Mánudagur 07.03.2011 - 20:54 - Rita ummæli

Framsóknarhugsjónir

Biturleiki, reiði og rangfærslur eru ekki fyndnar. Það var það sem ég hugsaði eftir að hafa lesið síðasta pistil Svarthöfða undir fyrirsögninni Framsóknarforsetinn. Ég er ósátt við að í pistlinum er því haldið fram að Framsóknarmenn hafi engar hugsjónir og hafi aldrei unnið þjóðinni gagn.  Að ég hafi engar hugsjónir, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki haft neinar hugsjónir og að stofnandi Framsóknarflokksins Jónas Jónsson frá Hriflu hafi ekki haft neinar hugsjónir,- aðrar en að hugsa um okkar eigið skinn.

Jónas frá Hriflu er einn umdeildasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Staðreyndin er samt að Jónas og samherjar hans stóðu fyrir ákveðna hugmyndafræði og hugsjónir, sem leiddu til mikilla samfélagsumbóta. Má þar einna helst nefna uppbygging menntakerfisins og velferðarkerfisins. „Í stuttu máli má segja að Jónas hafi verið félagshyggjumaður sem barðist fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu, uppbyggingu öflugs menntakerfis, eflingu samvinnuhreyfingar og sjálfboðaliðahreyfinga á borð við ungmennafélögin. Með orðræðu nútímans getum við sagt að Jónas hafi verið talsmaður þekkingarsamfélags og félagshagkerfis.“ (Ívar Jónsson, Samtíminn í Jónasi – Jónas í samtímanum)

Samvinnuhugsjónin byggir á hugsjónum um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu, sem og siðferðilegum gildum um heiðarleika, opna starfshætti, félagslega ábyrgð og umhyggju fyrir öðrum. 

Þessar hugsjónir endurspegluðust sterkt í skrifum ungra Framsóknarmanna á áttunda áratugnum, þar sem hugmyndafræði forseta Íslands fór í gegnum sitt mótunarskeið. Ungir Framsóknarmenn vildu skapa þjóðfélag sem myndi tryggja sókn þjóðarinnar til æ fulkomnara og virkara lýðræðis, þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna heldur og í fyrirtækjum, í hagsmunasamtökum og í skólum.  Klofningur í röðum Sambands Ungra Framsóknarmanna þá hafði þannig bæði með hugsjónir og ágreining um framkvæmd þeirra, frekar en metorð einstakra forystumanna. (Sjá skrá að neðan)

Ákvörðun forseta Íslands um að virkja beint lýðræði á Íslandi er því í fullu samræmi við hugsjónir hans.   Fátt virðist vera erfiðara fyrir stjórnmálamenn en að gefa frá sér vald, og er það því athyglisvert að forsetinn hafi ítrekað gert það í sinni forsetatíð.

Þetta eru einnig mínar hugsjónir.  Hugsjónir um frjálst lýðræðis- og menningarþjóðfélag, þar sem við leysum sameiginleg verkefni eftir leiðum samtaka, samvinnu og félagshyggju. Samfélag þar sem manngildi er metið ofar auðgildi.

(Pistilinn birtist fyrst í DV 25. febrúar 2011)

Yfirlýsing SUF og SFV frá 16. mars 1971.

Flokkar: Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur