi smæðar þjóðarinnar og þar sem menntun og rekstur heilbrigðiskerfis hlýtur að vera óhagstæðari en hjá mikið fjölmennari þjóðum.

Öldrunarmálin eru víða í dag í ólestri og einföld vandamál oft leyst með skyndiúrræðum eins og stöðugt er í fréttum. Algengustu heilsufarsvandamál ungbarna einnig og sem tengjast loftvegasýkingum sem oftast eru leyst á vaktþjónustum úti í bæ og þar sem ekki er hægt að fara eftir alþjóðlegum leiðbeiningum varðandi fræðslu og eftirfylgd algengustu meina barna. Kostnaður vegna lyfja er mikill en sem má víða minnka með markvissari notkun. Eins þá til að forðast hugsanlegum heilsuspillandi áhrifum sumra lyfja og jafnvel óafturkræfra breytinga eins og t.d. í sýklaflórunni okkar þar sem sýklalyfin koma oft við sögu meðal manna og dýra. Þar sem ég þekki best til og fær sífellt meira vægi í skilningi á allri innri stjórnun mannslíkamans. Mál sem Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) telur líka eina mestu heilbrigðisógn jarðabúa í dag og þegar sýklalyfin hætta að virka.

Mikil áhersla er nú lögð á að byggja nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut, meðal annars með enduruppbyggingu gömlu húsanna á aðþrengdu Landspítalalóðinni. Reiknað hefur verið út að þær framkvæmdir geti kostað tugi og jafnvel 100 milljarða króna meira en að byggja nýjan spítala frá grunni á betri stað, meira miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Erfðavísindin er af sumum hér á landi talin helsta von mannkyns til bætts heilbrigðis, en því miður nú á sama tíma og grunngildum mannlegs íslensks samfélags er ekki sinnt sem skyldi (takk samt Kári fyrir jáeindaskannann). Heilbrigðisstjórnun hvað góð manneldissjónarmið varðar er að síðustu kapítuli út af fyrir sig og þar sem markaðslögmálin virðast ráða mestu, þar á meðal í stórmörkuðunum og hjá gosdrykkjarframleiðendum. Staðreyndir sem sjást best í gífurlegri sykurneyslu landans, einni algengustu ástæðu offituvandans í dag, tannskemdum meðal barna, sykursýki meðal fullorðinna og hækkandi dánartíðni í framtíðinni.

Hér hefur aðeins verið minnst á nokkra þætti í heilbrigðiskerfinu sem leiða til mikils óþarfa kostnaðar fyrir íslenskt þjóðfélag síðar meir og sem má koma í veg fyrir. Ástand sem má bæta fyrst og fremst með skýrari hugsun og markmiðum. Með skynsamlegri heilbrigðisstjórnun og forgangsröðun fjármuna til heilbrigðismála öllum til heilla, ekki síst heilsugæslu, með byggingu skynsamlegra sjúkrastofnana og meiri forvarna á breiðum grundvelli. Að við spörum ekki alltaf aurinn en köstum síðan krónunni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.8.2015 - 12:31 - FB ummæli ()

Hvað ef Nýjum Landspítala væri valinn betri staður?

 

image

Nýi Hilleröd spítalinn sem á að vera tilbúinn 2020

Í skýrslu Hagfræðistofnun HÍ (HHÍ) frá því í september 2014 um byggingakostnað á Nýjum Landspítala við Hringbraut miðað við fyrirliggjandi áfanga (nefndur Kostur 2), byggingahraða og nýtingu eldra húsnæðis sem fyrst var gerð opinber fyrir nokkrum dögum, er lagður kostnaðarsamanburður á að reisa alfarið nýtt sjúkrahús eða að hluta og gera upp gömlu byggingar sem fyrir eru á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Megin niðurstöður skýrslunnar eru að það er í raun tugum milljarða króna ódýrara á núvirði að teknu tilliti til framtíðar rekstrarkostnaðar, að byggja alfarið nýtt í stað aðeins að hluta, rúmlega 80.000 fermetrar og enduruppgerð á rúmlega 50.000 fermetrum í mörgum aðskildum húsum. Varað er við endurbyggingakostnaður geti farið úr böndunum og sem við vitum flest að getur orðið dýrari en að byggja nýtt frá grunni, auk þess sem nýbygging býður upp á miklu meiri hagræðingu.

Ekki er lagt mat á nýja og betri staðsetningu í skýrslu HHÍ , betri nútímalegri spítala þar sem byggt yrði upp frá grunni. Reykjavíkurborg hefur hinsvegar sjálf lagt ofuráherslu á núverandi staðsetningu, þrátt fyrir mikilvæg rök á betri staðsetningu og sem er meira miðsvæðis fyrir allt höfuðborgarsvæðið og þar sem byggingahraðinn og hagkvæmnin gæti orðið miklu meiri. Eins án óþarfar álags af miðbæjarumferðinni sem og ónæðis fyrir nágranna, sjúklinga og starfsfólk. Eins með miklu meiri möguleikum á manneskjulegra umhverfi og frekari þróun síðar á opnu svæði, eins og kappkostað er að víða erlendis.

Sparnaður hefur verið reiknaður út fyrir Samtök um betri spítala á betri stað upp á allt að 100 milljarða króna til lengri tíma litið og sem endurskoðaðir hafa verið af KPMG og samþykktir. Í skýrslunni sem loks er komin fram frá Hagfræðistofnun HÍ og sem haldið hefur verið leyndri fyrir almenningi eru einmitt mörg EF og sem sennilega er ástæðan fyrir leyndinni. Kostnaður er þannig talinn geta orðið mikið meiri varðandi kostnað af enduruppgerð á eldra húsnæði og sem víða er í enn verra ásigkomulagi en upphaflegir útreikningar gerðu ráð fyrir. Meðal annars af myglu og fúkka út að útveggjum í byggingum, þ.á.m. í aðalbyggingunni sem þegar er búið að kosta miklu til vegna heilsuspillandi áhrifa starfsmanna og sjúklinga. Við vitum að fjórðungur til fimmtungur af nýbyggingakostnaði þá er augljóslega vanáætlaður á fullkomnu spítalahúsnæði.

Hvað EF menn hefðu verið opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala en á aðþrengdri Hringbrautarlóðinni, t.d. á Vífilstaðatúninu, í Elliðavogi eða jafnvel Fossvoginum? Hvað eru önnur sveitafélög í nágrenni Reykjavíkur eiginlega að hugsa? Sömu aðilar og unnu fyrst samkeppni um nýjan Landspítala við Hringbraut, en sem var selgin af í sparnarskyni 2009, CF Möller, unnu samskonar samkeppni í Danmörku nýlega á Norður-Sjálandi, nánar tiltekið við Nýja Hilleröd sjúkrahúsið. Um er að ræða um 140.000 fermetra húsnæði sem er svipað og heildaráfanginn allur við Hringbraut, en sem kosta á mun minna, eða rúmlega 80 milljarða umreiknað í íslenskar krónur. Það sem er ekki síður markvert að skoða er byggingahraðinn á nýju opnu svæði miðsvæðis þar. Auglýst var eftir hönnunartillögum 2014, framkvæmdir eru nú að hefjast og spítalinn á að vera tilbúinn eftir 5 ár, þ.e. 2020. Hvað EF við hefðum hugsað og farið sömu leið og t.d. Danirnir og hefðum hið mannlega að leiðarljósi?

Sjá einnig eldri umræðu:

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/11/11/forsendubrestur-og-meinloka-21-aldarinnar-nyr-landspitali-i-gamla-midbaenum/

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.8.2015 - 13:59 - FB ummæli ()

Lyfin og heilbrigðiskerfið okkar

esjanNýjum lyfjum á markaði ber auðvitað að fagna í heilbrigðisþjónustunni, en sem fá meiri athygli fjölmiðlanna en oft takmarkaður aðgangur að lífsnauðsynlegum eldri lyfjum. Stundum ódýrum lyfjum sem ekki er nógu mikil hagnaður lyfjainnflytjanda af og sem tryggja ekki einu sinni að séu alltaf til. Mörg lyf hafa þannig verið ófáanleg mánuðum saman á landinu, jafnvel þótt mörg önnur samheitalyf séu til á hinum stóra erlenda markaði. Skyldur innflytjenda víkja þannig fyrir gróðasjónarmiðum og þar sem Lyfjastofnun Ríkisins er aðeins eftirlitsaðili með markaðsskráningu. Landslæknisembættið eins aðeins umsagnaraðili og sem bent getur á brotalamirnar.

Þannig hefur vantað yfir lengri og skemmri tímabil, lyf í flestum lyfjaflokkum. Þar má t.d. nefna sýklalyf, hjartalyf, gigtarlyf, ofnæmislyf, augn- og eyrnalyf og húðlyf. Allt lyf sem ekki hafa verið svo dýr og sem sum hafa verið lengi á markaði. Ástandið hefur síst farið skánandi í seinni tíð og því jafnvel stungið upp á að endurvekja Lyfjaverslun Ríkisins. Til þess einfaldlega að tryggja betur nauðsynlegar lyfjabirgðir fyrir þjóðina.

Allt öðru máli gegnir hins vegar um eldri dýrari lyf sem ríkið telur sig ekki getað staðið kostnað af. Sitt sýnist hverjum um þessa forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og þegar sjúklingum er hafnað um bestu mögulegu meðferðina. Krabbameinslyf, MS lyf og nú t.d. Lifrarbólgu C lyf,  þar sem kostnaður fyrir hvern og einn getur hlaupið á milljónum. Oft gleymist þá að nefna í leiðinn hinsvegar mörg önnur lyf sem bjargað geta heilsu hundraða Íslendinga og sem ekki kosta svo mikið fyrir hvern og einn, en stendur ekki almenningi ekki til boða nema gegn fullri greiðslu. Bólusetningar gegn HPV veirunni þar á meðal eða gegn TBE (tick borne encephalitis) sem þúsundir Evrópubúa smitast árlega af. Útgjöld ríkisins eru einfaldlega talin of mikil til að slíkt sé í boði fyrir alla.

Það hlýtur að skjóta skökku við að á sama tíma og við óskum eftir aðgangi að rándýrum nýjum lyfjum fyrir fáa og sem sífellt fer fjölgandi með hjálp líftækniiðnaðarins (svokölluðum líftæknilyfjum sem m.a. byggja á erfðavísindum og sameindalíffræði mannslíkamans), að þá skuli ódýr lífsnauðsynleg lyf sem gagnast fjöldanum miklu meira vera óaðgengileg til lengri eða skemmri tíma eða það dýr í fyrirbyggjandi markmiði að ríkið neiti niðurgreiðslu á þeim. Skynsamleg forgangsröðun hlýtur að eiga að ráða í lyfjamálum þjóðarinnar og þó alltaf megi líka benda á þá bresti sem tengjasr ofnotkun sumra lyfja, meðal annars vegna skipulagsbresta í heilbrigðisþjónustunni um árabil.

Hvernig væri að huga betur að grunninum og það sem kalla mætti eðlilegri forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni svo umdeild sem hún kann annars að vera, en þar sem lífsnauðsynlega þjónustu oft vantar í dag á mörgum sviðum. Lyfjamálin er aðeins ein, en mikilvæg keðja í heildarkerfinu öllu og sem ekki má kosta hvað sem er á kostnað annarra mikilvægra þátta.

http://sibs.is/allar-greinar/item/112-heildræn-heilsa-á-tækniöld

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/02/17/fra-storubolu-i-vatnsmyrina-a-adeins-tveimur-oldum/

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn