Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn segja að ekki sé þörf á að rannsaka einkavæðingarferli ríkisbankanna. Og hver skyldu nú vera rökin fyrir þessari niðurstöðu? Hana finnum við á bls. 31 í bókun 3, í skýrslu þingmannanefndarinnar:
„Þingmennirnir Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir telja í ljósi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003, og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna, að frekari rannsókn á einkavæðingarferlinu við sölu ríkisbankanna skili samfélaginu engu. Jafnframt er hæpið að halda því fram að ekki hafi verið fagþekking til staðar við einkavæðingu bankanna þar sem HSBC, einn stærsti banki heims, var aðalráðgjafi við ferlið og erfitt að taka undir að hann búi ekki yfir fagþekkingu.“
Þessi bókun sýnir litla þekkingu á vinnubrögðum og stöðu ráðgjafa í ferlinu. Það er ekki nóg að hafa fagþekkingu, það þarf að miðla henni og svo þarf verkkaupi að hlusta, skilja og framkvæma. Það er margt í RNA sem bendir til að staða HSBC hafi ekki verið önnur en sú, að finna kaupendur og stilla þeim upp samkvæmt fyrirskipunum frá verkkaupa.
Svo er það spurningin um fagþekkingu HSBC á einkavæðingarferlum sem er fyrirfram gefin hér á landi. En er það svo?
HSBC er einn stærsti viðskiptabanki heims og þjónar fyrst og fremst einstaklingum og fyrirtækjum. Hann er ekki fremsti fjárfestingarbanki heims og ekki sá banki þangað sem ríkisstjórnir myndu endilega snúa sér til að fá ráðleggingar um einkavæðingarferli.
Sá banki sem hefur mesta reynslu í einkavæðingarferlum er, Rothschild banki, ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar á níunda og tíunda áratug 20. aldar þegar gríðarlega einkavæðing átti sé stað í Bretlandi. Á þessum grunni byggði Rothschild upp eina þá sterkustu ráðgjafadeild í einkavæðingu og hefur ráðlagt ríkisstjórnum og ríkisfyrirtækjum út um allan heim í einkavæðingarverkefnum, þar á meðal í Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ástralíu, Bretlandi, Serbíu og Jórdaníu til að nefna fáein lönd.
Á listum yfir fjölda einkavæðingaverkefna sem er tekin saman af Reuters er HSBC ekki að finna yfir 10 stærstu ráðgjafa, hins vegar er Rothschild yfirleitt þar í fyrsta sæti.
Á síðustu tveimur árum hefur Rothschild unnið með ríkisstjórnum í Hollandi, Írlandi og Danmörku við endurskipulagningu og endurfjármögnun banka sem löskuðust mikið í lausafjárkreppunni.
Hefði íslenska ríkisstjórnin valið Rothschild en ekki HSBC á sínum tíma hefðu hlutirnir kannski farið á annan hátt.
Það er full ástæða til þess að fara ofaní saumana á þessu máli og þar á meðal athuga hvers vegna þessi HSBC banki var fyrir valinu og hverjir innan hans voru svo valdir sem ráðgjafar og á hvaða forsendum?
Val á ráðgjöfum er aðeins hálfnað með því að velja fyrirtækið, val á fólki innan ráðgjafafyrirtækisins er alveg eins mikilvægt og oft það mikilvægasta.