Fimmtudagur 27.05.2010 - 22:00 - 13 ummæli

Áfram Hera!

hera a svidi

Ég er búin að vera að bíða eftir því að einhver gagnrýni holdafar okkar fulltrúa í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Ekki af því að ég hafi gaman af slíku eða finnist Hera eiga það skilið heldur af því það er dæmigert að þegar þéttholda manneskja gerir eitthvað markvert þá er einblínt á holdafar hennar. Ég þurfti auðvitað ekki að bíða lengi.

Í umræðum um fatnað og útlit Heru hafa margir lýst ánægju með hvað kjóllinn hennar virkaði „grennandi“ á sviðinu. Í þessu felst lítt dulin gagnrýni á vaxtarlag hennar―kjóllinn á að hylja þá staðreynd að hún er feit. Linda Björg Árnadóttir,  fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands, lýsti til dæmis ánægju sinni með það hve ermarnar væru grennandi í samtali við Fréttablaðið í fyrradag en bætti við að kjóllinn hefði þó mátt vera síðari til  að láta Heru virðast grennri og hávaxnari. Markmiðið með klæðnaði þéttvaxinnar manneskju virðist alltaf vera að skapa einhverskonar tálsýn um að hún sé grönn. Af hverju er ekki bara hægt að segja að hún líti vel út, kjóllinn passi henni fullkomnlega og hún sé æðisleg?

Karl Berndsen stílisti gekk skrefinu lengra í samtali við vefritið Pressuna þar sem hann álasaði Heru fyrir að hafa ekki grennt sig nægilega fyrir keppnina og kallaði bakraddasöngkonurnar „fitubollulegar“. Ég hvet Heru og hennar fylgdarlið til að svara fyrir sig fullum hálsi þegar þær koma til baka og sýna öðrum konum að sá tími þar sem afturhaldssömum karlmönnum leyfist að gagnrýna holdafar kvenna sé liðinn.

Hera var stórglæsileg á sviðinu í fyrradag. Hún leit einstaklega vel út, stór, sterk og flott kona. Það þarf ekkert meira um það að segja.

Flokkar: Fitufordómar · Fjölbreytileiki

«
»

Ummæli (13)

  • Róbert Björnsson

    Hjartanlega sammála – Hera er glæsileg kona eins og hún er og þessir aumkunarverðu gagnrýnendur ættu að skammast sín og halda kjafti.

  • Hjartanlega sammála. Finnst þessi umræða til skammar og á svo lágu plani að ég á ekki til orð.

  • Algjörlega sammála þér .

    Og í leiðinni kærar þakkir fyrir þína góðu og þörfu pistla. Les þá alltaf.

  • Hallgerður

    skil ekki að fólk skuli nenna að pæla í þessu.

  • Sirrý 16

    Hera Björk er bara frábær eins og hún er hún sjálf með mikla útgeislun sem að hún smitar til annarra og ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um hana.

  • Sammála – sjarmi, góður söngur og útgeislun er ekki mæld í kílóum! 🙂

  • Þessi kjóll lætur hana lýta út fyrir að vera svona 100kg þyngri en hún er

  • Ég er algjörlega sammála greinarhöfundi, aðalatriðið er að manneskjan sé með góða sjálfsvirðingu þá getur hún örugglega staðið stolt frami fyrir fjöldanum. Hér stend ég og get ekki annað (en sungið vel) Annars hef ég eingöngu heyrt niðrandi ummæli um líkamsvöxt, undanfarið, frá samkynhneigðum karlmönnum, þá talandi um hlussur o.fl. Ekki það að ég telji þetta hugarfar vera algengara hjá þeim en öðrum, líklega er það einhverskonar misþroski að hugsa þannig um annað fólk, líkt og fordómahugsunnarháttur.

    Gæti alveg trúað því að konur og karlar sem eru þybbin eða feit eigi jafn erfitt að vekja athygli í dægurlagabransanum í dag, eins og KONUR á atvinnumarkaðinum (varðandi yfirmannastöður) – þ.e. þurfi að hafa mikla hæfileika og leggja þetta extra á sig – til að ná árangri.

  • er svo ekki búið að sýna í raun fram á það að það er greinilega minnihluti sem er að láta holdafarið hennar trufla sig þar sem hún í fyrsta lagi var kosin hérna á landi til að vera fulltrúi okkar úti og hún komst áfram í úrslitin ?

    Annars vona ég að það er ekki fólk þarna úti sem hugsaði „fínn söngur, en hún er of feit, kýs hana ekki“ :/

    Stundum á maður bara að hrósa og tala vel um hlutina og á þriðjudaginn síðasta var akkúrat þannig stund. Hún stóð sig stórglæsilega og söngurinn var 100%

  • Málið er reyndar bara samt að hún er alltof feit og það er ekki til eftirbreytni, það er óhollt og fer ekki vel með mann. Ekkert að því að gagnrýna það. Að vera feitur er einfaldlega ekki allt í lagi, eins og þú vilt halda fram á þessu bloggi.

  • Best fannst mér að heyra Kalla Berndsen á einhverju myndbandi inni á visir.is sem tekið var á ungfrú ísland um daginn. Þar talaði hann um að það væri fegurðin sem kæmi innan frá sem skipti mestu máli. Það á greinilega bara við um „fegðurðardrottningar“.

  • Jón Sigurjónsson

    Ari, þrátt fyrir að það sé óhollt að vera of feitur þá á það ekki að skipta máli í söngvakeppni. Það eina sem ætti að pæla í er hvort stelpan geti sungið eða hvort lagið sé gott. Ekki fengu Lordi menn mörg atkvæði fyrir andlitsfegurð hérna um árið, en unnu samt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com