Það ætlar að taka nokkrar aldir í viðbót fyrir Íslendinga að átta sig á Dönum. Engin þjóð þekkir Íslendinga betur en okkar gömlu nýlenduherrar og líklega þekkja þeir okkur betur en við sjálf. Þar njóta þeir fjarlægðarinnar frá Íslandi, nálægðarinnar við meginlandið og samskipta sinna við aðrar þjóðir.
Við, á hinn bóginn erum eins og þrjóskur afdalabóndi sem aldrei hefur komið allsgáður í kaupstaðinn en telur sig vita allt betur en fólkið á mölinni. Kaupmaðurinn er kurteis og fámáll en skenkir vel í brennivínsglasið um leið og þeir skála fyrir fósturjörðinni og undirrita ýmsa kaup- og sölusamninga. Bóndinn er svo alsæll í sinni visku um að hann sé að selja á topp prís og gera reyfarakaup hjá kaupmanninum að hann leggur jörðina undir enda áhættulaust að kaupa á krít!
Nú þegar við sjáum á eftir eina ljósinu í íslensku kauphöllinni og best rekna fyrirtækinu þar, Össuri, til okkar gömlu höfuðborgar, Kaupmannahafnar, er rétt að staldra við og spyrja sig hvort við höfum gengið til góðs götuna fram eftir vegi. Íslenskt fullveldi og sjálfstæði virðist ekki hafa breytt því lögmáli að Danir fara létt með að selja okkur eignir á yfirprís og ná sér síðan í okkar silfurborðbúnað á slikk.
Þeir sem stóðu fyrir sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld héldu margir því fram að efnahagslegt sjálfstæði væri forsenda pólitísks sjálfstæðis. Þetta eru engin ný sannindi, en það sem Íslendingar virðast aldrei hafa gert sér grein fyrir er hvað er undirstaða efnahagslegs sjálfstæðis? Eins og afdalabóndinn vorum við of þrjósk til að læra af Dönum hvernig kaupin gerast á eyrinni.
Afleiðingarnar eru allsstaðar að finna í okkar þjóðfélagi í dag. Í stað þess að horfast í augu við staðreyndir, spyrja og læra, trúum við innst í okkar hjarta að hinn gamli íslenski afdalabúskapur skili okkur í höfn, í orðsins fyllstu merkingu.