Mánudagur 7.12.2020 - 20:25 - FB ummæli ()

Aldarspegillinn á Ströndum

Um helgina kom út ritið Strandir 1918. – Ferðalag til fortíðar sem Sauðfjársetrið og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum -Þjóðfræðistofa stóðu að. Merkilegt rit og fróðlegur aldarspegill fyrir nútíðina. M.a. með tilliti til heilbrigðisþjónustunnar og viðbragða á tímum heimsfaraldurs.

Spænska-veikin barst til Reykjavíkur 19.október, viku eftir að Kötlugos hófst, og varð útbreiðslan mjög hröð og náði hámarki þar á aðeins 3 vikum. Fljótlega og fréttir spurðust út voru settir verðir á Holtavörðuheiði og við Jökulsá á Sólheimasandi til að takmarka óþarfa ferðir milli landshlutana. Læknarnir í Reykjarfjarðarhéraði (nú Árneshreppur) og á Hólmavík þar sem sjúkrahúsið var, skrifuðu íbúunum svokallað umburðarskjal sem borið var til allra íbúa héraðanna 18-20. nóvember og þar lagt á samgöngubann úr héraði, jafnvel innan héraða og allt óþarfa samneyti við ókunnuga. Ekki fara neinar sögur af smiti Spænsku-veikinnar á Ströndum um veturinn og heldur ekki sumarið eftir í annarri bylgju og hún gerði vart við sig á Akureyri.

Spænska veikin 1918-1919 náði aldrei norður á Strandir. Einn Standamaður féll þó fyrir sóttinni og þar sem hann var staddur í Reykjavík. Þegar fréttist af pestinni skæðu um haustið og mannfallinu fyrir sunnan voru strax gerðar ráðstafanir til að hefta útbreiðsluna norður. Frostaveturinn mikli var nýliðinn og sem hafði farið illa með tún sumarið eftir og erfiðlega hafði gengið að afla nauðsynlegra aðfanga framan af. Vöruskortur var þannig töluvert áhyggjuefni.

Ekkert Covid-smit hefur enn sem komið er komið nú upp á Ströndum í Covid19-faraldrinum og sem teljast verður sérstakt. Héraðið er reyndar miklu fámennara nú, eða ekki nema tæplega helmingur af íbúafjöldanum sem var 1918. Þéttbýliskjarnarnir þótt stærri í dag og aðeins einn læknir og nú engin hjúkrunarkona. Innviðirnir þannig mjög viðkvæmir/viðkvæmari og þótt vegasamgöngur séu auðvitað miklu betri. En samt langan veg oft að fara, ófærð til sveita á veturna og þar sem síðan þjóðleiðin norður til Ísafjarðar liggur gegnum héraðið yfir Steingrímsfjarðarheiði og Innra-Djúp.

Árvekni íbúanna er sennilega mest að þakka hvað vel hefur tekist til, hingað til og ég hef skrifað um áður. Faraldurinn er enn í gangi fyrir sunnan og hefur náð nýjum hæðum víða um heim. Enn er verið að bíða eftir bóluefnum og sem menn óttuðust í byrjun að kæmu að litlu gagni gagnvart kórónaveirunni, en sem virðast síðan ætla að virka afbragðs vel með nýjum aðferðum við gerð bóluefna (a.m.k. tímabundið enda tengjast nýju bóluefnin ekki frumubundu ónæimi fyrir veirunni, aðeins yfirborðspróteinum). Þannig ekki fyrir samfélagið allt fyrr en raunverulegt hjarðónæmi hefur skapast eftir nokkra mánuði. Þegar þjóðarhjörðin sjálf heftir útbreiðsluna, með bæði frumubundnu og ófrumubundnu ónæmi, líka norður á Ströndum og landið er ekki eldrautt.

Aldarspegillinn sem m.a. hægt er að sjá vel í ritinu Strandir 1918, gefur einstaka sýn á breytt mannlíf til sjávar og sveita á einni öld. Líka á þeim þáttum sem einkenna enn mannlífið þar og helstu lífsgildi. Samstöðuna, náungakærleika og seigluna þegar mest á reynir, nú reyndar enn á alhvítum Ströndum.

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/11/28/akvordun-strax-i-dag-besta-jolagjofin-i-ar/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/04/10/hus-laeknanna/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/10/04/kortin-hans-fusa/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.11.2020 - 11:05 - FB ummæli ()

Ákvörðun strax í dag, besta jólagjöfin í ár

Svartur föstudagur á Hólmavík , 27.11.2020

Uppahaf fjórðu bylgju Covid19 faraldursins hér á landi eru mikil vonbrigði og þegar loks eygir í bólusetningu eftir jafnvel mánuð. Íslendingum hefur tekist með smitvörnum, samstöðu og smitrakningu að sýna meiri mótspyrnu gegn veirunni en flestar aðrar þjóðir frá upphafi faraldursins og smit í lok þriðju bylgju faraldursins með því minnsta í allri Evrópu og þar sem faraldurinn er enn í miklum vexti. Aðstæður í síðustu viku gætu varla hafa verið betri og margir farnir að hlakka til jólanna í smitlitlu landi. Nú í jólaundirbúningi þjóðarinnar er aftur mikil ógn framundan. Aðstæður og fyrirsjáanleiki afleiðinga eru hins vegar mjög ólík á höfuðborgarsvæðinu, þar sem öll smit sl. viku hafa greinst og síðan víða í dreifbýli landsins. Varnarmöguleikar gegn veirunni líka.

Ég var hér á Stöndum um páskana og þá enn smitlaust í héraðinu. Svo er enn, ekki eitt einasta smit sem rakið er til Stranda og aðeins einn sem var greindur fyrir sunnan en sem fór í einangrun á Hólmavík og viðeigandi sóttkví ákveðin fyrir nákominna og þar sem síðar ekkert smit varð úr (fyrir nokkum vikum). Sennilega eina héraðið á landinu þar sem ekker smit hefur komið upp. Þakka hefur mátt aðgæslu þennan árangur og tillitsemi ættingja og vina heimamanna að takmarka eins og kostur hefur verið ferðalög norður og eins ferðir heimamanna í smitaða landshluta hverju sinni.

Læknishéraðið á Stöndum er stórt, en íbúar fáir. Tveir þéttbýliskjarnar á Hólmavík og Drangsnesi. Mjög strjálbýl byggð í sveitinni sem teygir sig norður í Árneshrepp og Innra-Djúp og suður strandir við vestanverðan Húnaflóa. Almannavarnasvæðið og gangvart slysum og bráðauppákomum jafnvel líka til Austur-Baðarastrandasýslu og Reykhólahrepps í Dalasýslu, í góðri samvinnu við Heilsugæsluna í Búðardal og sem allt heyrir í dag undir Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE).

Á Hólmavík hefur hins vegar ekki verið fastur hjúkrunarfræðingur síðan í apríl. Sjúkrahúsið yfirleitt fullt og aðeins einn sjúkraflutningsbíll fyrir héraðið. Oft langir sjúkraflutningar og erfið færð á veturna eins og t.d. síðast nú um helgina. Enginn flugvöllur til taks nema norður í Árneshreppi á Gjögri. Meðalaldur íbúa héraðsins er hvað hæstur á öllu landinu, en innviðirnir samfélagsins hvergi veikari og þegar mest liggur við.

Margir staðir á landinu eru þó svipaðir í sveit settir hvað aðgengi að nauðsynlegri bráðaþjónustu varðar og sem var ein ástæða til lagasetningar á verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar í gær. Ástand sem annanars ógnaði almannaheill, einkum á landsbyggðinni og á miðunum. Þjónusta sem er álíka nauðsynleg og flestir neyðarflutningar með sjúkrabílum á höfuðborgarsvæðinu. Auðvelt er líka að sjá hvað gerist ef hópsmit kemur upp í slíku dreifbýlissamfélagi og þar sem gæta þarf auk þess mikillar aðgæslu í nánd við þann sjúka. Hið sorglega Landakotsmál sýnir vel hvað gerst getur jafnvel innan háskólasjúkrahúss og teljast má mikil heppni að fleiri alvarlegar hópsýkingar hafi ekki komið upp á fleiri deildum spítalans og öðrum heilbrigðisstofnunum. Reynsla af slíkum uppákomum er reyndar þegar á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Bolungarvík fyrir páska. Þar sem þurfti svo að kalla til bakvarðasveit að sunnan og aðrir komu úr nærliggjandi sveitum, m.a. heðan af Ströndum.

Smit á sjúkrastofnuninni á Hólmavík gæti þýtt að meirihluti stafsmanna yrði að fara í sóttkví. Gamla fólkið stæði afar illa að vígi, á hjúkrunar- og elliheimilinu og úti í samfélaginu. Erfitt gæti verið með sjúkraflutninga suður á covid-deildir um hávetur. Eins að koma bara sýnum suður á LSH til greiningar. Bjargir gætu þanninig verið fáar og erfiðar ef Covid19- hópsýking brytist hér út. Í héraði sem hefur á allt að ótrúlegan hátt sloppið hingað til við einn hættulegasta veirufaraldur aldarinnar, eða allt frá Spænsku-veikinni 1918-1919. Frá þeim tíma og síðast var beitt ákvæðum um afkvíun til að verjast faraldri fyrir sunnan og sem heppnaðist vel fyrir Norð-vesturland og Vestfirði í fyrstu bylgju faraldursins. Afkvíun sem var af frumkvæði heimamanna fyrst og fremst með samgöngubanni og ferðatakmörkunum og þar sem þrátt fyrir allt fáir landsmenn höfðu smitast.

Mjög vel tókst til um páskana með tilmælum sóttvarnayfirvalda og almannavarna að ferðast ekki á milli landshluta nema brýn nauðsyn sé til. Tilmælum var einkum beint til þeirra sem kæmu frá smituðum svæðum, en einnig til heimamanna að sækja ekki ónauðsynlega þjónustu inn á sýkt svæði og mikil hætta gæti þá verið á að fólk bæri með sér jafnvel einkennalaust/lítið smit í heimabyggð. Þetta tókst mjög vel á Ströndum.

Nú eru jólin framundan og margir heimamenn á Ströndum sennilega hugsandi yfir jólagjöfunum og sem á eftir að kaupa fyrir sunnan. Eins slík ferð gæti hins vegar valdið hópsýkingu heima síðar, enda mikið um óvenju dreifð greind smit í höfuðborginni sl. 2 vikur, og þó sérstaklega allra síðustu daga. Smit kom upp á norðanverðum Vestfjörðum í gær eftir slíka ferð og 20 nú þar í sóttkví. Afkvíun strax og vonandi með með ávkveðnum tilmælum yfirvalda til almennings, gæti komið í veg fyrir að smit bærist nú á Strandir og auðvitað víðar um land, fram yfir hátíðarnar og þangað til við öll komumst í gott var með bóluefnum. Betri jólagjöf væri ekki hægt að hugsa sér fyrir samfélagið okkar. Jólin í ár að við sitjum meira saman í heimabyggð og nýtum okkur áfram netsambandið við fjarstadda fjölskyldumeðlimi og vini. Og kannski að við frestum í vissum skilningi þá bara jólunum og stór-fjölskylduhátíðinni fram á Þorrann.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.11.2020 - 10:54 - FB ummæli ()

Enn og aftur – bólusetning kemur okkur til bjargar

Ari Arason (1763-1840) fjórðungslæknir á Flugumýri í Skagafirði https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/03/19/til-hamingju/

Bólusetning gegn Covid19 er mál málanna í dag og sem allir treysta á. Mikill lærdómur og vinna liggur að baki þeim árangri að geta ráðið við smitsjúkdóma sem stundum voru drepsóttir á öldum áður og lagt gátu heilu þjóðfélögin í rúst. Ekki bara með hjálp vísindanna að finna bóluefnin og framleiða réttu sýkla- og veirulyfin, heldur einnig hvernig við getum farið rétt og jafnvel betur með þessi lyf og viðhaldið því hjarðónæmi sem þarf til að halda smitvöldunum utan girðingar. Eins með stöðugri vinnu heilbrigðisyfirvalda og vísindasamfélagsins alls og benda á þau forgangsmál sem skiptir heilsu okkar og langlífi hvað mestu máli í dag. Jafn aðgangur að góðum og nauðsynlegum bólusetningum fyrir unga sem aldna.

Bólusetning er samt einstakt orð í íslenskri tungu og sem höfðar beint til sögunnar og bólusóttar, ólíkt öðrum tungumálum og þar sem aðgerðin vísar meira bara til ónæmingar (immunization) eða kúabólunnar (vaccination). Í eðli sínu er bólusetning aðeins smá kynning á veirum og bakteríum sem getað herjað á okkur og sem gerir ónæmiskerfinu kleyft að bregðast hratt við og ef við verðum útsett fyrir smiti. Með ræsingu á eigin mótefnum sem gerir smitefnið óvirkt og áður en það nær að vinna á okkur mein.

En hver er saga bólusetninga almennt talað og hvernig hugsuðu menn hana. Hverjir tóku þátt í átakinu og hvernig var skráningu háttað? Hverjir nutu forgangs og fyrir hverja?

https://blog.dv.is/…/ef-bolan-tekur-hann-ekki-eir-ix…/

Bólusóttin (sérstaklega stóra-bóla 1706-1709) hafði gríðarlega mikil áhrif mannfjölda íslensku þjóðarinnar gengum aldirnar. Án hennar væru Íslendingar í dag sennilega vel yfir milljón manns. Leitt hefur verið að því líkum að bólusóttin hafi átt ríkan þátt í endalokum þjóðveldisins á þrettándu öld, með því að draga svo úr viðnámsþrótti þjóðarinnar að henni var nauðsynlegt að ganga erlendu valdi á hönd. Áhrif hennar á 18 öldina er sennilega líka vanmetin í Íslandssögunni. Að tilstuðlan Danakonungs sem sá aumur á þjóðinni og hve illa hún hafði farið út úr bólusótt í upphafi 18. aldar, miklu verr en aðrar Evrópuþjóðir að viðbættum móðuharðindunum, var kúabóluefni útvegað til Íslands, einna fyrst þjóða. Frá því fyrsta bólusetningin uppgötvaðist í heiminum gegn bólusóttinni, 1796-98, liðu þannig ekki nema örfá ár þar til byrjað var að bólusetja alþýðuna hér á landi (1805). Í þá daga voru kirkjubækurnar einar nothæfar til að halda utan um bólusetningarnar og prestar landsins sáu jafnvel um aðgerðina, enda aðeins 6 héraðslæknar starfandi á landinu og Landlæknisembættið nýstofanð (1760). Tveimur öldum síðar tókst loks að útrýma sóttinni. En gefum Guðmundi Björnssyni, lækni áfram orðið í alþýðutímaritinu Eir um heilbrigðismál frá árinu 1899, um stórubólu og „bólusetningu“ í framhaldi af síðasta pistli.:

„Löngu fyrir Krist burð var Indverjum kunnugt, að færa má með nál bóluvessa úr bólusjúkum manni inn í hörund heilbrigðs manns, og fær þá bólusótt, þá er oftast er vægari, en ella gerist. Þessi aðferð köllum vér mannabólusetning(variolation) og tíðkaðist hún um langan aldur á Indlandi. Prestar þeirra Indverja (Bramínar) höfðu þessa bólusetningu á hendi; þeir geymdu bóluefnið á þann hátt, að þeir vættu línþræði í bóluvessa þeirra manna, sem þeir höfðu bólusett, þurkuðu þræðina og bleyttu þá upp aftur að ári, þá er bólusetja skyldi aftur að nýju. Þannig héldu þeir bóluefninu við ár eftir ár, enda vörðust þeir að taka blóðvessa úr mönnum, er fengið höfðu bóluna sjálfkrafa. Á 18 öldinni barst þessi aðferð hingað vestur til álfunnar og var talsvert tíðkuð, einkum á Englandi. Sá ókostur fylgdi mannabólusetningunni, að margir af þeim, sem bólusettir vóru, fengu allsvæsna bólusótt og nokkrir biðu bana af. Þá var það annað ekki betra, að þessi setta bóla var næm, eins og vanaleg bólusótt, og þá er hún barst á heilbrigt fólk af hinum bólusettu, kom hún aftur fram í almætti sínu, engu vægari en áður hafði gerst. Er það álit manna, að þessar mannabólusetningar hafi orðið til þess, að greiða bólusóttinni götu og auka útbreiðslu hennar á 18. öldinni.

Í litlum bæ á Englandi gerðist í kyrþay 14. dag Maím. 1796 sá atburður í sögu mannkyns, að fáir eða engir hafa merkari orðið á síðari öldum, ef litið er á afleiðingarnar. Það var þá, að læknirinn Edward Jenner tók bóluefni úr mjaltastúlku og sett í dreng, 8 vetra gamlan, en stúlkan hafði fengið bólur sínar ekki af mönnum, heldur af kú, er hún hafði mjaltað. Hálfum mánuði síðar, 1. dag Júním., tók Jenner bóluvessa úr bólusjúkum manni og setti í sama drenginn og varð brátt þess vísari, að vessinn hreif ekki á hann; bólan beit ekki á drenginn. Tveimur árum síðar ritaði Jenner bækling um þessar kúabólusetningar sínar (vaccination, vacca á latinu = kú). Á fáum árum barst orðstír hans um alla Norðurálfuna og alstaðar var kúabólusetningin tekin upp og henni fagnað frekara en frá verður skýrt. Bólan var unnin! Hugsum oss að einhver fyndi ráð til þess að verja menn berklasótt – hvílíkur fögnuður þá mundi óma um allan heim, en ekki mundi hann meiri, en fögnuður þeirra manna, sem uppi voru um síðustu aldarmót og sáu bólusóttina brotna á bak aftur. Jenner hugði að bólan mundi deyja út. Hún hefir ekki gert það: hún lifir enn, þótt víðast sé við veikan mátt. En það er ekki Jenner að kenna, heldur heimsku og þrá mannanna, þessum tveimur torfærum á vegi alls þess, sem nýtt er og satt og gott.“

„Því er oft hreyft, að bólusetning getur gert börnum mein. Í Englandi er uppi stór flokkur manna, þeirra er berjast gegn allri bólusetningu með hnúum og hnefum. Engin sannindi eru allra eign.“ Látum þetta vera lokaorð Guðmundar Björnssonar í bili úr tímaritinu Eir rétt fyrir aldarmótin 1900, um leið og við hugsum til þeirra sem setja sig gegn ungbarnabólusetningum eins og mislingum í dag.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.10.2020 - 17:54 - FB ummæli ()

Covid og nándin

Allar líkur eru á langvarandi samfélagsbreytingum á Íslandi, sem og annars staðar í heiminum vegna Covid19 faraldursins nú. Faraldur sem hefur haft meiri áhrif samfélagshegðun okkar en nokkur annar faraldur í sögunni. Ekki með tilliti til alvarleika eða dauðsfalla, heldur félagslegra viðhorfa. Nándina hvort við annað, jafnvel til lengri framtíðar, atvinnumöguleika, menningaviðburða og annarra tækifæra í lífinu. Smitsjúkdómur sem líka um margt hegðar sér ólíkt öllum öðrum smitsjúkdómum og sem við skilum enn ekki enn til fulls.

Sennilega höfum við lengi lifað í óraunhæfri gerviveröld öryggis, tilbúinni bublu ef svo má segja og þar sem jafnvel náttúrulögmálin hafa verið látin víkja. Treyst á mátt vísindanna og tækniframfarir, en “náttúrleg” nándarmörk landfræðinnar sniðgengin með auðveldum samgöngum, jafnvel heimálfa á milli. Ofhitnun jarðar og mengun hverskonar ógna lífríkinu víða um heim og þar mörg landsvæði stefna í að verða óbyggileg. Baráttu við smitsjúkdómana töldum við samt okkur nokkuð örugg með, eða hvað?

Lífsgæðakapphlaupið hefur ráðið för í hinum vestræna og tæknivædda heimi og allt talið mögulegt. Þar til nú. Framfarir í læknavísindum hafa verið gríðarmiklar sl. öld. Bóluefni framleidd gegn sífellt fleiri örveirum og jafnvel sýklum þar sem sýklalyfin duga ekki, eða eru hætt að virka, mikið til vegna ofnotkunar. Nærflóran (microbiom) okkar sem er samansett úr miklu fleiri eindum örveira en líkamsfrumurnar, er í nánu samspili við ónæmiskerfið og nánasta nærumhverfi. Smit flórunnar  á milli og úr nærumhverfinu er þannig náttúrulegt og eðlilegt. Sennilega ekkert ósvipað og félagslegu tengslin og nánd hvort við annað sem samfélagsverur. Ónæmiskerfið, það frumubundna og líka fjarlæga með frumum sem framleiða sérhæfð mótefni fyrir okkur, skilar okkur enn betra jafnvægi. Allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Skil, sem nú eru sett vegna Covid-smitáhættu, fjarlægðamörkin sérstaklega, maskar og sprittun endalaust, spila inn á þetta jafnvægi. Skammtímaráðstafanir sem eru taldar nauðsynlegar og meðan við sjáum ekki fyrir enda mesta Covidstormsins. Engu að síður varasamari varúðaráðstafanir á margan hátt eftir því sem lengra dregur. Langtímalögmál smitsjúkdómanna í lífríkinu fer sínu fram.

Hef sjálfur helgað stórum hluta af starfsæfi minni í rannsóknum á samspili oft óþarfa úrræða eins og sýklalyfjameðferða og áhrifa lyfjanna á nærflóruna okkar. Með faraldsfræðirannsóknum á sýklalyfjaónæmum flórubakteríum um landið og sem jafnframt geta verið okkar algengustu sýkingarvaldar. Eins með rannsóknum á bóluefnum gegn þessum m.a. sýklalyfjaónæmu stofnum. Bóluefni sem gagnast hafa vel íslenskum börnum, en þar sem jafnframt er hætta á að aðrir stofnar en bóluefnin virka á, fylli í skarðið. Sérstaklega sýklalyfjaónæmir stofnar og ef sýklalyfjaþrýstingur frá okkur sjálfum minnkar ekki vegna óþarfa ávísana eða ef álíka stofnar eru beinlínis fluttir til okkar með hrávöru erlendis frá. Þannig eltum við stundum skottið á okkur í hringdansi firringar og því sem hentar ekki hverju sinni og margir vilja ekki sjá vegna sérhagsmuna.

Umbreyting og skerðing áunninna lífsgæða síðustu aldar, blasir nú við hinum vestræna heimi. E.t.v. líka vegna ofsahræðsluviðbragða við því óþekkta og smitsjúkdómafaraldri sem þó er ekki skaðlegri en margir aðrir sem gengið hafa sl. öld. Úræði læknisfræðinnar líka miklu meiri, ef vel er staðið að málum og þótt við stöndum á gati í öllum fréttaflutninginum. Þjóðaröryggisráð jafnvel skipað af ríkisstjórn til að fylgja fréttaflutningi eftir, sjálfskipað jafnvel af blaðamönnunum einum! Spurningar um stríðsaðgerðirnar hljóta að snúa að fórnarkostnaði. Varðandi almenna heilsuvernd í náinni framtíð og félagslegt öryggi og lýðræði. Spurningar sem verða áleitnari eftir sem tíminn líður, mánuðir, ár? Staður og stund a.m.k. að spá í næstu skref. Sóknamöguleika hugsanlega með breyttu hugafari og þar sem tekið er tillit til allra þátta og lífslögmálanna.

Ekki má fórna nálægðinni milli okkar um of. Með samt skynsamlegri nálgun á hreinlæti og sóttvörnum. Það verður að tryggja mannkyninu öllu sem bestan tilverurétt. Við höfum viljað getað nálgast allt í hvelli. Internetið í samskiptum og í ferðalögum til ólíkra heimsálfa. Stórar samkomur, því stærri, því betri. Veraldlegum gæðum sjaldan jafn misskipt milli jarðarbúa. Sjaldan hefur skilið meira á milli feigs og ófeigs með nándarhugtakinu. Meira landfræðilega en í okkar nánast umhverfi. Vonandi alls ekki á nándinni í daglegum samskiptum okkar á milli og sem oft mættu vera miklu meiri. Þar sem rafræna nándin hefur hins vegar oft verið látin duga og skilið eftir einmannaleikann hjá allt of mörgum. Bráðar aðgerðir gegn pestinni mega alls ekki verða til að eyðileggja það sem er okkur kærast. Við herðum frekar aðeins á ólunum, en göngum síðan til baka í normið, reynslunni ríkari, vonandi.

Vonandi stefnum við í lygnari sjó. Tæklum veiruna með öllum hugsanlegum góðum ráðum. Einhvernvegin verðum hins vegar að ná að skapa hjarðónæmi fyrir þessari veiru. Eins og gegn öllum öðrum slæmum pestum. Vonandi sem fyrst m.a. með hjálp bóluefna og án of mikils lýðheilsuskaða. Við megum samt aldrei missa sýn á okkar mikilvægustu félagslegu gildum og á mikilvægi nándarinnar hvort við annað. Við verðum að getað lifað með augljósum framtíðaráhættum smitsjúkdómanna. Varnirnar eru í okkar höndum og vísindanna. Eins augljósar nauðsynlegar bráðaaðgerðir gegn röskun lífríkis jarðar sem rekja má til lifnaðarhátta mannsins. Þar sem nándarmörkin hafa svo sannarlega verið troðin niður á mörgum sviðum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.10.2020 - 19:02 - FB ummæli ()

Kortin hans Fúsa…

Í miðjum Covid-heimsfaraldri á Ströndum, staldrar maður auðvitað við. Sagan á Ströndum og upplýsingaflæðið úr fjölmiðlunum í þéttbýlinu vekur upp áður óþekktar tilfinningar og hugsanir. Í brothættri byggð vegna fráflæðis úr sveitum og sjávarplássum, í hina “eftirsóttu” menningu fyrir sunnan sl. áratugi. Heilu sveitirnar hafa tæmst, meðal annars vegna tilflutnings landbúnaðar- og sjávarauðlindakvóta. En auðvitað líka í kapphlaupinu um nútíma lífsgæði og menntun.

Hér á Stöndum voru fyrir ekki svo löngu síðan, rúmlega hálfri öld, þrjú læknishéruð. Í Árneshreppi, í Djúpinu og á Hólmavík. Ljósmæður og prestsetrin miklu fleiri og íbúafjöldinn margfaldur. Það þótti um margt gott og öruggt að búa í Strandasýslu og Djúpinu. Þótt fátækt í almennum skilningi þess orðs væri nokkur, komst fólk vel af og fáir sultu eða voru á vergangi. Hafði svo verið um aldir, en hvergi var mannfólkið hraustara og úræðabetra. Andlegt heilbrigði gott og mannkostir miklir. Farsóttir komu auðvitað og fóru, en a.m.k. einhver læknir í héraði sl. rúmlega tvær aldir.

Þegar ég byrjaði að leysa af sem héraðslæknir (í dag heitir það heilsugæslulæknir og á morgun kannski fjarlæknir) á Hólmavík fyrir tæpum aldarfjórðung, var þegar farið að gæta mikils landsflótta, aðallega í þéttbýlið fyrir sunnan. Togaraútgerðin við það að fara úr plássinu og fiskikvótinn seldur. Reglulega var þó farið í fámennið í Árneshrepp til að veita nauðsynlega fasta læknisþjónustu. Djúpið var nánast tómt að norðanverðu og aðeins búið á einstaka bæ. Í “suðursýslu” Vestfjarða eins og svæðið var stundum kallað og þar sem aldirnar áður hafði verið hvað blómlegasta byggð Íslands. Jafnvel sú fjölmennasta í upphafi landnáms eins og segir frá sagnaskáldsögu Bergsveins Birgissonar um Svarta víkinginn. Ein fegursta sveit Íslands að meðtöldum hrykalegum ströndum.

Víðátta læknishéraðsins náði í meira en hundrað kílómetra í norður, vestur og suður frá Hólmavík. Oft um ófæra eða illfæra vegi að fara á veturna. Nú liggur þjóðvegurinn til Ísafjarðasýslu gegnum héraðið um Steingrímsfjarðarheiði, niður í Djúp. Mikil bílaumferð er allt árið gegnum héraðið þótt íbúar svæðisins séu orðnir fáir. Meðalaldur íbúa þó hvað hæstur á landinu. Í læknabústaðnum á Hólmavík eru enn varðveitt gömlu landakortin hans Fúsa, Sigfúsar Ólafssonar, læknis (d. 2002) og sem hann eftirlét þeim sem eftir komu.

Kortin sjálf, kennileitin og öll gömlu sveitabýlin sem þar eru merkt, segja mikla sögu. Um hugsanlegar vitjanir gegnum tíðina vegna veikinda og slysa. Þegar skipuleggja þurfti sjúkraflutninga í þaula og hafa sem mest samráð í öllum aðgerðum. Enginn flugvöllur er nú eftir fyrir sjúkraflutninga nema á Gjögri í Árneshreppi. Einn sjúkrabíll og um tvöhundruð kílómetrar að keyra suður til Akranes sem er höfuðstaður heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE).

Ófáar vitjanir og sjúkraflutninga með sjúkraflutningsmönnunum góðu, hef ég sinnt frá Hólmavík, stundum við erfiðar aðstæður. Lánið samt oftast leikið við mann. Tilviljanir og stundum óskiljanleg forsjá, en alltaf í góðu samráði við alla. Oft hef ég skoðað kortin hans Fúsa og spurt mig, hvar og hvernig best er að bregðast við ef kall kemur. Einn sjúkrabíll, frábærir sjúkraflutningsmenn en oftast enginn hjúkrunarfræðingur lengur allri þessari brothættu og fámennu byggð. Stundum samt treyst á þyrluflug LHG.

Í Covidinu nú hugsar maður samt aðeins öðruvísi hér norður á Ströndum og þar sem ekkert smit hefur enn komið upp. Hvernig er best að verjast sóttinni og þar sem enginn vísindalega sannreynd lækning er til við. Ég hugsa til gömlu læknanna og hvernig hefðu þeir brugðist við stöðunni. Sennilega með einangrun héraðsins og öflugum smitvörnum með allskonar nálægðartakmörkunum eins og stundum áður. Hvíti dauði, berklarnir er nærtækasta fordæmið fyrir rúmri hálfri öld. Áður spænska veikin fyrir einni öld. Íslenskar lækningajurtir og þá sérstaklega fjallgrösin komu þar jafnvel við sögu og ég skrifaði nýlega um.

Ég hef verið fulltrúi Læknafélag Íslands í Sóttvarnaráði Íslands sl. 8 ár. Skipaður af heilbrigðisráðherra með bréfi til ráðgjafar honum og sóttvarnalækni, ef eftir er leitað. Ráð sem skipað er fulltrúum heilbrigðisstétta með sérþekkingu í smiti og smitvörnum. Ekki einn einasti fundur hefur samt verið haldinn með ráðherra sjálfum og eingin bein samskipti. Ráð sem hefur komið stöku sinnum saman til að samþykkja fyrirliggjandi sóttvarnastefnu stjórnvalda.

Gömlu kortin hans Fúsa hafa gefið mér góð hughrif hér á Hólmavík. Maður þekkir líka orðið betur aðstæður og er reynslunni ríkari. Öryggið, ef undan er skilinn malbikaði þjóðvegurinn, þó sjaldan minna.  Samráð í héraði, samstaðan og minni ferðamannastraumur er helsta vonin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.10.2020 - 09:56 - FB ummæli ()

Engin bylgja enn á Ströndum…

Enn sem komið er hefur enginn í Strandasýslu greinst með Covid19. Sennilega má þakka það tilviljun, en íbúar og heilbrigðisstarfsfólk hafa frá byrjun verið vel vakandi fyrir smithættunni. Allt í kring hafa komið upp hópsýkingar, aðallega í fyrstu bylgju faraldursins í apríl.

Að sama skapi má áætla að hjarðónæmið fyrir Covid19 sé lítið sem ekkert og þannig næmið mjög mikið í samfélaginu í vetur. Mögulegt er auðvitað að einhverjir séu með mótefni og hafi fengið einkennalausa sýkingu, án þess að veikjast fyrir sunnan.

Hætt er við að næm samfélög eins og Strandirnar geti fengið yfir sig holskeflu Covid19 faraldursins, ef ekki er varlega farið. Spurningar hafa svo sem verið frá byrjun að loka eigi fyrir ónauðsynlegar samgöngur á Strandir í þessum tilgangi. Hvergi á landinu er meðalaldur hærri. Heilbrigðisþjónustan miðast við lítið sjúkrahús og heilsugæslustöð á Hólmavík. Einn læknir og enginn hjúkrunarfræðingur flesta daga. Einn sjúkrabíll og hérað sem spannar meira en 100 km, norður, suður Strandir og allt innra Djúp. https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/11/01/thjodbrautin-um-innra-djup-og-strandir/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.9.2020 - 18:20 - FB ummæli ()

Kálfanes á Ströndum 2020

 

Kálfanes og Ós við Steingrímsfjörð 25.9.2020

Ekki er hjá því komist að tengja líðandi atburði við söguna og landið, í gær á göngu minni upp í Kálafanesfjall, eins og fyrir rúmlega 4 árum og sem ég skrifaði þá um. Í aðdraganda forsetakosninga og sem mig langar að rifja upp og þar sem sumir spá nú upphafi mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar, hvað svo sem það merkir. Í tilefni af lífsbaráttu almennings gegnum aldirnar við oft óblíða ströndina, mikla fátækt og plágur og ekki síst baráttuna við stórhöfðingjana sem öllu réðu. Einn var þó sá stórhöfðingi sem lét skoðanir valdaklíkunnar ekkert á sig fá og var mikill vinur smábændanna. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1203) og sem barðist fyrir fátæklingana. Þegar Guðmundur tók við embætti biskups á Hólum fyrir um 800 árum skipaði hann svo fyrir að enginn í biskupsdæmi sínu skyldi svelta og allir sem kæmu að Hólum ættu að fá tvær máltíðir á dag, í mikilli óþökk höfðingjavaldsins. Guðmundur góði varð hins vegar svo vinsæll að tugir manna fylgdu honum hvert sem hann fór um héruð, væntanlega með vitneskjuna um að þá væru mestu líkurnar á að fá magafylli. Guðmundur góði heimsótti ennfremur frekar fátæk héruð eins og Strandirnar og sem sagan segir að hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Einn sá staður sem hann gisti á var Kálfanes og reist hafði verið kirkja 1182. Í jarðabókinn 1709 kemur fram að Kálfanes var þá meðal stærstu bújarða Strandasýslu og hlunnindi lágu m.a. í silungsveiði í Ósá og Tröllkonusíki, auk mikillar grasa- og hrísræktar. Tenging við aðra kirkju í mínum huga í fjarlægum heimshluta á svipuðum tíma.

kirka kálfanes

Kirkjurústir í Kálfanesi

Ófáar eru laugarnar á Ströndum sem Guðmundur góði blessaði á leið sinni og sem taldar voru veita lækningamátt löngu eftir hans daga, löngu fyrir sögu læknisfræðinnar á Íslandi 1760. Í dag er ég hins vegar læknirinn á Ströndum og reyni að beita nútíma læknisfræði í þágu íbúanna. Í stað lækningajurta og lauga áður fyrr. Reyndar má enn finna uppsprettuna góðu í Kálfanesi, en vatnið í henni var talið svo heilagt og kröftugt að bera mætti það yfir þveran Steingrímsfjörð í lopahúfu, án þess að dropi færi til spillis. Á öðrum stað við Kaldbak má enn finna lind sem ætluð var sjónveikum. Á Laugarhól í Bjarnafirði má síðan baða sig í Guðmundarlaug.  

Á bæjarhlaðinu við Kálfanes vex enn sjaldgæf fræg lækningajurt, stórnetlan. Stórnetlunnar er getið í heimildum frá 18. öld og talið var að rót hennar hefði sérstaklega mikinn lækningarmátt. Ef hún væri soðin í víni og hunangi að þá gagnaðist hún gegn brjóstveiki, hósta og hryglu og getið er m.a. um í ritum Ólafs Olavius og í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Líklega hefur þessi jurt verið flutt til landsins og ræktuð fyrst og fremst til lækninga, en einnig var hægt að vinna úr henni hör til dúkagerðar og til skrifpappírsgerðar og sem þótti mjög góður víða erlendis. Jörðin Kálfanes lagðist í eyði árið 1940 en þar eru nú nýir ábúendur. Flugvöllur Hólmavíkur liggur nú í landi gamla Kálfaness.

Á Kálfanesi á Ströndum mætist nútíminn og fortíðin. Gömul læknisfræði og ný og sem ég hef stundum skrifað um áður. Eins saga góðmennsku, heiðarleika og umburðarlyndis. Guðmundur góði biskup skaraði fram úr hvað þessa hugsun varðar fyrir 800 árum og sem sumir stjórnmálamenn dagsins mættu taka sér til fyrirmyndar og stundum vilja mest hygla sér og sínum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.9.2020 - 08:05 - FB ummæli ()

Íslandsmosinn gæti verið gagnlegur gegn Covid

Í dag og þar sem engin góð lækning er til, samkvæmt sannreyndum vísindum, gegn Covid19 smitsjúkdómnum, er ekki úr vegi að líta til fortíðar og sögu læknisfræðinnar. Ótal margar forskriftir eru til að lyfjum sem bæta áttu allskonar ástand og lina þjáningar. Saga læknisfræðinnar og grasafræðin eru þessu til frekari til staðfestingar. Sjálfsagt má efast um mátt ýmissa gömlu lyfjanna, en sem í flestum tilvikum sköpuðu sér fasta sess sem lækningameðferðir vegna reynslunnar. Ekkert í nútíma læknavísindum er heldur til sem beinlínis er græðandi, aðrar en skurðaðgerðir. Allskonar gagnleg lyf hins vegar til að hefta sjúkdómsgang, eða til að drepa bakteríur sem herjar á líkamann, ef þær eru þá á annað borð næmar fyrir lyfjunum vegna ofnotkunar, en því miður fæstar veirur.

Erfitt og kostnaðarsamt getur verið að sýna fram á græðandi mátt náttúrulyfja. Ónæmiskerfið okkar og sem var ekki skilgreint sem slíkt fyrr en snemma á þessari öld, á stærstan þátt í að viðhalda almennu heilbrigði samkvæmt bestu vísindaþekkingu og sem er líka lykillinn í flestum sjúkdómsmyndum ef það bregst. Kerfi sem líklega hjálpa má með ýmsu móti. Vítamín og ýmiss fæðuefni eru þar mikilvæg (mikið rætt um mikilvægi D vítamíns t.d. í dag), og svo allskonar önnur sérstök efni úr jurtaríkinu, en sem er okkur hulið í nútímanum. Ljósefnin (phytochemicals) þar á meðal og ég hef áður skrifað um. Eins er mér minnisstætt kremið hennar Siggu sem við notuðum á Ströndum fyrir meira en áratug og sem unnið var úr uppleystum íslenskum lækningagrösum, blandað í lýsi og repjuolíu og sem grætt gat legusár í bókstaflegum skilningi. Allt náttúruleg efni til lækninga í misjöfnum skömmtum til mislangs tíma og önnur fyrirbyggjandi í langtímanotkunar gegn margskonar sjúkdómum.

Vandamálið með Covid lækninguna er einmitt ekki bara vöntun á eigin svörun ónæmiskerfisins, heldur bólguferlarnir sem fara í gang og geta verið lífshættulegir. Lungnabilun t.d. vegna bólgna í æðum og eitlakerfi, sem og tilhneying til blóðstorknunar þegar líður þekur á sjúkdóminn. Sein viðbrögð ónæmiskerfisins með mótefnum gegn veirunni og síðari virkni frumubundna ónæmiskerfisins í bólguferlunum er sennilega um að kenna. Bólgur gefa okkur hins vegar tækifæri að ráða við með ákveðnum bólguheftandi lyfjum og jafnvel ónæmisbælandi. Cortcoid sterar (sykursterar) hafa þannig sýnt fram á góðan árangur með þetta að markmiði og jafnvel hafa verið uppi hugmyndir um gigtarlyfið Plaquenil, en sem ekki hefur verið sannreynt vísindalega. Aukaverkanirnar geta líka verið alvarlegar. Síðan eru ákveðin ný veirulyf sem vonir eru bundnar við e.t.v. síðar. Bólusetningar er þó sú lausn sem flestir vonast eftir að geti orðið fyrirbyggjandi gegn Covidsýkingu. Ekki eru allir þó jafn bjartsýnir með áreiðanleikann og varanleikann og ef vörn mannsins býr fyrst og fremst í frumubundna ónæmiskerfinu, án myndunar sérhæfðra mótefna sem bólusetningar byggjst á. Ónæmi sumra gegn Covid19 núna gæti líka byggst á ósérhæfðum mótefnum, með jafnel krossónæmi gegn skyldum coronaveirum sem við höfum smitast af áður með krossónæmi, kannski ekkert óskylt svörun okkar og var með kúabóluefni gegn stórubólu frá því fyrir meira en tveimur öldum síðan.

Að þessu öllu sögðu langar mig að nefna sérstaklega tilvist tveggja jurtaefna sem um aldir hafa verið talin hafa sérstakan lækningarmátt, sennilega fyrst og fremst í því að temja og slá á bólgur, en jafnvel til almennrar græðingar. Sennilega þekkjum við Íslendingar best, fjallagrösin (cetraria islandica), hvíta mosann. Eins mætti hugsanlega nefna blóðberg sem er þekkt í mörgum forskriftarlyfjum hér á landi. Eins jafnvel stórunetlu sem er mjög sjaldgæf hvannategund hér á landi og sem sennilega var upphaflega flutt til landsins um 1200 vegna lækningarmáttar síns.

Algengustu sjúkdómarnir sem fjallagrösin áttu að lækna voru einkenni í öndunarfærum og meltingarvegi. Fjallagrösin innihalda glúkan, líkenín og ísólíkenín. Sterk seyði af fjallagrösum var jafnvel talin hafa berklahemjandi áhrif, sem eru rakin til fúmarprótócetrarsýru. Jurtin hefur lengi verið talin gagnleg til lyfjaframleiðslu gegn kvefi. Lyfið auðveldar sjúklingum að hósta upp slími og dregur úr slæmum hóstahviðum. Beiskjuefnið í jurtinni er talið hafa styrkjandi áhrif á maga og garnir, örva meltingu og matarlyst. Þessa eiginleika skal ekki vanmeta þegar sjúklingur er haldinn þróttleysi eftir erfiðan smitsjúkdóm.

Hornstrendingur einn sagði um grösin: „Þau voru notuð þannig við brjóstveiki og lungnabólgu. Þau voru soðin í 2 klukkustundir, grösin síuð frá grasavatninu, það látið í flöskur og tekið inn 3svar á dag. Við magaveiki voru þau líka notuð. Það meðal var búið þannig til að 4 lítrar af nýmjólk voru látnir í pott ásamt dálítið stórri visk af fjallagrösum. Þetta var soðið í 4 klukkustundir, en þá var það orðið aðeins 1 og hálfur pottur (eða 11/2 lítri). Þetta var orðið svo gott meðal að það jafnvel læknaði víst 2 sjúklinga sem voru með spænsku veikina 1918, norður í Hælavík. Þeir höfðu áður langan tíma fengið meðul frá þrem læknum, en ekkert af þeim dugði.“ Eins segir að sumir bæir á Ströndum hafi getað haldið berklunum algjörlega frá börnum, þótt börnin sóttu skóla með berklasmituðum börnum, með því einu að gefa þeim daglega fjallagrasamjólk!

Aðgerðir stjórnvalda nú í þriðju bylgju Covid-faraldursins og sem engan enda viðist ætla að taka, miðast að smitvörnum og rakningu smits. Hefðbundnar læknismeðferðir eru ekki til nema í allra verstu tilfellum í gjörgæslumeðferð. Langt er í áhrifaríkar bólusetningar og góð veirulyf eru ekki í augnsýn. Nú verðum við því að treysta örlítið á söguna, almenn vísindi og grasafræðina, eins og mannkynið hefur gert um aldir gegn pandemíum m.a., oft á áhrifaríkan hátt. Gullinrót (tumeric) sem ég hef fjallað um áður með ljósefnunum góðu og fjallagrösin íslensku koma þar sannarlega við sögu. Það sakar a.m.k. ekki að drýgja hafragrautinn sinn með nokkrum fjallagrösum í vetur.

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/07/16/brunavarnir-okkar-og-ljosefnin-godu/

https://www.laeknabladid.is/2000/4/umraeda-frettir/nr/270

https://www.google.com/…/fjallagroes-rannsoknir-og-fle…/amp/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.9.2020 - 15:54 - FB ummæli ()

Bólgustormurinn í vetur

Nú að hausti megum við búa daglangt við Covid19 ógnina sem hefur verið meira eða minna viðvarandi síðan snemma sl. vor og nú í upphafi annar bylgju aðeins lítill hluti þjóðarinnar ónæmur, (1-2%) samkvæmt mótefnamælingum. Fyrir 6 árum um svipað leyti að hausti, máttum við búa við gosmengun víða um land og yfirvofandi inflúensu og ebólufaraldur erlendis frá. Enginn vissi hver þróunin yrði í eldsumbrotunum norðan Vatnajökuls og í Bárðarbungu og menn sáu jafnvel fyrir sér ný móðuharðindi, án þess að þjóðfélagið færi á hliðina.

Afleiðingar af Spænsku veikinni hér á landi fyrir einni öld þegar engin bóluefni voru til staðar og jafnvel svínaflensunnar fyrir 11 árum, er áminning um hvernig venjuleg inflúensa getur hagað sér í verstu tilfellunum hjá hverju og einu okkar. Dánartíðni aðeins meðalslæmrar inflúensu er svipuð og í Covidinu nú. Þegar óheftir bólgustormar herja á lungu, bein og vöðva á miðjum vetri, eins og hendi sé veifað. Mæðuharðindi alltaf fyrir þá sem lenda í.

Móðuharðindin í lok 18 aldar urðu til eftir ekki alls ólíka atburðarrás og líkleg er þessa daganna. Bólusótt (stórabóla) lá afar þungt á þjóðinni að viðbættri gosmengun um land allt. Áhrif bólusóttarinnar einnar á 18 öld er mikið vanmetin í Íslandssögunni, en hún átti áður ríkan þátt í endalokum þjóðveldisins á þrettándu öld. Hún dró einfaldlega svo úr viðnámsþrótti þjóðarinnar að henni var nauðsynlegt að ganga erlendu valdi á hönd.

Talið er að allt að fimmtungur þjóðarinnar hafi látist í móðuharðindunum einum. Hörmungarnar urðu meðal annars til þess að Íslandi var einna fyrst þjóða í heiminum skaffað bóluefni (kúabólusmitefni) sem nýttist til bólusetninga geng bólusóttinni. Danski kóngurinn sá þannig aumur á Íslendingum og sem voru á góðri leið með að þurrkast út sem þjóð og sem vissulega var undir forsjá hans. Bólusetningin, nýleg stofnun Landlæknisembættisins og menntun læknisefna nokkrum áratugum áður svo og menntun ljósmæðra síðar, snarbætti heilsuástand þjóðarinnar. Aldrei í Íslandssögunni hefur verið gert jafn þýðingamikið átak í lýðheilsumálum og sem snarlækkaði afar háan ungbarnadauða. Á landi þar sem áður mátti reikna með að aðeins um fjórðungur barna næði fullorðinsárum.

Margir samverkandi þættir auk bólusóttar og gosmóðu voru að verki sem sköpuðu þær hörmungar sem móðuharðindin reyndust. Mikill kuldi og léleg loftgæði juku t.d. á tíðni hverdagslegra sýkinga, ekki síst lungnabólgu. Sýklalyfin voru eingin. Flensufaraldrar gengu reglulega yfir og dánartíðni af völdum lungnabólgu gat verið allt að þriðjungur. Fátækt var mikil og húsakynni oft léleg. Heilbrigðiskerfið er afar illa í stakk búið að mæta aukinni þjónustuþörf. Margir eru reyndar þegar hættir að treysta á vísindin og farnir að halla sér að kukli, hjávísindum og allskyns gagnslausum skyndikúrum gegn vanheilsu sinni og sem reyndar mest er auglýst í fjölmiðlum þessa daganna. Þar sem gróðahyggja sumra hefur tekið völdin hjá auðtrúa þjóð og almenningur er oft afar illa upplýstur.

Eldra fólki og sjúklingum með langvinna sjúkdóma er sérstaklega ráðlagt að láta bólusetja sig á hverju hausti gegn árlegri inflúensu. Eins er mælt með að verðandi mæður fái bólusetningu. Það er ekki síst til að verja ungbarnið, í meðgöngunni og fyrst eftir fæðinguna. Í Bandaríkjunum er einnig mælt með að öll ungbörn frá 6 mánaða aldri fái inflúensubólusetningu að hausti, enda engin bólusetning sem kemur jafn oft í veg fyrir slæmar loftvegsýkingar og fylgisýkingar á veturna en einmitt inflúensubólusetningin. Venjuleg flensa veldur flestum, miklu meiri einkennum en venjuleg Covid19 sýking, þótt langtímaafleiðingar og jafnvel dauðsföll séu fleiri af völdum Covid19 sýkingar, (< 2% greindra, fer eftir stofngerðum og aldri) einkum hjá þeim sem viðkvæmastir eru fyrir. Enginn veit heldur um afleiðingarnar ef þessar tvær pestir blandast saman á sama tíma.

Margir gleyma að allskonar aðrir faraldrar en Covidið nú, hafa verið nærtækir lengi og sem geta með stuttum fyrirvara breyst í drepsóttir. Fuglaflensa, auk heimsfaraldurs nýrrar inflúensu getur brotist út með stuttum fyrirvara og sýklalyfjaónæmir sýklar eru þegar eru farnir að herja á okkur, en sem geta aukist með t.d. óheftum innflutningi á erlendu kjöti og landbúnaðarafurðum. Samfélagsmósar, spítalamósar og ESBL colibakteríur eru í stöðugri sókn og jafnvel fluttar til landsins, á auðveldasta máta sem hægt er að hugsa sér með ófrosnu kjöti. Lungnabólgubakterían (pneumókokkar) og aðrir algengir sýklar eru sífellt að verða ónæmir gegn hefðbundnum sýklalyfjum. Allt vegna ofnotkunar okkar á sýklalyfjum sl. áratugi í samfélaginu og landbúnaði erlendis. Allt algengir sýklar og flórubakteríur í umhverfinu sem afar erfitt getur verið að meðhöndla með sýklalyfjum þegar mest á reynir og þeir ónæmir fyrir lyfjunum okkar. Helsta læknisvopninu okkar og þeirra sem standa vaktina. Fyrirbyggjandi aðgerðir líka og sem eru algjörlega í okkar eigin höndum!

Við getum verið heppin og komist sæmilega gegnum veturinn nú án sérstakra ráðstafanna annarra en vegna Covid19 faraldursins. Miðað við sóttvaranráðstafanir má búast við að flensufaraldurinn í vetur verði samt langvinnari og fari hægar af stað en undanfarin ár. Nú þegar eru líka blikur á lofti í lýðheilsumálunum vegna afleiðinga Covids-hafta og minni þjónustugetu heilbrigðiskerfisins og jafanvel sem sjá má í samfélagslegum breytingum, félagslegri óeyrð, auknu þunglyndi og jafnvel ofbeldi í þjóðfélaginu öllu. Sjúklingar jafnvel farnir að hika við að leita sér þjónustu. Lítið hefur verið gert til að reyna að styrkja heilbrigðiskerfið sl. mánuði, þótt fyrstu aðgerðir stjórnvalda vegna Covid áttu að miða fyrst og fremst að því.

Það er auðvitað á ábyrgð stjórnvalda að verja landið eins og kostur er fyrir alvarlegum næmum sjúkdómum og sem Sóttvarnarlæknir hefur aðal umsjón með. Afleiðingar aðgerða mega þó ekki rústa okkar samfélagsgerð, fjárhagslegri þjóðfélagsgetu og almennri heilbrigðisþjónustu. Heldur ekki að afleiðingarnar verði verri lýðheilsa almennt séð en efni standa til. Enginn veit með vissu hvað þættir í ónæmisvörnum okkar gegn covid gegna mestu máli. Mótefni, jafnvel ósérhæfð við fyrri coronaveirufareldrum eða það frumubundna. Mörkin hvar hjarðónæmið liggur eru mjög óljós og sennilega innan við 20% miðað við SARS-COVID2 -19. Hver og einn einstaklingur verður líka að sýna almenna skynsemi og ábyrgð í sínum forvörnum og sinna. Meðal annars með bólusetningu nú fyrir því líklegasta í vetur, inflúensunni og vonandi Covid bólusetningu ef hún sýnir sig virka vel og verður í boði.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.7.2020 - 14:19 - FB ummæli ()

Brunavarnir okkar og ljósefnin góðu

Flestir líta á gott fæði fyrst og fremst út frá næringargildi og ferskleika. Það væri svo sem í lagi ef passað væri líka upp á fjölbreytileikann. Vítamín og alls konar lífræn bætiefni í grænmeti, ávöxtum og jurtum, sem líkaminn þarf til daglegrar viðgerða og enduruppbyggingar, í samspili við ónæmiskerfið. Eins gegn árásum óæskilegra örveira og mengunarefna sem við vitum ekki alltaf hvaðan eru upprunnin. Við reisum þannig okkur eigin eldveggi í nánum tengslum við næringuna og umhverfið.

Við þurfum ekki síður að hafa áhyggjur af ýmsum tilbúnum lífrænum efnum og sem við sjálf framleiðum í iðnaði, en sem safnast geta fyrir í okkur og umhverfinu. T.d. þrávirk lífræn efni eins og  PFC efnin og hormónalíku plastefnin (hormónahermar). Eins allskonar rykefni og örefnin (nano products) sem eru svo lítil að þau ná að smygla sér inn í frumurnar eins og Trójuhestar. Sama á við um skordýraeitur, sýklalyf, rotvarnarefni og ýmsa vaxtarhvetjandi hormóna í matvælum. Efni sem berast m.a. í okkur með kjöti, af  misvel þekktum uppruna erlendis frá. Þriðjungur krabbameina er auk þess talin tengjast slæmu fæðuvali eingöngu, of miklum hvítri sykri og fitu.

Uppsöfnun á ýmsum þrávirkum lífrænum efnum í náttúrunni er stöðugt að aukast. PFC efnin hafa verið mikið til umræðu undanfarið. Þau eru mikið notuð innan á skyndibitapakkningar allskonar og sem teflonhúð á eldhúsáhöldum vegna vatns- og fitufælinna eiginleika. Efni sem líklega geta bælt ónæmiskerfi barna og okkar sjálfra. Eins er um að ræða öll hormónalíku plastefnin (þalöt) sem líkt geta eftir hormónum í verkun (hormónahermar). Efni sem notuð eru sem mýkingarefni í allskonar leikföngum, plastumbúðum og áhöldum tengt matargerð, en borist geta auðveldlega í okkur gegnum húð, mat og drykk. Efni sem m.a. draga úr frjósemi dýra og manna, og flýtir kynþroska unglingsstúlkna. Verst hvað öll þessi þrávirku efni eru mörg og að þeim skuli alltaf vera að fjölga.

Fæði sem í daglegu tali hefur verið kallað erlendis „functional food“ inniheldur hins vegar meira af allskonar lífrænum efnum til verndar. Efni sem virka gegn oxun og þránun próteina í frumunum okkar og á erfðaefninu sem öllu stjórnar. Oxunin er nefnilega stöðugt að verki og óumflýjanleg, ekkert ólíkt og þegar fita þránar og járn ryðgar. Eins á heildrænt fæði að tryggja hagstæðari gerla fyrir flóruna okkar sem hafa skaddast einhverja hluta vegna, eins og t.d. við sýklalyfjainntöku. Gerla sem hægt er að taka inn sem „probiotics“ í stöðluðu magni. Allt til að bæta það sem á vantar í fæðunni okkar.

Ljósefni sem ég vil kalla (phytochemicals), eru sérstök náttúruefni úr jurtaríkinu og sem ekki eru skilgreind sem vítamín eða næringarefni til brennslu eða próteinuppbyggingar, en jafn mikilvæg fyrir okkur á allt annan hátt. Efni sem gefa jurtum sína einstöku eiginleika, tengt lit og lykt. Fyrir utan oft afoxandi eiginleika eru þau talin hafa hvert um sig sína sérstöku eiginleika m.a. til verndar skemmdum á erfðaefninu.

Vítamín, önnur afoxunarefni, steinefni og flóknir efnaferlar með ljósefnunum vernda okkur þannig gegn oxun, hrörnun og öldrun. Þegar alvarleg veikindi herja eða við höfum borðað skemmdan mat. T.d. brenndan/grillaðann og sem eykur þá myndun frírra stakeinda (radíkala) og oxun frumna. Sambærilegt og þegr járn ryðgar.

Íslensku tómatarnir eru hlaðnir æskilegum ljósefnum. Eins mætti telja gullinrót (curcumin öðru nafni turmeric), chilli pipar, engiferrót, hvítlauk, sojabaunir, brokkolí, jafnvel kál, vínber, hunang, grænt te og kaffi. Listinn er í raun miklu lengri. Einna mest vitum við um áhrif gullinrótarinnar. Hugsanlega sem vernd gegn elliglöpum og Alzheimer´s sjúkdómnum. Jafnvel sem hluta krabbameinsmeðferðar og þegar hvað mikilvægast er að byggja hratt upp, það sem rifið hefur verið niður.

Ljósefnin gætu þannig verið svarið til að styrkja ónæmiskerfið sem mest gegn sýkingum, hrörnun, krabbameinum og ófrjósemi. – mál málanna í dag á Covid-tímum, ásamt auðvitað almennt heilbrigðum lífstíl. (Styttri útgáfa af greininni var upphaflega birt í helgarblaði DV, 22.11.2013 og á blogginu mínu)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn