Sunnudagur 18.7.2010 - 08:33 - 54 ummæli

Hin norræna fyrirmynd

Ísland er hluti af Norðurlöndunum og þangað höfum við sótt hugmyndir og ráð í gegnum aldirnar, mest af því hefur orðið okkur til góðs þó við höfum ekki alltaf gert okkur grein fyrir því.  Því er eðlilegt að við lítum til okkar nágranna í okkar neyð.

Hin Norðurlöndin hafa alltaf verið reiðubúin til að hjálpa okkur og svo er einnig nú.  Við tökum fegins hendi við þeirra lánum en við ættum einnig að hlusta á þeirra ráð og leita fyrirmynda hjá þeim.

Í grunninn bjóða nágrannalöndin upp á þrjár fyrirmyndir:

  1. Sjálfstætt og fullvalda ríki utan ESB með eigin gjaldmiðil og sterkt alþjóðlegt lánstraust – Noregur
  2. Sjálfstætt og fullvalda ríki innan ESB en með eigin alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil – Svíþjóð og Danmörk
  3. Sjálfstætt of fullvalda ríki innan ESB með evru – Finnland

Áður en við veljum okkur fyrirmynd, skoðum aðeins stöðu Íslands í dag.

Við erum ein skuldugasta þjóð í Evrópu með gjaldmiðil og lánstraust sem er ekki viðurkennt erlendis.  Við erum í gjörgæslu AGS, fjármögnuð af hinum Norðurlöndunum.   Okkar efnahagslega sjálfstæði er í höndum útlendinga.  Við eigum nóg af endurnýjanlegri orku sem aðrir öfunda okkur af en til að nýta hana þurfum við fjármagn og stöðuleika.

Hvernig endurheimtum við okkar efnahagslega sjálfstæði til að geta nýtt auðlindir okkar og skapað grunn fyrir betri lífskjör handa næstu kynslóð?  Hvaða norræna fyrirmynd er raunhæfust, áhættuminnst og skynsamlegust?

Er Noregur raunhæf fyrirmynd?  Getum við breytt okkar brunarústa hagkerfi í sterkt, óháð og sjálfstætt hagkerfi með eigin gjaldmiðil og viðurkennt lánstraust?  Hversu langan tíma tekur það og hver er áhættan við þessa leið?

Er Danmörk eða Svíþjóð betri fyrirmynd.  Eigum við sjálfstæðan seðlabanka sem nýtur trausts og virðingar erlendis?

Eða eigum við að velja Finnland og stefna á evru?

Við verðum að fara að ræða þessar leiðir, kosti þeirra og galla.  Það er ekki nóg að haga sér eins og frekur krakki og heimta leikfang sem maður hefur tapað sama hvað það kostar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.7.2010 - 10:22 - 34 ummæli

ESB eða ekki ESB?

Þetta er hin mikla spurning sem Íslendingar glíma við á þessum tímum.  En hvernig er best að nálgast hana?  Út frá hlutlausri og upplýstri umræðu eða tilfinningasemi og þjóðernisrembingi?

Ekki ætla ég að gera tæmandi úttekt á svona stóru máli í lítilli færslu enda væri það að æra óstöðugan.  Hins vegar langar mig að varpa fram annarri spurningu.  Hvar og hvernig ætlum við að fjármagna atvinnutækifæri fyrir næstu kynslóð?  Ætlum við að skila betra búi til þeirra sem taka við eða verður næsta kynslóð sú fyrsta í manna minnum sem tekur við verra búi en foreldrar þeirra?  Hvað á að standa undir lífskjörum hér á Íslandi 2050?  Ekki held ég að margir velti þessu fyrir sér enda er núverandi kynslóð Íslendinga ein sú eigingjarnasta og sjálfelskasta frá upphafi.  Allt snýst um núið og mig.

Á síðustu öld rifu ömmur og afar okkar þetta land upp úr einhverri mestu örbyrgð í Evrópu til velferðar og hagsældar.  Þetta var gert með erlendu fjármagni og íslenskri vinnusemi og menntun.

Núverandi kynslóð hefur veðsett arfleið forfeðra sinna, safnað skuldum sem aldrei verða borgaðar og vill nú helst hlaupa burt frá öllu saman og kenna útlendingum um allt.   Er þetta góður grunnur fyrir næstu kynslóð að byggja á?

Ef við borgum ekki okkar skuldir fáum við ekki ný lán eða fjármagn og verðum annars flokks þegnar í alþjóðasamfélaginu.  Ef við ætlum að borga okkar skuldir og teljast til siðmenntaðra þjóða er ekkert eftir til uppbyggingar.  Allur gjaldeyrir fer í skuldir og að halda uppi lágmarksvelferðarkerfi.  Hvar á næsta kynslóð þá að fá fjármagn til að skapa störf fyrir sig og sín börn?  Þetta er spurning sem fæstir vilja velta fyrir sér, hvað þá svara.

Erlendur gjaldmiðill verður að koma erlendis frá og hann er nauðsynlegur til að hér sé hægt að viðhalda og bæta lífskjör.  Ólíkt fyrrverandi kynslóðum mun sú næsta hafa mjög takmarkaða möguleika að taka lán á viðunandi vöxtum erlendis til uppbyggingar.  Eina leiðin er þá að fá fjárfesta erlendis frá.  En hvers vegna ættu þeir að hafa áhuga á Íslandi?  Þeir hafa 200 önnur lönd að velja úr, svo hvað er svona sérstætt við Ísland sem þeir gætu grætt á, því ekki koma þeir hingað í góðgerðarskyni.

Áhættan við að fjárfesta á Íslandi er mikil eins og kröfuhafar og erlendir bankar vita af eigin reynslu.  Hér er gríðarlega há rekstrar-, pólitísk- og lagaáhætta miðað við önnur OECD lönd.  Þetta þýðir að arðsemi af hugsanlegri fjárfestingu þarf að vera miklu hætti hér en annars staðar.  Minna lendir því í vasa Íslendinga og tækifærin verða færri.

Það er því bráðnauðsynlegt að lágmarka þessa áhættu.  En hvernig?  Það gerum við ekki einhliða, enda verða það erlendir fjárfestar sem á endanum meta hvað er ásættanleg áhætta og hvað ekki.

Séð með erlendum augum eiga Íslendingar þó eina augljósa leið sem mun lækka þessa áhættu og gera landi vænlegra til fjárfestingar.  Það er innganga inn í ESB.  EES eins og hrunið sannar gaf bara falska öryggiskennd.  Þetta þýðir ekki að inngang inn í EB sé nóg ein og sér, alls ekki.  Hins vegar er hún nauðsynlegt skilyrði fyrir auknu fjármagni en ekki nægjanlegt.  Hún er mikilvægur þáttur í að endurvekja traust á Íslandi sem fýsilegum fjárfestingarkosti og að koma Íslandi inn á ESB radarskjá fjárfesta.

Eins og staðan er í dag er það AGS og hin Norðurlöndin sem halda kerfinu hér gangandi og skaffa fjármagn.  Án þeirra væri ástandið hér skelfilegt.  En þetta er engin framtíðarlausn.  Og enn síður er það framtíðarlausn að senda AGS heim og segja bless við alþjóðasamfélagið og reyna að standa ein að uppbyggingu.  Sú uppbygging verður aldrei annað en klambur og tálsýn.

Hvernig ætlar meirihluti þjóðarinnar að skila betra búi í hendur sinna barna en tekið var við, án inngöngu í ESB?  Það er spurning sem næsta kynslóð ætti að fara að spyrja?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.7.2010 - 08:36 - 14 ummæli

OR kyndir verðbólguna

Pólitísk óstjórn á OR verður landsmönnum öllum dýrkeypt.  Nú eftir borgarstjórnarkosningar og með nýjum meirihluta kemur allt í einu í ljós að hækka þarf taxta um 20% aðeins til að eiga fyrir skuldum í ár.  Og þetta er aðeins byrjunin.

Þar sem ekki var tekið á skuldavanda OR strax eftir hrun hafa hlutirnir aðeins versnað.  Lánskjörin eru verri en hjá Landsvirkjun og ríkinu og enginn vill nú lána OR.  Þetta mun skapa vítahring hækkandi taxta næsta áratuginn að hið minnsta.

Gefum okkur að lánamarkaðir opnist á næsta ári og OR geti farið að endurfjármagna sín lán.  Hvað þýðir það?  Gömlu lánin voru á gríðarlega hagstæðum kjörum og tekin þegar lánstraust Íslands var í hæstu hæðum.  Nú hefur það hrunið og það þýðir að vaxtakostnaðurinn á endurnýjuðum lánum mun margfaldast.  Meðalvextir á evrulánum OR í árslok 2009 samkvæmt árskýrslu var 1.30%.   Á síðustu mánuðum hafa vextir á 10 ára grískum ríkisskuldabréfum verið á milli 8-10%.  Á næstu fjórum árum þarf OR að borga eða endurfjármagna lán upp á 70 ma kr.  Hvaða vaxtakjör halda menn að OR fái á þessa endurfjármögnun og hvert á að sækja peningana til að borga þessa nýju vexti?

Það eru yfirgnæfandi líkur á að þessu verði velt yfir á neytendur í formi hærri taxta.  Það eru því allar líkur á að taxtar OR hækki langt yfir almennt neysluverð næsta áratuginn.  Hér hef ég auðvita ekki gert ráð fyrir hækkuðum orkusköttum en ef þeir bætast ofan á allt saman verður íslenskt heitt vatn lúxus í Reykjavík áður en langt um líður.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.7.2010 - 08:04 - 8 ummæli

Að búa í réttu hverfi

Til að komast inn í bestu framhaldsskólana er best og auðveldast að búa í réttu hverfi, sérstaklega ef þú er ekki afburðarnámsmaður.  Það er nefnilega mikilvægt að ungir Íslendingar læri sem fyrst, af eigin reynslu, að ekki er sama Jón og séra Jón.

Þetta er bráðnauðsynlegur undirbúningur fyrir fullorðinsárin enda undirstaða fyrir þátttöku í íslensku samfélagi.  Þó einhver umræða sé um að svona mismunur sé óæskilegur er það bara snakk, verkin nú og fyrr tala.

Það er alveg með eindæmum hvað alls konar nefndir, ráð og stofnanir þurfa að taka miklar og misráðnar ákvarðanir fyrir svona lítið samfélag.  Af hverju treysta Íslendingar sér ekki að færa ákvarðanatöku í mikilvægum málum nær almenningi?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.7.2010 - 12:17 - 31 ummæli

Bretar leggja niður ríkisspítala

Breska ríkisstjórnin hefur tilkynnt einhverjar róttækustu breytingar á ríkisrekna heilbrigðiskerfinu (NHS) í Englandi frá upphafi.  Ríkisspítölum á að breyta í sjálfseignarstofnanir, óháðar pólitískri afskiptasemi.  Heilsugæslustöðvar og heimilislæknar munu bera ábyrgð á stærsta hluta útgjalda ríkisins til heilbrigðismála.  Ákvarðanataka og ábyrgð er hér með flutt frá nefndum og stofnunum til þeirra sem þekkja og standa sjúklingum næst.

Heilsugæslustöðvar munu kaupa þjónustu fyrir sína sjúklinga á „opnum“ markaði og á það við jafnt um sérfræðiþjónustu, spítalavist eða lyf.  Sjúklingar fá að velja hvaða heilsugæslustöð þeir vilja tilheyra.

Þannig þurfa heilsugæslustöðvar að keppa um sjúklinga og spítalar og sérfræðingar þurfa að „selja“ sína þjónustu til heilsugæslustöðva.

Í þessu nýja kerfi geta heilsugæslustöðvar keypt þjónustu af prívatspítölum og gömlu ríkisreknu spítalarnir geta boðið sína þjónustu til sjúklinga með prívattryggingar.

Til að tryggja gæði þjónustunnar verður sett upp ný óháð eftirlitsstofnun sem mun fylgjast með störfum aðila á þessum nýja markaði.

Þessar breytingar marka mikil tímamót í hinu einhliða ríkisrekna heilbrigðiskerfi enda var breska (NHS) kerfið upprunaleg fyrirmynd hins  norrænna heilbrigðiskerfis.

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum við þessari frétt.  Eitt er víst, ríkisrekið heilbrigðiskerfi eins og við þekkjum það í dag er á undanhaldi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.7.2010 - 14:44 - 13 ummæli

Velkominn Lenin

Ísland í dag er farið að líkjast senum úr kvikmyndinni „Good Bye Lenin“ þar sem móðir sem féll í dá þegar austur-Þýskaland var upp á sitt besta, vaknar upp eftir að múrinn er fallinn.  Fjölskyldan reynir hvað hún getur að milda sjokkið með því að halda fram að allt sé óbreytt og reynir af fremsta megin að snúa klukkunni við og halda í gamla austur-Þýskalands nostalgíu.

Sama má segja að sé að gerast hér á Íslandi.  Keppst er við að kalla fram Ísland 1970, þegar ekkert EES eða verðtrygging var til.  Á þeim dýrðartímum voru Sambandið og kaupfélögin við völd og ríkisumsjá á flestum sviðum.  Olían kom frá Rússlandi og herinn var á Miðnesheiði.  Gjaldeyrishöft, bjórbann og innflutningshöft voru daglegt brauð sem festir tóku sem sjálfsagðan hlut.  Þá fengu aðeins útvaldir lán í bönkunum á neikvæðum vöxtum og lítið vesen var gert út af því.

Svo virðist sem margir reyni nú að endurvekja Ísland 1970.  Það þykir aftur sjálfsagt að sumir fái lán á neikvæðum vöxtum, ekki vegna þess að það sé sanngjarnt gagnvart náunganum heldur vegna þess að aular gerðu mistök.  Eins og áður, gengur allt út á að finna smugur og mistök sem réttlæta óréttlætið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.7.2010 - 15:37 - 16 ummæli

Nýtt bankakerfi?

Rekstur banka er í grundvallaratriðum einfaldur.  Bankar taka við sparifé sem þeir síðan lána í arðbærar fjárfestingar.  Mismunur á milli útlánsvaxta og innlánsvaxta stendur undir rekstrinum.  Því betur sem bankar eru reknir því minni er þessi munur, m.ö.o. best reknu bankarnir geta boðið hæstu innlánsvexti og lægstu útlánsvexti og á sama tíma skilað hagnaði til eigenda.  Þetta eru undirstöðuatriði í rekstri viðskiptabanka og sparisjóða.

Bankahrunið og nú dómur hæstaréttar hefur grafið undan þessu viðskiptamódeli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og kostnaði.  Ekkert nútímahagkerfi getur búið við ósamkeppnishæft og öfugsnúið bankakerfi.  Það gefur auga leið að enginn banki getur haft útlánsvexti lægri en innlánsvexti.  Slíkur banki missir fljótt traust og trúverðugleika innlánseigenda.  Og hér liggur vandinn sem fær litla umræðu.

Íslenska bankakerfið nú og í næstu framtíð er og mun verða að mestu leyti fjármagnað með innlánum.  Þó að ríkið og kröfuhafar hafi lagt bönkunum til eigið fjármagn eru það innlánin sem fjármagna rekstur bankana og munu standa undir uppbyggingu atvinnulífsins.  Án þeirra væru bankarnir ekki starfhæfir enda lítill sem enginn aðgangur að öðru fjármagni um þessar mundir.

Framtíð íslensks bankakerfis er því í höndum innlánseigenda.  Þeir hafa val.  Þeir geta auðveldlega flutt sig til og í skuldsettu hagkerfi þar sem aðrir lánamarkaðir eru lokaðir er mikil eftirspurn eftir sparifé.

Nú er talað um að ef allt fer á “versta veg” með gengislánin gæti kostnaðurinn numið um 300 ma kr.  Þetta er kostnaður sem fer yfir á skattgreiðendur, kröfuhafa, innlánseigendur og lántakendur í íslenskum krónum.

Hér sem fyrr hafa innlánseigendur val, þeir geta reynt að lágmarka sinn hluta í þessum reikningi og sagt, nei takk og bless.  Þeir einfaldlega bindast samtökum og stofna eigin sparisjóð eftir gömlum og traustum gildum.  Þessi nýi sparisjóður hefði engin fortíðarvandamál, engin gengislán, engin kúlulán, engin lán til eignarhaldsfélaga.  Hann gæti eytt 100% af sínum tíma í að laða til sín bestu og traustustu kúnnana og veitt þeim góða þjónustu.

Smátt og smátt myndi svona sparisjóður vaxa.  Ný kynslóð sparifjáreigenda myndi líklega velja bankastofnun sem hefði engin fortíðarvandamál en hugsaði fyrst og fremst um öryggi innistæðna og sanngjarna innláns- og útlánsvexti.

Hvernig núverandi bankakerfi eftir dóm hæstaréttar ætlar í framtíðinni að keppa við slíkan sparisjóð og ef til vill aðra nýja banka er spurning sem menn ættu að velta fyrir sér?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.6.2010 - 15:58 - 30 ummæli

Hinn þögli meirihluti

Hvar er hinn þögli meirihluti, sem sparaði þegar aðrir eyddu, sem tók sín lán hjá íbúðarlánasjóði í krónum og fór eftir eigin sannfæringu en hlustaði ekki á ruglið í gömlu bönkunum?  Þetta er fólk sem treystir á stjórnarskrána og mannréttindaskrá Sameinuðu Þjóðanna þar sem eignarrétturinn er verndaður.  M.ö.o réttur innlánseigenda er alltaf hærri en skuldara.

Hvar er réttlætið ef þeir sem tóku stærstu og áhættusömustu lánin verða verðlaunaðir með niðurfærslu á höfðustól og vaxtakjörum sem öðrum standa aldrei til boða og eru lægri en eðlileg ávöxtunarkrafa innlánseigenda?  Þegar mistök eru gerð þarf auðvita að leiðrétta þau en gæta verður hófs og sanngirni.  Það er mjög bagalegt að ekki skuli vera neytendalöggjöf á Íslandi sem verndar almenning gagnvart „óeðlilegum“ lánskjörum í báðar áttir, lög sem taka af allan vafa hvað eigi að gera þegar lánskjör eru dæmd ólögleg.

Alþingi ber skylda til að vernda hagsmuni allra landsmanna og sjá svo um að allir sitji við sama borð á grundvelli stjórnarskrár Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.6.2010 - 15:26 - 41 ummæli

Stærsta eignartilfærsla Íslandssögunnar?

Nýlegur dómur hæstaréttar í gengistryggðum lánum gæti ollið einni mestu eignartilfærslu í Íslandssögunni.  Fari svo að erlend bíla- og húsnæðislán verði færð niður í upprunalega krónutölu höfuðstóls á óverðtryggðum erlendum vöxtum sem í sumum tilfellum eru ekki nema 3% standa þeir sem tóku þessi lán mun betur en þeir sem voru varkárir og tóku lán i íslenskum krónum.

Útkoman verður að þeir sem tóku meiri áhættu verða verðlaunaðir.  Innlánseigendur, sérstaklega ellilífeyrisþegar og lántakendur í verðtryggðum krónum borga brúsann ásamt skattgreiðendum og næstu kynslóð.

Hér  er sagan að endurtaka sig frá því um 40 árum síðan þegar útvaldir fengu óverðtryggð lán sem „hurfu“ í óðaverðbólgu.

Hér er auðvita ekki verið að sakast við lántakendur enda fóru flestir eftir því sem bankarnir ráðlögðu þeim á sínum tíma en kaldhæðni örlaganna er ótrúleg.  Aftur endum við uppi með tvöfalt kerfi þar sem einn hópur borgar verðtryggingu en hinn ekki.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.6.2010 - 20:50 - 11 ummæli

Íslenski draumurinn kostar kr. 2,850,000 í mánaðarlaun

Það er orðið dýrt að geta staðið undir hinum íslenska draumi:

250 fm einbýlishús í Garðabæ – 89 m

85 fm sumarhús við Skorradalsvatn – 24.5 m

Land cruiser jeppi – 9.5  m

Toyota Avensis frúarbíll – 5 m

Samtals – 128 m

Til að geta fjármagnað svona dæmi miðað við 80% lánshlutfall þarf útborgun að upphæð 25.5 m og lán upp á 102.5 m.  Til að geta staðið þokkalega undir slíku láni þarf mánaðartekjur upp á 2.85 m.  Hér er miðað við hefðbundnar erlendar viðmiðanir að heildarlán fjölskyldu fari ekki yfir 3 sinnum árstekjur.  Margir erlendir bankar lána þó ekki meir en sem nemur stuðli 2.5 x heildartekjur.  Í dæminu hér að ofan þyrfti þá mánaðartekjur upp á 3.4 m kr.

Það er alveg ljóst að það eru ekki margir sem geta ráðið við „íslenska drauminn“ auðveldlega.  Í rauninni hefur þessi draumur alltaf verið dýr.  Í gamla daga hjálpaði verðbólgan mörgum að klára dæmið en erlend lán á lágum vöxtum sem bankarnir markaðssettu sem einstakan draumalykil eru nú orðin að martröð fyrir marga.

Fyrir næstu kynslóð mun þessi draumur verða að erfðadjásni fyrir þá sem fæðast eða giftast inn í „réttar“ fjölskyldur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur