Miðvikudagur 17.3.2010 - 16:23 - FB ummæli ()

Einelti og þunglyndi barna

 

einelti Í dag, á degi Reykjavíkurborgar í baráttunni gegn einelti, „dagur án eineltis“ erum við enn og aftur mynnt á gríðarlega algeng vandamál sem sérstaklega tengist börnunum okkar og ungmennum sem oft eru ansi afskipt. Áður hefur verið fjallað um hér á bloginu um aðstæður barna hér á landi tengt kreppunni sérstaklega. Vandamálin og kreppan geta auðvitað líka verið heima fyrir og sem varað var mikið við eftir reynslu Finna eftir kreppuna þar í landi fyrir þremur áratugum síðan. Einelti, sem er ofbeldi í ákveðinni mynd, er sennilega ein algengasta orsök þunglyndis meðal barna og unglinga. Sem veldur langvarandi sálarkvölum meðal þeirra og angist í mörg ár og jafnvel til fullorðinsára. Málið var til ítarlegrar umfjöllunar á Læknadögum í janúar. Þar kom meðal annars fram að sjúkdómseinkennin eru oft duldari og sjúkdómsmyndin oft önnur en hjá fullorðnum. Einkennin eru líka oft mistúlkuð og oft kennd við einkenni „unglingaveikinnar“, höfuðverkir, magaverkir, slen og slappleiki. Eða jafnvel sem mikil feimni. Afleiðingar viðvarandi kvíða og þunglyndis síðar þekkja hins vegar allir tengt andfélagslegri hegðun og vímuefnanotkun  unglinga og ungs fólks. Eins féttir af vaxandi fjölda barna sem þurfa að leita aðstoðar á BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans).

Það verður að gefa einkennum barna sem bent geta til þunglyndis meiri gaum en gert er í dag, ekki síst í skólunum sjálfum og í heilsugæslunni. Aðal áherslan á að vera á stuðning og fyrirbyggjandi aðgerðir þar sem aðgerðir gegn einelti vegur hvað þyngst. Þar vegur fræðslan um samveruna þyngst, ásamt mikilvægi væntumþykju á náunganum. Fræðslustarf kirkjunnar kemur þannig að þessum málum einnig svo og allt tómstunda- og  íþróttastarf. Á þessa þætti alla  kemur mikið til með að reyna á tímum niðurskurðar í heilbrigðis og skólakerfinu.

Flokkar: Óflokkað · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.3.2010 - 21:47 - FB ummæli ()

Aukning á alvarlegum eyrnabólgusýkingum barna á Íslandi

eyrnabolga 5.3.2010

slæm miðeyrnabólga

eyra 5.3.2010

eðlilegt eyra og hljóðhimna

Vaxandi sýklalyfjaónæmi helsta sýkingarvalds barna, pneumókokksins, hefur leitt til vaxandi vandamála í meðhöndlun alvarlegra miðeyrnabólgusýkinga og innlagna á sjúkrahús hér á landi. Þetta vandamál er aðallega tilkomið vegna ofnotkunar sýklalyfjanna hér á landi um árabil. Gleymum því ekki að flest börn fá eyrnabólgur á fyrstu aldursárunum og sum oft auk þess sem eyrnabólgurnar eru algengasta ástæða fyrir komum barna til lækna. Það hlýtur því að skjóta skökku við að bjóða ekki upp á nútímalega greiningu og meðferð eins og klínískar leiðbeiningar segja til um, rétt eins og fullorðnir fá við sínum vandamálum. Flestar miðeyrnabólgur læknast hins vegar, sem betur fer, jafnvel af sjálfu sér án sýklalyfjameðferðar auk þess sem meirihluti barna á Íslandi bera sýklalyfjaónæmar bakteríur fyrstu vikurnar eftir hvern sýklalyfjakúr sem eykur mikið á ónæmisvandann út í allt þjóðfélagið.

Nú er svo komið að vaxandi fjöldi barna fær ekki sýklalyfjameðferð sem dugar við alvarlegum eyrnabólgusýkingum í heimahúsum vegna sýklalyfjaónæmis. Þá þarf að gefa sterkustu sýklalyf sem völ er á í æð eða vöðva á spítala. Barnadeild LSH hefur nú vegna umfangs vandans leitað til Heilsusgæslunnar um aðstoð við slíkar meðferðir. Um fordæmalaust tilefni er að ræða miðað við hin Norðurlöndin og þótt víðar væri leitað og sýnir alvarleika vandans hér á landi og sem búið er að vara við sl. misseri , m.a. með bréfi til heilbrigðisáðherra og heilbrigðisnefndar alþingis fyrir ári. Bregðast verður strax við þessum bráða vanda á ábirgan hátt og sem jafnframt er áskorun til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um nýtt og aðkallandi verkefni en sem því miður er nú þegar mjög þröngur stakkur sniðinn.

Víðtækari úrlausn til lengri tíma litið felst auðvitað í að ráðist sé að rót vandans og að notkun sýklalyfja almennt verði ábyrgari vegna þróunar sýklalyfjaónæmis hér á landi og mikillar sýklalyfjanotkunar samanborðið við hin Norðurlöndin um árabil, ekki síst hjá börnum. Styrkja verður heilsugæsluna svo læknar geti farið eftir nýjum klínískum leiðbeiningum og boðið upp á nauðsynlega eftirfylgni með sýkingum barna í stað sýklalyfjagjafa af minnsta tilefni. Greiningamöguleikanna er t.d. hægt að bæta með rafrænni myndatöku ekki síst til að geta boðið upp á markvissari eftirfylgd og endurmati á miðeyrnabólgubreytingum. Myndavél eins og myndirnar að ofan eru teknar með kostar lítið miðað við lækningatæki almennt eða um 200 þúsund krónur. Ein slík myndavél ætti að vera til á hverri heilsugæslustöð og á læknavöktum sem á annað borð bjóða upp á læknisaðstoð fyrir börn miðað við umfang vandans hér á landi.

Glætan í myrkrinu nú er sú að hægt er að flýta upptöku á pneumókokkabólusetningu  ungbarna sem sýnt hefur verið fram á að geti fækkað umtalsvert pneumókokkasýkingum m.a. alvarlegum miðeyrnabólgum, lungnabólgum og blóðsýkingum hjá þeim. Samtímis gefst einnig betra tækifæri á að minnka ómarkvissa sýklalyfanotkun barna vegna væntanlegra minni hræðslu við þessar sýkingar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.3.2010 - 18:17 - FB ummæli ()

Ný forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni

forgangsröðunÍ gær var hinn árlegi Heimilislæknadagur sem er fræðadagur Félags íslenskra heimilislækna (FÍH). Heimilislæknir er í dag gjarnan nefndur heilsugæslulæknir en heilsugæslulækningar er lögvernduð sérgrein eins og aðrar sérgreinalækningar á Íslandi.  Í ár var mestum tíma varið í að ræða verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu og hlutverk heilsugæslunnar í þátíð, nútíð og framtíð sem grunnstoð heilbrigðiskerfisins sem á að annast grunnþjónustuna en nýlega fjallaði ég um óraunhæfan læknis- og lyfjakostnað tengt kreppunni nú og einkavæðingu hér á blogginu mínu. Heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins sátu fundinn í boði félagsins ásamt öldrunarlæknum sem var einnig boðið á fundinn. Á undanförnum árum hefur verulega verið þrengt að heilsugæslunni, sérstaklega í samanburði við útþenslu sérfræði- og hátækniþjónustunnar. Formaður félagsins Halldór Jónsson líkti hugmyndum um frekari sparnaði í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nú við að það væri svipað og að senda sjúkling með lystarstol í megrun. Búið væri að skafa af beinum heilsugæslunnar lengi og eins og hægt væri og það löngu fyrir kreppu. Sameining allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokrum árum átti að vera liður í hagræðingu og sparnaði hins opinbera en kom niður á sjálfstæði stöðvanna og frumkvöðlastarfi. Eins var bent á, á fundinum, að heilsugæslan hafi alltaf verið reiðubúin að taka að sér meiri verkefni eins og tíðkast í nágranalöndunum og viljað koma meira að stefnumótun heilbrigðismála en ekki fengið. Heilbrigðisyfirvöld eru nú loks farin að átta sig á afskiftaleysinu til áratuga og mikilvægi heilsugæslunnar til framtíðar.  Aftur er farið að ræða hugsanlegt tilvísunarkerfi sem stýrikerfi á hagkvæmustu  þjónustuna hverju sinni að eigin frumkvæði og skipuð hefur verið stafsnefnd á vegum ráðuneytisins um fyrirhugað tilvísunarkerfi og aukið hlutverk heilsugæslunnar í því sambandi.  Stórlega þarf samt að efla heilsugæsluna til að hún geti tekið við nýjum verkefnum á næstunni enda hefur hún ekki verði byggð upp af yfirvöldum um árabil sem skildi og því veikburða.  Verkefnin hafa samt lengi verið skilgreind hjá FÍH í heilsugæslunni meðal annars í stöðlum félagsins um starfshætti og aðstöðu og sem eru endurnýjaðir reglulega og voru gefnir síðast út 2008 ásamt marklýsingu fyrir sérfræðinám á Íslandi. Lagt hefur verið í ýmsa aðra stefnumótunarvinnu og fyrir nokkrum árum var t.d. lögð fram fjölskyldustefna félagsins. Áður hef ég líka fjallað um hér á blogginu um afleiðingar á niðurskurði í heilsugæslunni og m.a. afleiðingar á að auka eingöngu skyndiþjónustu á vöktum sem er dýrara og óhagkvæmara þjónustustig þegar til lengri tíma er litið.

Skilgreina þarf nú aftur betur verkskiptinguna milli sviða og kerfa. Of mörg svið starfa of mikið sjálfstætt og því oft ekki hægt tala um gagnvirkt kerfi sem heilbrigðiskerfi hlýtur að eiga að vera.  Kerfin tala oft einfaldlega ekki saman. Benda má t.d. á að enn vantar verulega á að læknabréf berist heimilislæknum frá sérfræðilæknum sem samt hafa samning við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur.  Þá má t..d. má nefna að áætlað er að um helmingur af verkefnum  Slysa- og bráðamóttöku á heima á heimilislæknavöktum eins og gerist úti á landi. Með því að heimilislæknirinn sinni þessum erindum er oft hægt að fækka óþarfa innlögnum og rannsóknum á „Hátæknisjúkrahúsinu í Reykjavík“. Of mikil áhersla hefur verið lögð á hátæknina í stað „lágtækni“ þar sem meiri áhersla er lögð á samspil sálar og líkama. Ódýrari „lágtæknisjúkrahús“ gætu auðveldlega sinnt meira af minna veiku fólki og gömlu fólki sem ekki fær hvort sem er pláss á hátæknisjúkrahúsinu.  Auk þess ættu síðan heimilislæknirinn að geta lagt beint inn á sjúkrahús og jafnvel annast sjúklinga á sjúkrahúsunum ef þannig ber við og þekkist víða erlendis. Eins má nefna þá stöðu sem er uppi í dag að margir sérfræðilæknar hafa lokað á að sjá nýja sjúklinga og annast gömlu sjúklingana sína eins og heimilislæknar ættu að gera en á sérfræðitöxtum.  Á sama tíma koma heimilislæknar oft ekki skjólstæðingi sínum að hjá sérfræðilæknum þegar á þarf að halda og þrátt fyrir að oft miklu fleiri sérfræðilæknar séu starfandi hér á landi en í nágranalöndunum. Þessu gætu tilvísanir breytt sem yrðu þá skilyrði fyrir greiðslum frá því opinbera.

Lítil endurnýjun hefur átt sér stað í röðum heimilislækna, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu sl. áratugi og miklu færri heimilislæknar eru hlutfallslega hér á landi miðað  við íbúatölu en í nágranalöndunum. Þegar heilsugæslan var mest þurfandi fyrir öfluga uppbyggingu fyrir ca 20 árum var mikill áhugi unglækna (ég þar á meðal) og allt að 10-15 sérmenntaðir heilsugæslulæknar sóttu um hverja stöðu sem losnaði en fáir komust að. Sumir sneru sér þá að annarri sérgrein sem ég var nærri búin að gera einnig. Skilaboð heilbrigðiskerfisins voru einfaldlega þau að unglæknar ættu að velja sér aðrar sérgreinar en heimilislækningar varðandi atvinnumöguleika síðar meir og hefur Læknadeildin heldur ekki verið saklaus í þessum efnum og gert sérgreinunum mishátt undir höfði. Margir töldu t.d. mikla afturför þegar héraðsskyldan var aflögð með þrýstingi ýmissa sérfræðilækna og þar með komið í veg fyrir að unglæknnar kynntust störfum heilsugæslunnar. Með því átti að tryggja mönnun sérgreinadeildanna á spítölunum. Eins hefur viðvera læknanema verið ábótavant í heilsugæslunni sjálfri í læknanáminu hér á landi þótt verulega hafi það batnað hin síðustu ár. Í dag er meðalaldur starfandi heimilislækna hár og margir hætta á næstu árum. Yngstu kynslóðirnar vantar innan þeirra raða svo erfitt verður að fylla í stöður sem losna nema veruleg breyting verði á á næstu árum.  Læknadeildin verður að forgangsraða hjá sér og leggja miklu meiri áherslu á nám lækna í heilsugæslunni. Á síðustu árum hefur þó verið tekið til hendinni í öflun námsstaða á vegum heilbrigðisráðuneytisins og er til að mynda 5 stöður nú auglýstar lausar hjá ráðuneytinu og möguleiki er á að fjölga um fimm til viðbótar ef áhugi lækna er fyrir hendi eins og kom fram í erindi ráðherra í gær.

Um þessi atriði öll og miklu fleiri verður væntanlega einnig rætt á þjóðfundi lækna 10. mars næstkomandi en síðan mun Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur sem standa að fundinum beina niðurstöðunni til heilbrigðisyfirvalda um stefnumótun sína og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 26.2.2010 - 16:44 - FB ummæli ()

Brjóstastækkun á Stöð2

Panther-chameleon

Sl. daga hefur endurtekið verið fjallað um ágæti brjóstastækkana á Stöð2, í þættinum, Ísland í dag. Það fyrsta sem mér datt í hug er ég sá fyrri þáttinn var auglýsingagildið fyrir slíkar aðgerðir. Því er áhugavert að setja þessa umræðu líka í samband við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem nú er mikið til umræðu. Þessar „lækningar“ hafa verið mikið í umræðunni á sl. árum og landinn fengið að fylgjast vel með þeim í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum og hvað hægt sé að gera.

Nýlega var efnið til umfjöllunar á Læknadögum þar sem meðal annars var fjallað um fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna. Táarstyttingar hafa einnig verið vinsælar í vesturheimi, þar sem þessar lýtaaðgerðir hafa gengið hvað lengst, enda vel borgaðar og sennilega er fræðagreininni þar litlar takmarkanir settar.

Ef almenningur þarf ekki að hugsa um kostnaðinn er sennilega ekkert athugavert um frjálst val á slíkum aðgerðum. Sorglegast er þó að sjá hvert slíkar fegrunaraðgerðir geta leitt okkur, eins og sannaðist vel í lýtalækningasögu Michael Jacksons heitins og sem gott er að hafa í huga.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.2.2010 - 21:22 - FB ummæli ()

Hughrif á „gufunni“

water_dropGjörhygli (gjörathygli á líkamann) eða „mindfulness“ er meðferð  sem á ættir sínar að rekja til búddisma og sem sálfræðingar og geðlæknar nota mikið þessa daganna ásamt hugrænni atferlismeðferð til lækninga á kvíða og þunglyndi.  Að veita augnablikinu óskipta athygli og njóta tilfinningaáhrifanna í jákvæðum hughrifum er galdurinn. Til dæmis má finna kyrrðina og heyra dropahljóðið í myndinni hér til hliðar. Þessi áhrif veita innri ró og hjálpar til með einbeitingu. Á þessu byggist listsköpun og því mikilvægt að listin sé sem flestum aðgengileg. Daglega verðum við fyrir allskonar hughrifum en ekki öllum jákvæðum. Misjafnt er á hvaða mið við sækjum og oft gefst ekki tími til að veita hversdagslegum augnablikum nógu mikla athygli. Oft er spennan í aðalhlutverki enda líður dagurinn oft eins og rússíbanaferð, upp og niður. Sumir festast í fréttum líðandi stunda þar sem fátt eitt er rætt annað en bankahrunið og Icesave. Þá leitar hugurinn í neikvæðar áttir, örvæntingu, stress og kvíða. Sennilega var forsetinn okkar þó undir jákvæðum hughrifum á Bessastöðum um áramótin þegar hann hlustaði eftir vilja þjóðarinnar og tók síðan ákvörðun um að skrifa ekki undir Icesavelögin. Annað nærtækara dæmi um sterk hughrif sem fallegt hús veitir er Heilsuverndarstöðin við Barónstíg vegna þess að það kallar á sterkar tilfinningar sem tengist menningarsögunni og vöggu heilsugæslunnar í landinu.

Venjulega hlusta ég á  „Í bítið“ á Bylgjunni sem er frábær morgunþáttur, skemmtilega blandaður af mikilvægri umræðu, góðum lögum og hughrifum enda stjórnandinn Heimir Karlsson sennilega okkar besti útvarpsmaður og Solla og Þráinn standa sig einnig vel. En í vikunni var einhver leiðinleg umræða að mér fannst svo ég skipti um rás í útvarpinu og datt „óvart“ niður á Rás 1 og kynningu á íslenskri tónlist í þættinum Morgunstund í umsjón Kristjáns Kristjánssonar (KK), tónlistarmanns. Þvílíkt lagaval og hughrif í morgunsárið. Gamalt og hálf hallærislegt að því er manni fannst fyrir ekki svo löngu síðan en nú svo klassískt og þjóðlegt. Jafnvel „Litli skósmiðurinn“ með Ingibjörgu Þorbergs og Marsbræðrum var orðið klassískt enda hitti öskubuskutextinn alveg í mark. Gamlir skór fá nýja lífdaga svipað og prjónarnir góðu hjá prjónakonunum í dag. Síðan kom lagið „Gullna táknið“ með nafna mínum heitnum Vilhjálmi Vilhjálmssyni, þvílíkur flutningur og léttir frá dægurþrasinu. Þvílíkur fjársjóður sem þessi gömlu dægurlög eru og sem fá sífellt meiri merkingu og karakter með aldrinum. Til hamingju KK með frábæran þátt á gömlu góðu „gufunni“ til að létta andann.  Þjóðin þarf öll á þessm hughrifum að halda í bland við umræðuna í dag, ekki bara gamla fólkið. Þá má einnig benda á lestur valinkunnra Íslendinga á mestu perlu íslenskra bókmennta, Passíusálma Hallgríms Péturssonar á „gufunni“ fram að páskum sem getur örugglega hjálpað íslensku þjóðinni mikið á hennar píslargöngu eftir hrun, ekki síst þar sem styttist óðum í svörtu skýrsluna frægu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.2.2010 - 12:36 - FB ummæli ()

Í áttina, en langt í land

rannsoknaspurningÁvísanir á sýklalyf til barna hafa minnkað um allt að 15% í aldurshópnum 0-4 ára árið 2009 og eru það góð tíðindi eins og fram kemur í nýjum Farsóttafréttum hjá Landlæknisembættinu. Eins sýklalyfjanotkunin almennt eða um 5% en hún er samt hærri en fyrir 4 árum (sjá myndir hér að neðan). Sóttvarnarlæknir virðist nokkuð ánægður eins og fram kemur í viðtali við hann í dag í Fréttablaðinu. Auðvitað er þetta  ávinningur, sérstaklega hvað yngstu börnin varðar en breytir þó ekki þeirri staðreynd að við notum ennþá allt of mikið af sýklalyfjum m.a. fyrir börn í samanburði við hin Norðurlöndin þar og er munurinn allt að 40%. Þessi lönd sem reyndar telja sig líka nota allt of mikið af sýklalyfjum svo sjá má að langt er að við náum landi. Sérstaklega er málið alvarlegt þegar litið er til sýklalyfjaónæmisins hér á landi, einkum í alvarlegum sýkingum yngstu barnanna sem þurfa mest allra á öruggum sýklalyfjum að halda. Á þetta hefur margsinnis verið bent en sýklalyfjanotkun hjá börnum er aðallega vegna miðeyrnabólgu sem ekki á þurfa að meðhöndla með sýklalyfjum nema í verstu tilfellunum.

Notkunin eykur hins vegar aftur á sýklalyfjaónæmisvandann eins og nnýlegar rannsóknir hér landi sýna svo vel. Á þetta samband var því miður ekki minnst á í Farsóttafréttum nú. Afar ólíkleg finnst mér líka helsta skýring sóttvarnarlæknis á minni sýklalyfjanotkun nú sé sú staðreynd að lyfin séu ekki niðurgreidd enda hefur svo verið óbreytt í meira en áratug. Reyndar eru sýklalyf dýr en ákvörðun og mat læknis ræður nánast alltaf ákvörðun um hvort foreldri eða einstaklingur leysi út lyfseðilinn. Líklegustu skýringuna tel ég miklu frekar vera mikinn áróðróður fyrir minni notkun sýklalyfja í heilsugæslunni sjálfri og meðal almennings.

Ekki er heldur tíundað í skýrslunni  hvaða tegundir sýklalyfja börnin eru helst að fá sem eru mjög mikilvægar upplýsingar að mínu mati. Notkun azítrómýsins er þó tekið út sérstaklega en notkunin á því virðist hafa minnkað hvað mest allra sýklalyfja hjá börnum og er það vel. Aukin notkun tetracýklíns við gelgjubólum (acnea) hjá unglingum sem mikið er gert úr í skýrslunni er auðvitað áhyggjuefni en þær ávísanir eru oft til langs tíma, jafnvel margra mánaða og telja þess vega drjúgt þegar talið er í dagskömmtum frekar en ávísanafjölda.  Nauðsynlegt er að fá upplýsingar um hvar og hvernig sýklalyf eru fengin t.d. hjá hvaða sérgreinalæknum, á hvaða tíma sólarhringsins, á vöktum og hvaða vöktum eða í bókuðum tíma hjá heimilislækni og svo framvegis því þær upplýsingar eru nothæfar í gæðastjórnun og þegar meta á betur upplýsingarnar úr lyfjagagnagrunni Landlæknis. Þær upplýsingar má síðan nota til gæðaþróunar í lyfjamálum eins og bent hefur verið á m.a. í bréfi til heilbrigðisráðherra fyrir rúmu ári síðan og sem er því miður enn ósvarað.

Sýkingarpyttur sýklalyfjaónæmra baktería (pneumókokka) er því miður ennþá fyrst og fremst hjá börnunum og þær bakteríur smitast síðan til annarra í þjóðfélaginu.  Betur má ef duga skal til að koma skikk á þessi mál hér á landi svo sómi sé af eins og ég hef margsinnis bent á hér á blogginu mínu m.a. til að gefa stjórnvöldum smá aðhald og til að upplýsa almenning enda áframhaldi starf í gangi í gæðaþróun hvað þessi mál varðar innan heilsugæslunnar þar sem fræðsla til almennings skiptir höfuðmáli auk notkunar klínískra leiðbeininga. Fyrstu vísbendingar er nú um að þessi vinna sé farin að skila árangri. En betur má ef duga skal og nú er komið að heilbrigðisyfirvöldum að taka myndalega á þessum málum og auka vægi fræðslu og upplýsinga til almennings og styðja við þá gæðaþróun sem þegar er í gangi t.d. innan heilsugæslunnar. Best er auðvitað að vinna þetta í saman og takmarkið er jú sameiginlegt, á því er enginn vafi. Eins er ánægjulegt að sjá nú að sóttvarnarlæknir mælir með pneumókokka-bólusetningu fyrir öll börn og sem ég hef verið að leggja mikla áherslu á hér á blogginu mínu. Vonandi tekur heilbrigðisráðherra málið til alvarlegrar athugunar enda auk þess þjóðhagslegur sparaður þegar upp verður staðið fyrir utan að bæta heilsu barna á Íslandi og líðan þeirra og fjölskyldna þeirra.  Frekari lesning þessu tengdu er á síðasta blogginu mínu í fyrradag „Hvað skiptir máli?“

sykl3syklalyf2009

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.2.2010 - 22:46 - FB ummæli ()

Er heilsugæslan afgangsstærð?

Á tímum mikils sparnaðar í ríkisútgjöldum hafa jafnvel vaknað upp þær hugmyndir að leggja megi grunnþjónustu heilsugæslunnar niður t.d. á kvöldin og um helgar. Svo má allavega skilja þegar vaktir heilsugæslunnar á Suðurnesjum eru til umræðu en vaktir eru óaðskiljanlegur hluti heilsugæsluþjónustunnar. Reyndar held ég að þar sé verið að tefla fram peði til að kalla eftir meira heildarfjármagni til sjálfrar stofnunarinnar, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Heilsugæsluþjónustan sjálf stendur fyrir á brauðfótum og hefur svo verið um árabil, aðallega vegna undirmönnunar og stóran hluta eðl. dagþjónustu orðið að fella undir afkastahvetjandi vaktþjónustu.

Eftir sameiningu Heilsugæslunnar og Sjúkrahúsins í Keflavík, rétt upp úr aldarmótunum, voru aksturskjör heimilislæknanna sagt upp einhliða en sumir þeirra áttu heima í nágranasveitafélögunum, m.a. Reykjavík og Hafnarfirði. Þeir litu svo á að um uppsagnir á ráðningarkjörum þeirra væri að ræða og hættu flestir störfum. Þeir voru sérmenntaðir heilsugæslulæknar og sumir nýkomnir úr löngu sérfræðinámi erlendis. Um árabil hafði Heilsugæslan á Suðurnesjum þá verið rekin af miklum myndarbrag og gæðastjórnun höfð að leiðarljósi. Þar var t.d. orðinn til vísir að göngudeildarþjónustu fyrir sykursjúka og aldraða að frumkvæði heimilislæknanna sjálfra. Því sannaðist síðar þar hið forkveðna „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“

Eftir uppsagnirnar var hins vegar lagt í mikinn kostnað stofnunarinnar við uppbyggingu fullkominna skurðstofa og aðstöðu fyrir aðra sérfræðilækna. En frá uppsögnum heimilislæknanna hefur aðeins verið hægt að halda uppi lágmarksþjónustu í heilsugæslunni, oftast með afleysingarlæknum og unglæknum. Nýtt skipulag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kæfi þannig sálina í gömlu góðu heilsugæslunni. Nú ofan á allt annað er síðan verið að hóta að leggja vaktþjónustuna niður í sparnaðarsjónarmiði, sennilega til að geta viðhaldið annarri þjónustu frekar sem getur alveg eins átt heima í Reykjavík eins og t.d. fæðinga- og skurðdeildarþjónusta. Sjálf heilsugæslan blæðir hins vegar og almenningur á Suðurnesjum löngu farinn að kalla efir hjálp og leitar í st´roum stíl til höfuðborgarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.2.2010 - 16:23 - FB ummæli ()

Kreppubörnin og kvíðinn

Karius_ Baktus„Gamlir vinir okkar“ Karíus og Baktus náðu hjörtum okkar þegar við vorum lítil. Sennilega fyrst og fremst vegna þess hversu umkomulausir þeir voru. Þeir voru foreldralausir, stressaðir, kvíðnir fyrir morgundeginum, og húsnæðislausir í þokkabót undir lokin.

Samkvæmt nýjustu fréttum fjölgar nú börnum og unglingum sem þurfa á innlögn að halda vagna geðraskana, aðallega kvíða og þunglyndis. Yfir 2000 heimili eru tæknilega gjaldþrota og bíða bráðaúrlausna. Atvinnuleysið stefnir í að verða uggvænlegt. Við hverju halda menn að sé að búast við aðstæður sem þessar? Eitt er víst að tímabundnar bráðaúrlausnir í peningamálunum sem bankarnir veita, leysa ekki nema lítinn hluta af hinum raunverulega vanda.

Að mati Finna í kreppunni þeirra fyrir 3 áratugum, brugðust þeir allt of seint við með fyrirbyggjandi aðgerðum, sérstaklega gagnvart langvarandi streitu og kvíða foreldra sem leiddi síðar til þunglyndis og óeðlilegra samskipta í fjölskyldum. Börn og unglingar voru þannig hin endanlegu fórnarlömb kreppunnar. Mörg flosnuðu upp úr skóla, mörg með alvarleg kvíðavandamál og geðraskanir. Nú er því miður að koma á daginn fyrstu vísbendingar um að það sama sé að gerast hér á landi. Kreppan er þegar farin að bíta í börnin og unglingana eins og nýjustu upplýsingar frá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala) sýna og sem  eru mikið í fréttunum. En þær tölur eru sennilega aðeins toppurinn á ísjakanum og meira fyrirboði þess sem koma skal enda hrunið ný yfirstaðið og kreppan rétt að byrja.

ópiðLíðan margra fjölskyldumeðlima á landinu öllu er slæm, en því miður oft mikið feimnismál. Heilbrigðisstofnanir hafa gert lítið til að kalla eftir þessum vandamálum til sín til úrlausna eða bara til að veita stuðning. Á föstudaginn var ég á áhugaverðu þingi fyrir heimilislækna um kvíða. Þar hélt m.a. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir gott erindi um kvíða og þunglyndi og mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks að koma fólki með slíkan vanda fljótt til hjálpar, ekki síst við aðstæður sem nú ríkja. Fólki með mikinn kvíða tengt yfirvofandi atvinnumissi sem stefnir öruggri afkomu barna sinna í hættu. Þessu fólki þarf að bjóða stuðning og reyna að minnsta kosti að koma í veg fyrir afleiddar geðraskanir þeirra sjálfra og barnanna þeirra með ráðgjöf og félagslegum úrræðum. Að minnsta kosti til ræða vandann sem er alltaf fyrsta skrefið.

Það getur verið erfitt að halda uppi eðlilegum samskiptum í fjölskyldum í mikilli kreppu, ekki síst gagnvart börnum sem eru mjög næm á líðan foreldra sinna. Við ættum því að forgangsraða stuðning heilbrigðiskerfisins við fjölskyldufólk, ekki síst af tillitsemi við börnin sem eiga að erfa landið og skuldirnar okkar. Við eigum að horfa meira til reynslu Finna og ekki gera sömu mistökin og þeir gerðu þegar þeir gleymdu börnunum sínum og sem í dag vildu hafa gert hlutina allt öðru vísi við þessar aðstæður.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær gera samt ekki allir jafn mikið úr vandanum hér á landi enn sem komið er og benda á öflugar grunnstoðir í heilbrigðiskerfinu sem muni standast álagið. Fleiri eru þó sammála um að vandamálin koma ekki alltaf strax fram og á það sérstaklega við um geðraskanir og félagslega erfiðleika hjá börnum í kreppu eins og áður segir. Það er því nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsfólk láti í sér heyra þegar það heyrir ópin í fjarska. Styrkja þarf strax þær grunnstoðir sem mest á reynir áður en þær svigna eða jafnvel brotna. Bjóða þarf strax upp á gott aðgengi að stuðningsviðtölum við sálfræðinga og félagsráðgjafa. Eins við þjónusta lækna heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa margir áratug reynslu í stuðningsviðtölum og þverfaglegri vinnu með öðru heilbrigðisstarfsfólki, en sem hefur verið skorið niður. Ekki má síðaur gleyma að styðja við aðrar mikilvægustu stofnanirnar sem koma að uppeldi og menntun barnanna okkar og sem eru skólarnir og íþrótta- og tómstundafélögin. Jafnvel þótt það kosti tímabundið verri skuldastöðu þjóðarinnar. Annars er að litlu að stefna í framtíðinni.

Sjá nánar: http://visir.is/article/20100205/FRETTIR01/219007927

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda
Efnisorð:

Fimmtudagur 4.2.2010 - 14:37 - FB ummæli ()

Mismunun í heilsuvernd barna á Íslandi?

ChildrenSmilesHingað til hefur þeirri leið verið hafnað hér á landi að þeir efnameiri geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en aðrir, sem betur fer. Ungbarnaheilsuverndin er þar ekki undanskilin en því miður hefur  tannheilsuvernd barna verið það eins og nú háttar enda tannheilsa íslenskra barna léleg og tannlæknakostnaður hár eins og fram hefur komið í umræðunni sl. daga (og ég hef áður rætt um í blogginu mínu undir fyrirsögnunum Góðærisbörnin og Kreppan étur börnin sín). Ekki hefur heldur verið deilt um að allar ungbarnabólusetningarnar sem heilbrigðisyfirvöld mæla með að séu ókeypis enda hagsmunir barnsins í húfi og miklu máli skiptir að þátttaka í bólusetningunum sé góð til að hún skili sem bestum árangri. En nú eru blikur á lofti. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki treyst sér, sennilega vegna fjárhagsvanda, til að taka upp nýja og að mínu mati nauðsynlega bólusetningu í ungbarnaheilsuverndinni gegn algengasta sýkingarvaldi barna sem er lungnabólgubakterían (pneumókokkur) sem veldur m.a. flestum eyrnabólgum og lungnabólgum meðal barna. Bólusetningin hefur verið tekin upp án endurgjalds sem hluti af nauðsynlegri ungbarnaheilsuvernd á öllum hinum Norðurlöndunum. Bólusetningin stendur hins vegar öllum foreldrum til boða hér á landi sem á annað borð hafa efni á að greiða fyrir hana.

Ætla má að um 80% barna fái miðeyrnabólgu strax á fyrsta aldursári og sum hver oft. Flestar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum, stundum með takmörkuðum árangri enda mikið sýklalyfjaónæmi hér á landi. Eyrnabólgur eru auk þess ástæða fyrir meirihluta sýklalyfjaávísana meðal barna.  Um þriðjungur barna fer síðan í aðgerð og fær hljóðhimnurör hér landi, aðallega vegna endurtekna eyrnabólgna. Alvarlegastar eru þó blóðsýkingar og heilahimnubólgur sem þessi meinvaldur getur valdið. Í þeim löndum sem bólusetningin hafur verið tekin upp hefur tilfellum alvarlegra sýkinga fækkað um 80% og heimsóknum til lækna og sýklalyfjaávísunum vegna miðeyrnabólgu fækkað um allt að helming.  Því má sjá hvað almenn þátttaka í þessari bólusetningu gegn algengustu stofnum lungnabólgubakteríunnar getur haft gríðarmikil áhrif auk þess að draga úr sýklalyfjanotkun og aukið velferð barna á Íslandi.

Í dag, eins og áður segir,  geta foreldrar sem vilja og hafa efni á beðið um bólusetningu gegn lungnabólgubakteríunni fyrir börnin sín á fyrsta ári sem þurfa þá að fá 3-4 bólusetningar (sprautur) þar sem hver og ein sprauta kostar yfir 10.000 kr.  Á þeim er vaxandi áhugi og bóluefnin vel kynnt læknum. Því er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé verið að mismuna börnum eftir efnahag foreldranna þar sem greinilega hafa ekki allir foreldrar efni á að kaupa þessar bólusetningar fyrir börnin sín. Almenn þátttaka í bólusetningunni verður heldur aldrei góð og hætt er við að foreldrar sem ekki hafa efni á þessari bólusetningu horfi með neikvæðari augum til heilsuverndarinnar almennt sem svo aftur dregur úr þátttöku í öðrum nauðsynlegum bólusetningum barna í framtíðinni.

Ég hef áður fjallað um gagnsemi bólusetningarinnar hér á blogginu mínu sem hluta af aðgerðum gegn miklu sýklalyfjaónæmi hér á landi sem tengist mikilli sýklalyfjanotkun, ekki síst meðal barna. Eins hugsanlegum þjóðhagslegum sparnaði  vegna minni lyfjakostnaðar, minni fjarveru foreldra frá vinnu vegna veikinda barna sinna og hugsanlega fækkun aðgerða vegna hljóðhimnurörísetninga auk þess að bæta lífsgæði barna og foreldra þeirra. Málið var einnig til umræðu á nýyfirstöðnum Læknadögum og Fræðadögum heilsugæslunnar sl. haust.

Sjá nánar:

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2009/12/07/bolusetning-gegn-algengasta-heilsuvanda-isl-barna/

http://www.heilsugaeslan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4421

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Sunnudagur 24.1.2010 - 14:11 - FB ummæli ()

Litla stúlkan frá Haítí

Sagan markast mest af gerðum okkar mannanna og náttúruhamförum ýmiskonar. Sumar þjóðir hafa farið illa út úr samskiptum við aðrar þjóðir í aldanna rás og bera þess ætíð merki. Ein slík er Haítí sem Spánverjar lögðu landareign sína á um miðja 15 öld og kölluðu hana þá Hispaníólu sem síðar varð að þrælanýlendu Evrópuþjóða. Englendingar, Frakkar og Hollendingar voru þar stórtækastir og fluttu þangað milljónir Afríkubúa nauðuga. Afkomendur þrælanna blönduðust síðan innfæddum með tímanum. Þessi saga er m.a. rakin í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar er þó ekki greint frá ýmsum öðrum vandamálum sem þessir þjóðflutningar höfðu í för með sér og hér skal aðeins minnst á.

Sigðkornablóðleysi (Sickle Cell Anemia) sem er erfðablóðsjúkdómur sem á upptök sín upphaflega í Afríku en er nú mjög algengur meðal eyjaskeggja á Haítí. Arfblendnir einstaklingar geta lifað nokkuð eðlilegu lífi en þola ílla alvarlegar sýkingar og háan hita. Rauðu blóðkornin geta þá hlaupið í kekki, stíflað litlar æðar og síðan sprungið. Því er mjög mikilvægt að meðhöndla undirliggjandi sýkingar fljótt og koma eins í veg fyrir fyrir vökvatap. Margir smitsjúkdómar eru auk þess algengir í mið-Ameríku sem eru okkur vesturlandabúum framandi, svo ekki sé talað um eyðnisjúkdóminn sem er mjög algengur á Haítí og tengist mest fátækt þjóðarinnar.

Hér á eftir ætla ég að greina betur frá einum landlægum sjúkdóm sem eyjaskeggjum á Haítí þykir ekki merkilegur en er mér mjög ansi hugstæður. Vegna atburðanna á Haítí og nú síðast frétta um Tarantúlu kóngulóabit meðal íslenskra björgunarmanna sem voru að koma heim, varð mér hugsað til lítillar stúlku frá Haítí sem undir umsjón Þrastar Laxdal, barnalæknis, ég og félagar mínir önnuðumst á barnadeildinni á Landakoti fyrir um aldarfjórðungi síðan. Hún var nýkomin frá Haítí í heimsókn til Íslands með kanadískri fósturfjölskyldu. Stúlkan var innlögð vegna hita, en vitað var að hún var með arfblendna sigkornablóðleysi og það því ein aðal ástæðan fyrir innlögninni.

Þegar við Íslendingarnir vorum að smásjárskoða blóðið til að fræðast og sjá hvernig rauðu blóðkornin skryppu saman við súrefnisskort og sem er einkennandi próf sem hægt er að gera hjá þeim sem eru grunaðir um þennan blóðsjúkdóm í arfblendnu formi, var erfitt að fá fókus og rauðu blóðkornin virtust öll á „iði“. Við betri athugun og lýsingu, kom í ljós að blóðdropinn undir glerinu var fullur af lirfum og sem litu út eins og lítil síli og sem sópuðu til blóðkornunum.

Nú voru góð ráð dýr og Dr. Sigurður Richter, dýrafræðingur á Keldum var kallaður til, til að reyna greina fyrirbærið fyrir okkur  og út frá myndum í stórum atlas sem hann kom með var hægt að greina Wuncheria Bancrofti lirfar. Hann veldur ormaveiki sem kölluð er „fílaveiki“ (elephantosis) og sem reyndar tveir aðrir skyldir ormar geta einnig valdið. Móðurormarnir geta verið allt að 10 cm. langir og stíflað sogæðar og þannig valdið miklum og síðar krónískum bjúg þannig að útlimir geta margfaldast að ummáli og afmyndast líkt og sést á meðfylgjandi mynd.

Reyndar var stúlkan okkar með vægan „fílafót“ á öðrum fætinum. Við ómskoðun komu enda fram nokkrir stórir móðurormar í nára, og síða m.a. hreiður við ósæð hjartans sem olli þrengslum og hjartaóhljóði við hjartahlustun sem við vorum búnir að greina. Annar stór ormur var líka við lifur. Við þessum sjúkdóm var svo sem ekkert heldur að gera.  Ormanna og lirfurnar á þessu stigi má ekki drepa með lyfjum vegna hættu þá á ofnæmis-sjokki og mikið magn af framandi próteinum frá ormum og lirfum leysast snögglega upp í blóðinu.

Það sem vantaði hér á landi til að smit gæti átt sér stað milli manna voru moskító flugurnar. Flugan er síðan millihýsill fyrir lirfurnar sem geta síðan smitað aðra og hún náð kynþroska. Lifitími ormsins í líkama mannsins er ca 1-2 ár og sennilega var stúlkan langt komin með sína ormaveiki miðað við umfang ormaveikinnar í blóðrásinni (aldur og stærð móðurormanna). Auk framangreindra sjúkdóma var stúlkan með ýmsa aðra króníska sjúkdóma svo sem langvarandi þvagfærasýkingu og mikla vaxtartruflun.

Tilfellið minnti mann á áþreifanlegann hátt  á erfiða sjúkdóma sem eru okkur hér norður á hjara veraldar framandi.  Sýkingar og vatnsskortur gerir nú líf fólksins á Haítí enn erfiðara og farsóttir geta blossað upp. Eyjaskeggjar sýna þó ótrúlegan dugnað og æðruleysi, eins og fram hefur komið í viðtölum við björgunarsveitarmenn. Í dag snýst umræðan hér á landi og mörgum vestrænum löndum hins vegar meira um oflækningar, sjúkt heilbrigðiskerfi og ofnotkun lyfja. Mikið er lífsins gæðunum misskipt milli landa og sennilega væri vestrænum löndum betra að fara sér eitthvað hægar og reyna að koma a.m.k. í veg fyrir heimatilbúin heilbrigðissvandamál.

Mér er ekki kunnugt um að fílaveiki hafi greinst hér á landi fyrr eða síðar, þótt áætlað sé að allt að 120 milljónir manna séu smitaðir og sýktir úti í hinum stóra heimi. Ekki má heldur gleyma þeim aragrúa annarra sníkjudýrasjúkdóma og smitsjúkdóma sem lönd eins og Haítí eiga við að glíma, ofan á allt annað. Sagan hér að ofan getur e.t.v. verið hvatning fyrir einhverja að styrkja þessa þjóð nú.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn