Mánudagur 07.03.2011 - 20:53 - Rita ummæli

Jafnrétti í reynd?

Alþingi vinnur núna að tillögu velferðarráðherra um jafnréttisáætlun til fjögurra ára.   Jafnrétti er því búið að vera töluvert ofarlega í umræðunni innan nefnda þingsins síðustu daga. 

Þar er talað um að draga úr kynbundnum launamun, hvað jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna eiga að gera, rannsóknir á kynbundnum launamun á landsbyggðinni sem og í sjávarútvegi og landbúnaði, styrkveitingum til karla og kvenna, áhrif fæðingarorlofs o.s.frv.

Allt voða fín verkefni. En í áætluninni skortir einhverja heildarsýn á það hvert við erum að stefna með jafnréttisáætluninni. 

Það, þótt greinilega sé þörf fyrir skýr markmið og framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. 

Til að nefna dæmi þá má benda á tvær ráðstefnur sem haldnar voru í vikunni. Á ráðstefnu Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um Lifandi auðlindir er ekki að finna eina konu sem fyrirlesara, – bara fundarstjóra  (sem var væntanlega skellt þarna inn þegar menn renndu yfir listann og hugsuðu úps).  Ég velti einnig fyrir mér hvar konurnar eru þegar ég sá ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga í tilefni Þekkingardagsins, þótt þeir stóðu sig ívíð betur en Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Forsenda þess að ná árangri er að setja sér skýr markmið.  Svo mótum við leiðirnar að því markmiði.  Ef ætlunin er að draga úr launamun kynjanna þá tel ég að stjórnvöld eigi að setja sér skýr töluleg markmið þess efnis.  Ef ætlunin er að jafna hlut kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum hins opinbera þá eigi að setja sér skýr markmið þess efnis, að í lok áætlunarinnar verði hlutföllin 60:40 hjá bæði aðal- og varamönnum og að sjálfsögðu á það einnig að gilda um ráðstefnur á vegum ráðuneyta. 

Við getum gert betur!

PS. Svo verður einhver að fara kynna stefnuskrá Vinstri Grænna fyrir bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðuneytinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur