Laugardagur 11.9.2010 - 15:59 - 10 ummæli

Hneisa Alþingis

Varla er hægt að hugsa sér verri útkomu en að þingið klofni í afstöðu sinni til RNA út frá pólitískum línum og vinskap.

En var raunhæft að ætlast til að þingmenn gætu tekið hlutlaust á sjálfum sér og sínum samstarfsmönnum til margra ára?

Það er ljóst að ef þingmenn geta ekki tekið heilshugar á þessu máli, þá er það kjósenda að taka til á Alþingi, og það strax.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.9.2010 - 20:30 - 27 ummæli

Icesave að hætti Kafka

Nýr viðskiptaráðherra hefur gefið Icesave málinu ákveðinn Kafka blæ, enda virðist allt hafa verið reynt hingað til, svo ekki er vitlaust að reyna að fríska aðeins upp á málið með nýjum manni!

Ekkert gengur að semja um vextina sem við eigum að borga og því er skynsamlegt að fara dómstólaleiðina til að fá reikninginn felldan niður.  Aðeins Íslendingar og söguhetjur úr Kafka skáldsögum myndu eyða nærri 2 árum í að semja um skuld sem þeir vita ekki af hverju þeir eiga að borga, eða þannig sko.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.9.2010 - 14:48 - 19 ummæli

Simbabve norðursins

Samkvæmt nýrri skýrslu World Economic Forum er Ísland það land á norðurhveli jarðar þar sem minnstan þjóðhagslegan stöðuleika er að finna.  Á suðurhveli er Simbabve með þennan vafasama heiður.  Þetta hljómar ótrúlega, en hvað er það sem fellir Ísland.  Samkvæmt skýrslunni eru það sex þættir:

  1. Ríkishallinn sem er sá versti af öllum 139 löndunum
  2. Háar skuldir ríkissjóðs
  3. Mikil verðbólga
  4. Lítill sparnaður sem hlutfall af landsframleiðslu
  5. Hár mismunur á milli útláns- og innlánsvaxta
  6. Lélegt lánstraust

Auðvita hefur ýmislegt unnist í þessum málum hjá ríkisstjórninni með tilstuðlan AGS, en þessar tölur tala sínum máli, á ákveðnum tímapunkti var staðan þessi.  Hins vegar sýnir svona skýrsla hversu afleitt það er að hafa ekki sjálfstæða og viðurkennda Þjóðhagsstofnun sem getur miðla upplýsingum til erlendar aðila og sett svona skýrslur í rétt samhengi.  Seðlabankinn og íslensku ráðuneytin hafa ekki traust eða trúverðugleika til þessa verks, enda sýndi sú vandræðalega staða nýlega þegar fjármálaráðherra og Hagstofan voru á öndverðum meiði varðandi hagvöxt, best, hversu erfitt það er að fá trúverðugar og tímanlegar upplýsingar um íslenska hagkerfið.  Í augnablikinu er það aðeins AGS sem getur miðlað traustum og trúverðugum upplýsingum, það er sú eina stofnun sem hefur alþjóðlega viðurkenndan gæðastimpil hér á landi.

En aftur að skýrslunni, því þar er ýmislegt annað að finna.  Til dæmis er athyglisvert að skoða hvað erlendir aðilar telja helstu vandamál við atvinnusköpun á Íslandi.  Þar eru topp 5 atriðin þessi:

  1. Lélegt aðgengi að fjármagni
  2. Gjaldeyrishöftin (sem eru númer 137, aðeins 2 önnur lönd hafa strangari höft en Ísland)
  3. Verðbólga
  4. Skattar
  5. Pólitískur óstöðuleiki

En það er ekki allt svart í þessari skýrslu, þegar kemur að netaðgangi í skólum er Ísland í fyrsta sæti.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.9.2010 - 08:32 - 21 ummæli

Þjóðhagslegur stöðuleiki: 138. Ísland – 139. Simbabve!

Þá er komin erlend staðfesting á því að þjóðhagslegur stöðuleiki á Íslandi og í Simbabve eru þeir verstu í víðri veröld.  Í nýju riti Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir samkeppnisstöðu 139 ríkja 2010-2011 lendir Ísland í 138. sæti hvað varðar þjóðhagslegan stöðuleika (stability of the macroeconomic environment). Neðstu fimm sætin verma:

135. Malaví

136. Gana

137. Jamaíka

138. Ísland

139. Simbabve

Grikkland er ekki langt undan og lendir í 132. sæti.

Nú byggir þessi skýrsla á 10 samkeppnisþáttum og þjóðhagslegur stöðuleiki er aðeins einn af tíu.  Sem betur fer skorar Ísland hærra á hinum níu þáttunum nema þegar kemur að samkeppnisstöðu íslensk fjármálamarkaðar (financial market development) þar lendir Ísland í 122. sæti tveimur sætum neðar en Íran og 29 sætum neðar en Grikkland.

Þessi skýrsla verðu eflaust afgreidd á hinn klassíska íslenska hátt:  útlendingar misskilja stöðu Íslands, þetta er byggt á gömlum tölum, algjör viðsnúningur hefur átt sér stað síðan þetta var sett saman, hvað vita útlendingar um Ísland og ef þetta dugar ekki, þá er þetta samantekið samsæri til að ná yfir íslenskum auðlindum með því að sverta gott nafn Íslands.

Sama hvernig þetta verður matreitt innanlands, þá lesa menn þetta í hinum stóra heimi og hér er á ferðinni vönduð og vel unnin skýrsla samin af óháðum aðilum.  Það er erfitt að sjá að margir erlendir bankamenn geti afgreitt lán til Íslands með svona staðreyndir í höndunum.  Við komumst ekki út úr svona stöðu nema með mikilli erlendri hjálp fyrst frá AGS og svo í gegnum aðild að ESB.  Að reyna að standa ein og toga sig upp úr 138. og 122. sæti mun taka áratugi  ef það yfir höfuð mun takast.

Það er gjörsamlega óforsvaranlegt að leggja svona byrgðar á næstu kynslóð sem verður þá kynslóð hinna tapaðra tækifæra.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.9.2010 - 19:51 - 5 ummæli

Hver lánar Íslandi?

Martin Wolf er einhver besti dálkahöfundur á Financial Times og er samkeppnin ansi hörð á því gæðablaði.  Financial Times er eitthvert hið virtast og áhrifamesta dagblað í Evrópu og ekkert blað er t.d. tekið jafn alvarlega og FT, í aðalstöðum ESB í Brussel.  Það er hrein unun að lesa FT og eitt blað er á við heilan árgang af mogganum.

Martin Wolf er Íslendingum vel kunnur enda hefur hann skrifað mikið um íslensku kreppuna og fyrr á árinu sagði hann eftirfarandi um Icesave:

“This is not about cutting a running deficit, which is, indeed, unavoidable. It is about forcing innocent people to assume gigantic liabilities for which they have no legal or moral responsibility. How would UK citizens feel if they were forced to assume a debt of £400bn because of HSBC’s failure to meet deposit insurance liabilities in Asia? Let the UK take the bank’s assets and leave it at that.”

Í dag skrifar Martin athyglisverða grein um Þjóðverja, sparifé þeirra og ESB.  Hann heldur því fram að Þjóðverjar hafi hlotið góðs af ESB og evrunni.  Evran hefur hjálpað Þjóðverjum að viðhalda samkeppnistöðu sinni á alþjóðamörkuðum.  Ef þeir hefðu haft sitt mark væri það eins og jenið í hæstu hæðum og tefði fyrir allri endureins í Þýskalandi og Evrópu.  Þannig hefur evran haldið aðalvél evrópska hagkerfisins vel smurðri og gangandi.

En það er einnig dökk  hlið á reynslu Þjóðverja af þessari kreppu.  Þeir vanmátu áhættuna af því að fjárfesta í jaðarríkjum Evrópu.  Þeir munu læra af þessari reynslu alveg eins og þeir lærðu af reynslu sinn af óðaverðbólgu á Weimer tímanum.  Aldrei aftur verðbólga, aldrei aftur óábyrg fjárfesting í erlendum ríkjum.  Martin heldur því fram að Þjóðverjar munu nú fara með sitt sparifé til Asíu, í orku og námuvinnslu og svo í fjárfestingar innan Þýskalands.  Þetta boðar ekki gott fyrir jaðarríki Evrópu sem hafa haldið uppi velferð  og lifistandard langt umfram getu á kostnað Þjóðverja.  Hverja er þá nú hægt að platað til að borga brúsann, spyrja menn á jaðrinum?  Líklega verða fáir til að taka það hlutverk að sér, nema þá næsta kynslóð sem búsetur sig í jaðarríkjunum.

Íslendingar hafa alltaf notið góðs af þýskum lánum.  Þýskir bankar hafa alltaf verið meðal bestu lánveitenda, boðið góð kjör og spurt fárra spurninga.  En varla lengur.  Í framtíðinni verður bæði eftirspurn eftir þýsku sparifé miklu meiri en áður og þeir mun varkárari.  Vanséð er að Þjóðverjar eða þá einhverjir aðrir láni neitt til Íslands nema til orkuvinnslu og þá aðeins að þeir hafi völd til að grípa inn í atburðarásina ef Íslendingar ætla að stefna með allt saman, eina ferðina enn, fram af Látrabjargi, en, nota bene, á löglegum hraða.


Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.9.2010 - 19:01 - 10 ummæli

ASÍ og krónan

Það er engin furða að Gylfi Arnbjörnsson sé fúll út í krónuna.  Þeir sem standa í útflutningi hafa sjaldan haft það eins gott og núna, sérstakleg þeir sem ekki skulda mikið.  Íslenskir launamenn hafa tekið á sig stórfellda launaskerðingu sem hlutfall af útflutningstekjum, þessi skerðing rennur að miklum hluta beint í vasa útflutningsaðila sem hafa því meir á milli handanna sem kjör launafólks versna.

Það má því búast við miklum átökum þegar allir kjarasamningar liggja á lausu seinna á þessu ári.  Gylfi mun þrýsta fast á að bæta sínum mönnum launatapið sem hefur bætt rekstrarstöðu útflutningsaðila.  En það verður á brattann að sækja að hækka gengið.

Þar sem  erlendar skuldir þjóðarbúsins eru í hæstu hæðum er lítið svigrúm til að hækka gengið.  Lágt gengi er nefnilega nauðsynlegt til að gjaldeyrisafgangur verði til í landinu til að borga útlendingum vexti og afborganir.  Hærra gengi leiðir einfaldlega til greiðslufalls í erlendum gjaldeyri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Þetta er hin mikla þversögn á milli gengis og gjaldeyris sem margir átta sig ekki á.

Það sem gerir stöðuna svo enn verri er að öll þessi erlendu lán hafa að litlum hluta farið í gjaldeyrisskapandi verkefni og fæst þeirra fóru í verkefni sem geta staðið undir höfuðstól og vaxtagreiðslum í alvöru gjaldmiðli.  Því verður að borga af þessum lánum með því að skera niður, hækka skatta, hækka verð og taxta, lækka laun og fella gengið.

Það er erfitt að sjá hvernig hrein vinstri stjórn ætlar að taka á svona vandamáli án þess að valda launþegum vonbrigðum.

Við erum núna í ákveðnu logni hvað varðar gengi og verðbólgu en stormskýin hrannast upp.  Útlitið fyrir 2011 er ekki gott, búast má við lægra gengi og hærri verðbólgu.  Ófriður á vinnumarkaði mun alls ekki bæta þá stöðu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.9.2010 - 09:50 - 9 ummæli

Kosningar í Svíþjóð

Í þessum mánuði ganga Svíar til þingkosninga.  Stærsti stjórnmálaflokkurinn í Svíþjóð mælist nú Moderaterna, velferðarflokkur hægra megin við miðju sem styður ESB samstarf og aðild.

Eins og í Danmörku eru sósíaldemókratar ekki lengur stærsti stjórnmálaflokkurinn, kjósendur fylkja sér nú um flokka hægra megin við miðju sem setja velferð, atvinnu og ESB samstarf  á oddinn.

Kjósendur í þessum löndum vita að aðeins með öflugri hagstjórn sem skilar hæstu mögulegum þjóðartekjum á mann er hægt að halda uppi sterku norrænu velferðarkerfi.

Í Danmörku og Svíþjóð bjóða stjórnmálaflokkar upp á 21. aldar praktíska hugmyndafræði.  Þessir flokkar endurnýja sig í takt við tímann en eru ekki fastir í 20. aldar úreltri hugmyndafræði sem skilar engu nema stöðnun.

Þegar við lítum til okkar nágranna eru flokkaskipan og stjórnmálastefna hér á landi í molum.  Hér hefur ekki orðið nein raunveruleg endurnýjun, hvorki þegar kemur að hugmyndum eða fólki.  Sömu gömlu rullurnar og rassarnir.

Það verður engin efnahagsleg endurreisn hér á landi fyrr en þjóðin fær kjark og þor til að umbreyta stjórnmálaflokkunum og þeirra hagsmunahópum.  Ný framboð er ekki lausnin nema að hluta til, algjör uppstokkun þarf að eiga sér stað innan gömlu flokkanna og það gerist aðeins með nýju fólki úr nýrri kynslóð.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.9.2010 - 11:20 - 10 ummæli

Enginn vill Þjóðhagsstofnun?

Nýlegar tölur frá Hagstofunni sem stangast á pólitískar glansmyndir Jóhönnu og Steingríms sýna enn eina ferðina, fram á nauðsyn þess að endurreisa Þjóðhagsstofnun.  Enginn stjórnmálaflokkur berst fyrir að hér rísi óháð og sjálfstæð stofnun sem geti sett fram þjóðhagsspár byggða á bestu fáanlegum staðreyndum en ekki pólitískum spuna.

Davíð lagði þessa stofnun niður vegna þess að hún passaði ekki inn í mynd sjálfstæðismanna og framsóknar og það sama virðist vera upp á teningnum núna hjá vinstri grænum og samfylkingunni.  Aldrei á orðtakið, „það er sami rassinn undir öllum stjórnmálamönnum“, betur við en þegar rætt er um Þjóðhagsstofnun.  Stjórnmálamenn allra flokka vilja jú mata kjósendur á sínum upplýsingum og ekki hafa einhverja sem geta spillt þeirri matreiðslu.  Allt tal um að Seðlabankinn eða ráðuneytin sinni þessu starfi er ótrúverðugt eins og tölur Hagstofunnar sýna.

Hagstofan er ein af fáum opinberum stofnunum sem enn nýtur trausts og virðingar, en Hagstofan horfir aftur í tímann, á meðan Þjóðhagstofnun horfir fram á veginn.  Þessar tvær stofnanir eru undirstaða áreiðanlegra efnahagsupplýsinga í öllum löndum þar sem hagstjórn er rekin á ábyrgan hátt.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.9.2010 - 07:31 - 3 ummæli

Fjárfestingar í sögulegu lágmarki

Ný skýrsla Hagstofunnar staðfestir alls ekki að kreppunni sé lokið, því miður.  Í raun er staðan alvarlegri og verri en margir vilja viðurkenna.  Sérstaklega á þetta við tölur um fjárfestingar.

Samdráttur í fjárfestingum 2009 var 50.9% og er aðeins um 14% af landsframleiðslu og með því lægsta innan OECD.  Afgangur af erlendum viðskiptum hefur stóraukist á sama tíma en þessir peningar hafa ekki farið í innlenda fjárfestingu heldur runnið í vasa útlendinga.

Án fjárfestinga verður ekki eðlileg endurnýjun eða nýsköpun í atvinnulífinu.  Við göngum á eignir byggðar upp fyrir hrun.  Smátt og smátt verður hagkerfið hér óhagkvæmara.  Erfitt verður að koma atvinnulausum í nýja vinnu og gengisfellingar verða eina „töfralausnin“ sem landsmönnum verður boðið upp á.

Spurningin er svo, hvað skeður þegar lán AGS og Norðurlandanna renna út?  Þau fara nefnilega í að halda hagkerfinu og velferðinni gangandi.  Ef þeirra gætti ekki væri landið sokkið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.9.2010 - 07:27 - 6 ummæli

Árni, Jóhanna og Icesave

Það er varla tilviljun að skömmu eftir að Reykjanesbær lendir í greiðslufalli eru Íslendingar dregnir að Icesave samningaborðinu og Jóhanna neyðist til að söðla um í ríkisstjórninni.  Enn eina ferðina er það erlendur veruleiki sem þrýstir á Íslendinga. 

Það er deginum ljósara að á meðan ósamið er um Icesave verða allir erlendir lánamarkaðir áfram lokaðir.  Þar sem við eigum ekki nógan gjaldeyri til að standa undir norrænu velferðarkerfi og borga erlendar skuldir á sama tíma, verður eitthvað að gefa eftir ef ekki kemur til endurfjármögnunar.  Í augnablikinu eru það AGS og hin Norðurlöndin sem niðurgreiða lán til okkar svo að allt virðist slétt og fínt á yfirborðinu – landið rís í þeirra boði – en hversu lengi?

Með Icesave ósamið,  AGS á leið úr landi og enga pólitíska einingu um framtíðarstefnu og markmið er tíminn að renna okkur úr greipum.  Sú stund færist æ nær þegar Norðurlöndin og AGS munu segja, hingað og ekki lengra.  Þá rennur hinn kaldi raunveruleiki upp.  Þá er að hrökkva eða stökkva.  Þá verðum við að ákveða hvort við ætlum að vinna í sátt og samvinnu við okkar nágranna, eða standa einir og yfirgefnir og þrauka með höft og ósjálfbjarga skuldir.

Þras, stífni og þrjóska leysir engan vanda – mun eingöngu leiða til aukins landflótta næstu kynslóða.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur