Miðvikudagur 22.9.2010 - 08:32 - 2 ummæli

Enn um efnahagslegan stöðuleika

Í mogganum í dag birtist grein sem nefnist „Blekkingar ESB-sinna“ eftir Helga Helgason.  Þetta er góð grein um margt, en ein fullyrðing er á skjön við titil greinarinnar.

Þar segir:

Það sýna dæmin t.d. frá Grikklandi og Ítalíu. Efnahagslegur stöðuleiki í þessum ríkjum er sennilega verri en á Íslandi í dag.“

Nú vill svo til að ný skýrsla frá World Economic Forum tekur einmitt á efnahagslegum stöðuleika ríkja í heiminum fyrir 2010-2011.  Þar raðast 139 lönd þannig frá mestum stöðuleika til hins versta:

76. Ítalía

123. Grikkland

138. Ísland

139. Simbabve

Heimild: 2010 World Economic Forum, tafla 6.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.9.2010 - 15:01 - 28 ummæli

Falskar verðbólguvæntingar

Búist er við 1% vaxtalækkun hjá Seðlabankanum á morgun,  þar sem verðbólga hefur hjaðnað mikið og virðist enn á niðurleið.  En hversu lágt mun verbólgan síga áður en hún fer að rísa aftur?

Margt bendir til að Seðlabankinn sé að horfa í baksýnisspegilinn en ekki fram á við.  Vaxtalækkunarferlið hefði átt að byrja fyrr.  Verðbólguvæntingar á næsta ári eru, því miður ekki eins góðar og vænta mætti, og því er hætta á að þetta verði síðasta lækkunin.  Að því liggja nokkur rök:

  • Verðbólga hefur verið að aukast í okkar nágrannalöndum og er komin í 3.1% í Bretlandi og 2.1% fyrir evrulöndin.  Í Bretlandi mælist verðbólga neysluverðs fyrir utan húsnæði nú 4.7%.
  • Það sem hefur haldið verðbólgu í skefjum hér á þessu ári er styrking krónunnar, en verulega hefur hægt á þeirri styrkingu og hún mun varla halda áfram 2011.
  • Uppskerubrestur erlendis á korni og kaffi á eftir að hækka verð á matvælum og fóðri á komandi mánuðum.
  • Orkuverð á Íslandi á eftir að hækka. Taxtahækkanir OR koma til framkvæmda í október og það er aðeins byrjunin.
  • Kjarasamningar eru á lausu og óvíst er um stöðuleikasáttmálann.  Allar launahækkanir fara beint út í verðlagið, þar sem fyrirtækin berjast flest í bökkum.
  • Skuldir fyrirtækja eru að mestu leyti í erlendum gjaldeyri, þessi lán eru flest á óeðlilega lágum vöxtum miðað við lánstraust í dag.  Eftir því sem þessi lán eru endurfjármögnuð eða endurskoðuð, verða fyrirtæki að taka á sig hærri vaxtakostnað sem aftur verður velt út í verðlagið.

Hins vegar er ekki hægt að útiloka að Seðlabankinn ákveði að keyra raunvexti niður fyrir núllið um einhvern tíma, eins og gert hefur verið í mörgum löndum.  Það er þó mun vandasamar hér en erlendis vegna verðtryggingarinnar.   Það mundi leiða til mikillar eftirspurnar eftir óverðtryggðum lánum og verðtryggðum innlánum.

Ef allt er tekið með í reikninginn er vandséð að Seðlabankinn geti lækkað vexti meir en 0.5% á morgun.  En sjáum hvað setur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.9.2010 - 10:02 - 7 ummæli

Að reka „eigið“ bú á háum vöxtum

Nýtt skuldabréf LV sem ber 6.5% vexti í dollurum gefur góða innsýn í hvað það þýðir að reka fyrirtæki á háum vöxtum.

Samkvæmt ársreikningi LV fyrir 2009, eru langtímaskuldir um 2,700 m dollara og af því eru um 2,400 m í dollurum og evrum og bera meðalvexti upp á 1.8%.  Hækkun um 1% þýðir hækkaðan vaxtakostnað á þessum lánum upp á 24 m dollara.

Ef meðalvextir á þessum lánum hækka upp í 6.5% þýðir það aukin vaxtagjöld upp á 112.8 m dollara.  Nú var rekstrarhagnaður LV fyrir 2009, 114.8 m dollarar, þannig að þessi aukni vaxtakostnaður þurrkar út svo til allan hagnað.

Þannig geta útlendingar stillt af sín vaxtakjör svo að allur hagnaður renni beint í þeirra vasa.  Formlegt íslenskt eignarhald er ekki mikils virði í krónum og aurum ef allur rekstrarhagnaður rennur úr landi.

Seðlabankinn keyrir nú innlenda vexti niður sem auðvita hjálpar heimilunum og fyrirtækjum til skamms tíma, en ef þessi innlenda lækkun verður til þess að gjaldeyrishöftin festast í sessi og erlent lánstraust helst áfram veikt, munu við að hluta til borga þessa lækkun með hærra erlendu vaxtaálagi.  Hér þarf Seðlabankinn að feta sig varlega, því það er ekki bæði haldið og sleppt.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.9.2010 - 15:05 - 22 ummæli

FIH á brunaútsölu

Danir hafa þvingað fram brunaútsölu á FIH bankanum sem Seðlabankinn lánaði nær 80 ma kr. rétt áður en Kaupþing hrundi.  Eftir að hafa selt Íslendingum bankann á yfirverði (um 160 ma kr.)  fá Danir hann nú aftur tilbaka á slikk.  Sá hlær best sem síðast hlær.

Kaupverðið hefur ekki verið uppgefið og dönskum heimildum ber ekki saman um verðið.  Samkvæmt TV2 er talað um verð í kringum 40 ma kr.  Ef þetta er rétt mun Seðlabankinn þurfa að afskrifa um helming af láni sínu til Kaupþings, en fyrir þá upphæð væri hægt að reka Landspítalann í rúmt ár.  Samkvæmt Berlinske Tidende er verðið hærra, allt að 80 ma kr. sem nægði til að dekka skuldina, en þetta er ekki staðgreiðsluverð heldur mun verðið vera háð afkomu bankans á næstu árum.

Hvert sem hið endanlega verð verður eru Danir að gera reyfarakaup.  Sölunni verður að vera lokið fyrir 30. september svo kaupendur sitja bara sallarólegir og bíða.  Þeir vita sem er, að með Icesave í klemmu eru flestar leiðir lokaðar Íslendingum og því er hægt að eignast bankann á miklu undirverði.

Icesave deilan verður líklega talsverð búbót fyrir danska lífeyrissjóði.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.9.2010 - 10:01 - 7 ummæli

Gjaldeyrislánin geta orðið dýrari

Margir munu sitja og velta fyrir sér hvað þeir eigi að gera með sín húsnæðislán.  Fólk með gjaldeyrislánin virðast hafa eftirfarandi val:

1. Óverðtryggð íslensk lán

2. Verðtryggð lán

3. Lán í erlendri mynt (nýir samningar)

Þetta er ekki einfaldur samanburður og erfitt verður fyrir marga að átta sig á hvernig lánin geti þróast í framtíðinni.  Það sem gerir þetta sérstaklega erfitt er að vaxtakúrfurnar eru óvenjulega brattar í  augnablikinu, en kannski auðveldar það dæmið að íslenska kúrfan er negatíf á meðan sú erlenda, miðað við núverandi lánstraust, er pósitíf.

Miðað við nýjust tölur frá ríkinu og Landsvirkjun (bæði með sama lánstraust) má áætla að fjármagnskostnaður íslensku bankanna sé orðinn 150-200 punktum (1.5%-2%) hærri í gjaldeyri en íslenskum krónum, þ.e.a.s. ef erlendir markaðir væru opnir bönkunum.  Þetta skiptir máli, því ef bankarnir ætla að bjóða nýja og löglega gjaldeyrislánasamninga til sinna viðskiptavina er erfitt að sjá að þeir taki ekki mið af markaðsaðstæðum.  Varla er forsvaranlegt að kúnnar með íslensku lánin fari að  „niðurgreiða“ erlendu lánin.  Þessi staða gæti auðvita breyst með árunum, þegar og ef,  lánstraustið batnar, en það fer líka eftir hvers konar ákvæði verða sett í nýju samningana.  Hins vegar verður að segjast, að þeir sem ekki hafa tekjur í erlendum gjaldeyri eiga ekki að taka lán í gjaldeyri og þegar þessi vaxtamunur leggst ofan á dæmið,  er vandséð að það verði í hag neytenda að taka svona lán.

Þá komum við að hinni spurningunni, verðtryggð eða óverðtryggð íslensk lán?  Óverðtryggðu lánin hafa nú oftast reynst neytendum betur en þau verðtryggðu í gegnum söguna, þess vegna var þessi verðtrygging sett á!  Söguleg staðreynd, sem vert er að hafa í huga en þarf ekki endilega að vera rétt í framtíðinni.  Óverðtryggðu lánin hafa þó þann kost að þau eru auðveldari að reikna og átta sig á.  Sérstaklega á þetta við óverðtryggð lán með fasta vexti.

Ef Seðlabankinn lækkar vexti myndarlega nú í september eru komnar kjöraðstæður fyrir neytendur að taka óverðtryggð lán á föstum og viðráðanlegum vöxtum.  Best er að taka lán með föstum vöxtum þegar vaxtakúrfan er að nálgast botninn, en margt bendir til að þeim botni verði náð á næstu 12 – 18 mánuðum.  Vandamálið fyrir íslensku bankana verður að telja innlánseigendum trú um að sparifé þeirra sé best geymt á óverðtryggðum reikningum.   Ef innlánseigendur fara yfir í verðtryggingu á meðan lántakendur velja óverðtryggð kjör myndast ójafnvægi í rekstri bankanna.

Að síðustu verða menn að líta á verðbólguvæntingar í framtíðinni.  Þó verðbólga sé ekki vandamál í heiminum í dag er Ísland sérdæmi.  Hin gríðarlega gengisfelling hér fyrir 2 árum og há skuldabyrði hafa skapað þrýsting fyrir verðhækkunum sem ekki eru að fullu komnar fram.  OR er gott dæmi og hvað með lausa kjarasamninga?

Það gæti því verið klókt að vera með lánin óverðtryggð en sparnaðinn verðtryggðan í framtíðinni.  Rétt tímasetning skiptir hér miklu máli, en íslensk óvissa eins og íslenska veðrið getur alltaf sett strik í þennan reikning.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.9.2010 - 09:44 - 14 ummæli

Eðlilegt framhald

ESB aðild er eðlilegt framhald af AGS prógramminu.  Ástæða þess að hlutirnir eru ekki verri en þeir eru í dag, er aðstoð AGS.  Án sjóðsins væri ástandið hér hörmulegt.  En meðferðinni er alls ekki lokið, enda vita allir hvað gerist þegar alkóhólistar ljúka ekki meðferð.  Erlendir aðilar búast flestir við að næsta skref okkar sé innganga í ESB, aðeins þannig getum við endurvakið traust og trúverðugleika á íslensku samfélagi.  Þegar kemur að hagstjórn, fjármálamörkuðum og framkvæmd laga erum við enn stimpluð sem þróunarland, tveimur árum eftir hrun. 

Við lítum út eins og glæsiverslun, full af fínum varningi, sem getur aðeins afgreitt viðskiptavini sem eru með reiðufé, aðrir geta bara skoðað og margir koma og skoða, þannig að allir eru á hlaupum og allt virðist brjálað að gera.  Viðskiptavinir eru hins vegar tvístígandi því verslunin hefur slæmt orð á sér, stendur illa við vöruábyrgðir, skilaréttur er ótryggur og varahlutir eru oft ófáandi.  Þá er leiga, skattar og skuldir að sliga verslunina en því var reddað með því að breyta kaupi starfsmanna í inneignarnótur og slá lán hjá vinveittum nágrönnum, þegar bankinn lokaði á yfirdráttinn.  Ekkert fé er til í viðhald eða þróun.  Nú hefur versluninni boðist að gerast aðili að erlendri keðju sjálfstæðra verslana, þar sem hún fengi hjálp við að endurskipuleggja reksturinn og aðgang að  sameiginlegum lager og bankaþjónustu.  Starfsmenn eru hins vegar alls ekki sannfærðir enda, eins og þeir segja, eru allar hylllur fullar af vörum og allt brjálað að gera og svo segir starfsmannablaðið að inneignarnótukerfið hafi bjargað versluninni og að allt erlent samstarf sé ógn við sjálfstæði verslunarinnar.  Nokkrir óprúttnir starfsmenn hafa vogað sér að segja að staða verslunarinnar sé ekki eins góð og hyllurnar gefi í skyn og að starfsmenn séu orðnir að láglaunastétt, en allt svona tal er blásið af sem óheilindi og fólki sagt að hypja sig ef það er ekki ánægt með kjörin.  Það eru jú aðrar verslanir í næsta nágrenni þar sem menn fá borgað í alvöru peningum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.9.2010 - 22:58 - 28 ummæli

Pólitískur forseti

Ólafur Ragnar Grímsson segir í Kína, hvers konar klúbbur er ESB?  Nær væri að spyrja, hvers konar forseti er ÓRG?

Þegar forseti Íslands er farinn að gagnrýna ESB, samtök sem eru eitthvað sterkasta aflið í heiminum sem berjast fyrir mannréttindum, í landi eins og Kína þar sem mannréttindi eru fótum troðin hefur Lýðveldið Ísland ná enn einum lágpunkti.  Lengi getur vont versnað, er það eina sem maður getur sagt.

Hér er forseti sem viðurkennir að hann gapti allt of mikið upp í ginið á spilltum útrásarvíkingum farinn að mæra Kína og gagnrýna Evrópu.  Alveg er það ótrúlegt hvað Íslendingar eru svagir fyrir einræðisöflum!

Eitt er víst, ÓRG hefur gjörsamlega tvístrað embætti forseta Íslands, það er ekkert sameiningartákn lengur.  Embættið er orðið hápólitískt og Ísland fátækara fyrir bragðið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.9.2010 - 08:37 - 4 ummæli

Mannlegur breyskleiki

Nú virðast endurskoðendur hafa bæst í hóp stjórnmálamanna, bankamanna, eftirlitsaðila, embættismanna og annarra sem brugðust fyrir hrun.

Það er æ betur að koma í ljós að það var ekki hugmyndafræðin eða lagaramminn sem brást.  Það var fólkið við völd sem brást.  Fólk sem hafði ofurtrú á sjáflu sér, blindaðist af eigin heimi og viðhlæjendum.  Fólk sem sýndi taust en gleymdi að sannreyna. 

Varnir valdsmanna fyrir hrun eru farnar að líkjast vörnum varnamálaráðherra Bandaríkjanna, Donald Rumsfelds fyrir Íraksstríðið.  Eða eins og Rumsfeld sagði:

„There are known knowns. These are things we know that we know.  There are known unknowns. That is to say, there are things that we know we don’t know.  But there are also unknown unknowns. There are things we don’t know we don’t know.“

Eini munurinn er að hjá Geir og Ingibjörgu virðist allt íslenskt samfélag hafa verið  „unknown unknowns“, eða var það kannski „known unknowns“?. 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.9.2010 - 07:04 - 24 ummæli

Engin velferð án velmegunar!

Danir hafa áhyggjur af því að þjóðartekjur þeirra muni ekki vaxa nógu hratt í framtíðinni til að viðhalda norrænu velferðarkerfi.  Nú geta menn yfirleitt verið sammála um að danskt efnahagslíf stendur sterkari fótum en hið íslenska.  Hvað þá með framtíð velferðarkerfisins á Íslandi?

Danir líta á stærð og vöxt á landsframleiðslu á mann sem lykilstærð til að meta stöðu og framtíð velferðarkerfisins.  Aðeins lönd sem hafa hæstu landsframleiðslu á mann hafa efni á norrænu velferðarkerfi.

Samkvæmt tölum frá AGS fyrir 2009, var landsframleiðsla á mann í Danmörku í 5. sæti meðal þjóða heims (USD 56,115, nominal gdp) á meðan Ísland var í 19. sæti (USD 37,997, nominal gdp).  Landsframleiðsla á mann á Íslandi er aðeins 2/3 af landsframleiðslu í Danmörku.  Nú hafa þessar tölur ekki verið leiðréttar fyrir kaupgetu (PPP) og þar sem launataxtar eru mun lægri hér á Íslandi en í Danmörku getur hver dollari keypt fleiri vinnumínútur hér á landi.  Á móti kemur að miklar skuldir Íslands eru í gjaldeyri og aðföng eru að miklu leyti verðlögð í gjaldeyri þannig að það vegur upp á móti lágum launum.

Ekki aðeins eru tekjur okkar þær lægstu á Norðurlöndunum, stærsti hluti ríkisútgjalda í framtíðinni mun fara í vaxtagreiðslur til útlendinga, þannig að ekki verður mikið eftir til að halda uppi norrænu velferðarkerfi.

Í augnablikinu eru við í skjóli AGS og hinna Norðurlandanna, sem halda hlutunum gangandi á meðan við skerum niður og hækkum skatta.  En spurningunni um hvernig við viðhöldum norrænu velferðarkerfi á lágum tekjum og háum skuldum þegar hönd AGS sleppir er enn ósvarað.

Svo virðist sem að stærsti hluti þjóðarinnar setji traust sitt á „þetta reddast“ en þetta mun alls ekki reddast nema að við stóraukum gjaldeyrissköpun og framleiðslu okkar.  2 árum eftir hrun er fátt sem bendir til að við getum búist við sterkum útflutningsvexti í framtíðinni.  Þar með er framtíð velferðarkerfisins í mikilli hættu hér.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.9.2010 - 11:45 - 14 ummæli

Hæpin einkavæðingarrök

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn segja að ekki sé þörf á að rannsaka einkavæðingarferli ríkisbankanna.  Og hver skyldu nú vera rökin fyrir þessari niðurstöðu?  Hana finnum við á bls. 31 í bókun 3, í skýrslu þingmannanefndarinnar:

„Þingmennirnir Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir telja í ljósi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003, og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna, að frekari rannsókn á einkavæðingarferlinu við sölu ríkisbankanna skili samfélaginu engu. Jafnframt er hæpið að halda því fram að ekki hafi verið fagþekking til staðar við einkavæðingu bankanna þar sem HSBC, einn stærsti banki heims, var aðalráðgjafi við ferlið og erfitt að taka undir að hann búi ekki yfir fagþekkingu.“

Þessi bókun sýnir litla þekkingu á vinnubrögðum og stöðu ráðgjafa í ferlinu.  Það er ekki nóg að hafa fagþekkingu, það þarf að miðla henni og svo þarf verkkaupi að hlusta, skilja og framkvæma.  Það er margt í RNA sem bendir til að staða HSBC hafi ekki verið önnur en sú, að finna kaupendur og stilla þeim upp samkvæmt fyrirskipunum frá verkkaupa.

Svo er það spurningin um fagþekkingu HSBC á einkavæðingarferlum sem er fyrirfram gefin hér á landi.  En er það svo?

HSBC er einn stærsti viðskiptabanki heims og þjónar fyrst og fremst einstaklingum og fyrirtækjum.  Hann er ekki fremsti fjárfestingarbanki heims og ekki sá banki þangað sem ríkisstjórnir myndu endilega snúa sér til að fá ráðleggingar um einkavæðingarferli.

Sá banki sem hefur mesta reynslu í einkavæðingarferlum er, Rothschild banki,  ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar á níunda og tíunda áratug 20. aldar þegar gríðarlega einkavæðing átti sé stað í Bretlandi.  Á þessum grunni byggði Rothschild upp eina þá sterkustu ráðgjafadeild í einkavæðingu og hefur ráðlagt ríkisstjórnum og ríkisfyrirtækjum út um allan heim í einkavæðingarverkefnum, þar á meðal í Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ástralíu, Bretlandi, Serbíu og Jórdaníu til að nefna fáein lönd.

Á listum yfir fjölda einkavæðingaverkefna sem er tekin saman af Reuters er HSBC ekki að finna yfir 10 stærstu ráðgjafa, hins vegar er Rothschild yfirleitt þar í fyrsta  sæti.

Á síðustu tveimur árum hefur Rothschild unnið með ríkisstjórnum í Hollandi, Írlandi og Danmörku við endurskipulagningu og endurfjármögnun banka sem löskuðust mikið í lausafjárkreppunni.

Hefði íslenska ríkisstjórnin valið Rothschild en ekki HSBC á sínum tíma hefðu hlutirnir kannski farið á annan hátt.

Það er full ástæða til þess að fara ofaní saumana á þessu máli og þar á meðal athuga hvers vegna þessi HSBC banki var fyrir valinu og hverjir innan hans voru svo valdir sem ráðgjafar og á hvaða forsendum?

Val á ráðgjöfum er aðeins hálfnað með því að velja fyrirtækið, val á fólki innan ráðgjafafyrirtækisins er alveg eins mikilvægt og oft það mikilvægasta.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur