Sunnudagur 21.11.2010 - 11:30 - 16 ummæli

Danir ná sér í Össur

Það ætlar að taka nokkrar aldir í viðbót fyrir Íslendinga að átta sig á Dönum.  Engin þjóð þekkir Íslendinga betur en okkar gömlu nýlenduherrar og líklega þekkja þeir okkur betur en við sjálf.  Þar njóta þeir fjarlægðarinnar frá Íslandi, nálægðarinnar við meginlandið og samskipta sinna við aðrar þjóðir.

Við, á hinn bóginn erum eins og þrjóskur afdalabóndi sem aldrei hefur komið allsgáður í kaupstaðinn en telur sig vita allt betur en fólkið á mölinni.  Kaupmaðurinn er kurteis og fámáll en skenkir vel í brennivínsglasið um leið og þeir skála fyrir fósturjörðinni og undirrita ýmsa kaup- og sölusamninga.  Bóndinn er svo alsæll í sinni visku um að hann sé að selja á topp prís og gera reyfarakaup hjá kaupmanninum að hann leggur jörðina undir enda áhættulaust að kaupa á krít!

Nú þegar við sjáum á eftir eina ljósinu í íslensku kauphöllinni og best rekna fyrirtækinu þar, Össuri, til okkar gömlu höfuðborgar, Kaupmannahafnar, er rétt að staldra við og spyrja sig hvort við höfum gengið til góðs götuna fram eftir vegi.  Íslenskt fullveldi og sjálfstæði virðist ekki hafa breytt því lögmáli að Danir fara létt með að selja okkur eignir á yfirprís og ná sér síðan í okkar silfurborðbúnað á slikk.

Þeir sem stóðu fyrir sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld héldu margir því fram að efnahagslegt sjálfstæði væri forsenda pólitísks sjálfstæðis.  Þetta eru engin ný sannindi, en það sem Íslendingar virðast aldrei hafa gert sér grein fyrir er hvað er undirstaða efnahagslegs sjálfstæðis?  Eins og afdalabóndinn vorum við of þrjósk til að læra af Dönum hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Afleiðingarnar eru allsstaðar að finna í okkar þjóðfélagi í dag.  Í stað þess að horfast í augu við staðreyndir, spyrja og læra, trúum við innst í okkar hjarta að hinn gamli íslenski afdalabúskapur skili okkur í höfn, í orðsins fyllstu merkingu.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.11.2010 - 16:04 - 44 ummæli

Hagvöxtur í Icesave frosti

Íslendingar eru byrjaðir að borga fyrir Icesave.  Ný hagspá OECD upp á 1.5% fyrir 2011, er mikið áhyggjuefni.  Hagvaxtahorfur fyrir 2011 hafa nú lækkað um 2% stig sem jafngildir rúmum 30 ma kr.  Þetta er helmingur af Icesave reikninginum sem verður líklega upp á 60 ma kr.

Ástæðan er fyrst og fremst að stóriðjuframkvæmdir hafa tafist vegna skorts á fjármagni.  Erlendir lánamarkaðir eru í Icesave frosti.  Lánamarkaðir munu ekki opnast á viðráðanlegu verði fyrr en semst um Icesave.  Á meðan hægist á hagkerfinu, atvinnuleysi eykst, kaup stendur í stað og fólk og fyrirtæki hyggja á landflótta.

Ef við gefum okkur að áhrif Icesave á hagvöxt verði -1% 2010, -2% 2011 og -1% 2012, þá verðum við búin að borga Icesave einu sinni áður en við förum að borga Icesave í annað sinn.

Ef við neitum að borga Icesave og hagvaxtatapið verður varanlegt þá margfaldast „reikningurinn“ sem lendir á næstu kynslóð.

Það er borðleggjandi að niðurskurður og skattahækkanir 2011 og 2012 verða meiri með Icesave óleyst en leyst.

Sá á kvölina sem á völina, á vel við í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.11.2010 - 09:54 - 10 ummæli

Ísland og Írland

Financial Times birtir grein þar sem Írland og Ísland eru borin saman.  Margt er líkt með skyldum þó nágrannar hafi ákveðið að fara mismunandi leiðir.

Það sem er athyglisvert við greinina er hversu illa upplýstur blaðamaðurinn virðist vera um ástandið á Íslandi og þá sérstaklega gjaldmiðilinn.  Flestir útlendingar og margir Íslendingar halda að krónan sé eins og hver annar gjaldmiðill.  Það þýðir, að þegar gjaldmiðillinn er felldur hækka skuldir ekki og þegar seðlabankinn lækkar sína vexti lækka húsnæðisvextir í takt.

Þannig virka hlutirnir hjá þeim sem eru með alvöru sveigjanlegan gjaldmiðil.  En eins og flest heimili vita sem eru í greiðsluvanda gengur dæmið ekki svona upp með íslensku krónunni.  Hún er nefnilega ekki eins og aðrir gjaldmiðlar.

Íslenska verðtryggingin breytir öllu, og gerir krónuna að tvöföldum gjaldmiðli.

Ísland er í raun klassískt dæmi um hagkerfi þar sem tekjur og skuldir eru í mismunandi gjaldmiðlum.

Íslenska leiðin fyrir Íra er að taka upp írska pundið fyrir launafólk en halda skuldum og fjárfestingum eftir í evrum.  Þetta er einmitt leiðin sem Lettland valdi ekki.  Þeir vildu ekki þurrka út húsnæðiseign almennings með því að lækka gengið hjá sér á meðan skuldir almennings yrðu eftir í evrum.

Það er engin furða, að um þessar mundir eru fjárhagserfiðleikar heimilanna stærsta vandamálið á Íslandi á meðan fjárhagserfiðleikar bankanna eru stærsta vandamálið á Írlandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.11.2010 - 12:58 - 25 ummæli

Bankar á réttri leið

Skýrsla sérhóps um skuldaaðgerðir staðfestir að bankarnir hafa verið á réttri leið í sínum skuldaaðgerðum fyrir heimilin.  Það er sú leið sem hvað best hjálpar þeim verst stöddu (þó ekki verði öllum bjargað) og er hagkvæmust fyrir þjóðarbúið.  Almenn skuldaniðurfelling er dýr, óhagkvæm og tekur ekki á vanda þeirra verst stöddu.  Þetta eru auðvita vonbrigði og á vissan hátt álitshnekkir fyrir samtök heimilanna, Hreyfinguna og Framsóknarflokkinn, sem hafa hvað mest barist fyrir almennri 15-20% skuldaniðurfellingu,  en vonandi geta þau nú sameinast um aðgerðir byggða á niðurstöðum skýrslunnar.

Þó að þessi vinna sérhópsins hafi tekið lengri tíma en menn væntu er niðurstaðan skýr og studd staðreyndum.  Það er aðalmálið.  Nú hafa menn loksins þann talnagrunn staðreynda sem er nauðsynlegur til að hægt sé að vinna að skuldaaðlögun á traustan og ábyrgan hátt.

Ríkisstjórnin verður nú að móta sínar aðgerðir fljótt og örugglega og láta svo fjármálafyrirtækin um að vinna að lausn hvers og eins skuldara.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 16:49 - 12 ummæli

Heimatilbúin fjármálakreppa

Ísland er á margan hátt skólabókardæmi um hvað gerist þegar pólitísk öfl handstýra fjámálamarkaði sem er of lítill og veikburða til að standa á eigin fótum.

Gjaldeyrishöft, verðtrygging, lágmarks-raunávöxtun lífeyrissjóða og íbúðarlánakerfi sem er keyrt á verðtryggðri skuldabréfaútgáfu eru allt pólitískar tilraunir til að stýra ósjálfbæru fjármálakerfi. Alltaf er verið að reyna að finna skammtímalausnir sem taka á nýjasta vandanum, sem aftur hafa í för með sér langtímavandamál sem stigmagnast.

Þrátt fyrir fjármálamarkað sem á engan hátt líkist þeim sem okkar nágrannar búa við, þá trúa Íslendingar að þetta muni reddast eftir nokkur ár, aðeins þurfi meiri handstýringu.

Nýjasta dæmið er að setja þak á útlánsvexti sem virðist eiga að vera undir vaxtagólfi lífeyrissjóðanna! Ekki er öll vitleysan eins.

Hvernig á að auka hagvöxt og bæta lífskjör á sama tíma og fjármálakerfið er fært aftur í tímann til daga áætlunarbúskapar, er spurning sem fáir hafa áhyggur af, allt gengur út á að skara eld að sinni síminnkandi krónuköku.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 15:57 - 2 ummæli

Verst stöddu heimilin

Það er athyglisvert að rýna í skýrslu sérhóps um skuldaaðgerðir.  Meðalskuldir heimilanna eru 18 m kr.  10,700 heimili eru verst stödd.  Kostnaður við almenna skuldaniðurfærslu er 185 ma kr sem myndi nýtast 76,000 heimilum sem flest ráða við sínar skuldir.  Fyrir 185 ma kr. mætti útrýma skuldum allra þeirra heimila sem verst eru stödd.

Kannski ættu verst stöddu heimilin að setja á stofn samtök HVH!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 11:49 - 6 ummæli

Flöt lækkun dugar ekki

Ein athyglisverðasta niðurstaða sérfræðihóps um skuldaaðgerðir er dreifing húsnæðisskulda eftir ráðstöfunartekjum (bls. 8).  Sú kúrfa er ótrúlega flöt, sem segir okkur að þeir sem eru með lægstu ráðstöfunartekjurnar, þ.e. undir 3 m á ári fyrir hjón og 2 m á ári fyrir einstaklinga verður ekki bjargað með 20% flatri lækkun.  Þetta er stór hópur.  63% hjóna sem talin eru í vanda falla í þennan hóp og 43% einstaklinga.

Til að átta sig betur á þessu, er gott að draga kúrfuna sem hlutfall skulda á móti ráðstöfunartekjum.  Þá kemur í ljós að þeir sem eru ekki taldir í vanda, þ.e. hafa ráðstöfunartekjur yfir 6 m á ári eru með skuldahlutfall undir 300%.  Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 3m fyrir hjón (2m einstaklingar) eru hins vegar með skuldahlutfall yfir 600% og í sumum tilfellum upp í 1000%.

Flöt lækkun upp á 15-20% dugar ekki fyrir þennan stóra hóp skuldara.  Það þarf miklu róttækari aðgerðir til að bjarga þessum aðilum.  Enda kemur fram i skýrslunni að flöt lækkun lækkar lánin mest hjá þeim sem eru með hæstu tekjurnar.  Allir fá sömu prósentulækkun.

Einn helsti gallinn á skýrslunni er að flokka fólk í vanda og aðgerðir til handa þeim, ekki eftir skuldahlutfalli.  Það þarf að sníða aðgerðirnar eftir vandanum og hann er mjög mismunandi.

Hópurinn sem hefur skuldahlutfall undir 300% þarf engar aðgerðir, á milli 300%-600% dugar stighækkandi skuldaaðlögun eða lenging lána, fyrir hópinn yfir 600% eru lánin orðin ósjálfbær og allar venjulegar skuldaaðgerðir duga lítið.

Ein aðallexían af þessari skýrslu fyrir framtíðina er að takmarka lán við 300% af ráðstöfunartekjum.  Það tryggir betur en flest annað að heimilin lendi ekki í greiðsluvandræðum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.11.2010 - 18:29 - 12 ummæli

2% leiðin

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar  er að lækka vexti á íbúðarlánum úr 5% niður í 3%.  Reiknimeistarar stjórnvalda reikna og reikna og þjóðin bíður í ofvæni.

En hvað mun 2% leiðin þýða fyrir almenning.  Kíkjum á 5 mín. servíettureikning og notum tölur Íbúðarlánasjóðs.

Lán til einstaklinga hjá ÍLS eru um 600 ma kr.  Vextir eru 5%, vaxtaálag 1.4% og síðasta ávöxtunarkrafa íbúðarbréfa 3.6%.  Íbúðarlánasjóður var rekinn með 3 ma kr tapi á síðasta ári og miðað við vaxtaálag og ávöxtunarkröfu er lítið svigrúm til að lækka vexti.  Ríkið verður því að koma til hjálpar sem nemur um 12 ma kr á ári ef vextir eiga að lækka um 2%.  Hvernig ríkið ætlar að fjármagna upphæð sem nemur um 0.8% af landsframleiðslu er ráðgáta?  Fyrir þessa upphæð gæti ríkið tekið kúlulán upp á 200 ma kr á 6% föstum vöxtum.  Svo þarf líklega að auka eigið fé ÍLS úr 3% í yfir 5% ef þessi leið er farin, sem kallar á 7 ma kr.  Þetta er því ekki ódýr leið og þessi reikningur er aðeins fyrir ÍLS.  Til að fá heildaráhrif þarf að bæta bönkunum og lífeyrissjóðunum inn í dæmið.

Hver er þá munurinn á þessari leið og niðurfellingu?  Það fer eftir því hvað gerist í framtíðinni.

Með fallandi verðbólgu virðist þessi aðferð betri fyrir skuldug heimili, hún lækkar greiðslubyrðina meir en 20% niðurfelling myndi gera, alla vega, til að byrja með.  (Hún er líklega á við 25% niðurfellingu).  Því er auðvelt að selja hana.  En bíðum aðeins.

Kosturinn (eða ókostur) við þessa aðferð er að höfuðstólinn er óskertur.  Þegar hagkerfið tekur við sér er hægt að hækka vexti smátt og smátt og á síðustu metrunum eftir 5-10 ár, segjum, er hægt að setja inn vaxtaálag til að reyna að dekka mismuninn.  Þannig að yfir líftíma lánsins verða heildargreiðslur á núvirði sem næstar upprunalegum útreikningi.  Þannig er hægt að halda fjárfestum þægum.

Mikið veltur á forsendum og hagvexti í framtíðinni hvernig þetta reiknast.  Þetta er leið sem fjárfestar munu velja framyfir almenna niðurfellingu og því verður athyglisvert að sjá hvernig samtök heimilanna og VG taka svona útspili.

PS.  Ég hef hér gert ráð fyrir að 2% vaxtalækkun gildi aðeins fyrir einstaklinga, ef vextir á öllum útlánum ÍLS lækka, þarf að fjármagna gat upp á 15 ma kr í stað 12 ma kr.  Svo er spurning hvort fjármögnunarhjálp frá ríkinu verði túlkuð sem „ólöglegur“ ríkisstyrkur?  Eitt er víst, að það verður erfitt að fjármagna ný lán hjá ÍLS eftir svona aðgerð.  Ef lánstraust lækkar og ávöxtunarkrafan hækkar er erfitt að sjá að ÍLS hafi nokkra framtíð í núverandi formi.  Þegar ávöxtunarkrafa fjárfesta er um 3.5% er ekki hægt að lána á 3%, nema með niðurgreiðslum frá skattgreiðendum og lífeyrisþegum.  En eru þeir aflögufærir?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.11.2010 - 11:58 - 9 ummæli

Gott uppkast en hvað með fólkið?

Þorsteinn Pálsson skrifar í Fréttablaðið í dag um tillögur sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og það sama gerir Tryggvi Þór í Morgunblaðið.

Það er auðvelt að vera sammála bæði Þorsteini og Tryggva um að þessar tillögur sjálfstæðismanna eru þarft innlegg í umræðuna um endurreisn efnahagsmála á Íslandi.  Þar er tekið á hlutum sem þarf að lagfæra og hrinda í framkvæmd.  Tillögur í skattamálum eru ítarlegar og skynsamlegar en minna fer fyrir niðurskurðaráformum eins og búast má við enda erfiðara að selja þau kjósendum. Þá er lítið sem ekkert minnst á Icesave, AGS, ESB umsókn eða gjaldmiðlamál sem gera þessar tillögur þrengri og veikari fyrir vikið.

Þungamiðjan í áformum sjálfstæðismanna er að nota 80 ma kr „ónotaðan“ skattstofn í séreignarsjóðum.  Þetta er okkar síðasta stóra vopn til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, en það er einnota.  Ef okkur mistekst að höndla það rétt og sóum þessu fjármagni í ómarkvissar pólitískar aðgerðir verður fátt um fína efnahagsdrætti hér á landi í framtíðinni.

Og hér er komið að stærsta vandamáli við tillögur sjálfstæðismanna, hvernig verða þær framkvæmdar og af hverjum?   Bestu tillögur í heimi renna út í sandinn ef framkvæmdin klikkar.

Hefur sjálfstæðisflokkurinn farið í gegnum nægilega hreinsun eftir hrunið og fengið nógu marga nýja einstaklinga í brúnna sem njóta trausts og hafa reynslu til að fullmóta nýjar tillögur og koma þeim örugglega í höfn?  Eða togar gamla gengið enn í spotta á bak við tjöldin, sem gæti siglt öllu í annað strand?

Rannsóknarskýrsla Alþingis kennir okkur að veikasti hlekkurinn í okkar samfélagi er val á fólki til stjórnunar og framkvæmda.  Ef við veljum ekki besta fólkið, skipta tillögurnar litlu máli.  Og þetta á við um alla stjórnmálaflokka.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.11.2010 - 15:56 - 19 ummæli

Betri og ódýrari menntun

Menntun á Íslandi er dýr, ómarkviss og óskilvirk.  Það eiga að vera miklir möguleikar á að lækka útgjöld til menntamála án þess að það komi niður á gæðum.  Í raun eiga að vera meiri möguleikar að skera niður í menntamálum en heilbrigðismálum.

Kíkjum á tölur frá OECD og SÞ þessu til stuðnings.

Íslendingar eyða einna mest til menntamála af þróuðum ríkjum, eða 7.5% af landsframleiðslu.  Finnar eyða aðeins 5.9% og koma sterkt út í könnunum á gæðum og skilvirkni eins og PISA skýrslur benda til.  Hver grunnskóla kennslustund virðist betur nýtt í Finnlandi.  Á aldrinum 7 til 14 ára fá finnsk börn 5,500 klukkutíma í kennslu en íslensk börn 6,300.  Sem sagt, finnska grunnskólakerfið er ódýrara, afkastmeira og betra að gæðum.

Þegar kemur að framhaldsmenntun eru Íslendingar einnig eftirbátar Finna. Aðeins um 55% Íslendinga hafa framhaldsmenntun á móti 71% í Finnlandi.  Þá er kynjamunur hvergi meiri innan OECD í skólasókn en á Íslandi.  Drengir geta vænst þess að sækja skóla í 18.2 ár en stúlkur 20.2 ár.  Hér hallar því verulega á drengi.

Þegar kemur að háskólanámi er enginn íslenskur skóli meðal 100 bestu í heimi og þrátt fyrir gríðarlega kostnaðarsamt menntakerfi er fjármagn til rannsókna í lágmarki.

Það er því alveg ljóst að það þarf ekki aðeins að gera menntakerfið hér ódýrara heldur þarf að jafna mun kynjanna og auka gæðin og skilvirknina.

Spurningin er, ætlum við að nota tækifærið og bæta okkar menntakerfi um leið og við lækkum kostnaðinn, eða verður kostnaðurinn og gæðin skorin niður samtímis?

Heimildir: OECD, SÞ, Hagstofan

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur