Föstudagur 11.03.2011 - 18:00 - 3 ummæli

Aftur til samvinnu

Íslenskur almenningur situr nú í brunarústum óhefts kapítalisma. Hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar var eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún var hreinlega ekki til. Sýnin um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna reyndist vera draumsýn, fals eitt þar sem engin raunveruleg verðmæti voru sköpuð. Óheftur kapítalismi er hruninn líkt og kommúnisminn í lok síðustu aldar.

Tími er til kominn að skoða aðra hugmyndafræði, sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun þar sem fólk leggur saman þekkingu sína, reynslu og hagsmuni til að ná ákveðnum sameiginlegum markmiðum. Það er kominn tími til að endurreisa samvinnuhugsjónina á Íslandi.

Í allt of langan tíma hefur samvinna verið ljótt orð í íslensku. Hugmyndafræðin á bak við samvinnustefnuna hefur týnst og meira að segja menn innan samvinnuhreyfingarinnar sjálfrar hafa týnt sér í frjálshyggjunni og græðgisvæðingu hins íslenska samfélags, eins og sorgardæmið um Samvinnutryggingar sýnir svo átakanlega.

En fyrir hvað stendur samvinnustefnan? Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameignarfélaga sem hafa hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað. Þar sem manngildi er sett ofar auðgildi. En hún er dáin, er það ekki?

Samvinnumenn vilja vissulega ná árangri, en á grunni siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar. Þetta endurspeglast í viðhorfum þeirra gagnvart samfélaginu og umhverfinu. Gildin eru: sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða. Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslum þeirra á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsinga til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

En er samvinnuhreyfingin ekki dauð? Er hún ekki jafn útbrunnin og kapítalismi og kommúnismi? Á vefsíðu ICA (ica.coop), regnhlífarsamtaka samvinnumanna um heim allan kemur fram að alls standa að þeim 221 félagssamtök frá 87 löndum með meira en 800 milljónir meðlima. Félög sem starfa í anda samvinnustefnunnar má finna í landbúnaði, lánastarfsemi, sjávarútvegi, heilsugæslu, fasteignum, iðnaði, tryggingum, ferðaþjónustu, verslun, þróunaraðstoð og stjórnmálum. Meira að segja í hinu svokallaða höfuðvígi kapítalismans, Bandaríkjunum, sjá samvinnufélög í raforkuframleiðslu 25 milljónum manna fyrir rafmagni, eiga helming raforkulínanna og reka heilsugæslu, sem grundvallast á samvinnuhugsjóninni, fyrir 1,4 milljónir fjölskyldna.

Framsóknarflokkurinn á rætur sínar í samvinnuhreyfingunni. Í stefnuskrá hans segir m.a.: „Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.“ Í stefnuskránni segir líka „við setjum manngildi ofar auðgildi …“ En hvar hafa áherslur flokksins verið? Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar voru meðal annars tveir bankar einkavæddir, eitt símafyrirtæki selt og hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja seldur. Markmiðið var að framselja eignir almennings til auðvaldsins í þeirri von að nokkrir brauðmolar dyttu af borðum hinna útvöldu til almúgans.

Man einhver eftir hugmyndum um samvinnurekstur í heilbrigðisþjónustu, skólakerfinu eða bönkunum? Leik-, grunn-, og framhaldsskólum sem reknir væru af kennurum og foreldrum? Heilsugæslu þar sem læknar og sjúklingar sameinuðust um reksturinn? Húsnæðisfélögum þar sem íbúar taka höndum saman til að tryggja sér húsnæði á sanngjörnu verði? Skattalegri umbun til fyrirtækja sem sinna samfélagslegum verkefnum? Eða samvinnusparisjóðum þar sem markmiðið væri að lána peninga á sanngjörnum kjörum til meðlima?

Framsóknarflokkurinn þarf, eins og aðrir, að gera upp við kapítalismann sem ráðið hefur ríkjum síðustu tvo áratugi. Það gerir hann best með því að leita aftur til upprunans og hefja samvinnustefnuna, sem hann var grundvallaður á, til fyrri metorða. Samvinna, samstarf og samvinnurekstur mega ekki lengur vera bannorð í íslensku samfélagi.

(Ég vildi birta aftur inn á nýju bloggi samvinnugreinarnar mínar. Þar setti ég fram mínar hugsjónir og hugmyndir á grunni samvinnu.  Þær voru allar birtar í Fréttablaðinu um áramótin 2008.  Aftur til samvinnu birtist 13.12.2008)

Flokkar: Óflokkað · Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (3)

 • Þessi grein þín er þess virði að vera endurbirt. Ég sendi þér líka línu eftir að hún birtist fyrst. Hvernig væri nú að endurvekja Samvinnuhreyfinguna, t.d. sem félagsmálahreyfingu á jákvæðum grunni. Er ekki komið nóg af neikvæðni og skítkasti? Við þurfum svo á því að halda að menn fari að horfa fram á við og hreinlega kominn tími til að hætta að úthúða fólki, jafnvel þótt það hafi leitt okkur í mikla erfiðleika. Það skilar engu, þótt vonandi hljóti þeir sem fremstir fóru í ruglinu makleg málagjöld.
  Hér á landi eru enn til margir góðir samvinnumenn og er það síður en svo bundið við Framsóknarflokkinn einan.

 • Ingólfur

  Framsóknarflokkurinn verður ekki trúverðugur fyrr en hann beitir sér beinlínis fyrir því að flokksegendurnir Finnur Ingólfsson og Ólafur Ólafsson verði settir á bakvið lás og slá.

 • FRÍMANN SIGURNÝASSON

  ÞETTA ER MJÖG ÁHUGAVERÐ GREIN OG ÉG TEL AÐ SAMVINNUREKSTUR GETI VERIÐ ÁHUGAVERÐUR VALKOSTUR Í MÖRGUM TILFELLUM.

  GÖMLU SAMVINNUFÉLÖGIN VORU MÖRG STOFNUÐ Á RÚSTUM EINOKUNARVERSLUNAR EÐA BYRJUÐA Á AÐ KAUPA EINOKUNARVERSLUNARFYRIRTÆKI.
  þÁ FÓR ÞETTA OFT Í ÞENNAN GAMLA FARVEG ENDA VAR ÞAÐ ÞAÐ SEM FÓLK ÞEKKTI OG VAR VANT.
  ÞETTA GÆTU ÞVÍ HAFA VERIÐ BARNASJÚKDÓMAR SAMVINNUREKSTRARINS.

  S.Í.S. VAR ORÐIÐ MJÖG „FYRT“ FYRIRTÆKI OG HAFÐI ÞRÓAST FRÁ FÓLKINU OG ORÐIÐ EINS OG HVERT ANNAÐ STÓRFYRIRTÆKI MEÐ EINOKUNARTILHNEIGINGU.

  SPILLINGIN OG KLÍKUSTARFSEMIN VAR ORÐIN OF STÓR ÞÁTTUR Í STARFINU. SAMVINNUMENN VORU LÍKA ALLT OF HÖUNDSSÁRIR OG GÁTU EKKI TEKIÐ GAGNRÝNI Á SAMVINNUHREYFINGUNA SEM EÐLILEGAN HLUT.

  MEÐ SAMVINNUHREYFINGUNNI ÞÁ TÓKST AÐ NÁ MIKLUM HLUTA AF VERSLUNINNIINN Í INNLEND FYRIRTÆKI.
  ÞAÐ VAR ÞÁTTUR Í SJÁLFSTÆÐISBARÁTTU ÍSLENDINGA.
  NÚ ERUM VIÐ SVO „SKEMMD“ AF ÁRÓÐRI FRJÁLSHYGGJUMANNA OG UMRÆÐU UM HEIMSVÆÐINGU AÐ FÓLK KIPPIR SÉR EKKI UPP VIÐ AÐ HÚSASMIÐJAN ER KOMIN Í EIGU BANDARÍSKS FYRIRTÆKIS, ÞÝKT FYRIRTÆKI ER KOMIÐ INN Á SAMA MARKAÐ ( Bauhaus) OG SVO BERAST FRÉTTIR AF AÐ JÓHANNES, STOFNANDI BÓNUS, ÆTLI AÐ STOFNA MATVÖRUVERSLANIR MEÐ BRESKU FYRIRTÆKI.

  ÉG HELD AÐ VIÐ ÍSLENDINGAR SÉUM BÚNIR AÐ TAPA ÁTTUNUM OG HORFUM OF MIKIÐ Á HLUTINA GERAST ÁN NEINNA RAUNVERULEGRA VIÐBRAGÐA.

  HVAÐ ÆTLI MÖRG ÚTGERÐARFYRIRTÆKI SÉU KOMIN Í EIGU ERLENDRA FYRIRTÆKJA, BEINT EÐA ÞÁ Í GEGNUM ÍSLENSK DÓTTURFYRTÆKI OG LEPPA ?????

  ÍSLAND GETUR ÁTT GLÆSTA FRAMTÍÐ EF VIÐ HÖLDUM AUÐLINDUNUM Í EIGU ÞJÓÐARINNAR OG TRYGGJUM AÐ HELST ÖLL FYRIRTÆKI SEM STARFA AÐ AUÐLINDANÝTINGU SÉU Í EIGU ÞJÓÐARINNAR (RÍKISINS, SAMVINNUFÉLAGA, EINKAFYRIRTÆKJA) EN ÞÁ VERÐUR ARÐURINN AF AUÐLINDUNUM EFTIR Í LANDINU OG NÝTIST ÞJÓÐINI TIL UPPBYGGINGAR.

  ÞESS MÁ GETA AÐ ÞEIR SEM ERU AÐ VINNA AÐ UPPBYGGINGU Á NOTENDASTÍRÐRI PERSÓNULEGRI ÞJÓNUSTU GERA ÞAÐ Í SAMVINNUFÉLAGSFORMINU. NOTENDUR ÞJÓNUSTUNNAR ERU JAFNFRAMT EIGENDUR FYRIRTÆKISINS.

  SAMVINNUFYRIRTÆKIN HAFA SÝNT LANDSBYGGÐINNI MIKLA TRYGGÐ OG STAÐIÐ MEÐ HEIMAMÖNNUM AÐ UPPBYGGINGU EFTIR HRUNIÐ. ALLT OF VÍÐA ERU SAMVINNUFYRIRTÆKIN LÍKA GJALDÞROTA.

  ÉG TEL AÐ SAMVINNUFYRIRTÆKI GÆTU VERIÐ ÖFLUGIR ÞÁTTAKENDUR Í ÞESSARRI VARNARBARÁTTU OG UPPBYGGINGU SEM FRAMUNDAN ER.

  AÐ LOKUM VIL ÉG TAKA ÞAÐ RAM AÐ ÉG ER EKKI FRAMSÓKNARMAÐUR EN FINNST SAMVINNUREKSTUR ÁHUGAVERT REKSTRARFORM.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur