Ísland er hluti af Norðurlöndunum og þangað höfum við sótt hugmyndir og ráð í gegnum aldirnar, mest af því hefur orðið okkur til góðs þó við höfum ekki alltaf gert okkur grein fyrir því. Því er eðlilegt að við lítum til okkar nágranna í okkar neyð.
Hin Norðurlöndin hafa alltaf verið reiðubúin til að hjálpa okkur og svo er einnig nú. Við tökum fegins hendi við þeirra lánum en við ættum einnig að hlusta á þeirra ráð og leita fyrirmynda hjá þeim.
Í grunninn bjóða nágrannalöndin upp á þrjár fyrirmyndir:
- Sjálfstætt og fullvalda ríki utan ESB með eigin gjaldmiðil og sterkt alþjóðlegt lánstraust – Noregur
- Sjálfstætt og fullvalda ríki innan ESB en með eigin alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil – Svíþjóð og Danmörk
- Sjálfstætt of fullvalda ríki innan ESB með evru – Finnland
Áður en við veljum okkur fyrirmynd, skoðum aðeins stöðu Íslands í dag.
Við erum ein skuldugasta þjóð í Evrópu með gjaldmiðil og lánstraust sem er ekki viðurkennt erlendis. Við erum í gjörgæslu AGS, fjármögnuð af hinum Norðurlöndunum. Okkar efnahagslega sjálfstæði er í höndum útlendinga. Við eigum nóg af endurnýjanlegri orku sem aðrir öfunda okkur af en til að nýta hana þurfum við fjármagn og stöðuleika.
Hvernig endurheimtum við okkar efnahagslega sjálfstæði til að geta nýtt auðlindir okkar og skapað grunn fyrir betri lífskjör handa næstu kynslóð? Hvaða norræna fyrirmynd er raunhæfust, áhættuminnst og skynsamlegust?
Er Noregur raunhæf fyrirmynd? Getum við breytt okkar brunarústa hagkerfi í sterkt, óháð og sjálfstætt hagkerfi með eigin gjaldmiðil og viðurkennt lánstraust? Hversu langan tíma tekur það og hver er áhættan við þessa leið?
Er Danmörk eða Svíþjóð betri fyrirmynd. Eigum við sjálfstæðan seðlabanka sem nýtur trausts og virðingar erlendis?
Eða eigum við að velja Finnland og stefna á evru?
Við verðum að fara að ræða þessar leiðir, kosti þeirra og galla. Það er ekki nóg að haga sér eins og frekur krakki og heimta leikfang sem maður hefur tapað sama hvað það kostar.