Miðvikudagur 10.7.2013 - 06:48 - Lokað fyrir ummæli

„Ekkert bruðl, betri vexti“

Íslenskt fjármálakerfi er rándýr furðufugl og umræðan um ÍLS skýrsluna sýnir það vel.  Í stað þess að horfa heilstætt á málið og fram á veginn er farið í gömlu skotgrafirnar.  Það verður að setja sorgarsögu ÍLS í sitt eðlilega samhengi og þar er ekki hægt að horfa eingöngu á mistök stjórnmálamanna, heldur verður einnig að horfa til bankanna og lífeyrissjóðanna en þessir aðilar hafa kannski hagnast mest á óheppilegum pólitískum afskiptum af ÍLS.

Ef við skoðum samkeppnisstöðu lánastofnana á íbúðalánamarkaði er hún bæði skökk og ýkt.  Í hnotskurn er vandinn að bankarnir eru með háan kostnað en sveigjanlega fjármögnun en ÍLS lágan kostnað og ósveigjanlega fjármögnun.  Markaðurinn er galopinn fyrir fjármálastofnun sem byggir á lágum kostnaði og sveigjanlegri fjármögnum.  Í stað þess að skapa jarðveg fyrir slíka stofnun og auka samkeppni er einblínt á fortíðarvanda ÍLS og horft til þess að bankarnir séu lausnin.  Í augnablikinu líta bankarnir vel út í samanburði við laskaðan ÍLS, en ekki er allt sem sýnist.

Rekstrarhlið ÍLS er ekki eins slæm og margir ímynda sér.  Það þarf að bæta áhættustýringuna en þegar kemur að rekstrarkostnaði er ÍLS mjög samkeppnishæfur enda rekur hann ekki dýrt útibúanet og höfuðstöðvar.  Ef við berum saman reglulegan rekstrarkostnað sem hlutfall af meðalstöðu eigna hjá ÍLS og bönkunum er samanburðurinn sláandi.  Hjá ÍLS er þetta hlutfall 0.3% eða um 30 punktar og því í góðu samhengi við 45 punkta vaxtaálag vegna rekstrar sem ÍLS notar.  Hjá stóru bönkunum er þetta sama hlutfall á bilinu 2%-3% eða um 200-300 punktar, og er með því hæsta sem gerist hjá viðskiptabönkum innan OECD.  Nú er eðlilegt að bankar sem hafa flóknara viðskiptamódel og betri áhættustýringu en ÍLS hafi hærri rekstrarkostnað, kannski þrisvar sinnum hærri en ekki tíu sinnum hærri!

Vandamál ÍLS er því ekki hár kostnaður heldur ósveigjanleg fjármögnun.  Hér er ÍLS í spennutreyju stjórnmálamanna sem hafa hannað kerfi með þarfir lífeyrissjóðanna að leiðarljósi frekar en lántakenda.  Lífeyrissjóðirnir hafa hingað til geta verið í áskrift af skuldabréfum ÍLS og þar með fengið uppfyllta ávöxtunarkröfu sem einnig var ákvörðuð af stjórnmálamönnum og tryggð með ríkisábyrgð.  Það er því spurning hvort ÍLS sé ekki ríkistryggður fjárfestingasjóður lífeyrissjóðanna frekar en íbúðalánasjóður?  Svona kerfi klikka alltaf enda eru fá dæmi þess að stjórnmálamenn hafi hannað samkeppnishæf og sjálfbær fjármálakerfi.

Lausnin er ekki að færa öll íbúðalán yfir til bankana sem glíma við allt of háan rekstrarkostnað. Það er lítill vandi fyrir banka sem hafa aðgang að innlánum að keppa við ÍLS enda verður sá samkeppnisgrundvöllur alltaf ójafn.  Lausnin felst í að jafna samkeppnisstöðuna og nýta sér það markaðstækifæri sem gefst með því að nota það besta úr ÍLS og sparisjóðunum ásamt nýjustu tækni og stjórnunarstíl lágvöruverslana til að stofna fjármálastofnun, sem getur veitt bönkunum harða samkeppni á einstaklingsmarkaði.  Áherslan verður lögð á að bjóða lægstu útlánsvexti og hæstu innlánsvexti til heimilanna. Þeir kúnnar sem vilja heldur flott útibú með leðursófum og glæsilegar höfuðstöðvar sem líkjast frekar minjasöfnum halda áfram að versla við bankana.  Til lengri tíma litið mun aukin samkeppni gagnast lántakendum og sparifjáreigendum best.  Bankar og lífeyrissjóðir verða hins vegar varla hrifnir af þessari hugmynd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.7.2013 - 20:25 - Lokað fyrir ummæli

Böl 40 ára lána

Nú þegar umræða um fortíðarvanda ÍLS stendur sem hæst er rétt að huga að framtíðinni.

Það sem hefur fengið allt of litla umræðu er lengd lánstíma íbúðalána.  Í sveiflukenndu hagkerfi með óstöðugan gjaldmiðil verður 40 ára lánstími að fjárhagslegum myllusteini bæði fyrir lántakandann og lánveitandann.  Og ekkert er verra en 40 ára verðtryggt lán sem hefur lægstu greiðslubyrði í upphafi sem síðan stigmagnast og verður þyngst á síðustu árunum.  Á 40 ára tíma má búast við 3-4 alvarlegum verðbólguskotum sem setja fjármál heimilanna úr skorðum og vandamálið versnar eftir því sem lánin eldast.  Nú er ekki komin 40 ára reynsla af verðtryggingunni á Íslandi þannig að fólk er ekki farið að finna fyrir þyngstu afborgununum.

Annað vandamál við 40 ára lánin er að allt of margir þurfa að borga af húsnæðislánum þegar þeir eru komnir á eftirlaun, og margir fá erfiðustu greiðslurnar þegar þeir síst ráða við þær.  Það er eins og enginn hafi hugsað þetta dæmi til enda þegar farið var af stað með verðtrygginguna.

40 ára verðtryggð lán eru því ekki eins traust og margir vilja halda og draga úr lánagæðum fjármálastofnana og ýta undir fjármálaóstöðuleika.

Í flestum nágrannalöndum okkar eru húsnæðislán veitt til 25-30 ára. Hvers vegan eru lánin hér til 40 ára?  Jú vegna þess að launin eru of lág og vaxtakostnaður of hár til að bjóða upp á hliðstæð kerfi og finnast í öðrum löndum.  Þá er heildarkostnaður við húsnæði dýr á eldfjallaeyju við heimsskautsbaug.

Hugsunin við núverandi kerfi virðist  hafa verið að sem flestir kæmust í gegnum greiðslumat með sem minnstri útborgun.  Þannig átti að tryggja drauminn um eigið húsnæði.  Þetta hefur ekki reynst rétt og hjá mörgum fjölskyldum hefur draumurinn breyst í martröð og þjóðin stendur uppi með gríðanlegan kostnað og vandamál sem sligar allt hagkerfið.

Hver er þá lausnin?  Það verður að marka stefnu sem byggir á  25-30 ára lánstíma og 80% hámarksveðhlutfalli. Grundvallarviðmið þarf að vera að fólk sé orðið skuldlaust þegar kemur að eftirlaunaaldri til að tryggja því áhyggjulaust ævikvöld.  Þannig þarf að stilla öll lán af þegar fólk selur og kaupir eignir yfir starfsævina.  Alltaf þarf að miða við að síðasta greiðsla falli t.d. fyrir 65 ára aldur til að gefa fólki smá tíma til að undirbúa sig áður en farið er á eftirlaun. Þeir sem eru ekki með nógu há laun eða eignir til að komast í gegnum svona kerfi þurfa á sérlausnum að halda þar sem félagsleg aðstoð kemur til.

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann raunveruleika að stór hópur Íslendinga getur ekki eignast eigið húsnæði á eðlilegan hátt samkvæmt lögmálum hin frjálsa og opna fjármálamarkaðs.  Að reyna enn eina ferðina að “fiffa” markaðinn mun aðeins skapa vandamál sem á endanum leiðir til kerfisáfalla.  Staða ÍLS í dag er sönnun þess að stjórnmálastéttin verður að sækja í reynslu og þekkingu utan sinna pólitísku raða.  Það verður að vera pláss fyrir “skammstöfunar-fólk“ á Íslandi!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.7.2013 - 07:32 - Lokað fyrir ummæli

Ekki í skýrslunni

Skýrsla um Íbúðarlánasjóð fer vel yfir sögu sjóðsins en ég sakna þess að þar skuli ekki koma fram hnitmiðaðri tillögur til úrbóta.  Sérstaklega virðast eigendur íbúðabréfa sleppa vel enda andaði skuldabréfamarkaðurinn léttar eftir útkomu skýrslunnar.

Talað er um í niðurlagi skýrslunni að velta hluta vandans yfir á lántakendur með uppgreiðslugjaldi til að vernda sjóðinn.  En hvað um skuldabréfaeigendur?  Hvers vegna eiga þeir ekki að taka hluta vandans á sig?  Er rétt að skattgreiðendur og lántakendur beri allan skaðann af mistökum við stjórn ÍLS?

Fjármálaráðherra talar um að skuldabréfaeigendur verið að sýna skilning og líta verði á markaðslausnir til að rétta ÍLS af.  Þetta er rétt, ríkið þarf að breyta ÍLS í hlutafélag og afnema ríkisábyrgð, eins og ég hef bloggað um hér.

Í raun er skýrslan um ÍLS vopn í hendi ráðherra gagnvart skuldabréfaeigendum.  Það er ljóst að þeir fagfjárfestar sem keyptu íbúðabréf máttu vita að hér var ekki allt með felldu.  Skammstöfunarstofnanirnar AGS og OECD höfðu ítrekað varað við starfsemi ÍLS.  Þó íslenskir stjórnmálamenn hlusti ekki á erlenda sérfræðinga þá geta fagfjárfestar ekki notað þá afsökun.  Það er því ljóst að fagfjárfestar hafa verið að gera út á ríkisábyrgðina þegar þeir máttu vita að undirliggjandi rekstur var í molum.

Ef ríkið getur einhvern tíma fellt niður ríkisábyrgð þá er það í þessu tilfelli enda er ekki verjandi að veita ríkisábyrgð á rekstur sem er ekki byggður á heilbrigðum viðskiptalegum grunni.

Þeir fjárfestar í íbúðabréfum sem enn halda að ríkisábyrgðin muni redda þeim eiga eflaust eftir að verða fyrir vonbrigðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.7.2013 - 14:49 - Lokað fyrir ummæli

Lánveitingum ÍLS hætt?

Það verður varla annað lesið úr nýrri skýrslu um ÍLS en að nefndin leggi til að ÍLS hætti lánveitingum og skuldabréfaútgáfu, a.m.k tímabundið, en í niðurlagi skýrslunnar segir:

„Íbúðalánasjóður er nú á framfæri ríkisins ef svo má segja. Vandræði hans eru á því stigi að lausafé og eigið fé hrökkva þar skammt. Við þær aðstæður er ekki ástæða til að hann liggi með mikið lausafé né að eigið fé liggi inni í sjóðnum. Þar sem sjóðurinn er hvort sem er háður aðstoð ríkisins er í lagi að hann sé sem næst eiginfjárlaus á meðan yfirvöld ákveða hvað gert verður við hann til framtíðar. Eftir þá ákvörðun er rétti tíminn til að huga eftir atvikum að eiginfjárframlagi ríkisins. Í millitíðinni ætti Íbúðalánasjóður alls ekki að standa í samkeppni á markaði eða taka á sig (og þar með ríkið) frekari skuldbindingar og áhættu.“

Þá gæti tillaga nefndarinnar, um að ráðherra setji á uppgreiðslugjald til að tryggja hag sjóðsins sem mun gera lántakendum erfitt fyrir um að breyta lánum sínum úr verðtryggðum yfir í óverðtryggð, stangast á við stefnu nýrrar ríkisstjórnar í skuldamálum heimilanna.

„Ráðherra skal setja gjald á uppgreiðslur viðskiptavina sjóðsins ef aðrar leiðir eru ekki færar til að verja hag hans skv. reglugerð nr. 544/2004. Slíkar aðstæður eru einmitt um þær mundir þegar þetta er skrifað. Mikil hætta er á að sjóðurinn tapi frekara fé vegna uppgreiðslna viðskiptavina. Íbúðalánasjóður hefur tapað verulegu fé vegna uppgreiðslna í nokkur misseri. Má því segja að ráðherra hafi brotið reglugerðina. Þetta gjald er hægt að setja á nú og koma þannig í veg fyrir að sjóðurinn verði fyrir frekara tapi af völdum uppgreiðslna.“

Það er hætt við að það verði mikið að gera hjá ÍLS og bönkunum á næstu dögum.

Ég hef enn ekki fundið tillögur nefndarinnar um aðgerðir í skilmálabreytingum á skuldabréfum ÍLS, þannig að eigendur þeirra taki hluta tapsins á sig svo allt lendi ekki á ríkinu.  Það hlýtur að vera þarna einhvers staðar, þetta er svoddan doðrantur að ekki er hægt að hraðlesa hann á 30 mín.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.6.2013 - 10:48 - Lokað fyrir ummæli

Hagvöxtur í biðstöðu

Þegar rýnt er í þjóðhagsspá Hagstofunnar er sláandi hversu illa hefur gengið að koma atvinnufjárfestingu af stað, sérstaklega á þetta við um stóriðjuframkvæmdir.   Ef spáin frá apríl 2011 er borin saman við nýjustu spá frá júní 2013 sést að báðar hagvaxtaspárnar eru að mestu dregnar áfram af sömu verkefnunum, það eru helst dagsetningar sem breytast.

Hér er samantekt á helstu verkefnum úr þjóðhagsspám Hagstofunnar:

Álver í Helguvík:

2011 segir:
“Reiknað er með fyrsta áfanga álversins í Helguvík í spánni og að framkvæmdir hefjist að litlu leyti árið 2012 en komi að mestu fram árin 2013–2014.”

2013 segir:
“Þá er áætlað að framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík, eða ígildi þess, hefjist árið 2014 og verði komnar á fullt skrið árið 2015.”

Álver í Straumsvík:

2011 segir:
“Gert er ráð fyrir fjárfestingu við stækkun álversins í Straumsvík og mun standa yfir út árið 2014 en mestur kostnaður fellur til árin 2011 og 2012.”

2013 segir:
“Í maí var tilkynnt um breytingar á fjárfestingarverkefni Alcan í Straumsvík þar sem horfið var frá því að auka framleiðslu álversins um 20% en í stað þess er stefnt að 8% aukningu.”

Búðarhálsvirkjun:

2011 segir:
“Reiknað er með Búðarhálsvirkjun í spánni en orkan úr þeirri virkjun verður notuð í Straumsvík. “

2013 segir:
“Áfram er reiknað með orkuframkvæmdum Landsvirkjunar við Búðarháls. Framkvæmdir þar munu standa til ársins 2015.”

Kísilverksmiðjur:

2011 segir:
“…fyrirhuguðum framkvæmdum vegna kísilverksmiðju í Helguvík hefur verið bætt við atvinnuvegafjárfestingu. Áætlað er að hún kosti um 17 milljarða og falli að mestu til árin 2011 og 2012 þó að framkvæmdum ljúki 2013.”

2013 segir:
“Einnig er áætlað að framkvæmdir við kísilver á Bakka hefjist árið 2014…”

Niðurlag um atvinnufjárfestingar:

2011 segir:
“Árið 2012 er reiknað með að atvinnuvegafjárfesting aukist um 23,8% en þá nái framkvæmdir vegna kísilverksmiðjunnar hámarki og er jafnframt gert ráð fyrir að almenn atvinnuvegafjárfesting aukist nokkuð. Þrátt fyrir nokkra aukningu fjárfestingar á spátímanum er áætlað að hlutur fjárfestingu í landsframleiðslu í lok spátímans verði undir meðaltali síðustu 20 ára.”

2013 segir:
“Á seinni hluta spátímans er reiknað með að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nálgist 18% en að meðaltali síðustu 30 ár hefur hlutur fjárfestingar verið um 20% af landsframleiðslu og er því enn nokkuð í að hún nái fyrri styrk í hagkerfinu.”

En hvers vegna ætli gangi svona erfiðlega að koma þessum verkefnum af stað?  Ein skýring er tregða útlendinga við að fjárfesta á Íslandi.  Þessi stóru verkefni verða nefnilega ekki fjármögnuð í krónum, til þess þarf alvöru gjaldmiðla.

Erlendir fjárfestar eiga mjög erfitt með að sjá að Ísland geti tryggt nauðsynlegan lagalegan og efnahagslegan stöðugleika með einangrunarstefnu sem útilokar ESB aðild en byggir á illskiljanlegum hringlandahætti og þjóðernisrembu.  Margir fjárfestar hafa líklega haldið að sér höndum og beðið eftir ESB aðild.  Nú þegar hún er ekki í augsýn hafa sumir pakkað saman og þá vaknar upp sú spurning hvaða hópar erlendra aðila treysta sér til að fjárfesta hér í framtíðinni og á hvaða kjörum?

Mest hefur farið fyrir þýskum og bandarískum fjárfestahópum.  Þjóðverjar eru illa brenndir af lélegum fjárfestingaákvörðunum í ýmsum Evrópulöndum fyrir hrun þ.á.m. Íslandi og eru því varkárir og vilja stöðugleika.  Bandaríkjamenn vilja þekkt og öruggt lagaumhverfi, stærðarhagkvæmi og samkeppnishæft orkuverð en orkuverð hefur fallið mikið í Bandaríkjunum eftir mikla gasfundi þar á síðustu árum.  Ísland utan ESB getur hvorki boðið upp á þekkt lagaumhverfi né stöðugleika.  Þar á ofan bætist há skuldastaða, léleg lánshæfiseinkunn og haftakróna.  Slíkt umhverfi laðar aðeins einn hóp að – hrægamma.  Það eru helst svokallaðir hrægammar og bankamenn þeirra sem hafa sýnt íslenskum fjármálagjörningum áhuga eftir hrun og haldið markaðinu opnum erlendis.  Nú á að hrekja þá á brott.  Hver á þá að fjármagna Ísland í erlendum gjaldeyri?  Spyr sá sem ekki veit.

Eitt er víst, að í augum erlendra fjárfesta verða fjárfestingar á Íslandi án ESB aðildar áhættusamari og þar með verða kjörin alltaf lakari, þ.e. meiri arður þarf að renna til erlendra aðila.  Þetta þýðir að minna verður til skiptanna innanlands, t.d. til hækkunar launataxta.

Ísland er í ákveðnu svikalogni hvað fjárfestingar og hagvaxtahorfur varðar þar sem aukning í eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi hefur verið drifkrafturinn í vexti gjaldeyristekna frá hruni.  En þó ferðamennskan sé góð búbót kemur hún ekki í staðinn fyrir langtímafjárfestingar í öðrum atvinnugreinum.  Ferðamennska bíður ekki upp á sérhæfð hálaunastörf, hún byggir á lágu gengi krónunnar og hógværum launakröfum.  Þá er hún sveiflukennd og oft háð tískuduttlungum sem geta gert fjárfestingar í ferðamannaiðnaði áhættusamar.

Hagvaxtahorfur hér á landi eru því miður ekki eins góðar og margir vilja halda og forsendur Hagstofunnar hafa reynst of bjartsýnar.  En eins og fyrir hrun er ofurbjartsýni Íslendinga stór áhættuþáttur sem erlendir fjárfestar verða að passa upp á.

Róðurinn verður þungur utan ESB og fórnarkostnaðurinn hár.  Velferðarkerfið mun varla fylgja norrænum stöðlum mikið lengur og erfitt verður að uppfylla væntingar um hærri rauntekjur.  Lítið má út af bera til að Ísland falli ekki aftur í gamalt far gengisfellinga, innflutningshafta og verðbólgu.

Heimildir: Hagstofan

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.6.2013 - 21:00 - Lokað fyrir ummæli

Í landi eyðslu og skulda

Umræðu um ríkisfjámál hefur hrakað síðan AGS yfirgaf landið.  AGS kom með aga og aðferðafræði sem var framandi í landi eyðslu og skulda.  Ríkissjóður átti sem fyrst að afla meir en hann eyddi samkvæmt plani AGS.  Auðvita gekk þetta ekki eftir.  Síðasta ríkissjórn sprakk fljótlega á limminu og fór að tala um að vernda velferðarkerfið í stað þess að koma umbótum í framkvæmd.  Kosningabaráttan snérist svo um allt annað en ríkisfjármálin og núverandi ríkissjórn talar um hallalausan rekstur líkt og sú fyrri, en heldur sig fjarri smáatriðunum enda veit hún að kjósendur treysta því að þetta reddist!

Stjórnmálamenn í landi eyðslu og skulda vita vel að kjósendur hugsa fyrst og fremst um eigin eyðslu og skuldir.  Að lofa meiri eyðslu og minni skuldum er örugg aðferð til að ná hylli og atkvæðum kjósenda.  Ríkisfjármálin eru afgangsstærð sem aðeins kverúlantar hafa áhuga á.

Svona hefur þetta alltaf verið á Íslandi og er í mörgum löndum, eini munurinn er að stærri þjóðir hafa sjálfstæðar stofnanir, fjölmiðla og sérfræðinga sem veita stjórnmálamönnum öflugt aðhald.  Í rótgrónum lýðræðisríkjum komast stjórnmálamenn yfirleitt ekki upp með hallærislega útúrsnúninga og yfirborðsmennsku. Þeir sem vilja sannfærast um það ættu t.d. að kynna sér stjórnmál og fjölmiðla í Ástralíu.

Nýlega hafa komið fram gagnrýnar skýrslur um stöðu mála á Íslandi frá virtum erlendum stofnunum á við AGS, OECD og ÖSE.  Þetta eru skýrslur sem erlendir fjárfestar og lánardrottnar Íslands lesa.

Viðhorf Íslendinga til þessara skýrslna er mjög í anda fyrirhruns áranna, flestir afgreiða þær með þögn.  Útlendingum er eingöngu hampað þegar þeir lofa og skjalla Íslendinga, öll erlend gagnrýni er slæm og allra verst er þegar útlendingar reyna að kenna Íslendingum að leiðrétta mistök og fáfræði.

Hræðsla og minnimáttarkend gagnvart útlendingum er jafn mikilvægur hornsteinn í fullveldisstefnu Íslands nú og fyrir 100 árum.  Ef eitthvað er, hafa hlutirnir versnað því fyrir 100 árum voru landsfeður Íslands, á evrópskan mælikvarða þess tíma, betur menntaðir og víðsýnni en arftakar þeirra í dag!  Og því miður er lítil von að sú staða breytist í framtíðinni enda mun séríslensk og ósilvirk menntastefna sjá til þess.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 20.6.2013 - 11:43 - Lokað fyrir ummæli

Engu má breyta

Að sumu leyti eru Íslendingar íhaldssamari en Bretar sem eru þó frægir fyrir viðhorfið “change is good, but no change is better”.

Þetta á sérstaklega við um ákveðna tegund hefða á Íslandi – en alls ekki má leggja af hefðir sem gætu skert “þægilegheit” manna.   Tek þrjú dæmi sem mér hefur alltaf fundist furðuleg og þekki hvergi nema á Íslandi.

Fyrsta dæmið er löng sólaganga til stúdentspófs.  Þrátt fyrir mikil dönsk og norræn áhrif í íslensku samfélagi í gegnum aldirnar útskrifast stúdentar 20 ára á Íslandi og 18 ára í Danmörku.  Þetta er hin almenna regla en auðvita eru undantekningar frá henni.  Eina skýringin sem ég hef fengið á þessu fráviki er að á fyrri hluta síðustu aldar hafi börn og unglingar þurft að vinna á sumrin í landbúnaði og sjávarútvegi á við fullorðna.  Vinna barna og unglinga í dag er ekki í neinu samræmi við það sem tíðkaðist fyrir um 50 árum síðan en samt er haldið í hefðina – hvers vegna?  Af því að það er þægilegar en að breyta henni.  Það er ekki fyrr en núna nær fimm árum eftir hrun að það er að renna upp fyrir fólki að hið opinbera hefur ekki efni á þessu.  Þjóðin “neyðist” til að taka á þessu vegna þess að ytri aðstæður þrýsta á, en ekki vegna þess að þetta er skynsamlegt og mun hjálpa unga fólkinu að koma fótum undir sig fyrr í lífinu.  Ég ætla ekki hér að fara að reyfa allar þær skýrslur, innlendar og erlendar sem sýna hvað þjóðin fær fyrir sinn pening í menntamálum, það væri að æra óstöðugan.  Ef ríkisstjórnin vill auka hagvöxt, þá eru upplagt að stytta skólagönguna.

Þá eru það allir heilögu íslensku frídagarnir.  Þegar útlendingar heyra af þessu, spyrja þeir alltaf eru Íslendingar svona trúuð þjóð?  Og er von að menn spyrji.  Það eru ekki margar þjóðir sem hafa Uppstigningardag sem frídag á 21. öldinni.  Hvað ætli margir viti hvers vegna þetta er frídagur, hverrar himnaferðar er verið að minnast?  Ef ríkisstjórnin vill auka hagvöxt er upplagt að leggja niður einn frídag, svo sem Uppstigningardag.

Að lokum eru það matmálstímar Íslendinga á vinnutíma. Morgunkaffi með meðlæti, þriggja rétta heit máltíð í hádeginu – súpa, aðalréttur og eftirréttur – og svo síðdegiskaffi.  Þetta er skiljanlegt fyrir þá sem vinna enn erfiðisvinnu, en að halda í þessar hefðir fyrir fólk sem vinnur þægilega innivinnu er ekki skynsamlegt út frá hvaða sjónarmiði sem er.  Vissulega hefur þeim fyrirtækjum fækkað sem enn bjóða upp á svona herlegheit en ansi er ég hræddur um að margar stofnanir reki enn eigin mötuneyti í þessum anda.   Og ef eitthvað er þá hefur þetta versnað.  Nú lepja menn latte í tíma og ótíma á milli gömlu kaffitímanna og það er varla til sú auma stofnun sem ekki á lattevél og toppurinn er víst að reka sinn eigin kaffibar!  Ef landsmenn eru áhugasamir um að auka hagvöxt og framleiðni er upplagt að stytta og einfalda matmálstíma.

Það er leikur einn að finna einfaldar strúktúrbreytingar sem geta aukið hagvöxt og framleiðin, allt sem þarf er hugmyndaflug – en auðveldara sagt en gert!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.6.2013 - 06:58 - Lokað fyrir ummæli

ÍLS verður NÍLS hf?

Nú er kominn tími til að höggva á erfiðan hnút sem er framtíð Íbúðalánasjóðs, ÍLS.  Ekki er hægt að láta ósjálfbæran ÍLS endalaust hanga á spena skattgreiðenda og setja langþráð markmið um hallalausan rekstur ríkisins í uppnám.

Skuldabréfaeigendur verða að taka keflið frá ríkinu en þeir eru að miklu leyti lífeyrissjóðirnir.  Það verður að ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur um að breyta ÍLS í hlutafélag, NÍLS hf eða Nýr ÍLS hf.  Skuldabréfum ÍLS yrði þá skipt yfir í hlutafé og ný skuldabréf með uppgreiðsluákvæði og breytingarákvæði frá verðtryggðum bréfum yfir í óverðtryggð.

Þannig er hægt að auka eigið fé sjóðsins og gera honum kleift að mæta þörfum markaðarins um verð- eða óverðtryggð húsnæðislán með uppgreiðsluheimild án þess að setja eigin efnahagsreikning á hliðina. Félagslegu hlið ÍLS verður að finna annan heimastað og skilgreina það hlutverk sérstaklega.

Ríkið og skuldabréfaeigendur yrðu þar með hluthafar í NÍLS, sem yrði að reka á viðskiptalegum forsendum án ríkisábyrgðar.  NÍLS fengi leyfi til að taka við innlánum og veita greiðsluþjónustu á einstaklingsmarkaði og gæti þannig keppt við viðskiptabankana á eðlilegum samkeppnisgrunni.

Þá væri eðlilegt að gefa lítlum sparisjóðum tækifæri til að renna inn í NÍLS þar sem þeir fengju að halda sínum séreinkennum án þess að eiga á hættu að verða að litlu útibúi hjá einum af stóru viðskiptabönkunum.

Þar með myndi samkeppni á einstaklingsmarkaði aukast og flýtt yrði fyrir hagræðingu í rekstri og þjónstu við viðskiptavini.  Með tíð og tíma gæti NÍLS endaða á markaði og orðið hluti af nauðsynlegri uppstokkun á bankakerfi landsins, enda ljóst að stór hluti bankakerfisins mun á einn eða annan hátt fara í gegnum hendur lífeyrissjóðanna í náinni framtíð.

Ljóst er að með þessari aðferð munu skuldabréfaeigendur tapa fé, alla vega til að byrja með, en einhver verður að bera það tap, annað hvort ríkissjóður, skuldabréfaeigendur eða báðir aðilar í sameiningu.  Þá er líka hætta á að hugtakið “ríkisábyrgð” þynnist út, en það hefur í raun þegar gerst eins og nýlegt lánshæfismat Moody’s á ÍLS gefur til kynna.  Ef það er markmiðið að lágmarka framtíðartap á rekstri ÍLS verður að skoða svona leiðir þó þær passi ekki endilega inn í einhverja pólitíska hugmyndafræði frá síðustu öld.

Þetta yrði vonandi lokakaflinn í hruni íslenskra fjármálastofnanna, fimm árum eftir að það hófst.  Samfara uppgjöri gömlu bankanna gæti þá loksins hin raunverulega uppbygging nýs bankakerfis á Íslandi hafist.  Betra seint en aldrei. En stóra spurningin er, búa Íslendingar yfir nægri reynslu og þekkingu af endurskipulagningu og rekstri fjármálastofnanna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.6.2013 - 08:31 - Lokað fyrir ummæli

Skuldaleiðrétting á fleygiferð!

Skuldaleiðréttingaferlið er þegar komið á fleygiferð.  Á meðan allir hafa augun á endapunkti þess ferlis eru ráðherrar og Forsetinn komnir á fullt að undirbúa vinnuna.

Hér eru fystu skref ríkisstjórnarinnar:

  1. Tilkynna að krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins
  2. Stoppa ESB viðræður
  3. Undirbúa skuldabréfaeigendur ÍLS fyrir skilmálabreytingar

Þessi skref voru tekin strax, en þau eru nauðsynleg undirbúningsvinna til að planið gangi eftir.  Með því að sannfæra kröfuhafa um að krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins og að ESB aðild sé dauð eða í besta falli sparkað áratugi fram í tímann vona menn að auðveldara verði að snúa upp á kröfuhafa.

Því var það mikilvægt að Forsetinn setti “réttan” tón við þingsetningu og ekki síður í viðtali við Bloomberg þar sem hann vék sérstaklega að samningum við “hrægamma”.  Forsetinn hefur jú aðgang að erlendum fjölmiðlum sem aðrir hafa ekki.

Þriðja skilyrðið sem er nauðsynlegt af hálfu ríkisins, til að leiðréttingin velti ekki allt of miklum nýjum vanda ÍLS yfir á ríkið er að láta eigendur skuldabréfa ÍLS sætta sig við skilmálabreytingu sem inniheldur uppgreiðsluákvæði.  En það er nauðsynlegt til að halda jafnvægi í bókum ÍLS og minnka skuldbindingar sjóðsins í takt við minnkandi lánasafn sem niðurfærsla á verðtryggðum lánum mun hafa.

Þá er bara eftir að láta Seðlabankann sannfæra lífeyrissjóðina um að koma með erlendar eignir sínar til landsins í skiptum fyrir eignir kröfuhafa á brunaútsöluverði.  Þetta er líklega erfiðasti þátturinn.  Ef lífeyrissjóðirnir eru ekki til í tuskið, og það er mikið EF, þá þarf að finna aðra fjármögnunarleið.  En það verða alltaf einhverjir sem sjá sér hag í að koma með gjaldeyrir til landsins til að ná yfirráðum yfir viðskiptabanka á brunaútsöluverði.

Það sem vekur athygli hér er auðvita aðkoma Alþingis eða öllu heldur fjarvera.  Svo virðist sem Alþingi eigi sem minnsta að koma að þessu máli nema þá að stimpla það inn og út.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.6.2013 - 10:46 - Lokað fyrir ummæli

Bankar í fangi ríkisins

Íslenska bankakerfið lenti svo sannarlega á íslenska ríkinu.  Þetta sýnir ný skýrsla Bankasýslunnar.  Hlutur íslenska ríkisins í eigin fé viðskiptabankanna er 14.3% af VLF en ekki nema 4.7% í Bretlandi og 2.3% í Hollandi.  Björgun banka í Bretlandi kostaði skattgreiðendur minna en fall bankanna á Íslandi sem hlutfall af VLF.  Þetta mun koma mörgum spánskt fyrir sjónir enda mikið talað um að Ísland hafi farið réttu leiðin og látið bankana lenda á kröfuhöfum.

Vissulega var þetta leiðin sem var farin, en hætt er við að útfærslan hafi villst af leið.

Það er því undarlegt hversu lítið fer fyrir umræðu um hvenær, hvernig og hvort skattgreiðendur fái þetta mikla fé tilbaka.  Í Bretlandi er þetta stöðugt í umræðunni og ráðherrar þurfa þar að gera regluleg grein fyrir málum bankanna.

Á Íslandi virðast flestir gera ráð fyrir að þetta “reddist” og að létt verði fyrir ríkið að losa um þessa eign og standa upp með hagnað?  En er það svo? Hvað þarf til, svo ríkið komi á sléttu út úr dæminu?

Hlutur ríkisins í eigin fé viðskiptabankanna þriggja var í lok árs 2012 um 244 ma kr.  Eiginfjárframlag ríkisins í upphafi var um 138 ma kr í formi skuldabréfs sem ber vexti.  Áætla má vaxtakostnað af þessu framlagi um 45 ma kr. á núvirði.  Þá þarf að bæta við fjárframlagi ríkisins við SpKef sem hljóðaði upp á um 19 ma. kr.  Samtals gera þetta 202 ma kr. sem viðreisn nýju viðskiptabankann hefur kostað ríkissjóð til dagsins í dag.  Dágóð summa.

Þetta þýðir að til þess að ríkið komi út á sléttu þarf að selja bankana á 83% af bókfærðu virði.  Þar fyrir ofan hagnast ríkið á sölunni en þar fyrir neðan tapar ríkið.

Í alþjóðlegum samanburði er þessi stuðll rétt undir meðaltali (90%), en verð á bönkum erlendis er á uppleið og staðan hefur breyst mikið til batnaðar á síðustu 12 mánuðum. Það eru góðu fréttirnar.

Hins vegar er spurning hvort íslenskir bankar séu venjulegir bankar og hvort fjárfestar séu tilbúnir að borga það sama fyrir þá og t.d. Bank of America sem selst á 85% af bókfærðu virði í kauphöllinn í New York?  Innlendir fjárfestar læstir inn í höftum hafa ekki val, en öðru máli gegnir með erlenda fjárfesta.  Ansi er ég hræddur um að mörgum þeirra muni þykja íslenski verðmiðinn hár.

En sala á bönkunum er varla inn í myndinni enn hér á landi.  Fyrst þarf að koma efnahagsreikningi bankanna á þurrt land og gera rekstur þeirra arðsamari.  Stærsti pósturinn hér er stærð og gæði lánabóka bankanna, en á meðan óvissa ríkir um gengisdóma, skuldaniðurfellingu, verðtryggingu og vanskil er erfitt fyrir fjárfesta að gera sér grein fyrir hvað þeir eru að kaupa.  Þá þurfa samningar við skuldabréfaeigendur að vera tryggir, þeir eru jú rétthærri en hlutabréfaeigendur og enginn fjárfestir fer að kaupa í banka þar sem hugsanleg skuldabréfaleiðrétting vofir yfir.  Þá þarf fjármögnun bankanna að vera trygg og hagkvæm en stórt og dýrt skuldabréf ríkisbankans er áhyggjuefni eins og Seðlabankastjóri hefur látið í ljós.  Að lokum er æskilegt að búið sé að taka til í rekstri bankanna svo ekki sé verið að gefa hagræðingartækifæri til nýrra eigenda.  Allt þetta tekur tíma, en á meðan tikkar vaxtakostnaður ríkisins.

Það er mjög brýnt að bankakerfið fari að standa á eigin fótum og sleppi ríkispilsfaldinum.  Gera verður þá kröfu að viðskiptabankarnir séu það vel reknir að þeir geti borga arð sem dekkar a.m.k. vaxtaútgjöld ríkissins og þar með stoppi “niðurgreiðslu” ríkisins á bankakerfinu. Þeim peningum er betur varið annars staðar!  Þá er skynsamlegt að greiða arð ef væntingar eru um að markaðsvirði sé undir bókfærðu virði.

Hvað varðar sölu á bönkunum er erfitt að sjá að hún verði arðsöm fyrr en 2016-2017, þ.e. í lok kjörtímabilsins  og líklega þarf að bíða þar til um 2025 þar til ríkið geti losað sig að fullu.  Forsendur fyrir endureisn og sölu nýju bankanna eftir hrun voru eins og svo oft gerist á Íslandi – ofurbjartsýnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur