Föstudagur 6.5.2011 - 18:40 - 28 ummæli

Gjaldeyriskrísa

Nýir kjarasamningar auka líkurnar á gjaldeyriskrísu í framtíðinni.  Aukinn kaupmáttur mun auka eftirspurn eftir innfluttri vöru og þar með gjaldeyri.  Þá gera samningar ráð fyrir að gengið hækki sem enn frekar eykur eftirspurn eftir gjaldeyri.  Til að mæta aukinni eftirspurn og á sama tíma lækka verð á gjaldeyri, segir hagfræðin okkur að framboð á gjaldeyri verður að stóraukast.  En hvar á þetta aukna framboð á gjaldeyri að koma?  Hagvaxtahorfur standa ekki undir þessum væntingum og ekki standa útlendingar í röðum til að lána okkur gjaldeyri.  Svo ef gjaldeyrisframboði eykst ekki í takt við eftirspurn verður að handstýra  hlutunum.    Enn harðari gjaldeyrishöft,  innflutningshöft og/eða gengisfelling verður þá nauðsynleg.  Eina leiðin til að koma í veg fyrir gjaldeyriskrísu er að laða að erlent fjármagn til landsins í arðbæra fjárfestingu.  Aðeins stóraukinn hagvöxtur sem byggir á innflæði gjaldeyris getur látið þessa kjarasamninga ganga upp fyrir launamenn.

En því miður hefur Íslendingum ekki tekist að koma sér saman um trúverðuga og öfluga hagvaxtastefnu sem laðar að erlent fjármagn.  Ópraktísk hugmyndafræði, íhaldssemi, þrjóska  og „hræðsla“ við útlendinga er þar Þrándur í götu.  Það eru ekki miklar líkur á að okkur takist að móta og hrinda í framkvæmd nýjum og róttækum hugmyndum sem eru nauðsynlegar til að brjótast út úr þeim stöðnunarfjötrum sem þessi kynslóð hefur komið sér í.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.5.2011 - 07:34 - 13 ummæli

Hvar er kaupmátturinn?

Það er mikið talað um að kaupmáttur sé lítill á Íslandi og að taxtakaup sé það lægsta á Norðurlöndunum og atvinnuleysi hér það mesta.  Tugir þúsunda berjast í bökkum og ná varla endum saman um hver mánaðarmót.  Það mætti því búast við að landsframleiðsla á mann á Íslandi sé sú langlægsta á Norðurlöndunum – en það er hún ekki.  Sú spurning vaknar þá, hvar er kaupmátturinn á Íslandi, hvert fer landsframleiðslan?

Ef litið er á nýjar tölur frá AGS fyrir 2010 yfir landsframleiðslu á mann þegar leiðrétt hefur verið fyrir mismunandi kaupmátt (PPP gildi) raðast Norðurlöndin þannig upp á heimslistanum:

  • 4.  sæti Noregur $52,013
  • 14. Svíþjóð $38,031
  • 16. Ísland $36,621
  • 17. Danmörk $36,450
  • 22. Finnland $34,585

Fyrir utan Noreg, liggja öll Norðurlöndin á svipuðu reki og Ísland er mitt á milla landanna fimm.

Eru raunveruleg lífskjör á Íslandi svo mkilu lægri en á hinum Norðurlöndunum og ef svo er, hvers vegna er staðan sú, þrátt fyrir háa landsframleiðslu?  Hvar eru þessir peningar?  Stærð og einangrun landsins gerir auðvita hagkerfið hér óhagkvæmara og dýrara en varla skýrir það allan muninn.  Eitthvað annað kemur til.

Hér spilar inn í lítil framlegð, ófullkomið fjármálakerfi, óskynsamlegar skuldir og óvirkur gjaldmiðill.  Þá er líka rétt að líta á tekjudreifinguna, það hljóta margir að hafa það ansi gott í íslensku kreppunni (og líklega vill þessi hópur litlu breyta).

Það er ekki nóg að auka bara landsframleiðsluna með nýjum fjárfestingum.  Við verðum líka að fara að finna leiðir til að auka framlegð og gera hagkerfið hér skilvirkara.  Nýr og alvöru gjaldmiðill spilar hér lykilhlutverk.  Án hans er lítil von um raunverulega kaupmáttaraukningu í framtíðinni handa þorra fólks.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.4.2011 - 08:14 - 4 ummæli

Eitt land, tvö kerfi

Það er æ betur að koma í ljós að Ísland er að þróast í tvær áttir.  Hér eru tvö kerfi í gangi.  Í fyrra kerfinu eru þeir sem standa í útflutningi á vörum og þjónustu og fá sínar tekjur í gjaldeyri og geta tengt sín lífskjör við hagvöxt í öðrum löndum.  Tekjur og kaupmáttur þessa hóps er að aukast og framtíðin hér er tiltölulega björt.  Hinn hópurinn er fastur í gamla krónukerfinu þar sem lítill eða enginn hagvöxtur er sjáanlegur næstu árin.  Þetta eru opinberir starfsmenn og þeir sem  vinna í innlendri framleiðslu og þjónustu.  Þarna er líka hópur sem sannarlega vinnur í gjaldeyrisskapandi störfum en er flokkaður í krónukerfinu vegna aðilar að stéttarfélögum sem eru föst í innlenda hagkerfinu.

Í gjaldeyriskerfinu virðast erlendir atvinnurekendur standa sig best.  Þar ríkir stjórnunaragi og þeir hafa aðganga að fjármagni á kjörum sem íslenskir aðilar og íslenska ríkið getur aðeins látið sig dreyma um.  Þeir hafa því miklu meiri sveigjanleika til að gera vel við sitt starfsfólk.  Elkem samningurinn sýnir þetta vel.  Sá samningur getur varla gengið yfir allt hagkerfið nema að fjármagn verði fært frá gjaldeyris- yfir í krónukerfið.  Það verður ekki gert nema með aukinni skattheimtu og/eða gjaldtöku sem auðveldlega getur haft neikvæð áhrif á þann vaxtarbrodd sem er að finna í útflutningshagkerfinu.   Þetta vandamál verður því ekki auðveldlega leyst.  Mikil hætta er á að stjórnmálamenn sem hafa litla þekkingu eða reynslu af atvinnurekstri fari að krukka í kerfunum, sem mun bara gera illt verra.  Á móti má segja að illmögulegt sé að halda upp einhverju norrænu velferðarkerfi nema að veita meira fé til grunnstoða samfélagsins.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.  Óumflýjanlegar breytingar á grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði, verða ekki aðskildar þessu vandamáli, þær verða líklega þungamiðja þess.  Þetta verður auðskiljanlegra þegar staða Íslands er sett í alþjóðlegt samhengi í nútíð og framtíð.

Þótt Ísland sé að koma betur út úr kreppunni en jaðarlönd Evrópu erum við samt í afleitri stöðu til að takast á við þær efnahagslegu breytingar sem nú eiga sér stað í heiminum.  Næsta áratuginn má búast við að verulega dragi saman með Vesturlöndum og stærstu og öflugustu þróunarlöndum.  Næstum helmingur af þjóðarframleiðslu heimsins fer nú fram hjá þeim 6,000 milljón manns sem búa í þróunarhagkerfum sem mörg njóta hagvaxtar upp á 6-10% á ári og munu halda áfram að vaxa á tvöföldum til þreföldum hraða hins þróaða  heims.

Við erum nú komin á þann tímapunkt að milljónir manna í þróunarlöndum hafa öðlast vestrænan kaupmátt og sú þróun mun halda áfram á nýjum áratugi.  Þetta þýðir að eftirspurn eftir takmörkuðum auðlindum og hráefnum mun aðeins aukast. Þar með mun verð á olíu, aðföngum, mat, fatnaði og fjármagni hækka næstu árin til að jafna aukna eftirspurn að takmörkuðu framboði.  M.ö.o vestræn ríki þurfa að deila auðæfum heimsins með löndum í Asíu, Afríku og Suður Ameríku.  Baráttan í hinum þróaða heimi verður að halda í núverandi lífskjör.  Fáeinum ríkjum mun takast þetta og gott betur, það eru lönd eins og Svíþjóð og Þýskaland sem framleiða hátæknivöru og þjónustu nauðsynlega fyrir vöxt í  þróunarlöndum.  Flest þróuð lönd munu þó eiga í basli við að halda í lífskjörin og þau verst stöddu munu dragast aftur úr og þar mun launafólk þurfa að vinna lengur og lengur til að eiga fyrir sömu nauðsynjavörunum og halda í gamla kaupmáttinn.  Í þessum löndum má búast við gríðarlegri innri baráttu hagsmunahópa um hvar lífskjaraskerðingin eigi að falla.  Ísland er ekki vel í stakk búið fyrir þessa baráttu.

Raunveruleg kaupmáttaraukning handa öllum verður aðeins sótt í aukinn hagvöxt.  Vandamálið er að leikreglurnar hafa breyst og eru nú settar af stórum þróunarríkjum, þ.e.  Kína, Brasilíu og Rússlandi.  Verð á olíu, aðföngum, matvöru, fatnaði og fjármagni í framtíðinni verður ákveðið af hávaxtalöndum þar sem hagvöxtur er um eða yfir 6%.  Til að halda í við þessa þróun verða þróuð lönd að viðhalda hagvexti um 3% og yfir 4% ef kaupmáttur á að aukast að ráði.  Í hagkerfum með lægri en 2% vöxt verður engin kaupmáttaraukning nema með innbyrðis millifærslum, þar sem einn hópur vinnur en annar tapar.  Ísland í dag er í þessari stöðu.

En innbyrðis millifærslur eru engin langtímalausn, þær leysa tímabundinn vanda og geta verið nauðsynlegar en eru engan veginn nægjanlegar.  Aðeins stöðugur hagvöxtur yfir 4% mun skila okkur varanlegri og almennri kaupmáttaraukningu.  Spurningin er því hvernig getum við tryggt þennan hagvöxt.  Opinberir aðilar geta skapa rétt skilyrði og undirbúið jarðveginn, stéttarfélög geta hjálpa til og lífeyrissjóðir geta stutt við fjármögnun en á endanum þarf aðila sem koma með arðbærar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd.  Án rétta fólksins verður enginn hagvöxtur.  Opinberir aðilar og stofnanir reka ekki einkafyrirtæki sem skapa hátekjustörf.  Hverjir eru þeir aðilar sem eiga að koma hjólum atvinnulífsins af stað?  Býður Ísland upp á samkeppnishæft og stöðugt umhverfi fyrir atvinnusköpun?  Eru arðsemismöguleikar hér á landi í réttum takti við áhættu- og óvissuþætti íslensks umhverfis?

Hvað verður um íslenskt samfélag ef við festumst í vítahring 2% hagvaxtar næsta áratuginn?

PS.  Samkvæmt nýjum tölum frá AGS er Ísland í 16. sæti yfir landsframleiðslu per mann árið 2010, sem var $36,621 á jafngildiskaupmáttarkvarða (PPP).  Danmörk er í 17. sæti með $36,450.  Þrátt fyrir allt virðist gamla nýlendan halda sínu.  En þetta segir manni líka að fyrir hverja fjölskyldu sem á í erfiðleikum er fjölskylda sem hefur það bara fínt.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 15:06 - 42 ummæli

Innflutningshöft á leiðinni?

Innflutningshöft fara saman við gjaldeyrishöft í lokuðu haftahagkerfi.  Þetta þekkja Íslendingar vel enda hafa þessir tvíburar verið viðvarandi á Íslandi mest af lýðveldistímanum.

Í Peningamálum Seðlabankans í dag, útskýrir Seðlabankastjóri að bakslagið í hagvexti sé auknum innflutningi að kenna.  Þetta þarf ekki að koma á óvart.  Fyrir þá sem eiga peninga er lítið annað að gera en að nota þá í eyðslu.  Raunveruleg fjárfestingartækifæri eru fá og háð mikill óvissu og áhættu.  Mun áhættuminna er að kaupa erlendan varning, sérstaklega ef menn trúa því að gengi krónunnar sé of hátt skráð.  Genginu er jú „handstýrt“ til að auka stöðuleika og halda verðbólgu niðri.  Þetta virkar vel til skemmri tíma en á endanum verður eitthvað að gefa eftir.

Annað hvort verðum við að setja á innflutningshöft til að styðja við gjaldeyrishöftin og stöðuleikann eða láta gengið síga til að slá á innflutninginn en þá er stöðuleikanum fórnað og í hagkerfi sem er yfirskuldsett með verðtryggingu er það ekki vænlegur kostur.  Því væri mun skynsamlegra að setja á innflutningshöft, fyrst á lúxusvörur.  Vandamálið er auðvita EES samningurinn sem ef til vill yrði að fórna.   Það er auðvelt í núverandi andrúmslofti að telja fólki trú um að með uppsögn á EES væri Ísland að sækja glatað fullveldi.  Ef aukið ímyndað sjálfstæði fylgdi innflutningshaftapakka rynni þetta í gegn.

EES samningurinn er í raun „lúxusvara“ sem aðeins ríkar þjóðir hafa efni á og Ísland er ekki lengur í þeim hópi.  Það er ekki á hendi nema fárra þjóða að reka sjálfstæðan, viðurkenndan gjaldmiðil og leyfa á sama tíma óhefta fjármagnsflutninga.  Aðrir þurfa stuðningsumgjarðir sem birtast annað hvort í höftum eða samvinnu.  Í Evrópu hafa þjóðir sótt stuðning hvor til annars innan ESB, en utan Evrópu eru höftin algengari í einu eða öðru formi.

Þar sem allt er betra en innganga í ESB hjá meirihluta Íslendinga verður efnahagslegt „sjálfstæði“ aðeins tryggt með einhvers konar höftum og miðstýringu.  Því er líklegt að framtíð Íslands liggi í „auknu“ fullveldi þar sem við smátt og smátt yfirgefum EES og hverfum aftur til haftabúskapar sem á nýrri öld verður sveipaður beinu lýðræði.  Hversu lengi slíkur búskapur gengur upp, skal ekki sagt, en það mun lenda á nýrri kynslóð að ákveða.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 11:07 - 2 ummæli

Fréttir í dag

Fréttir frá Seðlabankanum og Hagstofunni í dag eru ekki uppörvandi.

  1. Atvinnuleysi eykst – atvinnuleysi ungmenna á aldrinum 15-24 ára mælist 15.9%
  2. Kaupmáttur minnkar á milli mánaða um 0.6%
  3. Icesave niðurstaðan eykur hættu á veikari krónu og takmarkar svigrúm til meiri vaxtalækkana
  4. Veðbólguhorfur til næstu ára versna
  5. Hagvaxta og atvinnuhorfur versna

En það er nú ekki allt svart.  Norðmenn eru yfir sig hrifnir af Íslandi og telja sig hafa fundið hér falinn fjársjóð.  Enda sannast þar hið sígilda lögmál hins kapítalíska hagkerfis, þangað sem fjármagnið leitar þar eru tækifærin og þar sem tækifærin eru þangað leitar fólkið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 06:53 - 4 ummæli

Sannir Finnar og lán til Íslands

Sannir Finnar eru sigurvegarar í þingkosningum í Finnlandi.  Þeir eru alfarið á móti því að Finnar hjálpi eyðsluklóm í vanda.  Þeir vilja skrúfa fyrir fjármagnskrana ESB til Portúgals og munu beita sér þar innan ESB.  Þá vaknar spurningin hver er staða Sannra Finna gagnvart Íslandi?  Munu þeir beita sér fyrir, innan Norðurlandanna, að skrúfa fyrir lánakranann til Íslands?  Hver er munurinn hjá þeim á Íslandi og Portúgal.  Það eru fleiri en Íslendingar sem bíða spenntir eftir þeirri skilgreiningu og viðhorfum.

Það yrði kaldhæðni örlaganna ef það yrðu Finnar sem settu AGS prógrammið í uppnám en ekki Bretar eða Hollendingar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.4.2011 - 16:08 - 8 ummæli

Metanstöðvar í hvert kjördæmi

Ég hef nú keyrt á metanbíl í hálfan mánuð.  Ég finn engan mun á aksturseiginleikum en þegar ég fór austur fyrir fjall um daginn komst ég 185 km fyrir 1000 kr. (metan „lítrinn“ er  114 kr.)  Þá eru bifreiðagjöldin aðeins um 10,000 kr. á ári og frítt í stæði í Reykjavík fyrstu 90 mínúturnar.  Afsláttur af vörugjöldum á nýjum metanbílum gerir dæmið enn hagstæðara.  Margir nýjir metanbílar eru í raun ódýrari hér en í nágrannalöndunum.

Svo keyra allir nýir metanbílar bæði á bensíni og metani þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af því að finna ekki metanstöð.  Bílinn skiptir sjálfur frá metani yfir á bensín þegar metanið klárast.  Þetta getur varla verið einfaldara.  Eina vandamálið er skortur á metanstöðvum.

Metan er aðeins fáanlegt í Reykjavík og í Hafnarfirði.  Mikilvægt er að setja upp metanstöðvar út um allt land þannig að allir landsmenn geti notið fjárhags- og umhverfislegs ávinnings af því að keyra á metangasi.

Metanstöð í hvert kjördæmi fyrir árslok 2012 er markmið sem allir ættu að geta sameinast um.

Fyrir þá sem vilja kynna sér metan – þennan orkugjafa framtíðarinnar – bendi ég á þessa ágætu vefsíðu HÉR.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 11:58 - 4 ummæli

Íslensk kurteisi

Borgarstjórinn er farinn í fýlu.  Þýskir sjóliðar eru að koma í heiðursheimsókn til Reykjavíkur en borgarstjórinn vill ekki heilsa upp á þá.  Þeir mega koma en ég heilsa þeim ekki – er viðhorf sem borgarstjóri getur ekki viðhaft, sama hversu mikill friðarsinni hann er.

Annars minnir þetta óneitanlega á ferð Jóhönnu til Færeyja, nema að nú hafa orðið hlutverkaskipti.  Margt er líkt með skildum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 10:24 - 5 ummæli

Ísland er ekki Grikkland

Rétt eftir hrunið sagði fjármálaráðherra Grikklands að „Grikkland væri ekki Ísland“ og gaf í skyn að hlutirnir gætu aldrei orðið eins slæmir í Grikklandi og Íslandi.  Í dag er Grikkland í mun verri stöðu en Ísland.  Lánshæfið hjá Moody’s er löngu komið niður í ruslaflokk og vel það.

Aðalmunurinn á Grikklandi og Íslandi, er að þrátt fyrir allt, er Íslandi stjórnað á nokkuð ábyrgan hátt og innviðir þjóðfélagsins eru sterkir.  Auðvita er hægt að gera miklu betur hér á landi, en allt er afstætt, og hvar sem menn standa í stjórnmálum á Íslandi þá hefur fjármálaráðherra Íslands staðið sig betur en fjármálaráðherra Grikklands.  Þá koma íslenskir Alþingismenn nokkuð vel út miðað við þingmenn í Portúgal.

Okkar norrænu hefðir og aðferðir skipta máli og hafa bjargað miklu hér á síðustu 2.5 ári.  Við þurfum að kynna þetta fyrir útlendingum og matsfyrirtækjum.  Það var því mjög óheppilegt að Forseti Íslands skuli hafa sett Ísland við hliðina á Grikklandi þegar hann hóf sinn reiðisöng um matsfyrirtækin á Bloomberg sjónvarpsstöðinni.  Þar fetaði hann í fótspor gríska fjármálaráðherrans sem rúmum mánuði á undan hellti úr skálum reiði sinnar yfir matsfyrirtækin.

Nei við höfum ekkert upp úr því að herma eftir grískum vælukjóum.  Okkar fyrirmynd á að vera norræn fyrst og fremst.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 12:34 - 8 ummæli

Efnahagsbati að dönskum hætti

Efnahagsspá Danske Bank er um margt athyglisverð.  Þar kemur skýrt fram að hagkerfi Íslands er að aðlaga sitt hratt að hagkerfum ESB landanna.  Framtíðin mun eins og í mörgum ESB löndun einkennast af hægum hagvexti, lágu og stöðugu verðlagi, hóflegum launahækkunum og miklu atvinnuleysi.  Það er einkum spáin um atvinnuleysi upp á 10% sem er mun svartsýnni en spár AGS, Seðlabankans og ASÍ. Hinn gríðarlegi slaki í hagkerfinu, há skuldastaða og lítið aðgengi að fjármagni eru sterk rök sem Danske Bank bendir á sem kannski aðrir aðilar hafa vanmetið.

Það er líklega rétt hjá Lars Christensen að við verðum að fara að tala um góðar efnahagshorfur þrátt fyrir hátt atvinnuleysi.  Þetta verður mikil hugarfarsleg breyting frá fyrri tíð, þegar Íslendingar völdu fulla atvinnu fram yfir stöðuleika.

Lægstu launataxtar og hæsta atvinnuleysi á Norðurlöndunum á næstu árum verða líklega dýrasta afleiðing hrunsins.  Icesave málið eru smámunir í þessum samanburði.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur