Mánudagur 07.03.2011 - 20:51 - Rita ummæli

Þingræði og meirihlutaræði

Á blaðamannafundinum á Bessastöðum fékk forsetinn spurningu um hvort að hann væri ekki að vega að þingræðinu með því að vísa Icesave samningnum í annað sinn til þjóðarinnar.  Undir það tók svo Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í utandagskrárumræðu um Icesave í gær í þinginu.

Ég get tekið undir það að forsetinn hefur markað ný spor í sögu forsetaembættisins og íslensku þjóðarinnar með því að vera fyrsti forsetinn sem nýtir sér ákvæði 26.gr. stjórnarskrárinnar. 

En ég er ekki sammála því að hann sé með því að vega að þingræðinu.

Í máli hans hefur hann ítrekað lagt áherslu á að líf ríkisstjórnarinnar eigi ekki að vera undir í hvert sinn sem hann ákveður að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðarinnar.   Þingræði hefur nefnilega verið þýtt þannig að ríkisstjórn situr með stuðningi meirihluta Alþingis ,og svo lengi sem meirihluti þingmanna styður við ríkisstjórnina situr hún áfram. 

Hins vegar getur þessi ákvörðun forsetans breytt því hvernig Alþingi starfar.  Stjórnarliðar verða núna að taka virkari þátt í umræðum, í stað þess að láta stjórnarandstöðuna eina um að ræða flókin og erfið mál.  Stjórnarliðar þurfa að standa fyrir máli sínu og reyna að sannfæra bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina um að það sem þau eru að gera sé það rétta.

Þannig gæti beiting forsetans á 26. greininni styrkt umræðuhefðina á Alþingi, og leitt til þess að alþingismenn þurfi að færa fram betri rök fyrir sinni afstöðu, hlusta á gagnrök í stað þess að treysta á meirihlutaræðið.

Niðurstaðan gæti þannig orðið sterkara og betra Alþingi, -raunverulegt þingræði í stað meirihlutaræðis til stuðnings ríkisstjórnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur